18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Frsm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og nál. ber með sér, voru allir nm. sammála um að mæla með frv. eins og það liggur fyrir. Þó hefur einn nm., hv. 4. landsk., skrifað undir það með fyrirvara, sem mun ganga í þá átt, að hann mæli með því, að heimild verði gefin til þessarar lántöku með tilliti til þess, að fyrir lá við fyrstu umr. yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. um það, að lánið yrði tekið með venjulegum skilyrðum um afborganir og vexti, sem liggur eiginlega í lántökuheimildinni sjálfri, því að ef lántökuskilyrðin væru óvenjuleg, yrði heimildin að vera í samræmi við það. Annars þarf ekki að geta í sambandi við þetta mál, nema hæstv. fjmrh. mun koma fram með þá brtt., að aftan við 1. gr. bætist „og fleira“. Ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða þessa breyt. við meðnm. mína, hvort þeir eru henni meðmæltir. Ég get því ekki talað fyrir þeirra hönd í þessu sambandi, þeir segja til, ef þeir vilja, að málið komi aftur til n. vegna þess arna. En ég fyrir mitt leyti fellst á þessa breytingu, enda er mér kunnugt um, að það getur verið óheppilegt að binda svona lánsheimild við eitt atriði, rígskorða heimildina eins og gert er í 1. gr., því að í framkvæmdinni gæti fleira komið til mála en tæki til síldarvinnslu einvörðungu, þannig að ég get vel skilið þetta sjónarmið. Ég mæli því með þessari breyt., sem hæstv. fjmrh. hefur boðað, og mælist til þess við meðnm. mína, að þeir krefjist ekki nefndarfundar um þetta atriði.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að taka fleira fram á þessu stigi málsins, en mæli með því, að frv. verði samþ.