18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

187. mál, síldarvinnslutæki o.fl.

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. staðfesti það, sem ég hafði áður heyrt um þetta fyrirkomulag á félaginu, að þessi þátttaka útgerðarmanna eða hluta þeirra í fjárframlögunum sé bundin við þennan forgangsrétt. Hins vegar upplýsti hæstv. ráðh. einnig, þegar tekin var ákvörðun um, að síldarverksmiðjur ríkisins yrðu með, að þá hefði hann áskilið sér að fá að nota þetta væntanlega skip á sumarvertíðinni fyrir norðan land og þá mundi vera jafn aðgangur fyrir öll samningsbundin skip að verksmiðjunni, eins og verið hefur við allar verksmiðjur og væntanlega verður. Það er að vísu gott, það sem það nær, en hins vegar er það staðreynd, að þetta skiptir miklu minna máli á sumarvertíðinni fyrir norðan og austan en á vetrarvertíðinni fyrir sunnan, því að fyrir norðan er það mikill verksmiðjukostur, að verulegur fjöldi skipa á þess kost að fá afgreiðslu við aðrar verksmiðjur en þetta væntanlega skip, þannig að þótt ég telji það sjálfsagðan hlut, að þannig sé þessu hagað á sumarvertíðinni, þá skiptir það ekki eins miklu máli og að vetri til hér fyrir sunnan, vegna þess að hér er verksmiðjukostur í landi svo miklu minni. Ég geri því ráð fyrir, að þótt það tækist, sem er ekki vist, að koma þessari verksmiðju upp fyrir næsta haust, að ef álíka síldveiði verður í Faxaflóa og var í haust og vetur, þá geri þessi verksmiðja ekki betur en anna viðskiptum við þá eina, sem verða hluthafar í verksmiðjunni, en það mundi sýna, að önnur skip mundu ekki fá aðra afgreiðslu en hjá hinum tiltölulega smáu verksmiðjum, sem til eru nú við Faxaflóa, og mundi það að öllum líkum verða til þess, að a.m.k. einhver hluti af þeim skipum, sem annars stunda síldveiðar, sæju þess engan kost að gera það, því að þau sætu svo gersamlega á hakanum með löndun, og þá yrði þetta til að hindra, að hægt væri að nota þann skipast öll til síldveiða, sem annars er fyrir hendi. Mundi það, auk þess sem það kæmi hart niður á þeim, sem þar ættu hlut að máli, en það eru fyrst og fremst þeir, sem hafa við mesta fjárhagsörðugleika að stríða vegna undanfarandi síldarvertíðar, draga úr þeirri gjaldeyrisöflun, sem annars gæti af þessu orðið, ef einhver hluti skipanna yrði að hætta við að stunda síldveiðar af þessum sökum.

Ég skil vel, að hæstv. ráðh. treysti sér ekki til að gefa loforð um að binda notkun þess fjár, sem hér er farið fram á að taka að láni, því skilyrði, sem ég var að tala um, og ég mun þess vegna ekki heldur gera tilraun til að flytja brtt. við þetta frv., því að það félli ekki saman við efni þess. Hins vegar hefur hæstv. ráðh., eins og hann minntist áður á, leitað ettir samþ. þingsins eða heimild þingsins fyrir þeirri þátttöku ríkisverksmiðjanna, sem fyrirhuguð er, og mundi þá vera tækifæri til að ræða þetta mál nánar og gera till. um það.