02.02.1948
Sameinað þing: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

129. mál, fjárlög 1948

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er ýmislegt athyglisvert við það frv. til fjárlaga, sem nú í dag hefur verið fylgt úr hlaði af hæstv. fjmrh., Jóhanni Þ. Jósefssyni. Eitt af því er það, hversu síðborið frv. er. Stjórnarskráin mælir svo fyrir, að frv. til fjárlaga fyrir fjárhagsár, sem í hönd fer, skuli leggja fyrir reglulegt Alþingi, þegar það er saman komið. Reglulegt Alþingi ársins 1947 kom saman hinn 1. okt. s.l. — Samkvæmt stjórnarskránni bar þá þegar að leggja fyrir þingið frv. til fjárl. fyrir árið 1948 — og ljúka afgreiðslu þess, með samþykkt fjárl., fyrir áramótin, sem nú eru liðin.

Þetta hefur þó orðið allmjög með öðrum hætti. Næstum heill mánuður leið af þingtímanum, án þess að fjárlagafrv. liti dagsins ljós. Hinn 28. okt. s.l. var þó loks útbýtt meðal þingmanna frv. til fjárl. fyrir árið 1948, og var það 50. mál þingsins, en fjárl. eru venjulega, samkv. fyrrgreindu ákvæði stjórnarskrárinnar, fyrsta mál hvers reglulegs Alþingis. En þessari sögu er ekki þar með lokið.

Frv., sem fæddist í lok októbermánaðar, var ekki afgr. sem fjárl. fyrir síðustu áramót, eins og vera bar, heldur er það nú með öllu úr sögunni. Og nú í dag, þegar liðinn er rúmur mánuður af árinu 1948, eru að hefjast umræður um nýtt frv., sem einhvern tíma í framtíðinni á að leiða til þess, að sett verði fjárl. fyrir þetta herrans ár, 1948. — Og nú eru fjárl., eins og samkv. framansögðu gefur að skilja, ekki 1. mál Alþingis og ekki heldur 50. mál, heldur 129. mál. Hvernig stendur á þessum ósköpum?

Það er látið í veðri vaka, að þetta sé dýrtíðinni að kenna, eins og raunar allt, sem aflaga fer. En þegar hæstv. núverandi ríkisstjórn var mynduð á öndverðu síðasta ári, man ég ekki betur en að hún teldi sitt aðalhlutverk að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar. Mig minnir líka, að hún teldi sig þá þegar hafa í höndunum hernaðaráætlunina gegn dýrtíðinni — í þeim samningi, sem lagður var til grundvallar stjórnarmynduninni. Allt átti því að vera í stakasta lagi. Samt var fylgt þeirri venju, sem myndazt hefur á síðustu árum, að fresta fjárlagaþinginu til haustsins. Þann frest fékk hæstv. ríkisstj. til þess að undirbúa frumvörp sin og til að vígbúast að öðru leyti gegn dýrtíðinni á grundvelli samvinnusáttmálans.

En svo kynlega brá við, að þegar Alþingi kom saman á s.l. hausti, vissi hæstv. ríkisstj. enn engin ráð gegn dýrtíðinni og hafði enga fastmótaða hugmynd um, hvernig hún ætlaði að stjórna landinu. Hæstv. fjmrh. vissi þess vegna ekki heldur, hverra tekna væri að vænta í ríkissjóðinn né hver útgjöld mundu einkum kalla að. Þess vegna skilaði hann ekki fjárlagafrv. fyrr en liðið var langt á þingtímann. Og þegar hann ekki sá lengur fært að komast undan þeirri kvöð stjórnskipunarlaganna að leggja fram fjárlagafrv., varð það þó svo óburðugt, að það er nú, eins og fyrr segir, komið í pappírskörfuna með öðru ónýtu rusli. En nú er hæstv. ríkisstj. víst búin að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar — og nú höfum við fengið nýtt fjárlagafrv.

Eftir allan þann vaðal, sem viðhafður hefur verið um háska þann, sem þjóðinni stafi af dýrtíð og verðbólgu, — og eftir að hæstv. ríkisstj. hefur nú leyst þann vanda samkvæmt sínu hyggjuviti, mætti ætla, að þetta nýja og síðbúna fjárlagafrv. væri allmjög með öðrum hætti en áður. Svo getur þó naumast heitið. Allur sparnaðurinn, sem fram kemur á þessu nýja fjárlagafrv. vegna niðurskurðar vísitölunnar samkv. dýrtíðarlögunum, nemur aðeins 21/2 millj. króna frá því, sem var á hinu sálaða frv. frá 28. okt. s.l. Þar sem hér er um að ræða aðeins rúml. 1% af heildarútgjöldum fjárl., sýnist ekki hafa verið óhjákvæmilegt að draga svo mjög á langinn afgreiðslu fjárl. af þessum sökum — og því síður að tefja afgreiðslu þeirra enn með því að fitja upp á fjárl. sem alveg nýju máli. Og þetta því síður, sem hið nýja fjárlagafrv. er að ýmsu leyti þannig gert, að ólíklegt er, að það fari í gegnum Alþ. án verulegra breytinga.

En þessi vinnubrögð eru táknræn fyrir núverandi hæstv. ríkisstj. Það er eins og hún sé alltaf að þreifa fyrir sér eins og hálfblindur maður — eins og hún viti naumast, hvað hún vill, eða þá sennilega öllu heldur hitt: hvað hún megi treysta sér. — Svo kafnar allt í skriffinnsku, auglýsingum og tilskipunum. Nú virðist hæstv. ríkisstj. halda, að fjárl. verði því betri sem hún gefur út fleiri fjárlagafrv. fyrir sama árið - og veit ég ekki, hvar sú útgáfustarfsemi kann að enda.

En þótt svo mjög hafi dregizt afgreiðsla fjárl., er síður en svo, að enn liggi fyrir ýmis gögn, sem lögum samkv. eiga að liggja fyrir, til stuðnings Alþ. við afgreiðslu fjárlaga.

Á síðasta Alþ. voru — fyrir atbeina hæstv. núverandi ríkisstj. — sett „lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit“. Með lögum þessum var fjárhagsráði, sem eingöngu er skipað stuðningsmönnum ríkisstj., falin stjórn allrar fjárfestingar í landinu og ákvörðunarvald um allan innflutning til landsins.

Í 3. gr. laganna er mælt svo fyrir, að fjárhagsráð skuli semja fyrir fram fyrir ár hvert áætlun um heildarframkvæmdir í landinu, í áætlun þessari skuli gerð grein fyrir kostnaði við allar stærri framkvæmdir, svo og með hverjum hætti fjár skuli aflað til þeirra. Enn fremur skal fjárhagsráð semja fyrir ár hvert heildaráætlun um útflutning og innflutning þess árs. — Loks segir svo í 6. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnhliða því, sem fjárhagsráð semur áætlun þá um heildarframkvæmdir, er áður greinir, skal það og gera sérstaka áætlun um framkvæmdir ríkisins, áður en fjárlög eru samin ár hvert“.

Ekkert af þessum áætlunum liggur enn fyrir Alþ., enda þótt komið sé nokkuð fram yfir áramót. Að vísu mun formaður fjárhagsráðs hafa gefið fjvn. munnlegar upplýsingar um það, hve ráðið búist við miklum innflutningi á þessu ári. Verður að gera ráð fyrir, að fjvn. fái þá áætlun afhenta. Má þá styðjast við hana, þegar Alþ. áætlar tolltekjurnar á fjárl. þessa árs. En raunar er ekki mestur vandinn fyrir Alþ. að áætla þær, því að þar er við reynslu liðinna ára að styðjast. Hitt skiptir miklu meira máli fyrir Alþ. — og fyrir alþjóð — að fá að vita um það, hverjar verklegar framkvæmdir á að leyfa í landinu, hversu mikið er áætlað, að þær kosti, og hvernig á að sjá fyrir fé til þeirra, hverjar verklegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar beint á vegum ríkisins og að hve miklu leyti þarf að veita fé til þeirra á fjárl. þessa árs.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum fjárhagsráðsl. á fjárhagsráð að hafa á reiðum höndum svör við öllum þessum spurningum. Það átti að hafa lokið fyrir áramót áætlunum sínum um allt þetta. Þær áætlanir verður Alþ. að fá nú þegar — og mun Sósfl. ganga ríkt eftir því, að þessum ákvæðum fjárhagsráðsl. verði fullnægt. Kemur þar til hvort tveggja, að varðandi framkvæmdir ríkisins sjálfs verður ekki gengið frá fjárl. með löglegum hætti, nema áætlun fjárhagsráðs um þær liggi fyrir, — og svo hitt, að með áætlun fjárhagsráðs um heildarframkvæmdir í landinu, ef gerð er, kemur í ljós, hver alvara felst á bak við málskrúð hæstv. ríkisstj. í 2. gr. fjárhagsráðsl., um tilganginn með starfsemi fjárhagsráðs, t.d. um það að hagnýta til fulls framleiðslugetu þjóðarinnar og að tryggja öllum verkfærum mönnum næga atvinnu og „réttlátar“ tekjur fyrir vinnu sína.

Það er annað, sem mun þykja athyglisvert við fjárlagafrv., en það er, að samkv. því eru tekjur og gjöld ríkisins áætluð miklu hærri en gert hefur verið á nokkru fjárlagafrv. áður. Árið 1945 var gjaldahlið fjárlaganna á rekstraryfirliti 143 millj. króna, árið 1946 170 milljónir, áríð 1947 196 milljónir, en á frv. því, sem nú liggur fyrir, er þessi upphæð 2161/2 milljón króna. Nú er það venjan, að í meðförum þingsins bætist allverulega við upphæðir fjárlagafrv., og er sennilegt, að svo verði enn, og verða þá fjárl. þessa árs miklu hærri en dæmi eru til áður.

Nú er það síður en svo að lasta út af fyrir sig, þó að hæð fjárl. vaxi, því að það er vottur um aukna fjárhagslega getu þjóðarinnar. — Því meiri sem tekjur ríkissjóðs eru, því meira fé getur hann veitt til lífrænna athafna í landinu og til framfara og menningarmála, — ef til þess er vilji hjá valdhöfunum. Hitt er svo annað mál, að miklu skiptir, hvernig teknanna er aflað og hvernig þeim er varið.

Sósfl. telur, að óhæfilega langt hafi verið gengið í að afla ríkissjóði tekna með tollum. Hefur flokkurinn hvað eftir annað beitt sér fyrir því, að lækkaðir yrðu tollar á nauðsynjavörum, eða jafnvel afnumdir með öllu. Byggir flokkurinn þessa afstöðu sína á því, að slíkur neyzluskattur kemur mjög ranglátlega niður á þjóðfélagsþegnunum, eins og augljóst er, þar sem hann hvílir þyngst á þeim, sem flesta hafa fram að færa og því eiga allajafna örðugast með að afla sér daglegra þarfa. Auk þess heldur flokkurinn því fram, að auðveldast sé og að ýmsu leyti hagkvæmast að lækka dýrtíðina í landinu með því að fella niður tolla af flestum þeim vörum, sem teknar eru með í útreikning vísitölunnar.

Núverandi hæstv. ríkisstj. fylgir hins vegar þveröfugri stefnu í þessu efni. Hún hefur gengið miklu lengra en nokkur önnur ríkisstj. í því að leggja tolla á neyzluvörur almennings. Er þar skemmst að minnast hinna gífurlegu tollahækkana, sem hún beitti sér fyrir, að samþ. væru á síðasta þingi, rétt eftir valdatöku hennar. Árangurinn hefur líka orðið sá, að upp undir helmingurinn af öllum tekjum ríkissjóðs hafa verið tolltekjur. Á s.l. ári var það hvorki meira né minna en rúmar 100 millj. króna, sem landslýðurinn varð að borga í tolla. Annar aðaltekjustofn ríkisins er svo ágóði af sölu áfengis og tóbaks, en sá ágóði nam á s.l. ári ca. 70 millj. króna.

Tekjuhlið fjárlagafrv., sem nú er lagt fram, byggist á þessum sama grunni. Eins og kunnugt er hefur hæstv. ríkisstj. gert þá „ráðstöfun gegn dýrtíðinni“ að láta Alþ. framlengja tollahækkanir, sem gerðar voru á síðasta ári og annars hefðu fallið úr gildi nú um áramótin. En ekki nóg með það, heldur hefur hún enn látið bæta við nýjum neyzluskatti — söluskattinum, sem verkar á sama hátt og tollarnir til hækkunar á vöruverði. Tekjur ríkissjóðs af þessum nýjasta tolli áætlar hæstv. fjmrh., að verða muni 19 millj. króna, og er þá óhætt að fullyrða, að með þessum hætti verði tekið af neytendum á milli 20 og 30 milljónir króna á þessu ári ofan á aðra tolla.

Ég er ekki í neinum efa um, að með þeim lagasetningum, sem tekjuöflunin byggist á, muni sú tekjuáætlun, sem hér liggur fyrir, fyllilega standast — og sennilega fara tekjurnar allverulega fram úr áætlun, eins og orðið hefur reynsla undanfarinna ára, — nema af hálfu stjórnarvaldanna verði gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til að lama framleiðsluna og koma á atvinnuleysi í landinn. Tekjur ríkissjóðs á þessu ári munu þannig verða miklu hærri en nokkurn tíma fyrr — eða talsvert á þriðja hundrað millj. króna.

En það er athyglisvert — og getur nokkra bendingu um stefnu hæstv. ríkisstj., að þegar hún þannig seilist lengra niður í vasa alls almennings en nokkurn tíma áður hefur verið gert eftir tekjum í ríkissjóðinn, að þá áætlar hún miklu minna fé en áður hefur verið gert til verklegra framkvæmda í landinu. Þannig var t.d. veitt á fjárl. síðasta árs til að gera nýja vegi 6:6 millj. króna. — en í þessu frv. er áætlað til nýrra akvega aðeins 3 millj. króna. Á fjárlögum síðasta árs var veitt til brúargerða — auk lögboðins framlags í brúasjóð — tæplega tvær og hálf millj. króna. Á frv. er ætluð aðeins 1 millj. króna til brúargerða. Til hafnargerða og lendingabóta var á fjárl. síðasta árs veitt tæplega sex og hálf millj. króna — auk lögboðins framlags í hafnarsjóð, en á frv. er ætlað til þessara framkvæmda aðeins þrjár og hálf millj. króna.

Ef áætluð framlög frv. til verklegra framkvæmda og t.d. til heilbrigðis- og menningarmála eru borin saman við sams konar framlög ríkisins í tíð fyrrv. ríkisstj. — og í hlutfalli við heildarútgjöldin á hverjum tíma, kemur glöggt í ljós stefnumunur þessara tveggja ríkisstjórna og hnignunin, sem er að verða í þessum málum undir forustu hæstv. núverandi ríkisstj.

Árið 1945 voru framlög til vegamála 16% af heildarútgjöldum ríkisins það ár. Árið 1946 nam þessi upphæð 16.4%. — En á fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, nema framlög til vegamálanna aðeins 7.6% af heildarútgjöldunum.

Til vitamála og hafnargerða var á árinu 1945 varið 3.3% af heildarútgjöldunum. Árið 1946 námu þessi útgjöld 4%. — Á frv. eru útgjöld til þessara mála áætluð aðeins 3.2%.

Til heilbrigðismála var á árinu 1945 varið 6.9% af heildarútgjöldunum. Árið 1946 námu þau útgjöld 6%. — En á þessu frv. eru útgjöldin til heilbrigðismála aðeins 4.6%.

Til kennslumála var á árinu 1945 varið 13.1% af heildarútgjöldunum. Árið 1946 var varið til þessara mála 15.3%. — Á frv., sem nú liggur fyrir, er áætlað til kennslumála aðeins 12.4% af heildarútgjöldunum, — og kallar þó framkvæmd nýju fræðslulaganna á mjög aukin útgjöld til þessara mála.

Í öllum þessum málaflokkum, sem snerta svo mjög hagsmuni alls almennings í landinu, er um mjög áberandi afturför að ræða hjá hæstv. núverandi ríkisstj. Hins vegar er annar flokkur útgjalda, sem ekki er í neinni rýrnun, heldur blómgast með ágætum, en það er kostnaðurinn við rekstur ríkisbáknsins.

Það hefur heilmikið verið rætt um það undanfarin ár — í fjvn. og á Alþ., enda gerðar um það samþykktir, að endurskoða þyrfti starfskerfi ríkisins með það fyrir augum að gera það einfaldara og ódýrara í rekstri. Framkvæmdir hafa þó engar orðið í þá átt, heldur þvert á móti vex skriffinnskumoldviðrið hröðum skrefum, og hefur aldrei blómgazt neitt svipað því eins og í tíð núverandi hæstv. ríkisstj. Nægir í því sambandi að minna á allt pappírsmoldviðrið, dulmálið og skriffinnskuna í sambandi við vöruskömmtunina. — Eða eignakönnunina, sem fróðir menn draga í efa, að muni borga sig fyrir ríkissjóð vegna þess, hvernig hún hefur verið framkvæmd og hvernig óhemju kostnaður hleðst upp í kringum hana. Þannig virðist það vera um fjölda ríkisstofnana — og þá ekki sízt þær, sem hafa með höndum innheimtu fyrir ríkið, eða þá svokallað opinbert eftirlit — að ógleymdum þeim stofnunum, sem fara með náðarvaldið til útdeilingar leyfa til landslýðsins um það, hvernig menn megi snúa sér í það og það sinn og hverja viðburði almenningur megi hafa til sjálfsbjargar, t.d. um það að eignast þak yfir höfuð sér o.s.frv.

Það má í þessu sambandi benda á, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að starfsemi fjárhagsráðs og undirdeilda þess muni á þessu ári kosta hvorki meira né minna en 2 millj. króna. — Að vísu er ríkissjóði ekki ætlað að greiða þessa fúlgu, heldur á að taka féð af viðskiptavinum stofnunarinnar — með gjöldum fyrir „góða afgreiðslu“. En kostnaðurinn er samt sem áður þessi og kemur þá fram sem dulinn skattur á landslýðinn.

Nú er að vísu nógu slæmt að eyða of fjár frá landsmönnum í stofnanir eins og t.d. fjárhagsráð og undirdeildir þess, — en hitt er þó hálfu verra, ef starfsemi sem þessi er þannig rekin, að hún svari alls ekki til raunverulegra þarfa þjóðarinnar á því sviði, sem um er að ræða.

Þegar lögin um fjárhagsráð voru sett á síðasta þingi, urðu um þau harðar umræður milli stjórnarliðsins og þingmanna Sósfl. Þingmenn Sósfl. héldu því fram, að litið mark væri takandi á slagorðum 2. gr. laganna, um það, að fjárhagsráð skyldi miða störf sín við það að hagnýta til fulls framleiðslugetu þjóðarinnar, að áframhald verði á öflun nýrra og fullkominna framleiðslutækja til landsins, að byggðar verði verksmiðjur og iðjuver til þess að vinna sem mest og bezt úr öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar, að bæta starfsskilyrði iðjuvera, er framleiða vörur, er spara þjóðinni gjaldeyri, og að útrýma húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, svo að nokkuð sé nefnt af því, sem látið var heita, að fjárhagsráð ætti að koma til leiðar.

Þingmenn Sósfl. báru það þá þegar á hæstv. ríkisstj., að bak við þessar bollaleggingar fælist engin alvara, heldur ætlaði hún fjárhagsráði raunverulega að vera hemill á athafnalífið í landinu.

Ég held, að reynslan sé þegar farin að sýna það nokkuð áþreifanlega, að þingmenn Sósfl. höfðu rétt fyrir sér í þessu efni.

Ég gat þess áður, í öðru sambandi, að engar áætlanir hafa komið frá fjárhagsráði, og sennilega verður enn nokkur bið á því, að þær birtist. — Í stað áhugans fyrir að hagnýta til fulls framleiðslugetu þjóðarinnar, hefur hæstv. ríkisstj. hvað eftir annað — með árásum á lífskjör alþýðunnar — stofnað til stéttastyrjaldar í landinu, sem haft hefur í för með sér alvarlegar stöðvanir í framleiðslulífi þjóðarinnar og þar með verðmætistöp.

Engin öflun nýrra fullkominna framleiðslutækja hefur átt sér stað — umfram það, sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert ráðstafanir til. Í stað þess, að byggðar séu verksmiðjur og iðjuver til þess að vinna sem mest og bezt úr öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar, eru stöðvaðar þær verksmiðjubyggingar, sem fyrrv. ríkisstj. hafði undirbúið og að sumu leyti keypt vélar til. Og starfsemi fiskiðjuvers sjálfs ríkisins er torvelduð, með atbeina ríkisbankans. Í stað þess að útrýma húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, er fjárhagsráð látið neita mönnum um fjárfestingarleyfi til að byggja hús yfir höfuð sér — og það jafnvel, þó að efnivörur séu fyrirliggjandi, svo að ekki sé um neina aukna gjaldeyrisnotkun að ræða.

Þó keyrir sennilega um þverbak með afstöðu fjárhagsráðs og annarra stjórnarvalda til iðjuvera, sem framleiða vörur, er spara þjóðinni gjaldeyri.

Í stað þess að bæta starfsskilyrði þessara iðjuvera, eins og það er kallað í fjárhagsráðsl., er ástandið í þessum málum þannig, eins og berlega hefur komið fram í blaðaskrifum undanfarið, að innlendi iðnaðurinn er að meira eða minna leyti stöðvaður, vegna þess að honum hefur verið neitað um innflutning nauðsynlegra hráefna — og fram undan virðist vera alger stöðvun á þessu sviði, ef svo fer fram í þessu efni sem verið hefur.

Í staðinn fyrir að spara gjaldeyri með því að hlynna að þessari innlendu framleiðslu, kvað nú hafa verið leyfður innflutningur t.d. á hreinlætisvörum, sem talið er, að muni verða miklu dýrari en hreinlætisvörur þær, sem innlendu verksmiðjurnar mundu framleiða, ef þær fengju nauðsynleg hráefni, — og nota til þess aðeins litinn hluta þess gjaldeyris, sem fer fyrir fullunnu vörurnar.

Ég get ekki stillt mig um í þessu sambandi að vitna í frétt, sem eitt aðalblað hæstv. ríkisstj., Morgunblaðið, flutti 21. jan. s.l. Væntanlega verður það ekki talinn „kommúnistaáróður“, sem það blað flytur, — eða hætta á, að það beri ríkisstj. og stofnunum hennar verri sögur en efni standa til. Fréttin er frá fréttaritara Morgunbl. á Akureyri og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„15. janúar kom stjórn Iðnrekendafélags Akureyrar saman á fund til að ræða um ástand það, er skapazt hefur í mestum hluta iðnaðarins hér á Akureyri, sem orsakazt hefur af hráefnaskorti síðastl. ár.

Sumar verksmiðjur hafa þegar hætt störfum og aðrar neyðast til þess innan skamms, ef ekki rætist úr þessum vandræðum. — Vonir manna við skýrslusöfnun þá, sem fjárhagsráð lét fara fram í byrjun nóv. s.l., hafa algerlega brugðizt. — Þar var m.a. óskað eftir upplýsingum um minnstu hráefnaþörf til ársloka 1947, en ekki er vitað um eitt einasta fyrirtæki hér á Akureyri, sem fengið hefur svar.

Lýsti stjórn iðnrekendafélagsins megnri óánægju yfir því aðgerðaleysi, sem virðist ríkja í þessum málum hjá þeim aðilum, sem með innflutnings- og gjaldeyrismál fara.“

Það er ekki aðeins, að þessi frétt stjórnarblaðsins dragi upp hryggðarmyndina af hafta- og stöðvunarstefnu hæstv. ríkisstj. og stofnana hennar í atvinnulífi landsmanna, heldur lýsir hún einnig á táknrænan hátt fyrirlitningu þessara „toppfígúra“ á landslýðnum, sem — í krafti hins yfirskipulagða ríkiskapítalisma — á örlög sín og afkomu svo mjög undir geðþótta stjórnarvaldanna komin.

Það, að fjárhagsráð heimtar skýrslu á skýrslu ofan, er skjaldarmerki skriffinnskunnar í stjórnarkerfinu. Hitt, að það lýtur ekki svo lágt að svara erindum heilla atvinnugreina — hvað þá að bæta úr þörfum þeirra —, er snerting þeirrar dauðu handar, sem núverandi stjórnarvöld landsins hafa lagt á nýsköpunina, sem þau umfram allt vilja feiga.

Dæmið um það, að fjárhagsráð ekki einu sinni svarar erindum iðnrekendasamtakanna í höfuðstað Norðurlands, er að vísu nokkuð hart, en það er ekkert einsdæmi, heldur aðeins sýnishorn af þeim erfiðleikum, sem einstaklingum og félögum — og það jafnvel opinberum aðilum eins og bæjarfélögum — eru búnir af því að þurfa að sækja flest sín mál hingað undir Reykjavíkurvaldið. — Lítur út fyrir, að það mál verði landsbyggðin að taka til alvarlegrar meðferðar heldur fyrr en síðar. Vil ég í því sambandi minna á tillögur, sem þingmenn Sósfl. flytja nú á Alþ. um það, að komið verði upp sjálfstæðum innflutnings- og gjaldeyrisdeildum, einni fyrir hvern landsfjórðung, er hafi aðsetur á Ísafirði, Akureyri og í Neskaupstað.

Ég hef nú bent á nokkur dæmi þess, — í sambandi við fjárlagafrv., — hvernig stefna hæstv. ríkisstj. er afturhaldssöm og neikvæð um verklegar framkvæmdir og þróun atvinnulífsins í landinu. Slík stefna er ekki í neinu samræmi við raunverulega fjárhagsgetu þjóðarinnar — og þau skilyrði önnur, sem við nú höfum til að efla framleiðslugetu þjóðarinnar og velmegun fólksins.

Ég fullyrði, að þetta ár, sem nú er nýbyrjað, verður mesta veltiár, sem yfir íslenzku þjóðina hefur komið, ef ekki kemur til alveg óvenjulegur aflabrestur eða enn meiri skemmdarverk af hálfu forsvarsmanna þjóðarinnar. En slík fjárhagsleg góðæri notast ekki til að undirbyggja varanlega velmegun þjóðarinnar, nema víkið sé frá völdum þeim hrunstefnu-postulum, sem nú halda kverkataki um nýsköpunarframkvæmdirnar, sem Sósfl. á sínum tíma átti frumkvæðið að.