15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

178. mál, fiskmat o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Ég skal vera fáorður um þetta mál. Ég hef ekkert við frv. að athuga, eins og það liggur fyrir, að viðbættum nokkrum af þeim brtt., sem n. hefur gert, þótt ég að vísu fylgi þeim ekki öllum. Ég hef hins vegar tekið eftir því, að í frv. er hvergi getið um umdæmamörk yfirfiskmatsmanna, og geri því ráð fyrir, að þau séu hugsuð svipuð og þau eru nú.

Það hefur þó komið hér fram við umr., að umdæmi Suðvesturlands eigi einnig að ná yfir Breiðafjörð, en, það er breyting frá því, sem tíðkazt hefur, því að hann hefur hingað til heyrt undir umdæmi yfirfiskmatsmanns Vesturlands. Nú er þetta talin vera ein ástæðan fyrir því, að nauðsynlegt sé að hafa 3 yfirfiskmatsmenn á Suðvesturlandi, en ég sé enga þörf á því að minnka Vesturlandsumdæmið, þar eð mér er ekki kunnugt um annað en að einn maður hafi komizt prýðilega yfir þetta starf. Mér sýnist því ekki hægt að rökstyðja þörfina fyrir 3 yfirfiskmatsmenn fyrir Suðvesturlandsumdæmið. þá kom hv. 1. landsk. þm. fram með ábendingu um það, að það hefði átt að vera kafli í grg. frv., er sýndi fram á, hvaða hlutverki þessi 3. maður ætti að gegna, og mér skildist, að það væri fyrst og fremst fólgið í að kenna fiskmatsmönnum, meðan þeir hefðu ekki fulla þekkingu á freðfisksmati til að gegna slíku starfi. Mér finnst ekki hægt að grundvalla eitt embætti til viðbótar á þessu atriði, þar sem hér er aðeins um að ræða byrjunarstig, en ekki varanlegt ástand, og að það sé miklu hyggilegra að fara ekki af stað með að skipa fleiri embættismenn í þessum efnum heldur en ætla má að geti innt þessi störf af hendi. Væri síðan hægt að heimila að bæta við einum manni, ef reynslan sýndi, að þörf á því væri fyrir hendi.

Þá langar mig að fá upplýsingar um, hvort það sé ekki rétt, að til freðfisksmats hafi víðast verið valdir verkstjórar við freðfiskhúsin. Hygg ég, að slíkt fyrirkomulag sé ekki heppilegt, og vildi spyrja, hvort menn álíti, að slík skipan ætti að haldast áfram.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég fel, að það sé til mikilla bóta, að heildarlöggjöf sé sett um allar greinar fiskmatsins, og að líklegt sé, að með henni skapist fullkomið öryggi fyrir framkvæmd þess.

Mér skilst, að þær brtt., sem hér liggja fyrir, séu allar smávægilegar nema sú, að matsmenn verði aðeins tveir í Suðvesturumdæminu. Ég er þeirri till. fylgjandi. Hins vegar finnst mér ástæðulaust að setja inn í l. heimild til að breyta búsetu fiskmatsmannsins á Austurlandi, og enn fremur sé ég ekki neina ástæðu til að gera l. gildandi fyrr en um næstu áramót, 6 mánaða frestur er ekki of langur til undirbúnings því, að þau komi til framkvæmda.