22.03.1948
Neðri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

161. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. allshn. fyrir undirtektir hennar undir þetta mál. Ég hef síður en svo neitt að athuga við brtt. þær, sem n. hefur borið fram. Ég mundi nú telja, að efni fyrri brtt. hefði rúmazt í frv. eins og það er nú. En það getur verið réttara að taka þetta fram berum orðum, að dómsmrh. sé heimilt að kveða á um þyngd kennslubifreiða. Og ef það væri ákveðið, þá mundi að sjálfsögðu verða farið eftir till. þeirra manna, sem um þetta fjalla mest. Hv. frsm. allshn. hefur talað um þetta mál við mig og gert mér skýra grein fyrir því, að n. telji rétt að hafa sérstök ákvæði í l. um þyngd kennslubifreiða. Á þessu stigi sé ég ekki ástæðu til að finna að fullyrðingum hans. En ég get ekkert fullyrt um þetta, fyrr en ég hef ráðfært mig við sérfróða menn í þessu efni. En ég viðurkenni, að það þarf þung rök til þess að vega á móti því, sem hv. frsm. sagði í þessu efni. — Eins er það, að ef á að fá bifreiðakennurum sérréttindi til starfa, þá finnst mér, að líka þurfi að setja hámark fyrir því gjaldi, sem þeir megi taka fyrir sína kennslu, svo að mér finnst eðlileg sú brtt., sem fram kemur um þetta.

Varðandi fyrirspurn hv. frsm. um yfirlit yfir bifreiðaslys og orsakir þeirra, þá er það rétt, sem hann segir, að frá fyrri tíð eru til um þetta allmikil gögn. Ég ræddi um það í fyrra við lögreglustjóra og sakadómarann hér, hvort hægt væri að halda áfram þessari yfirlitsgerð hér. Þá voru ekki menn fyrir hendi til þess að sinna þessum störfum. En nú hef ég talað við lögreglustjórann hér í bænum. Hann segist hafa góðan mann, sem hann treysti til þessa starfa, en hann taldi réttara að leita um þetta álits fjmrh., áður en ákveðið væri endanlega, að maðurinn væri settur í þetta starf, því að það hefur kostnað í för með sér. En það mun ekki standa á mér að mæla með því, því að ég tel þetta þarfa ráðstöfun.

Þá vil ég geta þess, að mér finnst eðlilegt, að stuðlað verði að því, að bifreiðaeftirlitsmenn hér geti nokkuð skipzt á störfum við sína starfsbræður í öðrum löndum, svo að þeir þannig geti fengið færi á að fá meiri reynslu í starfinu og að sjá, hvernig þessum störfum er hagað í öðrum löndum. Formaður bifreiðaeftirlitsmannafélagsins hefur talað um þetta við mig, og ég hef tekið líklega málaleitun hans.

Varðandi brtt. hv. þm. A-Húnv. skal ég ekki segja mikið. Hv. frsm. n. mælti með henni. En ég verð að segja það, að í frv., sem á að gera strangari kröfur en áður hafa verið til þeirra, sem aka bifreiðum, viðkomandi prófum, þá finnst mér það koma þar í nokkurri andstöðu að lækka aldurinn niður í 17 ár, sem sé lágmarksaldur þeirra, sem megi æfa sig í akstri bifreiða, úr 17 árum og 9 mánuðum. Það er vitað, að slys hafa komið fyrir við kennslu í bifreiðaakstri og stundum meðal unglinga. Og meðan slysin eru jafnmikil og geigvænleg eins og þau eru nú í þessu sambandi, þá finnst mér ekki nauðsynlegt að samþykkja þessa brtt. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að hún mundi valda neinni byltingu í þessu efni, þótt samþ. væri. En heldur hef ég ógeð á samþykkt hennar.