02.02.1948
Sameinað þing: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

129. mál, fjárlög 1948

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Í þeirri ræðu, sem ég flutti, leitaðist ég við að gefa skýringar á sem flestum atriðum, er snerta fjárlagafrv. og fjárhagsástandið. En þó má segja að í slíkum efnum er ekki unnt í stuttu máli - ég kalla það stutt mál um slíkt stórmál, þó að haldin sé eins og hálfs klukkutíma ræða að fara inn á öl] atriði, og mætti því segja, eins og eyfirzkur höfðingi sagði við Ófeig í Skörðum, að „margt eigum við eftir ótalað“. Og það mun reynast svo á þessu þingi, að hér mun koma margt til athugunar, áður en hægt er að skiljast svo við þetta mál, að allir geti við unað, eða réttara sagt, að nægilegur þingmeirihluti geti við unað.

Hv. 6. landsk. þm. gerði nokkuð að umræðuefni sjálfa afgreiðslu fjárl. frá hendi ráðuneytisins. Það er rétt, að upprunalega í haust var frv. ekki lagt fram alveg eins snemma eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, en þó var það samt í sama mánuði og þingið var sett, og ég held, að það út af fyrir sig hafi ekki bakað neitt tjón. En hv. þm. verður að gera sér ljóst, að það er erfiðara verk nú, með þeim háu tölum í sambandi við ríkisreksturinn og allt, sem honum fylgir. að ganga frá fjárl. frá stjórnarráðinn heldur en oft hefur áður verið, og það verður að afla upplýsinga frá öðrum ráðuneytum og ríkisstofnunum, og það er ekki hægt að ganga frá till. til Alþingis fyrr en slíkar upplýsingar liggja fyrir, og þær liggja ekki alltaf á lausu. Svo þótti honum það undarleg vinnubrögð, að lagt væri fram nýtt frv. og hinu kastað í pappírskörfuna. Ég vék að því í upphafi máls míns, að fyrir þessu væri fordæmi, þegar málin hefðu tekið svo miklum breytingum að fjárl. hlytu einnig að breytast við það, og þó að í þessu fordæmi væru breyt. ekki eins miklar og nú, þá var sjálfsagt eftir samþykkt dýrtíðarlaganna að smíða frv. upp að nýju, og ber ég engan kinnroða fyrir að hafa orðið við tilmælum hv. fjvn. um að ganga svo frá málinu. Hann sagði líka að þetta væru þau hæstu fjárl., sem nokkurn tíma hefðu verið sýnd Alþ., og er það satt. Ég hefði gjarnan kosið það að vera með lægri fjárl., en það er ekki hægt með óbreyttri löggjöf. Það er ekki hægt að leggja fram fjárlagafrv. án þess að taka tillit til þess, sem í 1. felst. Þess vegna var horfið að því að lækka þá liði, sem ekki eru bundnir í l., og hef ég nú fengið að heyra það, bæði frá hv. 6. landsk. og 2. þm. N-M., að þeim þykir of langt gengið í lækkunarátt. Vera má, að svo sé. en þegar um það er að ræða, hvað hægt er að gera og hvað ekki er hægt að gera, dugir ekki bæði að kvarta yfir því, að tölurnar séu of háar, og svo, að farið sé of langt niður með tölur, sem ekki eru fyrir fram ákveðnar í l.

Ég skal ekki fara mikið út í ræðu hv. 6. landsk. Hann ræddi mest um fjárhagsráð, og hefur hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, svarað ádeilum hans á það. Annars er það svo, að nú er eignakönnunin og fjárhagsráð — eða fjárfestingin — fordæmd af hv. sósíalistum og þar á meðal af hv. 6. landsk,. en ég veit ekki betur en að bæði þessi mál eigi upptök sín í þeirra hv. flokki, en vegna þess að þeir vita, að hvorki fjárfestingin né afskipti af athöfnum manna er vinsælt verk, þá þykir þeim það bezt að kasta steini að þeim mönnum, sem eiga að framkvæma þá löggjöf, sem þeir þó áttu meðal annarra flokka frumkvæði að á sínum tíma.

Hv. 2. þm. N-M. fór allhörðum orðum um fyrrv. stj. Ég hef nú víst nóg með það að gefa mig að mínum handaverkum hvað snertir fjárlagafrv., en öllu má ofgera, og hygg ég það ómakleg orð, sem hann mælti í garð fyrrv. stj. og þeirrar bjartsýni, sem gætti í hennar athöfnum. Það er vitað, að það stærsta, sem gerðist í tíð fyrrv. stj. undir forustu formanns Sjálfstfl., var nýsköpunarstarfið. Það var það mesta, sem eftir þá stj. liggur, og meira en eftir nokkra aðra stj., sem setið hefur að völdum hér á landi. Og það skal enginn ætla, að verðbólgan og allt, sem henni fylgdi, hafi fyrst vaknað á meðan fyrrv. stj. sat að völdum. Það væri eins fjarstætt og að halda því fram, að verðbólgan hjaðnaði fyrir tilverknað núverandi stj. Nei, verðbólgan á sér dýpri rætur, og hv. 2. þm. N-M. getur eins skotið geiri sínum til annarra flokka og manna eins og þeirra, sem sátu í fyrrv. stj., ef hann vill hitta einhvern af þeim, sem eiga sök á verðbólgunni. Það, sem skeði í fyrrv. stjórn í því, sem kallað er nýsköpun, horfði til sannra framfara. og hefur að mínum dómi aldrei verið stigið öllu meira vafaspor heldur en þegar einn af samstarfsflokkunum í þeirri stj. skarst úr leik og snerist andvígur gegn öllu því, sem hann hafði barizt fyrir áður. Það má vel vera, að nýsköpunin hefði borið fljótari árangur, ef allir landsmenn hefðu haft á henni fullan skilning, en hvernig sem fer, hlýtur hún að bera árangur í þessu þjóðfélagi. Það er eins víst og að 2 og 2 eru 4 og eins og að nótt kemur á eftir degi, því að enginn skal halda, að svo sé komið hjá íslenzku fólki, að það þekki ekki sinn vitjunartíma. Þótt skilningurinn sé mismunandi og þótt unnið sé að því af vissum pólitískum öflum að. halda þeim skilningi niðri, þá er ég viss um, að við sjáum með tíð og tíma, að við verðum að koma svo málum, að við stöndum ekki öðrum að baki. Nú er það svo, að sjávarútvegurinn, sem stendur undir þörfum allra landsmanna og annarra atvinnuvega líka, er í mestu vandræðum vegna vaxandi dýrtíðar, en þetta ástand helzt vonandi ekki lengi, og það, sem mun hjálpa sjávarútveginum eins og öðrum atvinnuvegum, er í fyrsta lagi það, að nú hefur þjóðin milli handanna hin beztu og nýjustu tæki til þess að halda við atvinnu sinni, og get ég ekki hugsað mér, að svo kunni lengi að fara, að menn fáist ekki til að starfa við þau tæki. En til þess að það geti orðið, er vert að gefa gaum að því, sem hv. þm. Ísaf. sagði. Hann benti greinilega á þá þörf, sem er á nýju vinnuafli, og að Alþ. má ekki torvelda, að þeirri þörf verði fullnægt, með því að festa of mikið af fólki í því, sem kalla verður óarðbærar framkvæmdir.

Hv. 2. þm. N–M. taldi allt hér í frv., hvað landbúnaðinn snerti, illa ært og þurfa stórra bóta. Það má vel vera, að svo sé, en ég er á þeirri skoðun, að Alþ. geti ekki farið inn á þá braut að afgreiða fjárl. með rekstrarhalla. Hitt er svo annað mál, að talsvert af því, sem þm. benti á um tilfærslur á kostnaðarliðum, getum við tekið til athugunar, og er það mál, sem fjvn. og Alþingi í sameiningu þurfa að ráðgast um. Hann talaði um ýmsar leiðir, sem vissulega geta komið til athugunar hér, en rekstrarhallaafgreiðslu verð ég að segja, að mér lízt ekki á. Ég skal aftur á móti taka undir þann vafa, sem hv. 2. þm. N–M. lét í ljós varðandi þá tekjuáætlun, sem ég hef komið hér með. Hún er vitaskuld fullbjartsýn, og athugasemdir hv. þm. eru að því leyti réttmætar. Hitt skulum við svo vona, að það komi í ljós, að afkoma ársins verði góð og atvinna gangi vel og verði þannig til þess að undirbyggja sæmilega tekjuöflun fyrir ríkissjóðinn, þannig að ekki aukist enn á þau vandræði, sem fyrir hendi eru. En til þess að svo megi fara og til þess að ekki sé efnt til nýrra vandræða, vil ég vísa til þess, sem ég sagði áðan, að það væri fremsta skylda Alþingis að stilla útgjöldunum í hóf.