11.03.1948
Sameinað þing: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Meiri hl. fjvn. hefur lagt fram nál. á þskj. 465 svo og brtt. á þskj. 461, er ég skal gera grein fyrir hér á eftir. Auk þess eru brtt. á þskj. 479 o.fl., sem mestmegnis eru leiðréttingar. Því miður tókst ekki að fá fullt samkomulag um afgreiðslu frv. í fjvn. Stjórnarandstaðan, hv. 8. landsk. og hv. 2. þm. S–M., sá sér ekki fært að undirrita nál. meiri hl. og kaus að skila séráliti. Ég vil taka það fram, að minni hl. tók þátt í öllum störfum n. og sat með henni alla fundi, og margar af till. á þskj. 461 eru einnig samþ. af minni hl. í fjvn.

Frv. til fjárl. var fyrst lagt fram á Alþ. í október s.l. Niðurstöður á því frv. voru allt aðrar en á því frv., sem síðar var lagt fram. Tekjur á því frv. voru áætlaðar 155 milljónir, en gjöld 156 milljónir, svo að hallinn nam tæpum 900 þús. kr. Fjvn. lagði mikla vinnu í það frv., enda átti það að fá afgreiðslu fyrir áramót. En þegar ljóst var, að dýrtíðarfrv. kæmi til afgreiðslu fyrir áramót, var það sýnilegt, að ekki yrði hægt að afgreiða fjárl. fyrir þann tíma. Það varð nauðsynlegt að leggja fram nýtt fjárlagafrv., og þegar þingi var frestað í desember, tilkynnti fjmrh., að hann mundi leggja fram annað frv. til fjárlaga og undirbúa það í þinghléi, og óskaði þess, að fjvn. kæmi saman til funda á nýjan leik þ. 6. jan. til þess að athuga þann undirbúning. N. hélt síðan daglega fundi og einnig daglega fyrir jól, og hélt hún þannig alls 67 fundi. Henni bárust 320 erindi varðandi afgreiðslu fjárl. og n. og form. hennar áttu margvíslega fundi við ýmsa aðila. 8. jan. bað n. með bréfi til fjmrn. um eftirfarandi gögn í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna:

Í fyrsta lagi um nýja tekjuáætlun.

Í öðru lagi um yfirlit yfir skuldir ríkissjóðs í árslok 1947.

Í þriðja lagi sundurliðaðan lista yfir allar launagreiðslur á árunum 1946–'47.

Í fjórða lagi um greinargerð, álit og tillögur sparnaðarnefndar, sem stjórnin skipaði til þess að gera till. um niðurfærslu á rekstrarútgjöldum ríkisins.

Í fimmta lagi um álit fjmrh. um starfsskyldur opinberra starfsmanna.

Sum af þessum gögnum bárust n. fljótt í hendur, önnur seinna eða alls ekki, — og vil ég fara um það nokkrum orðum. Það mun reynast erfitt að fá launaskrána, þótt það sé mjög nauðsynlegt að áliti n. Mun það stafa mest af því, að hlutaðeigendur kæra sig ekki um, að það sjáist, hve mikil laun þeir taka samanlagt úr ríkissjóði, og því verða erfitt að komast til botns í því. Ýmiss konar getum er leitt að því, hve mikil laun sumir taki úr ríkissjóði — allt frá 35 og upp í 90 þús. kr. En n. er ókunnugt um, hve mikil hæfa er fyrir þessu. Þó komst n. að því, að einn starfsmaður ríkisins fékk 35 þús. aukreitis fyrir störf sín, sem jafnvel ríkisstj. sjálf hafði ekki hugmynd um. Ég vil taka það fram fyrir hönd n., að hér er ekki um að ræða árás á einstakling, heldur var það af tilviljun, að n. komst að þessu, og það var ekki ætlunin að taka neinn fyrir persónulega, en hún vonast eftir því, að hæstv. ráðh. láti athuga þetta mál fyrir næsta þing.

Það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, fékk n. til athugunar þ. 27. jan. s.l., og er það nokkuð frábrugðið hinu fyrra. Skal nú getið hinna helztu breytinga.

Samkv. 7. gr. hafa vextir hækkað um nærri 4 millj. Gjöld til heilbrigðismála hækkað um 4.3 millj. Framlög til raforkumála um 440 þús. 19. gr. hefur hækkað um 55 millj., sem eiga að fara til dýrtíðarráðstafana. Hækkanir nema alls (i3840000.00 kr. og eru mestmegnis vegna dýrtíðarráðstafana.

Lækkanir eru á 10. gr. um 160 þús., á 11. gr. um 385 þús., á 13. gr. um 43 þús., á 14. gr. um 806 þús. — alls tæpar 1.5 millj. og stafa af umreikningi á vísitölu úr 310 í 300 stig. 17. gr. lækkar um 2 millj. kr., og stafar það sumpart af yfirfærslu á 10. gr. Aftur á móti er þar bætt við nýjum lið, 1 millj. króna til meðgjafar með börnum, sem eiga erlenda feður. Af þessu er ljóst, að gjaldahækkanirnar stafa einkum frá dýrtíðarlögunum, en ekki af hækkunum einstakra liða frv. Hækkun tekna á 2. gr. er 57 millj. kr., á 3. gr. 3.6 millj. Tekjuhækkunin nemur þannig 60.6 millj. kr. Rekstrarhalli verður 250 þús. kr. minni en á hinu fyrra frv. Greiðslujöfnuður verður aftur óhagstæður um 9 millj.

Ég mun nú fara út í einstakar gr. og brtt., sem meiri hl. fjvn. leggur til, að verði samþykktar. Þegar n. gekk frá tekjunum á 2. og 3. gr., hafði hún áður rætt við ríkisstj. þar að lútandi, og enn fremur hafði hún hliðsjón af árstekjunum 1947, sem voru nærri 240 millj. Enda þótt hæstv. fjmrh. haldi þær vera 234 millj., er hitt nær lagi, því að þar kemur til viðbótar 5 millj. kr. yfirfærsla frá fyrra ári. Þá hafði n. einnig hliðsjón af innflutningsáætlun fjárhagsráðs og ræddi allýtarlega við ráðið og hæstv. fjmrh.

Meiri hl. leggur ekki til að hækka tekjuáætlunina á 2. gr. um skatta og tolla. Aftur á móti er minni hl. þessu ásamþykkur, og mun hann skýra sérstaklega frá afstöðu sinni. Um 3. gr. liggur fyrir till. að hækka tekjur póstsjóðs sem svarar rekstrarhalla hans á frv., en hann nemur 820 þús. kr. Meiri hl. leggur þetta til vegna þess, að upplýst er við umræður við póst- og símamálastjórnina, að tekjuáætlunin fyrir árið 1947 hafi raunverulega staðizt, en halli orðið á bifreiðaflutningum á milli Hafnarfjarðar og

Rvíkur og rekstrartapið á þeim leiðum numið um 200 þús. kr. Meiri hl. telur ekki eðlilegt að reka þetta með tapi og telur, að stefna beri að því, að ríkissjóður komist hallalaust út af slíkum rekstri. Með þessum rökum leggur n. til að hækka þessar tekjur — enda er það upplýst, að fargjöld á leiðinni milli Hafnarfjarðar og Rvíkur hafa stórlega hækkað, svo að vonir standa til að vinna upp hallann.

Meiri hl. n. leggur til, að framlag til sveitasíma hækki um 320 þús. kr. Símar eru nú orðnir svo eftirspurðir og þýðingarmiklir í sveitunum, að n. sá sér ekki annað fært en verða við þessum tilmælum um hækkun og væntir, að þrátt fyrir margvíslega erfiðleika á öðrum rekstri verði ekki dregið úr þessu framlagi. Það er vitað mál, að þörfin fyrir síma í sveitum er alltaf að vaxa. Þessu veldur m.a. það, að margir bæir hafa farið í eyði á undanförnum árum, og er því viða orðið lengra milli byggðra bæja en áður var. Nú er líka nauðsynlegra en áður að hafa símasamband vegna atvinnuveganna. N. leit því svo á, að ekki væri hægt að bæta skjótara né betur úr ýmsum vandamálum sveitanna með öðru en þessum símalögnum né á ódýrari hátt.

Þá leggur n. til, að tillag til landssmiðjunnar hækki til að mæta rekstrarhalla, rúmum 37 þús. kr., og finnst okkur óþarfi að vera að setja stofnun með milljónaveltu inn á fjárlög vegna nokkurra þús. kr. halla, og ætti að vera hægt þar að ná réttum og hallalausum rekstri.

Meiri hl. n. gerir enga breytingu á rekstri útvarpsins. En það er harla óviðkunnanlegt, að ekki skuli vera hægt að reka viðgerðastofuna og viðtækjasmiðjuna án halla, en hann er nú um 50 þús. kr. Viðgerðastofan veitir nú landinn nokkra þjónustu. En því er ekki svo farið með viðtækjasmiðjuna og því ekki afsakanlegt með hana, og verða viðkomandi aðilar að bæta úr þessum misbrestum. Útvarpið má ekki láta blekkjast af því, þótt það hafi risatekjur, og er jafnnauðsynlegt að halda vel á fjármálunum, þótt því hafi verið sköpuð góð aðstaða. Og er óvíst, að þetta hefði gerzt, ef tekjuöflun hefði verið erfið. Það má benda á það, að lánað hefur verið úr sjóðum útvarpsins án heimildar, m.a. til hljóðfærakaupa og fleira, sem má benda á, að miður fari. Verður því annaðhvort að setja traustara eftirlit með þessu eða skerða tekjur útvarpsins, svo að þetta sé ekki hægt. Ég vil geta þess, að þessar umkvartanir eru fremur frá mér persónulega heldur en frá n. Tekjur útvarpsins munu nú vera um 120 þús. af viðtækjaverzluninni. Auk þess fær útvarpið árlega mikið fé frá ríkinu vegna auglýsinga, og mun sá tekjuliður hafa verið óvenju hár á þessu ári samkv. bréfi frá útvarpsstjóra.

Þá er nú tekinn upp á fjárl. nýr liður, nr. 6 í 3. gr. A., um trésmiðju ríkisins. En það virðist skorta heimild fyrir að setja slíkt á fjárl., og bæri ríkisstj. eðlilega að afla sér heimildar til að starfrækja slíkt. Þá kemur Tunnuverksmiðja ríkisins með 5 millj. og 700 þús., og hefur fjvn. ekkert fengið um þetta nema eitt lítið skeyti. Teljum við slíka afgreiðslu vítaverða og verðum að krefjast annars og meira, ef taka á þetta inn á fjárl. — Ég hef nú lýst tekjuliðunum að nokkru og kem nú að gjöldunum.

Fjvn. hefur ekki gert till. til breyt. á 7. gr., en hún hefur verið hækkuð um 4 millj. síðan í fyrra vegna vaxta af lánum ríkisstj., skuldagreiðslna og annarra kvaða, og eru þessar þær helztu:

Síldarverksmiðjur ríkisins

1947–'48

5500000

Skeiðsfossvirkjunin

1947

730000

Skagastrandarhöfn

1947

350000

samtals

6680000

Þetta er engan veginn tæmandi yfirlit yfir hinar gegndarlausu kröfur um alls konar afborganir ríkissjóðs. Væri full þörf eftirlits á þessu sviði. Hollt væri að minnast þeirra upplýsinga, er fram komu í gær, að 5 millj. kr. hefðu farið í eitt fyrirtæki, 3 millj. varið til ferðavagna og 1 millj. í fiskiðjuver ríkisins, auk 8 millj. kr. til fiskiðjuvers, sem fiskimálanefnd lét reisa með vafasömum heimildum. Ég mun nú ekki taka fleiri dæmi. Ég tel, að ríkisstj. geti ekki tekið svona mikið fé og mætt hallanum síðan með niðurskurði á nauðsynlegum liðum eða skattaálagningu á fólk, sem greiðir þegar drjúgan skerf í ríkissjóð.

Um 10. gr. má benda á það, að 5. till. á þskj. 461 er hækkun um 17400 kr. vegna þess, að fyrrv. sendifulltrúi, Vilhjálmur Finsen, hefur frí með fullum launum, og við sendiráðin í Moskvu og París hækkar risna og staðarkostnaður vegna dýrtíðar í þessum löndum. Aftur á móti má taka 500 þús. kr., sem eru í sjóði hjá samninganefnd utanríkisviðskipta og er afgangur af útflutningsgjöldum. Þar eð mikill hluti þessara viðskipta fer fram gegnum áðurgreind sendiráð í Moskvu og París, er eðlilegt að taka þetta fé inn í þessa grein til lækkunar á útgjöldum þeirra, og hef ég rætt þetta að nokkru við ríkisstj.

Þá er 11. gr. Í 8. Till. er gert ráð fyrir að hækka tekjurnar af iðjurekstri á Litla-Hrauni um 100 þús. Ekki er fyllilega hægt að segja um, hvort þetta næst, en fjvn. vonar, að svo verði, enda sjálfsagt að reyna að hafa sem mest upp úr þessum rekstri, úr því að á annað borð er verið að fást við hann. Í 9. lið er lagt til, að niður falli útgáfa félagsdóma, 9 þús. kr. Dómar eru nú fáir hjá félagsdómi, og raddir hafa verið uppi um það í fjvn. að leggja hann niður, en það er ekki hægt nema með lagabreytingu, svo að það er ekki hægt í bili. 10. liður er um það að hækka tekjur skipaeftirlitsins, svo að þær verði jafnar gjöldunum, eins og til dæmis við bílaeftirlitið. Þetta hefur valdið ágreiningi innan n. M.a. er hv. 1. landsk. á móti þessu og segir sem svo, að fremur beri að hugsa um öryggi manna og eignir en það, að eftirlitið kosti ríkið nokkurt fé. Hins vegar leggur meiri hl. n. til, að skipaskoðunin reyni að láta tekjur og gjöld standast á. 11. brtt. er um að samræma fiskimat, samræma mat á ísfiski og saltfiski, þannig að kostnaður minnki, svipað og frv. stj. í Ed. gerir ráð fyrir, ef það verður að lögum. Og þótt frv. nái ekki fram að ganga, er samt sem áður hægt að koma þessu fram í reglugerðarformi, þar eð fiskimatið er ekki rekið samkvæmt lögum nú. Þessi lækkun, er í 2 liðum. Það er ekki meiningin að lækka laun, heldur að minnka skrifstofuhald, en þó verður nokkuð aukið við saltfiskmatið. Þá ætti ferðakostnaður að minnka allmikið. Þá vil ég leyfa mér að benda á það, að meiri hl. fjvn. hefur ekki séð sér fært að verða við tilmælum frá fjárhagsráði og viðskiptanefnd að hækka gjöld til þessara stofnana, og vísa ég þar til nefndarálits. En nokkrir voru með tillögu viðskiptanefndar að hækka framlag til n. um 384 þús. kr. fram yfir fjárl., en þessari hækkun átti að mæta með nýju gjaldi á benzínskömmtunina og aðra liði. Fjvn. getur ekki fallizt á, að fjárhagsráð taki upp nær 800 þús. kr. til að standast kostnað ráðsins auk þeirra 2.5 millj., sem því eru ætlaðar. Stofnun þessi hefur gert ýmislegt gagn og ýmislegt ógagn einnig. Og meiri hl. þjóðarinnar mun vera þeirrar skoðunar, að ógagnið muni vera meira en gagnið. Það er gert of mikið af því að stjórna þjóðinni með skrifstofuvaldi og höftum, en slíkt á illa við stórhuga og framgjarna þjóð, sem vill brjótast áfram og njóta frelsis. Það ber því brýna nauðsyn til að gera þetta allt einfaldara og ódýrara og í samræmi við hugsanir og venjur þjóðarinnar. 12. brtt. er um að kostnaður við húsaleigunefndir falli niður, og leggur meiri hl. það til. Einn nm., hv. 1. landsk., er mjög á móti því og heldur því réttilega fram, að slíkt verði ekki gert nema með lagahreytingu. Einnig er hæstv. forsrh. á móti, að svo verði gert. Það væri sanngjarnt að hafa þetta þannig, að hver bæjarstjórn réði því sjálf, hvort hún hefði húsaleigunefnd eða ekki. N. var sammála um, að embætti skattdómara mætti falla niður, en slíkt er ekki hægt nema með lagabreytingu og samráði við dómsmrn. Þá var n. sammála um að fella niður 5 þús. kr. til nýbyggingarsjóðsnefndar og álítur, að hægt sé að leggja starfssvið hennar undir ríkisskattanefnd, sem þarf hvort eð er að fylgjast með nýbyggingarsjóði. Hvað viðvíkur kostnaðinum af framtalsnefnd þá ætti hagnaður sá, er af eignakönnuninni varð. að geta nægt handa þeim mönnum, sem þar unnu, þótt hann væri ekki mikill Ef allar brtt. meiri hl. n. við 11. gr. yrðu samþ., mundu þær lækka útgjöld af þessari grein um 555360 kr., og yrði þá að gera ráðstafanir til þeirra lagabreyt., sem við þarf.

Í sambandi við 12. gr. má benda á, að fyrirhugað er að leggja niður heilsuhælið í Kaldaðarnesi og að jörðin verði seld. Ætlað er, að fé það, sem fyrir jörðina fæst, sé látið ganga til stofnunar nýs hælis fyrir ofdrykkjumenn, og munu því útgjöldin til hælisins, 50 þús. kr., haldast áfram. 16. brtt. er nýr liður, 100 þús. kr., til heilsuverndar í kaupstöðum, vegna þess að fresta hefur orðið framkvæmd III. kafla laga um almannatryggingar, og var nauðsynlegt að taka það inn í 12. gr. fjárl.

Þá skal komið að þeirri grein, sem mestum útgjöldum veldur, 13. gr. A, um vegamál. 17. brtt. meiri hl. n. hækkar framlagíð um 3.8 millj. og skiptist á 146 vegi í landinu. Þar sem þetta var stærsta breyt., sem gerð var í n., þykir hlýða að gera nánari grein fyrir henni. Sú skoðun kom fram í n., einkum frá hv. 5. þm. Reykv. (SK), að ríkisstj. væri fengi féð óskipt til ráðstöfunar og hún ráðstafaði því síðan. Þá var lagt til, að dregið yrði nokkuð úr framkvæmdum á þessu sviði, við vegi, brýr og þó einkum byggingar, til þess að ríkið tæki ekki þátt í kapphlaupi um vinnuaflið. Meiri hl. n. lítur svo á, að það sé meginskilyrði, að samgöngukerfi þjóðarinnar sé bætt, bæði á landi og sjó, og beri ekki að láta einstök héruð ganga fyrir öðrum um samgöngubæturnar, nema alveg sérstaklega standi á. Þó að sú stefna væri að sumu leyti hagstæð fyrir ríkið að ganga til fulls frá samgöngukerfi þess héraðs, sem byrjað væri á, áður en farið væri að teygja sig til annarra héraða, þá mundi sú stefna beinlínis leiða til þjóðflutninga milli héraða, og meðan ekki er beint farið að skipuleggja slíka flutninga að öðru leyti og flytja fólkið til í landinn, álítur n. rangt að fylgja þeirri stefnu í vegamálunum, sem ég minntist á. Þá hefur komið fram sú skoðun, að hin afskekktari héruð þyrftu ekki lengi að bíða eftir vegum og brúm, þótt vegir og brýr í stærri og þéttbýlli héruðum gengju fyrir í byrjun, síðan kæmi þá að afskekktu héruðunum. En reynslan hefur sannað, að þetta er rangt og afskekktu héruðin þurfa bara að bíða endalaust, því að það hefur komið í ljós, að þau héruð, sem fyrst fengu vegi og brýr, gera alltaf nýjar og auknar kröfur til þessara framkvæmda vegna stækkunar flutningatækjanna og meiri kröfur en þau héruð, sem enga vegi hafa fengið ennþá, svo að afskekktu héruðin fengju aldrei vegi, ef stöðugt ætti að láta kröfur stóru héraðanna ganga fyrir. Vegna stækkunar flutningatækjanna og þessarar þróunar varð að endurbyggja Ölfusárbrú, og sama ástæðan er lögð til grundvallar endurbyggingu Þjórsárbrúar, því að ef þau héruð gerðu sér að góðu þau flutningatæki, sem þessar brýr þola, mundu þær ekki vera endurbyggðar. Það er því ljóst, að ef þannig á að halda áfram, verður það á kostnað þeirra héraða. sem enga vegi og brýr hafa fengið. Væri þeirri stefnu haldið áfram, yrðu ýmis blómleg héruð að bíða svo lengi eftir nauðsynlegum vegum og samgöngubótum, að þau yrðu komin í auðn, áður en samgöngukerfi þeirra væri komið í lag. Hv. 1. landsk. var mótfallinn stefnu þeirri, sem ofan á varð í fjvn., að skipta vegafénu á milli héraða og landshluta, og hann tók það alveg sérstaklega fram, að hann væri á móti því, að byrjað væri á nýjum vegum eða þeir teknir upp í frv. En hækkun til nýrra vega er nú hin sama og á síðustu fjárl.

S.l. ár voru 800 km vega teknir í þjóðvegatölu. Á síðasta ári var unnið í 20 vegum fyrir 685 þús. kr. fram yfir vegafé á fjárl., og lánuðu héruðin þessa upphæð umfram lögboðin framlög vaxtalaust og án þess að vita, hvenær féð fengist endurgreitt, og sýnir þetta betur en nokkuð annað hina knýjandi nauðsyn þessara héraða á samgöngubótum. Í Bitruvegi var unnið fyrir 120 þús. kr. umfram fjárveitingu. Þetta fé var boðið fram heima í héraði, því að héraðsbúum þótti mikið við liggja að ljúka við veginn í fyrra, og varð samkomulag um það við ráðh., að héraðsbúar fengju endurgreidda þessa upphæð af framlagi þessa árs til vegarins. Þá vil ég geta þess, að leiðrétt verður skekkja um Öxnadalsheiðarveg.

Þá kem ég að 18. brtt. n., en samkvæmt henni hækkar framlag til brúargerða um 1.8 millj. kr., úr 1 millj. í 2 millj. og 795 þús. kr. Að þessari hækkun hníga öll sömu rökin og að hækkun vegaframlagsins. S.l. ár voru byggðar brýr fyrir 4 millj. kr. — Með 19. brtt. n. er aftur lagt til, að liðurinn „Til brúasjóðs samkvæmt lögum“ falli niður, en það eru 600 þúsund krónur á frv., svo að ef sú brtt. nær samþykki, verður framlag til brúa á fjárlögum þessa árs alls 2.2 millj. kr., eða heldur lægra en s.l. ár. Æskilegt hefði verið að hafa þetta framlag hærra, það játa ég, og þarf ekki annað en minna á brúargerðir á Þjórsá og Blöndu í því sambandi, framkvæmdir, sem liggja þegar fyrir.

20. brtt. er um bað, að framlag til ræktunarvega í Flatey á Breiðafirði verði hækkað um 5000 kr., eða í 10000 kr. S.I. ár var varið 41) þús. kr. í þessa vegagerð af mikilli og brýnni nauðsyn, og ætla ég ekki að orðlengja um það.

Um 13. gr. B, framlag til flóabátanna, gerði meiri hl. fjvn. enga brtt.

Þá kem ég að 13. gr. C, hafnamálunum, það er VIII. liður, framlag til hafnargerða og lendingabóta. Meiri hl. n. leggur til, að þessi liður hækki í heild um 1.5 millj. og fénu verði úthlutað til hafnarmannvirkja og lendingabóta samkvæmt sundurliðun n. á þskj., það er 21. brtt. Þörfin fyrir lendingabætur er mjög brýn um land allt, og er ekki gerlegt fyrir n. að segja fyrir um það, hvaða staðir skuli ganga fyrir um skjól fyrir fiskibátaflota sinn til að draga úr tjónsáhættunni, það verður hafnarmálaskrifstofan að ákveða nánar. Samkvæmt upplýsingum vitamálastjóra á ríkið ógreitt 3 millj. kr. til lögboðinna hafna á landinu, og eru það ekki færri en rúmlega 20 hafnarsjóðir, sem kröfu eiga á því fé. Fjvn. treystir sér þó ekki til að inna allar þessar greiðslur af hendi á þessu ári. 2 millj. af þessu eru geymslufé, sem ekki hefur verið unnið fyrir, mest vegna þess, að ekki hefur þótt hagkvæmt að hefja framkvæmdir á viðkomandi stöðum fyrr en meira fé væri fyrir hendi en var.

22. brtt. er um það að hækka tillag til hafnarbótasjóðs um 350 þús. kr. Ég vil í þessu sambandi benda á, að n. hefur ekki séð sér fært að ætla væntanlegum landshöfnum í Njarðvíkum og Hornafirði neitt af þessu fé, og til þeirra mannvirkja hefur ekkert verið tekið upp af n., og mun því þurfa að taka lán til þeirra framkvæmda, ef ríkisstj. ætlar að ráðast í þær.

23. brtt. er varðandi flugmálin. Meiri hl. n. leggur til, að kaflinn verði orðaður um, og er það gert í samráði við flugráð ríkisins og ríkisstjórnina. Samkvæmt brtt. n. verður útkoman á þessum lið 485 þús. kr. hagstæðari en samkvæmt frv. sjálfu, og stafar það af því, að tekjurnar af flugvöllunum eru áætlaðar hærri.

Allar brtt. fjvn. til hækkunar á 13. gr. nema 6.5 millj. kr. að frádregnum þeim lækkunum á greininni, sem lagt er til, að samþykktar verði.

Þá kem ég að 14. gr. 24. brtt. n. er um það, að hækka námsstyrki til háskólastúdenta úr 140 þús. kr. í 200 þús. kr. Það er vitanlegt, að stúdentafjöldinn eykst með ári hverju, og ef heildarstyrkupphæðin er ekki hækkuð í samræmi við það, þá lækka styrkirnir á hvern einstakan.

Með 25. brtt. er lagt til að lækka framlag til tilraunastofu háskólans á Keldum um 100 þús. kr. Rætt hefur verið við ríkisstj. um það atriði, og telur hún, að hægt verði að komast af með þetta á þessu ári.

26. till. n. á við B II b, að tekinn verði upp nýr liður, 12 þús. kr., til Elíasar Eyvindssonar læknis, til svæfingarnáms í Ameríku. Eftir að n. hafði kynnt sér, að enginn sérfræðingur er hér á landi í þessari grein, tók hún liðinn upp og væntir þess, að fjárveiting þessi nái fram að ganga.

27. till. er um það að hækka styrk til byggingar barnaskóla um 500 þús. eða upp í 31/2 millj. kr. Allar upplýsingar, sem n. hefur fengið varðandi þetta, hníga þó að því, að þessi upphæð þyrfti að vera miklu hærri. Ríkissjóður skuldar m.a. Reykjavíkurbæ vegna barnaskóla, og ef allt ætti að greiða upp, þyrfti þessi liður mjög að hækka. Ef á að draga úr opinberum byggingum á árinn, hlýtur það m.a. að ganga út yfir byggingar barnaskóla eins og aðrar byggingar, sem krefjast mikils gjaldeyris og draga töluvert vinnuafl frá framleiðslunni. Um þennan lið hefur þó náðst samkomulag milli n. og hæstv. menntmrh., sem vildi fá meira fé í þetta.

Þá er brtt. 28, við 14. gr., en þar er lagt til, að framlag til íþróttasjóðs verði lækkað um 100 þús. kr., úr 700 þús. niður í 600 þús. kr. Út af þessum lið varð ágreiningur í n. Hv. 1. þm. Rang. og 2. þm. N-M. voru mjög á annarri skoðun en meiri hl. n. í þessu máli, en meiri hl. litur svo á, að þessi lækkun sé gerð af sömu nauðsyn og neyðzt er til að veita of lítið fé til barnaskólanna og væntir þess, að till. verði samþ. Hér er síður en svo um neina andúð á íþróttunum að ræða, heldur aðeins illa nauðsyn.

29. brtt. n. er um það, að tekinn verði upp nýr liður, 50 þús. kr. til undirbúnings þátttöku í Ólympíuleikjunum í ár. Þetta er loforð frá síðasta Alþ. Þegar fjvn. var að undirbúa fjárl. í fyrra, bárust henni óskir um 100 þús. kr. fjárveitingu í þessu skyni, og varð það úr að skipta henni á tvö ár, og er þess vænzt, að þetta verði nú samþykkt.

Með 30. Till. n. er framlag til Skáksambands Íslands hækkað um 1400 kr., eða í 3000 kr., sem viðurkenning fyrir að halda uppi heiðri Íslands í skáklistinni, og er þess vænzt, að sú hækkun verði samþykkt.

31. till. er nýr liður og fjallar um að veita Sigursveini Kristinssyni 6000 króna styrk til framhaldsnáms í fiðluleik, en þessi styrkur hefur verið á fjárl. í tvö ár. Sigursveinn er lamaður, en hefur sýnt frábærlega mikið þrek við námið undanfarin ár og komizt langt á tónlistarbrautinni. Það má t.d. nefna það, að hin nýstofnaða symfóníuhljómsveit hefur opinberlega leikið lag eftir þennan unga mann.

Í 32. till. er prentvilla, það sem er innan sviganna, og verður það leiðrétt fyrir 3. umr.

33. brtt. á við A. VII. 33, orðalagsbreyting, að

fyrir orðin „til lesstofa“ komi: til bókasafna. — Ætlazt er til, að 25 þús. kr. af þessari upphæð gangi til bókasafnsbyggingar á Akranesi, sem brann s.l. ár, og er þetta eiginlega loforð.

34. till. er um að verja 10 þús. kr. til útgáfu ritsins „Zoology of Iceland“, og 35. till. um að veita Ara Arnalds, fyrrum bæjarfógeta, 6000 kr. til ritstarfa, einkum til að rita baráttusögu sjálfstæðismáls þjóðarinnar, en hann umgekkst á sínum tíma marga forvígismenn þess og er málunum þaulkunnugur, og þótti rétt að styrkja hann til þessa.

Í sambandi við 36. till. vil ég benda á, þar sem hæstv. menntmrh. er hér viðstaddur, að í frv. er styrkur til leikskólanna í landinu sundurliðaður og honum skipt milli leikskóla Lárusar Pálssonar, Soffíu Guðlaugsdóttur og Jóns Norðfjörðs, og gerir n. engar till. til breyt. á heildarupphæðinni, en henni barst umsókn um styrk frá nýjum leikskóla, leikskóla Ævars Kvarans, og vildi n. ekki dæma á milli þessara skóla eða skipta fénu milli þeirra og ekki veita meira fé til þessara mála og áleit, að það færi bezt á því að gefa það í vald ráðh. að skipta fénu milli skólanna, hvort sem hæstv. ráðh. þykir nokkur fengur í því eða ekki. Eins og kunnugt er, hefur einnig verið veitt fé á fjárlögum til kennslu í framsagnarlist, það eru gamlir liðir, og væri æskilegt, ef ríkisstj. sameinaði þetta allt í einn lið.

Í 37. brtt. n. eru teknir upp tveir menn, sem áður hafa haft styrk á fjárlögum, Páll Kr. Pálsson til tónlistarnáms og Þorsteinn Hannesson til söngnáms, 6000 kr. hvor. Enn fremur er nýr liður 6000 kr. til Þórunnar litlu Jóhannsdóttur samkvæmt ósk hæstv. menntmrh., og var enginn ágreiningur í n. um að styrkja þetta undrabarn til náms í tónlistinni, og loks er 6000 kr. styrkur til Gerðar Helgadóttur, sem leggur stund á myndlistarnám.

Ef allar brtt. við 15. gr. eru samþ., hækka þær alls útgjöld á greininni um 50 þús. kr. Ég kem þá að 16. gr. og vil fara nokkrum orðum um brtt. n. við hana.

38. brtt. n. fer fram á, að styrkur til Búnaðarfélags Íslands lækki um 15 þús. kr., úr 1 millj. niður í 985 þús., en í 39. brtt. er aftur lagt til, að jarðabótastyrkurinn hækki í 3 millj., eða um 1/2 millj. kr., og samkvæmt upplýsingum búnaðarmálastjóra mun það varla nægja til að mæta kröfum þeim, sem bændur eiga á hendur ríkissjóði fyrir unnar jarðabætur.

40. brtt. er um það að láta falla niður 80 þús. kr. til verkfærakaupasjóðs. Það er upplýst frá viðkomandi aðilum, að svo lengi sem þessi upphæð verður ekki hækkuð verulega. þá muni ekki taka því að skipta henni milli allra þeirra mörgu, sem ættu kröfu á að fá styrkinn, og þess vegna er lagt til, að þessi liður sé látinn falla niður.

41. brtt. er um það að lækka framlag vegna framkvæmda II. kafla l. um landnám og nýbyggðir um 1 millj. kr. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt, ef þetta á að verða annað en á pappírnum, að gera hér um lagabreytingu. Þetta er gert í samráði við hæstv. ríkisstj. Mér er ekki kunnugt um, hvort þetta hefur verið gert í samráði við þá stj., sem fer með þessi mál. En samkvæmt vilja ríkisstj. og eftir till. hennar er þessi breyt. gerð.

42. brtt. er um það að taka inn nýjan lið, 310 þús. kr. til þess að mæta þeim réttlátu kröfum, sem bændur eiga til byggingarstyrks eftir gildandi l. um landnám og nýbyggðir. Það er gert ráð fyrir því, að bændur verði látnir ráða því, hvort þeir taka þennan styrk eftir gildandi l. eða eftir ákvæðum nýju l. Það er gert ráð fyrir því, að þetta sé lokagreiðsla.

43. brtt. er um nokkrar fyrirhleðslur, sem ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út i, því að þær skýra sig sjálfar.

44. brtt. er ekki um lækkun eða hækkun á fjárframlagi, heldur er aðeins lagt til að færa til þá fjárveitingu, sem ætluð er til skógræktar, skóggræðslu og friðunar á skóglendi o.fl., þannig að hún nái til skóggræðslu í þjóðgarðinum á Þingvöllum, eftir samkomulagi við Þingvallan. Fjvn. sá ekki neina ástæðu til þess að setja inn sérstaka fjárveitingu samkvæmt ósk formanns Þingvallanefndar, enda má segja, að þessi garður sé einn hluti af skóggræðslu ríkisins, og er gert ráð fyrir, að fullt samkomulag verði um þetta atriði milli skógræktarstjóra og Þingvallanefndar, ef þessi brtt. verður samþ.

45. brtt. er um það að taka inn í frv. 250 þús. kr., það er styrkur til byggingar nýrra mjólkurstöðva. Þetta er samkvæmt l., en hafði fallið niður af frv.

4.6. brtt. er um framlag til vélsmiðju í Hólmi í Landbroti. Þessi liður hafði að vísu staðið áður með annarri upphæð, en nú var samkomulag um að setja hann aftur inn með 10 þús. kr. upphæð.

47. brtt. er um umreiknun á launum eða framlagi til Fiskifélags Íslands vegna lækkunar á vísitölu. Þetta hefur einungis verið reiknað út af stofnuninni sjálfri og ekki ástæða til að efast um, að það hafi verið rétt gert. Hins vegar hefur fjvn. sjálf ekki reiknað þetta.

48. brtt. er um það að fella niður 1.5 millj. kr. af 16. gr. B, það er 5. liður, sem er framlag til Samábyrgðar Íslands samkv. I.ríkisstj. þótti réttara, að þetta yrði fært yfir á 20. gr., og þar sem hér er um að ræða eign ríkisins, þá þykir n. rétt að færa þetta yfir á 20. gr., og leggur til, að þetta sé tekið þar upp.

49. brtt. er um lækkun á launum við stjórn raforkumála. Þegar fjvn. fór í gegnum þau gögn, sem komu frá raforkumálastjóra í sambandi við þetta mál, þá var það ljóst, að mörg af þessum embættum, sem þar hafa verið tekin upp, hafa ekki verið veitt, og gert er ráð fyrir, að það muni ekki verða gert á þessu ári, meðal annars vegna þess, að þeir verkfræðingar mundu varla vera til, sem uppfylla þau skilyrði, sem krafizt yrði við veitingu í þær stöður. Þessi liður er lækkaður, en til jöfnunar því er gert ráð fyrir, að tekjuliðurinn verði hækkaður um 1 þús. kr.

50. brtt. er um, að framlag til virkjunarframkvæmda verði hækkað um 125 millj. kr. og liðurinn orðist svo: Til nýrra raforkuframkvæmda 2.250 þús. kr. Þar af 250 þús. kr. til styrktar dieselvélarafstöðvum 100 hestafla og stærri. Um þetta varð nokkur ágreiningur í fjvn., t.d. var hv. 2. þm. Rang. mjög á móti þeirri athugasemd, sem sett er hér. Hann er út af fyrir sig ekki á móti hækkuninni, nema síður sé, og hann vildi gjarnan hækka þetta meir, en hann er alveg á móti þessari athugasemd, sem ég nefndi. Mér þykir því einmitt ástæða til þess að ræða nokkuð nánar um það atriði vegna þessa ágreinings. Ég er ekki alveg viss um það, að allir hv. þm. hafi gert sér það ljóst, hvernig þessi mál standa. Ég vil leyfa mér að benda á, að í gögnum, sem fjvn. hefur fengið, sem merkt eru fylgiskjal nr. 1, þá er gert ráð fyrir, að stofnkostnaður verði alls um 75 millj. kr. En þegar athugað er, hvert þær 75 millj. kr. eiga að fara, þá er alveg ljóst, að það hefur alls ekki verið hugsað um þarfir allra landsmanna. Hins vegar er alveg ákveðið, að allir landsmenn skuli taka á sig þær byrðar, sem af þessum styrk leiðir. En það er alveg afskorið, að Vesturland og Austurland geti notið hans, heldur er það Reykjavík og nágrenni, sveitir Árnes- og Rangárvallasýslu, og t.d. Dalvík, Svalbarðsströnd o.fl. Á þessu sést bezt, hvernig þessu fé er skipt milli héraða á landinu, því að það er vitað, að einmitt þessir staðir á landinu hafa fengið allt það fé, sem raforkulánasjóður átti, og allar tekjur, sem til þeirra mála hafa runnið. Og svo er gerður ágreiningur um það, að heimilaðar verði 225 þús. kr. til þess að styrkja þá, sem alveg hafa verið utan við þessa fjárveitingu. Ég hef bent hæstv. ráðh. á það, að það er alveg ófrávíkjanleg krafa frá íbúum Vestfjarða, að hann sem ráðh. láti taka upp á þessu ári rannsókn á því, hvernig eigi að leysa þeirra raforkumál í framtíðinni. Það var verið að hugsa um að virkja Dynjanda í Axarfirði, en ég sé ekki annað af þessum plöggum, sem hér liggja fyrir, en að alveg sé horfið frá því. Vesturland mun ekki beygja sig í mörg ár undir það að greiða milljónir króna til þess að lána ríkisstj. til þess að standa straum af veitum víðs vegar um landið, meðan ekkert er séð fyrir hinum öðrum landshlutum, en þeir aðeins látnir bera hlutfallslega kostnaðinn og hlutfallslega ábyrgðina af þeim lánum, sem tekin eru vegna þeirra framkvæmda. Ég vildi láta þetta koma fram frá mér persónulega við afgreiðslu málsins. Mér verða það stór vonbrigði, ef hv. Alþ. samþ. ekki þessa breyt., og ég vil segja mótatkvæðalaust, sem meiri hl. n. leggur hér til, að tekin verði upp í frv.

51. brtt. er einnig um hækkun á styrk til þess að mæta 15 þús. kr. rekstrarhalla, sem þótti rétt að leiðrétta í frv. eða færa til.

Verði allar þessar brtt. fjvn. samþ. á þessari gr., mun útkoman verða 445230 kr.

Þá vil ég ræða nokkuð um 17. gr., og vil ég þá leyfa mér að benda á, að 52. brtt. er ekki rétt orðuð og mun verða tekin aftur, því að það kemur önnur brtt. fram eða er þegar komin, eins og hún á að vera orðuð.

Það hefur orðið samkomulag milli tryggingastofnunarinnar og ríkisstj. að lækka framlag til trygginganna um 1.6 millj. kr. Í fyrstu litum við svo á í fjvn., að hér væri um lækkun á rekstrargjöldum að ræða hjá tryggingastofnuninni, en síðar hefur komið í ljós, að svo er ekki. Hér er ekki um annað að ræða en að teknar eru 1600 þús. kr. af tekjuafgangi síðasta árs, og hefur forstjórinn að nokkru leyti skýrt mér frá því, hvernig í því liggi, að sumpart kemur þetta fram eins og tryggingastofnunin óskaði eftir, að þetta yrði sett í frv. Það eru að sjálfsögðu minni útgjöld fyrir ríkissjóð á þessu ári vegna þessa, en mér skilst, að tryggingastofnunin hafi hugsað sér að hafa þetta fé sem nokkurs konar varasjóð, ef einhver áföll henda. En mér skildist á forstöðumanni tryggingastofnunarinnar í gær, að frá þessu væri ekki gengið. En ég vildi geta þessa við hæstv. ráðh. út af þessum samtölum við hann.

53. brtt. er um það, að bætt er við einu elliheimili og þar með gert ráð fyrir 8 elliheimilum utan Reykjavíkur og 3000 kr. til hvers.

54. brtt. er um 1 þús. kr. hækkun til elliheimilisins á Seyðisfirði.

Í 55. brtt. er lagt til, að veittur sé styrkur til Vorboðans til þess að stækka barnaheimilið. Sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í það.

Í 56. brtt. er lagt til, að veittar verði 200 þús. kr. til endurbyggingar á Sæbjörgu, en þeirri viðgerð mun nú vera lokið. En þeir, sem hafa framkvæmt aðgerðina, hafa ekki viljað sleppa skipinu eða afhenda skipið, nema tryggt væri, að kostnaður allur yrði greiddur. Og það mun ekki vera hægt að fá skipið laust, nema þessar 200 þús. kr. verði greiddar, og þess vegna er lagt til, að þetta verði tekið upp á fjárl. í þetta skipti. Eins og kunnugt er, hefur ríkisstj. leigt þetta skip til 15 ára til björgunarstarfsemi hér við strendur landsins.

57. brtt. er um 2 þús. kr. hækkun til bandalags skáta. Þessi félagsskapur hefur verið þarfur, m.a. verið boðinn og búinn í hvert skipti, sem þarf að leita að fólki. N. sá sér ekki annað fært en að verða að nokkru leyti við óskum þessa félagsskapar. Hins vegar höfðu þeir óskað eftir allmiklu hærri styrk, sem meiri hl. n. sá sér því miður ekki fært að samþ.

Þá er lagt til í 58. brtt., að hækkaður verði styrkur til Kvenréttindafélags Íslands upp í 30 þús. kr. í þetta eina skipti, þar af 15 þús. kr. til þinghalds, sem hugsað er, að fari fram hér í Reykjavík á komandi sumri.

59. brtt. er um lækkun úr 1 millj. kr. í 500 þús. kr. á meðgjöf með börnum erlendra manna, og er þetta gert í samráði við hæstv.ríkisstj., og ég hygg að einhverju leyti einnig með samkomulagi milli hennar og tryggingastofnunarinnar. En samkvæmt því, sem hæstv. ráðh. hefur upplýst, mun mega telja þetta nægja á þessu ári.

Ef allar þessar brtt. n. verða samþ., verður rekstrarhallinn á þessari gr. 1861 þús. kr. hagkvæmari en eftir frv.

60. brtt. er við 18. gr. frv. Meiri hl. fjvn. leggur til, að gr. verði orðuð samkv. brtt., þ.e. að hún verði öll sundurliðuð og tekin upp eins og áður hefur verið, en það hefur ekki verið gert í frv. Af vangá hefur fallið niður nafn Benedikts Sveinssonar fyrrverandi alþm. Svo eru nokkrar aðrar leiðréttingar, sem gerðar verða á sérstöku þskj. fyrir 3. umr. Ég vil geta þess, að þetta er ekki af því, að það hafi ekki verið tilætlun n. að taka þetta með strax, heldur hefur þetta af vangá fallið niður. Öll hækkunin á þessari gr., ef brtt. verða samþ., verður 40 þús. kr. Það kann að vera, að þurfi að gera einhverjar aðrar leiðréttingar fyrir 3. umr. eins og venjulega á þessari gr., og mun það verða athugað.

Meiri hl. fjvn. hefur ekki gert neinar breyt. á 19. gr. En sú gr. er um það, að 55 millj. kr. skuli varið til dýrtíðarráðstafana. Ég hygg, að ekki verði um það deilt, að það verði að vera verkefni núverandi hæstv. ríkisstj. og næsta Alþ. að gera um það einhverjar og sérstakar og aðrar till., þannig að hægt verði að koma þeim málum í annað og skynsamlegra horf, svo að ekki þurfi að standa á næsta fjárlagafrv. 55 millj. kr. til dýrtíðarráðstafana. Það er eitt stærsta vandamál landsmanna, hvernig það verður leyst. Það hefur þegar verið farið inn á þá braut að ábyrgjast framleiðslu landsmanna að meira eða minna leyti, og það er vitanlegt, að til þess þarf stórar fjárfúlgur. Það verður heldur ekki hægt að loka augunum fyrir því, að þessi braut er ófær, hversu skynsamleg sem hún annars kann að vera. Það má segja, að þetta fé sé tekið úr einum vasa og sett í annan, enda er ekki hægt að skilja sundur möguleika ríkissjóð og möguleika þegnanna nema að litlu leyti. Æskilegt væri að annar háttur yrði á þessu í framtíðinni.

Við 20. gr. liggja fyrir brtt., sem miða til verulegrar lækkunar. Fyrst er 61. brtt., að framlagið til ríkisspítalanna verði lækkað um 170 þús. kr. Þetta er gert í samráði við hæstv. ríkisstj. og með nákvæmlega sömu forsendum og ég minntist á í sambandi við barnaskólana, og gildir það hér í raun og veru um flesta eða alla liði, sem till. eru um, að lækkaðir verði á 20. gr.

Þá er lagt til, að framlagið til byggingar fávitahælis lækki niður í 200 þús. kr. úr 600 þús. kr., sem það er á fjárl. Og einnig er lagt til, að orðin „í Kópavogi“, falli niður, er það vegna þess, að ekki þykir rétt á þessu stigi málsins að ákveða, að hælið skuli byggt þar. Ég hygg, að umr. um þetta standi á milli hæstv. ríkisstj. og þeirra umboðsmanna Oddfellowreglunnar, sem ráða yfir þeirri vátryggingarupphæð, sem fékkst fyrir gamla spítalann að Laugarnesi, sem brann eins og kunnugt er, að þessu fé verði varið til byggingar fávitahælis, ef það verður byggt á þeim stað, sem þeir geta fellt sig við. Þessi lækkun mun stafa af því, að nokkur vissa mun vera fyrir því að fá þarna nokkurt fé til þessarar byggingar. En þessir umboðsmenn Oddfellowreglunnar vilja tryggja það, að sjúklingar, sem nú búa á. Kópavogshælinu, liði ekki við það á nokkurn hátt, og þykir þess vegna rétt að gera þessa breytingu.

Þá er lagt til að lækka framlag til menntaskólans í Reykjavík um 250 þús. kr. og til byggingar þjóðminjasafns um 1 millj. kr., en gefa aftur heimild til þess á 22. gr. að taka lán til þess að halda áfram þeirri byggingu, ef hæstv. ríkisstj. sýnist það vera ráðlegt. Þá er einnig lagt hér til, að framlagið til byggingar bændaskólans í Skálholti sé lækkað úr 1675000 kr. niður í 250 þús. kr.

Ég vil í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda á, að í frv., sem lagt var fram fyrst, mál nr. 50, voru teknar upp til byggingar bændaskólans í Skálholti 250 þús. kr. Þessari upphæð er nú haldið samkv. till. meiri hl. fjvn. En í síðara frv., sem hæstv. fjmrh. lagði fram, mál nr. 129, er gert ráð fyrir, að þetta framlag sé 1675000 kr. og þar af endurveiting 1425000 kr. Meiri hl. fjvn. leit svo á, að ekki sé þörf að taka upp þessa fyrrnefndu upphæð, 1425 þús. kr., til endurveitingar. Þetta fé hefur verið veitt. Það getur varla heyrt til öðrum flokki en þeim, sem heitir óeytt fé, sem veitt hefur verið til verklegra framkvæmda. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að skýra frá því, að hæstv. samgmrh. mætti hjá fjvn. og óskaði eftir því að fá úrskurð n. um þetta, hvernig hún liti almennt á þetta, hvort nauðsynlegt væri að taka í fjárlfrv, allar þær fjárhæðir, sem veittar hafa verið áður til verklegra framkvæmda í landinu vegna brúa, hafna o.fl., þar sem óskað hafði verið eftir því frá ríkisstj., að þetta fé yrði ekki greitt út, a.m.k. að því er snertir árið 1947. Fjhn. hefur gert um þetta einróma ályktun, þar sem tekið er fram, að hún líti svo á, að þetta fé sé eign viðkomandi aðila, sem eigi að geymast á þeirra nafni, og þurfi því ekki að taka það upp í frv. sem endurveitingu. Mun þessi ályktun verða send til hæstv. ráðh. næstu daga. Einnig með tilliti til þessa sér n. ekki ástæðu til þess að taka upp þessa endurveitingu fyrir Skálholtsskóla.

Þá er lagt til að fella niður liðinn um bygging tollstöðvarhúss í Reykjavík, sem er 500 þús. kr. Það er leitt að þurfa að fella þennan lið niður, en að vísu er þetta á valdi hæstv. ríkisstj., þannig að hún getur veitt fé til þessa, ef fé er til þess í ríkiskassanum, meðal annars vegna þess, að þessi bygging er í sjálfu sér eitt undirstöðuatriðið undir því, að hægt sé ekki einungis að starfrækja þessa miklu og mannmörgu stofnun, heldur að hægt sé, að taka þetta allt fastari tökum og þar með hægt að spara fé, sem annars fer í kostnað vegna þeirra óþæginda, sem þessi stofnun verður því miður að þola, vegna þess að hún er allt of mikið á hrakhólum. En eins og sakir standa hefur samt sem áður verið lagt til, að þetta verði fellt niður, einkum með tilliti til þess, að það er á valdi stj. á hverjum tíma, hvernig hún hagar greiðslum skv. 20. gr.

Þá er lagt til í 67. lið, að minnkaður sé um helming kostnaður við skólastjórabústað á Reykjum í Ölfusi, en lagt er til, a'ð tekið sé upp í gr. til útihúsa á prestssetrum kr. 100000 og til byggingar sjómannaskóla kr. 850000. Það eru fjölmörg prestssetur, sem engin útihús eru á, og hefur það sjálfsagt staðið í vegi fyrir því, að hægt væri að fá presta í sveitir, en þetta fé nær sjálfsagt skammt til þess að uppfylla allar þær þarfir. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að það lá fyrir n. að leggja til, að fé yrði veitt til byggingar útihúsa á Staðarfelli. N. sá sér ekki fært að taka þetta upp, en vildi beina því til ráðh., hvort ekki væru möguleikar á því að nota eitthvað af þeim kr. 300000, sem ætlaðar eru til bygginga á jörðum ríkisins, til þessa. Ef það er ekki hægt, verður að gera ráðstafanir til þess að afla fjár til þess að byggja upp, ef ekki er ætlazt til, að jörðin bókstaflega fari í eyði. En nú má vera, að hægt sé að nota eitthvað af þessum 300000 kr. til þess að byggja upp, en n. vildi ekki hafa afskipti af málinu.

Ef allar till. fjvn. verða samþ., munu raunverulegar lækkanir á 20. gr. verða kr. 2224 þús. Þá skal ég fara nokkrum orðum um brtt. við 22. gr.

N. hefur lagt til, að tekinn verði upp nýr liður, kr. 5000 til húsmæðraskólans á Hallormsstað fyrir að kenna kennslukonuefnum vefnað. Þetta hefur verið greitt í mörg ár, og væntir n. þess, að það verði ekki fellt niður nú.

N. leggur til, að greiddar séu 30 þús. kr. til fyrirhleðslu í Miðskálaá. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að það er á misskilningi byggt, að þetta sé gegn jafnmiklu framlagi annars staðar frá, og verður þessu breytt fyrir 3. umr.

Þá leggur n. til, að greitt sé til Gunnlaugs Ó. Schevings listmálara og til Gunnlaugs Blöndals listmálara kr. 15 þús. til hvors í byggingarstyrk, og er þetta endurveiting. Síðan er lagt til að greiða kr. 15 þús. í byggingarstyrk til Nínu Tryggvadóttur listmálara.

Þá er lagt til að greiða kr. 400 þús. til ferjuhafna. Þetta var í fyrra tekið upp á 13. gr., en nú varð ekki samkomulag um það, en hins vegar var rætt um þetta við hæstv. ráðh., og taldi hann sér nauðsynlegt að fá þessa heimild, til þess að hægt væri að halda áfram byrjuðum byggingum, og er þar átt við Hvalfjörð, Melgraseyri og ef til vill Gemlufall.

Þá er till. um það að heimila að verja allt að 200 þús. kr. til Miðnesvegar. Þessi vegur er ekki í þjóðvegatölu nema með sérstaklega velviljaðri lögskýringu, því að það stendur, að það sé vegurinn milli Keflavíkur og Sandgerðis, en sá vegur liggur út á nesið. Hér er um að ræða veg, sem mundi geta sparað mörg hundruð þús. vegna þess, hvað hann er styttri.

Þá er skv. ósk menntmrh. heimilað að kaupa blaða- og bókasafn Helga Tryggvasonar bókbindara, ef samkomulag næst. Það liggur ekki fyrir, hve mikið þetta eigi að kosta, en heyrt hef ég, að verðið muni vera um kr. 135 þús. N. hefur ekkert um það sagt, að fé skuli veitt til þessa, og veit ég ekki, hvað verður, ef um er að ræða tugi þúsunda. Ég minnist þess, að þetta kom til n. á síðasta ári, en fjvn. vildi þá ekki fallast á kaupin.

Þá er heimild til þess að veita allt að einni milljón til byggingar Þjórsárbrúar. Þetta er með tilliti til þess, að raunverulega var hugsað að setja eina milljón á 13. gr. til byggingar Þjórsárbrúar. Það náðist samkomulag um, að veittar yrðu kr. 300 þús. gegn heimild á þessari gr.

Þá er till. um að greiða til byggingar sjómannaheimilis í Vestmannaeyjum allt að 100 þús. Þetta er frá fyrra árs fjárl. Enn fremur kr. 80 þús. á Akranesi með sömu skilyrðum.

N. þótti einnig rétt að taka upp heimild til að selja strandferðaskipið Súðina, ef kaupandi fengist, til þess að ekkí þyrfti að leita sérstakrar heimildar til þess að selja skipið.

Um 71. brtt. vil ég segja það, að sú brtl. verður tekin aftur til 3. umr., vegna þess að það þarf að athuga orðalagið á henni. Þar stendur: Fyrir orðið „stofnlánadeildarláni“ kemur: 1. veðréttarláni. En það getur vel átt sér stað, að 1. veðréttarlán verði ekki eins hátt og hugsað var að stofnlánadeildarlánið yrði. Þess vegna kemur til mála að breyta þessu í 1. og 2. veðréttarlán, þó ekki yfir það, sem stofnlánadeildin lánar skv. l.

Þá er 73. brtt. um það að greiða slysavarnardeild Rauðasandshrepps allt að 100 þús. kr. úr ríkissjóði í viðurkenningarskyni fyrir frábært afrek við björgun skipbrotsmanna úr sjávarháska. Skal fénu varið til vegabóta í hreppnum eftir ákvörðun deildarinnar. Um þetta var enginn ágreiningur innan n., og vil ég vænta þess, að þetta verði leyft og að heimildin verði notuð.

74. brtt. er um það, að eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af loðdýrum falli niður. N. vildi ekki fallast á að gefa þá heimild.

75. brtt. er um það að fresta fjárframlögum til framkvæmda, sem ekki eru bundnar í öðrum lögum en fjárl., ef atvinnuástandið í landinu eða fjárhagur ríkisins gerir það nauðsynlegt. Þetta er sams konar ákvæði og áður hefur verið í fjárl. Það kynni að vera, að ráðh. vildi einhverju breyta í þessari gr., og ef svo er, þá ræðir hann það við fjvn. fyrir 3. umr.

Ég held að þessar heimildir allar muni nema um 1220 þús. kr. á 22. gr. Nokkuð af því eru endurveitingar, en flestar upphæðirnar eru nýjar heimildir.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um sjóðsyfirlitið. N. hefur rætt við ráðh. um öflun tekna, því að eins og sést á rekstraryfirlitinu er um rekstrarhalla að ræða. Kvaðst hann mundu athuga það fyrir 3. umr., og mun stj. þá afla sér heimilda til tekjuöflunar, ef nauðsyn krefur, áður en endanlega er gengið frá afgreiðslu fjárl.

Hér kemur þá yfirlit yfir þær breyt., sem meiri hl. n. leggur til, að gerðar verði.

Hækkun tekna í 3. gr.

kr.

857800

Þar frá dregst:

Hækkun gjalda í 3. gr.

320000

Tekjuhækkun

kr.

537800

Hækkun gjalda alls

kr.

7249055

- lækkun gjalda alls

3302684

Gjaldahækkun alls

kr.

3946371

Eignabreytingar verða lækkun útborgana samkv.

20. gr., 2224 þús. kr.

Ef till. n. verða samþykktar, munu niður-

stöður fjárlagafrv. verða á þessa leið:

Tekjur

kr.

216411150

Gjöld

kr.

220462158

Rekstrarhalli .

4051008

Kr. 220462158

Kr.

220462158

Sjóðsyfirlitið kemur til með að líta þannig út:

Útborganir

kr.

246390283

Innborganir

218217250

Greiðslujöfnuður

kr.

28173033

Undir þetta nál. hefur ritað allur meiri hl. fjvn. án fyrirvara, og standa þeir allir að þessum till. og vonast til, að þær verði samþykktar.

Ég vil svo að síðustu leyfa mér að benda á, að bæði hæstv. ráðh., þm. og allri þjóðinni munu finnast þessi fjárl. ískyggilega há, en þá ber að gæta að því, að löggjöf síðustu ára hefur beinzt mjög að því, að ríkisvaldið hefur miklu meiri afskipti af framkvæmdum en áður og einnig að beina framkvæmdum og viðskiptum til þeirra aðila í landinu, sem hafa meiri sérréttindi í skattgreiðslum og meiri fríðindi í ábyrgðum en nokkru sinni áður. Af þessu hlýtur að leiða það, að tekjur ríkissjóðs hljóta að minnka að sama skapi. Ég skal benda á það, að ef allur togararekstur kæmist í bæjarútgerð, þá mundi ríkissjóður tapa beint öllum þeim tekjum, sem hann fær í skatta af útgerðinni, svo að ég bendi á eitt atriði. Ég skal benda á löggjöf síðustu ára, m.a. um stofnlánadeildina. Allt stefnir í þá átt að draga úr einstaklingsrekstrinum. Það eru gerðar meiri kröfur um ábyrgð á ríkissjóðinn, og um leið tekur hann við minna. Mér þykir rétt að láta þetta koma fram, þegar rætt er um það, hvers vegna útgjöld ríkissjóðs hækka svo mikið á hverju ári.

Ég lýk þá máli mínu og vil óska, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 3. umr.