15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir hans góðu svör í sambandi við fyrirspurn mína. Í fyrsta lagi upplýsti hann þetta lán, sem skiptist til þeirra aðila, sem þurfa að nota erlendan gjaldeyri til að auka framleiðsluna í landinu. Þegar sú yfirlýsing er fengin, þá er það rétt hjá hæstv. ráðh., að málið á heima í fjhn. og ekki annars staðar, enda breyta þessar upplýsingar mjög mikið minni afstöðu til málsins, eftir að ég heyrði, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu leyfi til að vera þátttakandi að 1/4 hluta í þessu fyrirtæki. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. vísi til þeirrar heimildar, sem hún hefur í sambandi við byggingu síldarverksmiðju á landi, og þurfi því ekki að leita heimildar til þessa ákvæðis í l., þótt hún sé fljótandi. En hitt er annað atriði, hvort síldarverksmiðjur ríkisins þurfa ekki meira aðhald. Undanfarið hefur útkoman verið þannig, að það hefur verið millj. kr. tap. Og fyrir Alþ. liggja nú upplýsingar, að ríkissjóður hafi orðið að greiða halla af rekstrargjöldum og lagt sem beina skatta á þegnana vexti og afborganir af lánum. Þessar upphæðir nema á 6. millj. kr. s.l. ár. Þá spyr maður, hvort ekki sé ástæða til að gera verulega róttækar ráðstafanir til þess, að slík stjórn standi ekki ár eftir ár. Það er alvarlegt fyrir þingið, ef það á von á að þurfa að taka millj. kr. tap á slíkum rekstri á ári hverju.

Mér urðu það mikil vonbrigði, þegar ég heyrði það, að þessi félagsskapur, sem þó ríkissjóður á 1/4 hluta í, hafi ákveðið að kaupa 47 ára gamalt skip til landsins, jafnvel þótt það sé ekki í öðru augnamiði en að setja í það verksmiðjuvélar. Ég vil í þessu sambandi benda á, að til þess þarf einmitt traust skip. Sannleikurinn er sá, að styrkleikinn þarf að vera meiri, ef standa á undir öllum þeim þunga og átökum, sem koma frá því og þeirri notkun, heldur en bara að sigla yfir hafið. Mér er ljóst, að til eru hvorki meira né minna en 3 ,slík skip með hagkvæmu verði í Ameríku af þessari stærð. Ég skil hins vegar hæstv. ráðh. og er ekki að ásaka hann fyrir það, að hann kastar frá sér ábyrgðinni. Í fyrsta lagi er ábyrgðin á verksmiðjustj. og þess utan þeim mönnum, sem er falið fullt umboð til að gera þetta. En að kaupa 47 ára gamalt skip, slíkt kemur þeim einhvern tíma í koll, ef þessi nauðsynlega viðleitni til að bjarga þessu máli skyldi verða fyrir óbætanlegu áfalli fyrir það glappaskot eitt. Ég hef heyrt tvær meginástæður, sem réttlæta það, að skipið sé keypt. Önnur er, að það er gamalt og uppbyggt árið 1943. Ég vil í þessu sambandi benda á, að það komu mörg tilboð um nýbyggð skip, sem byggð voru 1943 fyrir bandaríska flotann, og leit út fyrir, að þau væru heppileg til þessarar starfrækslu. En hin ástæðan er hin fáránlegasta, að það er sett innan gæsalappa, að þetta sé svo prýðilegt skip, byggt sem vatnaskip og hafi ekki komið í saltan sjó. Okkur, sem þekkjum til þeirra hluta, er vel kunnugt um, að vatnaskip eru síður en svo, að þau séu sterkbyggð, svo að sú ástæða sannfærir mig ekki.

Ég mun fylgja frv. eftir þessar upplýsingar, sem ég hefði ekki hugsað mér að gera, ef allt hefði verið gert fyrir ríkisins kostnað.

Ég held, að hæstv. ráðh. hafi misskilið mínar athugasemdir um frv. á þskj. 239. Ég aðeins spurði, hvort um sömu vélar væri að ræða. Ég vil benda á, ef hér er um að ræða allar þær vélar frá Óskari Halldórssyni, þá er ekki að ræða um nema 5–7 þús. mála vélar í staðinn fyrir 10 þús. En mér dettur ekki í hug að ásaka neinn ráðh. fyrir að fara eftir leiðbeiningum slíkra manna eins og Jóns Gunnarssonar. Ég mun því, eftir að hafa gert þannig grein fyrir mínu máli, fylgja frv. í gegnum deildina.