15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

178. mál, fiskmat o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar og rætt það allýtarlega og er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem ég skal skýra frá síðar við þessa umr.

Ég skal þegar í upphafi taka fram, að það er af vangá, að tvö nöfn hafa fallið út af nál. Það er aðeins undirskrifað af þremur nm., en nöfn hv. 1. þm. Reykv. og hv. 6. landsk. hafa fallið út, en þeir gerðu engan ágreining. Skjalið verður því prentað upp aftur með þeirri leiðréttingu.

Fyrsta breyt., sem n. leggur til, er, að í stað orðanna „atvinnumálaráðuneytið“ og „atvinnumálaráðherra“ hvarvetna í frv. komi: ráðuneytið og ráðherra. — Það er engan veginn vist, að þessi mál liggi jafnan undir atvmrn. og atvmrh., enda er ekki svo nú, heldur er það dómsmrn. og fjmrh. Um þetta mun enginn ágreiningur. Meginbreyt. er sú, að freðfisksmatið og saltfisksmatið verði sameinað, en það hefur verið nokkur undanfarin ár í tvennu lagi. Og þó er það svo, að freðfisksmatíð er sem stendur ekki rekið samkvæmt neinum lagafyrirmælum, heldur aðeins samkv. reglugerð, sem gefin hefur verið út, en mun þó ekki eiga neina stoð í lögum. Það er því mjög heppilegt einmitt á þessum tíma að láta fara fram þá breyt., sem gert er ráð fyrir í frv. ríkisstj., og þá ekki hvað sízt vegna þess, að fiskimatsstjóri er kominn yfir aldurstakmark og mun nú láta af störfum, og jafnvel ýmsir fiskimatsmenn eru komnir yfir aldurstakmark, og liggur því fyrir að skipa í þeirra stað. Þetta er einnig mjög í samræmi við þær till., sem fjvn. gerði um niðurfærslur á þeim kostnaði, sem er við fiskmatið nú.

Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að yfirmatsmenn skuli vera 7 í landinu. Sjútvn. gerir þá aths., að hún telur rétt að fækka um einn og sé þeim þá skipt þannig, að einu yfirfiskmatsmaður sé á Vestfjörðum, búsettur á Ísafirði, annar á Norðurlandi og búsettur á Akureyri, sá þriðji á Austurlandi og búsettur á Seyðisfirði eða Norðfirði, eins og gert er ráð fyrir í 2. till., undir b-lið, við 6. gr. Þetta atriði um búsetu á Austurlandi var rætt við núverandi fiskimatsstjóra, og kvað hann sig mótfallinn því, að búsetan yrði færð frá Seyðisfirði til Norðfjarðar, eða vildi jafnvel, að það væri látið á vald viðkomandi ráðuneyti á hverjum tíma. Hann taldi eðlilegast að hafa búsetu hans á Seyðisfirði eins og hingað til, allt frá því að yfirfiskmatsmaður á Austurlandi var ákveðinn með lögum. Hins vegar leit n. svo á, að ástæða gæti verið til að hafa þetta opið, ef t.d. valinn væri maður, sem ætti heima á Norðfirði og ætti húseign þar, að hann yrði ekki þvingaður til að flytja sig. Ætlazt er til, að fjórði matsmaðurinn sé í Vestmannaeyjum, en síðan aðeins tveir á Suðvesturlandi. Eftir þeim upplýsingum, sem við höfum fengið frá fiskimatsstjóra nú, mun Suðvesturland eiga að tákna alla leið vestur undir Breiðafjörð og að honum meðtöldum, m.ö.o. allan Faxaflóa og þennan hluta Breiðafjarðar.

Nú segir í frv., að einn þessara þriggja manna, sem ætlað er að skipa á Suðvesturlandi, skuli hafa sérþekkingu í meðferð saltfisks og harðfisks, annar í meðferð og verkun freðfisks og öllu, sem lýtur að þeirri framleiðslu. Hins vegar er ekki gerð grein fyrir, hvaða þekkingu sá þriðji skuli hafa. En í bréfi, sem ég hef meðtekið, síðan n. gekk frá þessum málum, frá freðfisksmatsstjóra, dags. 15. febr., leggur hann áherzlu á það eitt, að einn af þessum mönnum hafi vit á freðfiski. Það kemur ekki neins staðar fram í gögnum, að bein nauðsyn sé, að tveir af þremur mönnum hafi sérþekkingu á freðfisksmati, og er þá sjálfsagt ætlazt til, að það sé látið lönd og leið, að þeir hafi tveir sérþekkingu á saltfisksmati. Það er líka upplýst, að þessi þriðji maður er hugsaður til aðstoðar við Faxaflóa, þegar mest er að gera hér, en starfi hins vegar á Norðurlandi á sumrin, þegar minna er að gera við Faxaflóa. Sé þessi hugmynd rétt og möguleiki fyrir því að geta þannig flutt menn til, þó að þeir séu staðbundnir samkvæmt l., sér n. því siður ástæðu til að ákveða, að þessir menn skuli vera sjö í landinu, en telur meiri ástæðu til að ætla, að nægilegt væri að hafa sex, þar sem til mála kæmi að nota starfskrafta frá fiskmatsmanni í Vestmannaeyjum til að gefa leiðbeiningar á Suðvesturlandi. Með tilvísun til þessa sér n. ekki ástæðu til að lögfesta á þessu stigi málsins, að yfirfiskmatsmenn séu sjö, heldur aðeins sex. Hefur þetta verið rætt við sjútvmrh., sem hefur fallizt á, að ekki sé alveg óeðlilegt á þessu stigi málsins, að mennirnir séu ekki fleiri en sex, enda er miklu hægara að fjölga mönnunum, ef ástæða þykir til og iðnaður þessi vex, heldur en að afnema embætti á eftir.

D- og e-liður eru ekki annað en afleiðing af því, að mönnunum er fækkað, sbr. upphaf gr. S. brtt. er við 7. gr., að í stað orðsins „með“

komi: eða, — og mun vera um prentvillu að ræða.

4. brtt. mun einnig vera leiðrétting, að í stað orðsins „fiskimatsmenn“ komi: fiskmatsmenn. Þeirri reglu hefur verið haldið, en yfirsézt í þessu eina tilviki. Við þessa sömu gr. er einnig, að í stað orðsins „starf“ komi: starfi.

Þá er 5. brtt., að 18. gr. falli niður. Er talið óeðlilegt, að efni hennar sé þarna, komi betur við eftir 20. gr., og er 6. brtt. um það. Er þar gert ráð fyrir, að l. öðlist þegar gildi, í stað 1. jan. 1949. Þykir heppilegra að gera breyt. nú en draga hana til næstu áramóta. Fiskmatið er orðið ákaflega fjárfrekt. Alveg sérstaklega hefur freðfisksmatið farið mjög fram úr saltfisksmatinu á síðustu árum. Er talið mögulegt að sameina þetta, án þess að matið sjálft þurfi að líða nokkuð við breyt., en hins vegar sé hægt að hafa mjög mikinn fjárhagslegan sparnað við það að breyta l. eins og hér er lagt til. Ég skal þó taka það fram, að yfirfiskimatsstjóri hefur heldur verið því andvígur, að yfirfiskmatsmönnum yrði fækkað úr 7 í 6, en ég leyfi mér að vísa til þess rökstuðnings, sem ég hef fært fram, og sé ekki ástæðu til að ræða það nánar.

Þá vil ég aðeins leyfa mér að benda á, að í 16. gr. eru sektarákvæði sett upp í 50 þús. kr. og í 17. gr. upp í 60 þús. kr. N. gerði ekki till. til breyt. á þessum upphæðum, en ég vil benda á, að þetta eru óeðlilega háar sektir fyrir slík brot. En það liggur að sjálfsögðu á valdi dómstólanna að fara neðar en hámarkið er.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta nánar. Það er lagt til, að breyt. þessar verði samþ. og frv. nái síðan samþykki hv. d.