11.03.1948
Sameinað þing: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. minni hl. (Ásmundur Sigurðason):

Herra forseti. Það mun vera frekar sjaldgæft, að fjárlög séu ekki afgreidd fyrr en liðinn er 1/4 hluti þess árs, sem þau eiga að gilda fyrir. Þetta var svo að vísu s.l. ár, en stafaði af því, að frá því í október og þar til í febrúar sat aðeins „fungerandi“ stjórn í landinu. Hins vegar er því ekki til að dreifa um núv. ríkisstjórn, sem tók við 4. febr. í fyrra og hafði því nægan tíma til að undirbúa fjárlög. Þegar mánuður var liðinn af þessu þingi, kom svo fjárlagafrv., sem svo brátt var lagt á hilluna, að sögn vegna dýrtíðarlaganna, og var þá samið nýtt frv. og fjvn. kölluð saman 6. jan. til þess að vinna að undirbúningi frv., sem leggja átti fyrir strax eftir jólaleyfi þingmanna, eða 20. jan. s.l. En það kom ljós, þegar n. kom saman, að litið var fyrir hana að gera, því að ófengið var samkomulag innan ríkisstj. um svo þýðingarmikil atriði, að n. sá sig knúða til að bíða eftir því. Þannig stóðu svo málin þangað til um síðustu mánaðamót, og þá voru vinnubrögðin þannig, að frv. var afgr. í n. á þrem sólarhringum, og vil ég segja, að þetta sé eindæma flaustursleg afgreiðsla. Þetta tel ég rétt, að komi fram, án þess að ég með því sé að ásaka meiri hl. n. eða form. hennar, því að nauðsynlegt þótti að taka tillit til vilja ríkisstj., en það, hve lengi stóð á, að samkomulag fengist innan hennar, olli því, að viðhöfð voru þessi óforsvaranlegu vinnubrögð. Þessi stjórn hefur nú setið rúmt ár, en fyrrv. stjórn sat rúmlega tvö ár. Sú stjórn fékk harðar árásir frá þáv. stjórnarandstöðu, sem aðallega voru byggðar á því, að stjórninni var kennt um, að hún sóaði gálauslega fé ríkissjóðs og að hún væri fjandsamleg einum þætti atvinnulífsins, landbúnaðinum. Við stjórnarskiptin kom svo stjórnarandstöðuflokkurinn í stjórn, og hefði þá mátt búast við stefnubreytingu, en til þess að átta sig á því, hvort stefnubreyting hafi orðið, þá er rétt að bera saman fjárlög þriggja síðustu ára, því að í fjárl. á hverjum tíma er fólgin stefna stjórnarinnar í þjóðmálunum í heild. Til þess að gera þetta ljóst bendi ég á nokkrar staðreyndir úr fjárl. þriggja síðustu ára, og sé ég ekki betur en að nokkur stefnubreyting hafi orðið, þótt hún hafi ekki orðið á þann veg, sem búast mátti við eftir árásum fyrrv. stjórnarandstöðu. Stefnubreytingin hefur orðið í þveröfuga átt. Ég leyfi mér að benda á, að verklegar framkvæmdir og framlög hins opinbera til þeirra er höfuðatriðið, er snertir atvinnulíf þjóðarinnar, svo að venjulega eru það hörðustu deilumálin. En hvernig hafa framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda verið þrjú s.l. ár? Það er þannig varðandi vegamál, að árið 1946 var varið 7 millj. kr. í nýja vegi, árið 1947 6.5 millj., en á fjárlagafrv. ríkisstj. 1948 er þessi upphæð áætluð 3 millj. kr. Hér er því um stefnubreytingu að ræða að spara fé til þessara hluta. Þetta var þó lagfært þannig í n., að meiri hl. leggur til að hækka þetta upp í 6.8 millj. og styður minni hl. þá till., og ég tek það fram, að ég tel víst, að það hafa ekki sízt verið þessi og því lík atriði, sem hafa valdið því, hve lengi dróst að ná samkomulagi milli ríkisstj. og meiri hl. n. Um fjárveifingar til brúa er það að segja, að árið 1946 var upphæðin 2.4 millj., árið 1947 2.8 millj., en árið 1948 1.6 millj. eins og frv. var lagt fyrir, og er þetta svo mikil lækkun, að fullkomin stefnubreyting má kallast, en þetta var einnig leiðrétt í n. Hvað snertir þriðja aðallið verklegra framkvæmda, sem er hafnargerðir og lendingabætur, þá er framlagið 4 millj. og 400 þús. árið 1946, 6 millj. og 336 þús. árið 1947, en árið 1948 er þessi upphæð komin ofan í 3 millj. á fjárlagafrv. ríkisstj. Hér er því enn um stefnubreytingu að ræða, en eins og hinir liðirnir hefur þetta verið lagfært í meðförum n. að nokkru, þannig að meiri hl. n. leggur til, að ég hygg með samþykki ríkisstj., að hækka framlagið upp í 5 millj., en á þetta gátum við í minni hl. ekki fallizt, að upphæðin yrði lægri en á fjárl. síðasta árs, því að öllum er kunnug hin mikla nauðsyn þess að fá fleiri og betri hafnir, þegar skipafloti landsmanna hefur aukizt svo gífurlega sem raun ber vitni. Viðvíkjandi 4. liðnum, sem eru skólabyggingar, þá var það þannig 1946, að til nýrra skóla, barnaskóla, gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla, því að þá voru nýju skólalögin ekki gengin í gildi, þá var varið til þessara skólabygginga 4.2 millj. kr., árið 1947 eftir gildistöku nýju skólalaganna var upphæðin 9.3 millj., en er nú snarlega lækkað niður í 5.8 millj., og hefur hæstv. menntmrh. lýst yfir, að hann fallist á þetta, þótt hann teldi það nokkuð litið. Hvað barnaskólana eina snertir, þá er nú verið að byggja 21 barnaskólahús, og samkvæmt áætlun fræðslumálastjóra um nauðsynleg framlög til þessara bygginga, þá telur hann þurfa rúmlega 7 millj. kr., og sér þá hver maður, hvað 5.8 millj. segja sem framlag til allra skólabygginga í landinu. Því höfum við í minni hl. borið fram brtt. um þennan lið, og mun ég gera grein fyrir henni síðar. Ég veit, að það verður sagt sem rök á móti því að hækka þennan lið, að ekki sé til fé, og er það í samræmi við þau ummæli, sem oft heyrast hér í hv. Alþingi og annars staðar um, að Alþingi hafi verið ógætið við afgreiðslu margra kostnaðarsamra laga. Ég hygg þá, að fáir þm. vilji benda á einhver sérstök lög, sem átt hefðu að vera út undan, að minnsta kosti held ég, að erfitt mundi að fá samkomulag um að feila nokkur þeirra úr gildi, en viðvíkjandi því, að fjármagn sé ekki fyrir hendi, þá liggur það ljóst fyrir, að fé virðist ekki skorta til að hækka liði svo sem rekstrarkostnað ríkisins og utanríkisþjónustuna og fleira þess háttar. Til þess að gera þetta ljóst geri ég samanburð á 10. gr., er snertir rekstrargjöld ríkisins og gjöld til stjórnar utanríkismálanna. 1946 er fjárveitingin 3 millj. 699 þús., 1947 4 millj. og 302 þús., en nú er upphæðin komin upp í 5 millj. og 22 þús. Með öðrum orðum, þessi þáttur hefur nú verið áætlaður 720 þús. kr. hærri en 1947 og hvorki meira né minna en 1 millj. og 323 þús. kr. hærri en árið 1946. Hér er því einni.g stefnubreyting, en ekki til sparnaðar eins og varðandi verklegar framkvæmdir, heldur þvert á móti, og þykir mér raunar einkennilegt, að sömu mennirnir sem réðust á fyrrv. stjórn og ásökuðu hana um eyðslusemi, skuli taka þetta gott og gilt. Á 11. gr., sem er um dómgæzlu, lögreglustjórn, opinbert eftirlit, innheimtu tolla og skatta o.s.frv., er hækkunin ekki minni, og lítur samanburður þriggja síðustu ára svo út: Árið 1946 var kostnaðurinn 12 millj. og 616 þús., 1947 14 milljónir 224 þús., en er nú áætlaður 17 milljónir og 3 þús. kr. Það hefur því gerzt á tveim árum, að þessir liðir hafa hækkað talsvert á 5. milljón kr., eða um 2 millj. 779 þús. frá 1947 og um hvorki meira né minna en 4 millj. og 387 þús. kr. frá 1946. Hér er því um verulega stefnubreytingu að ræða, en þveröfuga við það að skera niður framlög til verklegra framkvæmda, og þetta er eitt aðalatriðið, sem olli því, að samkomulag gat ekki fengizt í fjvn. Og á sama tíma og skorið er verulega niður framlag til verklegra framkvæmda, hækka rekstrarútgjöld ríkissjóðs að sama skapi. Síðan eftirlit var hafið með viðskiptum landsmanna og verðlagi, hafa verið áætlaðar 2 millj. kr. til rekstrar skömmtunarskrifstofu ríkisins. Svo hefur það verið venjan, að þessar kostnaðaráætlanir hafa farið helming fram úr áætlun, og má reikna með, að kostnaður við þessar viðskiptastofnanir fari upp í 4 millj. kr., þegar öll kurl koma til grafar.

Hv. frsm. meiri hl. taldi, að margt hefði verið áætlað of lágt af n. í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. spari. Ég er nú ekki trúaður á það. Í sambandi við þetta get ég ekki stillt mig um að lofa hv. þm. að heyra nokkur orð úr bæklingi um þetta, sem gefinn var út af stjórnarandstöðu fyrrv. ríkisstj., þar sem er talið, að eyðslan hafi verið mest á árinu 1946, og síðan kemur kafli, sem heitir: Í hverju er óstjórnin fólgin? Þar segir svo:

„Rekstrarkostnaður þjóðarbúsins eykst hröðum skrefum. Laun stórhækka. Störfum er fjölgað með ýmsum hætti, bæði utan lands og innan. Alls stofnaði fyrrv. stjórn um 50 nefndir með nær 200 mönnum. (Sbr. Til minnis við kjörborðið 1946, bls. 63). Á síðasta ári hefur ríkið heimt kr. 1520 af hverjum landsmanni, að börnum og gamalmennum meðtöldum. Ríflegustu tekjustofnarnir eru ótraustir. Þeir eru tekjur af verzluninni, sem hafa verið gífurlegar, meðan verið var að eyða gjaldeyrinum, og taumlausri áfengissölu. Nam gróðinn af henni einni á síðasta ári kr. 38.3 millj.

Meðan Framsfl. fór með fjármálin (1935–'39) átti stjórnarandstaðan — Sjálfstfl. — aldrei nógsamlega sterk orð til að hrakyrða þáv. fjmrh. — Eystein Jónsson — fyrir það, að 9–10% af tekjum ríkissjóðs á þeim árum var af áfengissölu, og í kosningum var það oft aðalárásarefnið. Sjálfir hafa þeir nú tvöfaldað þetta, eins og eftirfarandi skýrsla sannar.“

Ég tek gjarnan fram, að í tíð fyrrv. ríkisstj. hefur orðið nokkur vöxtur á útgjöldum ríkissjóðs, en útgjöldin hafa vaxið mikið síðan og vaxa nú hraðari skrefum en nokkru sinni fyrr. Ég skal nú koma að brtt., sem við í minni hl. flytjum við frv. og prentaðar eru á þskj. 467.

Fyrsta brtt. okkar fjallar um það, að við leggjum til að tekju- og eignarskattur verði áætlaður 43 millj. kr. í stað 40 millj. kr. Í sambandi við þetta má geta þess, að tekjuskatturinn 1948 er lagður á tekjur ársins 1947, en tekjuskattur ársins 1947 á tekjur 1946. Tekjur manna á árinu 1947 hafa reynzt fullt eins miklar og á árinu 1946, og er því ástæða til þess að ætla, að þessi hækkun geti staðizt. Þá er 2. brtt. um, að áætlaður vörumagnstollur verði hækkaður úr 18 millj. kr. í 20 millj. kr., eins og meiri hl. fjvn. leggur til, að hann sé áætlaður. Þessi tollur nam á tímabilinu jan.–des. 1947 23.5 millj., og teljum við því réttmætt að áætla þennan tekjustofn 20 millj. kr.

Þriðja brtt. fjallar um áætlaðan verðtoll. Meiri hl. n. áætlar hann 60 millj. kr., en s.l. ár nam hann 72.25 millj. Kom þó tollahækkun sú, sem gerð var á síðasta þingi, ekki til framkvæmda fyrr en nokkuð var komið fram á árið og var því allmikið af þeim vörum, sem til landsins fluttust, miklu lægra tollað en nú. Má telja nokkurn veginn víst, að þessi tekjustofn verði að minnsta kosti 70 millj. og að öllum líkindum hærri.

Þá leggjum við enn fremur til, að áætlaðar tekjur af rekstri tóbakseinkasölu ríkisins verði hækkaðar úr 17.5 millj. samkv. frv. í 19.5 millj. kr. S.l. ár námu tekjur tóbakseinkasölunnar 20 millj. kr., og er því ekki óvarlegt að hækka þennan tekjustofn um 2 millj. kr. fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í till. meiri hl. fjvn. Samtals leggjum við því til, að tekjur ríkisins verði áætlaðar 17 millj. kr. hærri en frv. gerir ráð fyrir og meiri hl. n. vill halda sér við.

Þá skal ég víkja að gjöldunum. við 12. gr. frv. leggjum við fram þá brtt., að styrkur til læknisbústaða og sjúkraskýla verði hækkaður úr kr. 800 þús. í 1 millj. kr. Það hefur verið mjög erfitt að fá unga lækna til þess að setjast að úti á landi og gegna héraðslæknisstörfum fyrir þær sakir, að engir eða mjög ófullkomnir læknisbústaðir hafa þar verið fyrir. Ber því brýna nauðsyn til að hraða byggingum slíkra bústaða og sjúkraskýla hvað mest má, og virðist vart mega gera ráð fyrir lægri upphæð til þessara framkvæmda en 1 millj. kr. á þessu ári, svo að viðunandi megi teljast.

Við 13. gr. frv. berum við fram 2 brtt. Er hin fyrri um að hækka fjárveitingu til viðhalds þjóðvegum um tvær millj., úr 9 millj. upp í 11 millj., sem áreiðanlega er það minnsta, sem þörfin krefur. S.l. ár reyndist þessi liður enn þá hærri, og vegamálastjóri telur, að óhugsandi sé að komast af með þá upphæð, sem í frv. er. Með því að áætla upphæð þessa aðeins 9 millj. er því annaðhvort að því stefnt að rýra viðhaldið og láta vegakerfi landsins, sem byggt hefur verið fyrir ærið fé, drabbast niður eða greiða verður allmikla upphæð utan allrar heimildar í fjárl., sem í alla staði verður að teljast óheilbrigt.

Síðari brtt. okkar við þessa gr. er um að hækka framlag til hafnargerða og lendingabóta úr 3.5 millj., sem frv. gerir ráð fyrir, í 6.5 millj., sem er svipuð upphæð og s.l. ár. Fiskiskipaflotinn hefur vaxið svo hin síðari ár, að við teljum í alla staði ófært að draga úr fjárframlögum til hafnarframkvæmda. Verði till. okkar samþ., ætlumst við til, að skipting á þessari fjárhæð verði gerð af fjvn. á milli 2. og 3. umr.

Við 14. gr. flytjum við þrjár brtt. Er hin fyrsta um að hækka styrk til nýrra barnaskólabygginga úr 3 millj., sem frv. gerir ráð fyrir, í 4.5 millj. Samkvæmt skýrslu fræðslumálastjóra eru nú í smíðum 27 barnaskólabyggingar, og þyrfti framlag ríkissjóðs til þeirra að verða rúmar 7 millj. á þessu ári. Auk þess telur fræðslumálastjóri óhjákvæmilegt að hefja byggingu nokkurra nýrra skólahúsa. Við flytjum því þessa brtt. um hækkun á þessum lið.

Til gagnfræða- og héraðsskóla eru ætlaðar á frv. 2 millj. kr., og vill meiri hl. n. halda þeirri upphæð. Á síðustu fjárlögum var þessi upphæð 4.25 millj. kr. Við teljum þessa lækkun alveg óeðlilega og leggjum til, að þessi upphæð verði svipuð og 1947.

Þá leggjum við enn fremur til, að framlög til íþróttasjóðs verði 1 millj. kr. eins og á síðustu fjárlögum í stað 700 þús. kr., sem er í frv. Meiri hl. mun hins vegar leggja til, að þessi upphæð verði lækkuð í 600 þús. kr.

Við 16. gr. frv. flytjum við fram till. um nokkrar hækkanir, og eru þessar helztar:

Til fiskimálasjóðs leggjum við til, að tekinn verði upp nýr liður, að upphæð 1 millj. kr. Samkv. 1. um fiskimálasjóð eru honum ætluð mjög víðtæk verkefni, að styðja að hvers konar eflingu sjávarútvegsins, markaðsöflun o.fl., og mun sízt veita af þessari fjárhæð, ef starfsemi hans á að ná fullum tilgangi.

Til nýrra raforkuframkvæmda leggjum við til, að veittar verði 4 millj. kr. og skuli helming þeirrar upphæðar varið til lána til dieselstöðva utan þess svæðis, sem rafveitur ríkisins ná yfir. Enn sem komið er hefur fé það, sem ríkið hefur lagt fram til raforkuframkvæmda, eingöngu farið í það að byggja ákveðnar veitur, sem verða til mjög mikilla hagsbóta fyrir íbúa þeirra héraða, sem þeirra njóta. Hins vegar eru mörg önnur héruð, sérstaklega ýmsir bæir og þorp á Austfjörðum og Vestfjörðum, sem eru að byggja dieselrafstöðvar af eigin rammleik án nokkurrar aðstoðar af hálfu hins opinbera nemaríkisábyrgðar. Þessum aðilum teljum við sjálfsagt að hjálpa með lánum.

Þá leggjum við til, að við 16. gr. verði tekinn upp nýr liður til bygginga á Hafursá, 50 þús. kr. Á Hafursá er gert ráð fyrir, að rekin verði tilraunastarfsemi á sviði landbúnaðarins, en þar vantar tilfinnanlega aukið fé til þess að bæta úr útihúsum, sem eru mjög léleg. Einnig leggjum við til, að framlag til vélasjóðs verði hækkað um 200 þús. kr., en þess er brýn nauðsyn, að vélakostur við landbúnaðarstörf verði aukinn sem mest má.

Við 17. gr. flytjum við þá brtt., að framlag til íbúðarhúsabygginga samkv. III. kafla l. nr. 44 7. maí 1946 verði 1 millj. kr. í stað 400 þús. kr., sem frv. gerir ráð fyrir. Áður en ég tala um sjálfa till., vil ég rekja að nokkru gang þessara mála frá árinu 1936 og til þessa dags. Árið 1936 höfðu verið samþ. l. hér á Alþ. um nýbyggðir og samvinnubyggðir. Þar var gert ráð fyrir heimild til þess að stofna til byggðahverfa og til þess ætlað fé á fjárlögum þetta sama ár.

En þetta urðu aldrei annað en pappírslög, og það var aldrei ákveðið, hve mikið fé skyldi veitt. Árið 1941 ætlaði svo Alþ. að sinna málinu að nokkru, og voru þá samþ. l. um landnám ríkisins. En það voru aðeins heimildarlög án fjárveitingar. Árið 1946 voru svo loks samþ. l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í. sveitum, og var þá í fyrsta sinn gengið inn á. það á Alþ. að veita ákveðna upphæð á fjárlögum til þessa, — til þess að byggja þessi l. á. föstum grundvelli. Um þetta segir í fyrrnefndum bæklingi á bls. 36, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt mál gat Framsfl. barið í gegn: frv. um ræktunar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum landsins. Og í lögunum um landnám og nýbyggðir er tekið tillit til frv. flokksins um breyt. á l. um byggingar- og landnámssjóð, og raunar byggt á eldri löggjöf, sem Framsfl. setti. á sínum tíma.“

En er l. hafa nú staðið í eitt ár og rétt nýbyrjað að framkvæma þau, þá á nú að fara að draga úr fjárveitingum þeim, sem ætlaðar eru samkv. gildandi 1., og nú á að afnema 2/5 hluta þess fjár, sem ætlað var til þessa. Og þegar nú. einu sinni er gengið inn á svona meðferð slíkar lækkanir, — þá má búast við, að haldið' verði áfram á sömu braut. Yfirstjórn þessara mála, nýbýlastjórn, var kosin 1947 og hefst handa haustið 1947. En þá kemur í ljós, að framlag til þessara framkvæmda fæst ekki nema að 2/5 hlutum miðað við það, sem áður var ákveðið. Það er því þegar verið að miða að því að gera þessi l. að pappírslögum sem hin fyrri. Annars er þetta fjárframlag samkv. l., og er vart hægt að fella það niður nema með lagabreytingu. Það hefur nokkuð verið rætt hér á meðal þm., að von væri á slíkum frv. frá hæstv. ríkisstj., að fresta framgangi ýmissa mála. Slík frv. hafa verið nefnd. „bandormar“. Ef nú er von á einum slíkum „bandormi“ í sambandi við frestun á framkvæmd þessara l., þá er það nú til fullmikils ætlazt af hv. þm., að þeir samþ. slíka skerðingu sem þessa nú við 2. umr. fjárl., ef það er rétt, að ekki sé nein stoð í l. til þess. Í sambandi við þetta má minna á það, að fyrrv. stjórnarandstöðuflokkur, Framsfl., deildi mjög hart á fyrrv. ríkisstj. fyrir það, að hún sinnti ekki nóg þörfum landbúnaðarins. Má minna á, að þessi flokkur telur ekki færri en 11 lög í bæklingi þeim., sem flokkurinn kallar: Eyðslustjórn, er hann telur, að eigi þátt í hinni miklu eyðslu. Ein þessara l. eru l. um nýbyggðir og landnám. Mætti nú ætla, að hv. Framsfl. láti þetta mál að nokkru til sín taka. En nú er það eitt atriði í till. meiri hl. að fella þetta niður í samræmi við vilja stj.

Þá höfum við flutt till. um, að við 16. gr. komi nýr liður: til fiskimálasjóðs 1 millj. kr. Eins og kunnugt er, hefur fiskimálasjóður geysilega víðtæk verkefni, en skortir fjármagn. Fyrir fjvn. lá bréf frá hlutaðeigandi aðilum um fjárframlag.

Þá er brtt. við 16. gr. varðandi raforkuframkvæmdir, þess efnis, að til nýrra raforkuframkvæmda sé varið 4 millj. kr., þar af 2 millj. kr. lán til dieselrafstöðva yfir 100 hö., sem byggðar eru utan þess svæðis, sem rafveitur ríkisins ná yfir. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að búið er að leggja mikið fé fram til raforkuframkvæmda, eins og líka hv. frsm. meiri hl. benti á, en það er bundið við takmörkuð svæði, og önnur svæði á Austurlandi og Vesturlandi hafa orðið út undan með aðstoð. Þar eru fjöldamargir staðir, er brjótast í að byggja sér dieselrafstöðvar, er samþ. eru af raforkumálastjóra, en þeir fá engan stuðning frá því opinbera og verða að afla sér lánsfjár sjálfir með háum vöxtum. Það er því ekki of mikið að áætla 2 millj. kr. með skaplegum vöxtum í þessu skyni.

Þá er brtt. við 17. gr. um að hækka framlagið til íbúðarhúsabygginga úr 400000 í 1 millj. kr. Enn hefur ekki tekizt að útrýma heilsuspillandi íbúðum, og nægir ekki að áætla minna en 1 millj. kr., ef l., er sett voru um þessi mál, eiga að ná tilgangi sínum.

Þá er loks till. um það, að til byggingar sjómannaskóla í Reykjavík verði veitt 1 millj. kr. Húsið er nú langt komið, og full ástæða er til að ljúka við það, en það mun fullnægja þörfinni í þessum efnum um langan aldur.

Ég hef þá lokið við að geta þeirra brtt., sem minni hl. flytur. Ég vil taka það fram, að aðalágreiningurinn var ekki sá, að við værum ósammála öllum brtt. meiri hl. n. Við munum greiða allmörgum þeirra atkv., þótt við séum á móti sumum. Ástæðan til þess, að ekki gat orðið samkomulag um sameiginlegt nál., er sú stefnubreyting, er kemur fram í frv., frá því sem áður var. Framlög til verklegra framkvæmda eru lækkuð, jafnframt því sem útgjöldin hækka í rekstrarkerfi ríkisins, eins og ég hef sýnt fram á. Ég mun svo ekki orðlengja þetta frekar nú, en tek ef til vill til máls síðar, ef tilefni gefst til.