15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

178. mál, fiskmat o.fl.

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég er í öllum aðalatriðum sammála hv. n. um afgreiðslu þessa máls, en hef þó þann fyrirvara, er sjá má á brtt. á þskj. 494 og er varðandi e-lið 2. brtt. n., er fjallar um fjölda matsmanna á Suðvesturlandi. Það hefur komið hér fram, hversu viðtækt þetta svæði er, og kom það fram í ræðu hv. frsm. sjútvn., en þar eru, að mér skilst, með talin sjávarþorp austanfjalls, Stokkseyri og Eyrarbakki, og Faxaflói og Breiðafjörður. Þetta er það svæði, sem hvílir á þeim mönnum, sem eiga að annast matsstjórn á Suðvesturlandi, og er talið, að 60% af fiskframleiðslunni séu á þessu svæði. Er það nógu mikið dreift til þess, að það útheimtir mikla árvekni þeirra manna, sem matið eiga að framkvæma, og má ekki skera mjög við nögl framlög til þessara mála, til þess að matið verði sómasamlega framkvæmt. En frv. er þannig upp byggt, að lögð eru þung víti við því, ef út af settum reglum er brugðið, er l. selja, og útheimtir þetta mjög fullkomið eftirlit. Ég var á þeirri skoðun í n., að það væri mjög varhugavert að breyta til frá því, sem mþn. hafði lagt til. Eins og sjá má í grg. frv., er í þeirri n. maður frá stjórnarráðinu, tveir matsstjórar, þeir hr. Sveinn Árnason og hr. Bergsteinn Á. Bergsteinsson, hr. Jón Auðunn Jónsson, tilnefndur af Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, og hr. Björn G. Björnsson, tilnefndur af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Hef ég fengið upplýsingar um, að í mþn. var enginn ágreiningur um samfærslu á fiskmatinu, og er óhætt að fullyrða, að þarna hafi verið þeir menn að verki, sem beri hið fyllsta skyn á, hvað réttast sé í þessum efnum. Nú viðurkenndi hæstv. ráðh., að sjútvn. væri vorkunn, þótt hún hefði ekki getað glöggvað sig á, hvað mþn. ætlaðist fyrir, en í grg. frv. er litið um þetta rætt. Sú skýring er á þessu, að þegar frv. var prentað, féll niður allveigamikill kafli úr grg. af ástæðum, sem ekki skal greina hér, en nm. viðurkenna, að það hefði átt að standa í grg. sem skoðun n. Ég hef átt samræður við hr. Svein Árnason fiskimatsstjóra um þetta mál, og getur enginn grunað hann um eiginhagsmunahvatir í þessum efnum, þar eð hann er farinn úr því starfi fyrir heilu ári, heldur er hér aðeins um að ræða hans reynslu og þekkingu. Það, sem okkur fór á milli, bað ég hann að gefa mér skriflegt, og vil ég — með leyfi hæstvirts forseta — lesa upp þessa umsögn hans, sem að vísu er einnig undirrituð af Bergsteini Á. Bergsteinssyni freðfisksmatsstjóra:

„Svo sem yður er kunnugt, áttum við báðir undirritaðir sæti í þeirri nefnd, sem undirbjó frv., og miðuðust störf n. einkum við það tvennt að færa niður kostnað á fiskmati með því að sameina matsstörfin við þær verkunaraðferðir, svo sem lýst er í frv., og með það fyrir augum, að vöruvöndun væri ekki hætta búin frá því, sem nú er.

Viðkomandi tölu yfirmatsmanna viljum við taka fram, að tala þeirra, sem eru 7 menn í frv., var að okkar dómi alveg lágmark og byggt á margra ára reynslu okkar við þessi störf. Skal það skýrt nokkuð nánar.

Það er mjög sennilegt, þegar matið tekur til starfa sameinað, að sumir af yfirmatsmönnunum þurfi aðstoðar við viðkomandi nýjum starfsgreinum, en sé aðeins einn maður, sem annast freðfisksmat á svæðinu: Breiðafjörður, Faxaflói, Eyrarbakki og Stokkseyri, er útilokað, að það svæði geti nokkra aðstoð veitt, og einnig það, að einn maður mundi ekki anna þessum störfum aðstoðarlaust, þar sem á þessu svæði eru um 30 hraðfrystihús starfandi, á sama tíma og freðfisksframleiðsla þessa svæðis er yfir 60% af allri framleiðslu. Til frekari skýringar sendum við hér meðfylgjandi greinargerð freðfisksmatsstjóra, dags. 15/2 1948, viðkomandi 6. gr. frv., sem af einhverjum ástæðum féll niður, er frv. og nál. voru prentuð. Þar sem verið er að gera breytingar á fiskmatinu vegna framtíðarinnar, er nauðsynlegt, að það sé starfshæft, er það tekur sameinað til starfa.“

Þetta sögðu þeir varðandi matsmannafjöldann, — þeir, sem hafa mesta þekkingu og reynslu í þessum efnum, og það er af engum eiginhagsmunahvötum, að þeir hafa látið þetta álit uppi.

En það, sem átti að koma inn í grg., vil ég líka leyfa mér að lesa upp, svo að staðfest sé í þingtíðindum, þótt það hafi ekki komizt inn í grg., sem mér skilst, að allir nm. séu sammála um, að átti þar að standa. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í samráði við form. n., hr. Þorvarð K. Þorsteinsson stjórnarráðsfulltrúa, var ákveðið, að ég gerði sérstaka grein fyrir þeirri ákvörðun n., að einn af 3 yfirmatsmönnum á Suðvesturlandi hafi sérþekkingu á öllu, er varðar framleiðslu hraðfrysts fisks.

Hraðfrysting á fiski er mjög ung iðngrein hér á landi, og má því gera ráð fyrir, að hún verði sem að undanförnu miklum breytingum háð næstu árin og samkeppni verði mjög hörð á heimsmarkaði fyrir þessa vöru.

Ég tel, að ríkismatið nái ekki tilgangi sínum, nema það hafi yfir að ráða einum manni, sem hefur sérstaka sérþekkingu til þess að annast kennslu, þar sem þess er þörf á hverjum tíma. Slíka aðstoð sem þessa getur þurft vegna ýmissa orsaka, svo sem mannaskipta hjá frystihúsum, nýrra frystihúsa, sem eru að byrja framleiðslu, og breyttra verkunaraðferða. Sé slík kennsla framkvæmd af einum sérfróðum manni, er trygging fyrir því, að kennslan verði rétt framkvæmd, og samræmi í vöruvöndun öruggt.

Þá vil ég benda á, þar sem þetta margir yfirmatsmenn, sem samkvæmt þessum nýju lögum eiga að annast fiskmat sameinað, hafa það misjafna þekkingu fyrstu árin, að þessi ráðstöfun sé nauðsynleg.

Ég tel, að mat á afurðum, sem ekki getur látið fullkomna kennslu í té, missi að verulegu leyti gildi sitt og að matið sé sú stofnun, sem ekki eigi aðeins að dæma um vörugæði, heldur að vera þess umkomið að fyrirbyggja vafasama framleiðslu.

Verði matið þannig skipað, að það geti ekki framkvæmt framtalin atriði, mundi verða að framkvæma þau utan við matið og þá með sérstökum kostnaði, og væri þá kennsla og eftirlit orðið skipt, jafnvel í marga staði, en slíkt hefur reynzt mjög óheppilegt í framkvæmd.

Það er að mínum dómi og reynslu sjálfsagt að gefa matsstofnuninni sem mest raunhæft gildi á þeim vettvangi, sem henni er ætlað að vinna, því annars missir starf hennar gildi sitt.“ — Er plagg þetta undirritað af hr. Bergsteini Á. Bergsteinssyni freðfisksmatsstjóra, og þetta var sú grg. freðfisksmatsstjóra, sem átti að koma inn í nál. og mér skilst, að öll n. hafi verið á sama máli um.

Ég heyri nú, að það er nokkurt hik á hæstv. ráðh. varðandi þá ákvörðun meiri hl. n. um að feila þarna niður einn mann og að hann telur þetta vafasamt, því að hann talaði um, að ef n. vill standa á þessari till., — og ég tek undir þessi ummæli hans og mun greiða atkv. á móti henni, — þá liggur það í hlutarins eðli, að ráðh. verður að hafa frjálsar hendur um að fylla upp í þetta skarð, ef nauðsyn krefur. Má því segja, að það sé miklu betra, að d. skrúfi fyrir þetta strax, til þess að ráðh. þurfi ekki að gripa til slíkrar heimildar, sem alls ekki er til í l., en hann þó þyrfti að gera af nauðsyn. Það er því miklu skynsamlegra, að n. taki undir mína till. um, að þessu verði ekki breytt, því að ég er orðinn sannfærður um það af viðtölum við þessa menn, að þeir hafa rétt mál að, flytja í þessum efnum.

Ég skal játa, að málið lá þannig fyrir n., að n. hafði ekki svo glöggar upplýsingar um það, að menn gætu myndað sér ákveðna skoðun um það, og með allri virðingu fyrir meðnm. mínum legg ég miklu meira upp úr því, sem þessir sérfræðingar leggja hér til, heldur en því, sem okkur kann að detta í hug og við leggjum til nú á þessum annríkisdögum þingsins, því að við erum engir sérfræðingar í þessum efnum.

Allir eru sammála um það, að þessi samfærsla gefi mikinn sparnað, og til þess er þetta frv. fram komið, og skilst mér, að hér sé um svo verulegan sparnað að ræða, að hann skipti hundruðum þúsunda króna, og getum við verið ánægðir yfir því, og þó er það svo, að sjá verður fyrir öllum agnúum, sem fram kunna að koma með hinu nýja skipulagi. Mér hefur verið bent á, að sumir þeirra manna, sem koma til með að verða skipaðir í þessi störf sem yfirmatsmenn, séu menn, sem hafa sérstaka kunnáttu og þekkingu á öllu, er snertir saltfisk, en þurfa að kynnast nánar þessu nýja starfi að því er varðar freðfisksmatið, og það liggur í hlutarins eðli, að það verður að vera hæfur maður, sem á að leiðbeina þeim á þessu stigi, þangað til þeir eru svo komnir inn í hið nýja starf, að þeir geti talizt fullæfðir í þessum efnum.

Ég skal játa það, að ég var óskiptur því fylgjandi, svo sem n. leggur til, að l. kæmu strax til framkvæmda. Það má að vísu viðurkenna það, að það væri til óþæginda fyrir þessa menn, sem nú eru skipaðir til að gegna þessum störfum, ef þeir yrðu sviptir launum sínum nú þegar, ef l. kæmu strax til framkvæmda. Hins vegar er það vel fær leið að sameina skrifstofur saltfisksmatsstjóra og freðfisksmatsstjóra í eina skrifstofu við gildistöku l., og ætti að því að verða nokkur sparnaður, þótt sumir þeirra manna, sem nú gegna þessum störfum, héldu launum sínum óbreyttum það, sem eftir er af þessu ári, svo að ég sé ekki, að það þurfi neitt að hindra það, þótt gildistaka l. færi fram nú þegar.

Ég þykist nú hafa fært nokkur rök fyrir því, að það sé misráðið að fella niður þennan 7. mann, og það veitur áreiðanlega mjög mikið á því, að ekki sé skorið svo við nögl um yfirstjórn þessara mála, að slíkt valdi tjóni eða álitshnekki á sjávarafurðum okkar, og afkoma okkar er mjög mikið undir því komin, að verkun á afurðum okkar, sem við flytjum á erlendan markað, sé framkvæmd nákvæmlega eins og h ákveða, en til þess þarf mjög fullkomið eftirlit eins og sakir standa.