09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

178. mál, fiskmat o.fl.

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég ætla, þó að mér þyki hólið gott hjá hv. 1. þm. N–M., að það þurfi ekki að brennimerkja núverandi ríkisstj. sérstaklega fyrir það, að hún mæti hér ekki og tali ekki fyrir sínu máli. Hafi það átt sér stað hjá mér, sem nú et ráðh., þá mun það hafa brunnið við áður, ef ekki er um stórmál að ræða. Það geta verið ýmis atvik að því, að ráðh. séu ekki viðlátnir, þegar mál, sem þá snertir, eru tekin til 1. umr., þó að ég sé ekki að lofa þetta. Ég tel sjálfsagt, svo framarlega sem hægt er að koma því við, að ráðh. tali fyrir sínu máli, eftir því sem þurfa þykir.

Hv. 1. þm. N–M. bar upp eins konar fyrirspurn, sem ég skal ekki fullyrða um, að ég kunni úr að leysa, svo að honum þyki viðunandi, en ég held nú, að þeir starfsmenn, sem hér um ræðir, heyri ekki undir það, sem kallað er embættismenn, þeir eru starfsmenn ríkisins, og stundum hef ég a.m.k. heyrt það greint nokkuð sundur. það er ekki gert ráð fyrir öðru í þessu frv. en því að fækka mönnum á þessu sviði, en væntanlega þurfum við fiskmatsstjóra og freðfiskmatsstjóra fyrir utan yfirfiskmatsmenn, bæði hvað saltfisk og freðfisk snertir. Hvort þetta verða sömu mennirnir, skal ég ekkert um segja. T.d. hvað fiskmatsstjóra áhrærir, þá er hann orðinn hniginn að árum, þó að ég viti ekki, hvort hann er kominn fram yfir eða fram að þeim tíma, sem kallað er aldurshámark. En á hinn bóginn væri það ákaflega einkennilegt, ef ekki mætti breyta starfskerfi ríkisins, án þess að séð væri fyrir því, ef einhver losnaði úr starfi við þá breyt., að hann fengi annað starf. Ég býst ekki við, að það hafi verið nein föst regla, þó að leitazt hafi verið við að gera mönnum slíkar breyt. ekki þungbærari heldur en þær þurfa að vera, og ef svo ber undir, sé rétt að hnika því þannig til, að menn þurfi sem minnst að lenda á hrakhálum vegna slíkra breyt. Ég hef ekki sérstaklega látið fara fram neina lögfræðilega athugun á því, sem hv. þm. spurði um, en það eru mörg fordæmi að því, að breytt hafi verið til með löggjöf á einhverju sviði ríkisstarfseminnar, og svo mun verða framvegis, enda nauðsynlegt að samræma löggjöf um starfskerfi og þjónustu sem mest því, sem líf landsfólksins og atvinna þess í hvert sinn gerir kröfur til. Þetta er og verður alltaf sterkustu rök og höfuðsjónarmið. sem hafa verður fyrir augum. Að því er snertir eina grein starfsmannanna, þ.e.a.s. freðfiskmatsmennina, þá eru þeir ekki skipaðir samkvæmt neinum 1. — Ég vil bara benda á þetta, af því að þetta er staðreynd, en ekki af því, að ég liti á þessa menn sem hafandi minni siðferðislegan rétt til þess að sitja í sínum stöðum heldur en þá, sem skipaðir eru samkvæmt l. Menn, sem hafa þegar árum saman unnið dyggilega í starfinu, hafa í mínum augum svipaðan siðferðislegan rétt eins og þó að þeir væru settir til þess með sérstökum l., en það breytir ekki lagastafnum. Ég skal ekki fjölyrða um þessi atriði meira. Breyt. á kerfinu framkallar vitaskuld fækkun starfsmanna, um leið og hún býður upp á sparnað. Og ef menn þess vegna vilja sparnað í þessum efnum, þá er ekki hægt að komast áfram með það, nema fallizt sé á þá fækkun starfsmanna innan kerfisins, sem hér er gert ráð fyrir eða yrði lögbundin á annan hátt.