12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

129. mál, fjárlög 1948

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram hér nokkrar brtt. við frv. til fjárl., sem hér liggur fyrir, og sumpart brtt. við brtt. frá hv. meiri hl. fjvn. á þskj. 461.

Fyrsta brtt., sem ég flyt, er við 12. gr. frv., sem er um framlag til fjórðungssjúkrahúss á Akureyri. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hversu það er nauðsynleg framkvæmd, sem þarna er á ferðinni, bygging þessa sjúkrahúss. Það hefur áður verið rætt við Alþ., hversu mikil nauðsyn væri að koma upp þessu sjúkrahúsi, þar sem sjúkrahúsið, sem nú er til á Akureyri, er orðið gamalt og úrelt, farið að fúna og ganga úr sér. En til Akureyrar sækja sjúkir menn langt að af landinu. Og á þeim rökum byggðist það, að hægt var þannig að byggja þetta fjórðungssjúkrahús, sem staðið hefur yfir í tvö ár, og er sú bygging ekki nærri búin enn þá. Þó að þetta stórhýsi sé svo langt komið, að það sé að komast undir þak, þá verður að hugsa fyrir því, að hægt sé að halda áfram þessari byggingu, svo að hún geti komizt sem allra fyrst í notkun til þess að bæta úr þeirri vöntun, sem er á sjúkrarúmum á Akureyri, bæði fyrir Akureyri sjálfa og þá landshluta aðra og sveitir, sem leita sér lækninga þangað. Í frv. er gert ráð fyrir því, að veittur sé aðeins 300 þús. kr. styrkur til þessarar byggingar á yfirstandandi ári. Hins vegar mun landlæknir hafa mælt með því við hv. fjvn., að til þessara framkvæmda yrði varið einni millj. kr., og hef ég tekið það upp í aðalbrtt., en hins vegar hef ég flutt sem varatill., að 500 þús. kr. yrðu veittar til sjúkrahússins á Akureyri á þessum fjárl. Og ég vænti þess, að ekki verði gengið skemmra í fjárveitingu en hér er farið fram á. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, að eins og stendur, eða um síðustu áramót, þá var búið að verja í þessa byggingu rétt um tveim millj. kr., þar af lagt fram úr ríkissjóði 1100 þús. kr. En eins og hv. þm. vita, ber ríkissjóði að leggja í þessa byggingu 3/5 kostnaðar, og ætti ríkissjóður þess vegna að vera þegar búinn að greiða til þessarar byggingar 1200 þús. kr. Eftir þessu stendur upp á ríkissjóð að greiða um síðustu áramót um 90 þús. kr. Byggingarstjórn sjúkrahússins hefur nú þegar tryggt sér fjárfestingarleyfi hjá fjárhagsráði fyrir 1300 þús. kr. á þessu ári. Og það er alveg vist, að fyrir það fé verður unnið, svo framarlega sem ekki stendur upp á ríkið að greiða að sínum hluta, og mundi sá hluti, sem ríkissjóður ætti að greiða, vera 780 þús. kr. Og þegar þar við bætist sú skuld, sem ég hef áður skýrt frá, 90 þús. kr. af því fé, sem búið var að vinna fyrir um síðustu áramót, þá verður það samtals 870 þús. kr., sem ríkissjóður ætti að leggja fram á þessu ári, til þess að hægt væri að nota fjárfestingarleyfið að fullu, þessar 1300000 kr. Það er að vísu aðeins lægra en brtt. mín gerir ráð fyrir, en ég fór fram á þetta vegna þess, að ég hélt, að byggingin hefði kostað meira. En þetta sýnir þó, að þótt gengið yrði inn á varatill., 500 þús. kr., þá vantar verulega á, að ríkissjóður mundi standa í skilum með sína 3/5 hluta kostnaðar, sem honum ber að leggja í þessa byggingu l. samkvæmt. Ég vona þess vegna, að hæstv. Alþ. vilji ekki nú leggja stein í götu þess, að hægt sé að halda áfram þessum mjög nauðsynlegu framkvæmdum, og gangi a.m.k. inn á að samþ. varatill., sem er um það að veita 500 þús. kr. í þessar framkvæmdir.

Þá hef ég einnig flutt brtt. við brtt. meiri hl. hv. n. á þskj. 461, um framlag til Öxnadalsheiðarvegar. Mér kemur það dálítið undarlega fyrir sjónir, að í brtt. hv. meiri hl. n. er lagt til, að veittar verði 500 þús. kr. til Öxnadalsheiðarvegar. Er það allmiklu minna en veitt hefur verið á undanförnum árum til þessa vegar. Mér þykir það ákaflega undarlegt, að þetta skuli vera lækkað þannig, en hitt er enn undarlegra, að eftir brtt. n., sem útbýtt hefur verið, leggur meiri hl. n. til, að þetta framlag verði lækkað og ekki verði veitt til þessa vegar nema 400 þús. kr.

Mér hefur nú skilizt, og held ég, að ég megi fullyrða það, að það hafi verið falið sjálfsagt, og ég held ég muni það rétt, að vegamálastjóri hafi haldið mjög þeirri kenningu fram, að nauðsynlegt væri að leggja nú um skeið — það hefur verið gert nokkuð að því á undanförnum árum — megináherzlu á það að ljúka nokkrum aðalvegum, sem tengi saman helztu héruð landsins og mest umferð er á. Og verður ekki annað sagt um leiðina frá Akranesi til Akureyrar en að þar er hin mesta umferð. Og nú er nýbúið að ljúka við þýðingarmikinn kafla á þeirri leið, sem er vegurinn yfir Hafnarfjall, og tengja þannig saman þessa aðalleið milli Norðurlands og Suðurlands. En þó er ettir talsvert langur og erfiður kafli á þessari leið, sem er í Norðurárdalnum, yfir Öxnadalsheiði. Ég tel það alveg sjálfsagt, að þegar búið er nú að ljúka við einn af verstu köflunum á þessari leið og ekki þarf að eyða fé í hann lengur, að þá sé ekki lækkað framlagið til þessara vega, heldur verði tekinn fyrir annar stór og erfiður kafli og veitt ríflega til hans, unz því verki er lokið, og það á sem skemmstum tíma. En í þess stað er þetta framlag skorið niður til mikilla muna frá því, sem verið hefur á síðustu árum, og það hefur verið lækkað mjög mikið niður fyrir það, sem vegamálastjóri hefur lagt til, að veitt væri til þessa kafla vegarins. Og það ætti ekki að vera eins erfitt að leggja fram fé til þessa vegar, þar sem búið er að ljúka þeim köflum, sem fjárfrekastir hafa verið á undanförnum árum, t.d. eins og veginum yfir Siglufjarðarskarð og Lágheiðarveginum til Ólafsfjarðar. Það verður ekki annað sagt en að nú sé tækifæri til þess að leggja meiri áherzlu á þennan kafla en áður hefur verið, svo að hægt verði að ljúka á sem skemmstum tíma við veginn milli höfuðstaðar landsins og höfuðstaðar Norðurlands. Og ef til vill er hægt að tryggja það með því að byggja góðan veg yfir Öxnadalsheiði, að vegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar verði fær allan veturinn eða allt árið um kring. Af þessum ástæðum er ég dálítið undrandi yfir þeirri afstöðu, sem hv. meiri hl. fjvn. hefur tekið um þetta, og að hún skuli leggja svo litla áherzlu á þennan veg og lækka framlagið til hans svona mikið frá því, sem verið hefur. Ég get þess vegna ekki stillt mig um að bera fram brtt. um það. Og ég legg til, að í staðinn fyrir þær 500 þús. kr., sem fjvn. virðist hafa ætlazt til í fyrstu, en hún síðar hefur lækkað niður í 400 þús. kr., komi 750 þús. kr. til þessa vegar, og mætti þá kannske segja, að það væri svipuð fjárveiting og verið hefur til hinna stærri vega, og væri þá hægt að ljúka á einu ári, 1949, að ganga þannig frá vegum á þessari aðalleið landsins, að hún gæti talizt sæmilega fær allt árið um kring. Ég trúi því í raun og veru varla fyrr en ég tek á, að hv. þm. vilji ekki halda þeirri stefnu, sem á undanförnum árum hefur gilt um þetta, og leggja áherzlu á að fullgera eldri vegi.

Þá flyt ég hér 3. brtt., sem er einnig við brtt. hv. meiri hl. fjvn. á þskj. 461, varðandi fjárframlag til hafnarmannvirkja, þ.e.a.s. framlag til hafnargerðar á Akureyri. Ég held, að það hljóti að byggjast á einhverjum misskilningi eða ekki nægilegri þekkingu á þörf Akureyrarkaupstaðar og þeim fyrirætlunum, sem uppi eru á Akureyri um framkvæmd að hafnarmannvirkjum, að hv. fjvn. hefur ekki ætlað til þeirra mála af hálfu ríkisins nema einar 15 þús. kr. Og hefur n. þannig sett Akureyrarkaupstað að miklum mun skör lægra en allmargar hafnir aðrar, sem að vísu hafa með höndum veigamiklar hafnarframkvæmdir, og þurfa þær vafalaust að halda á því fé, sem þeim er ætlað samkv. till. hv. fjvn., og sennilega miklu meira. En ég býst þó við, að þær hafnir komi ekki til með að hafa meiri framkvæmdir með höndum en Akureyri þarf að hafa og að mínu áliti hlýtur að gera nú á þessu ári og næsta ári. Bæjarstjórn Akureyrar hefur sótt um til fjvn. og Alþ. 800 þús. kr. til hafnarframkvæmda á þessu ári, og hefur hún gert fyrir því þá grein, að bærinn þurfi að endurbyggja aðalhafskipabryggjuna, sem þar er, Torfunesbryggjuna, sem er orðin mjög gömul, og hafa komið í ljós mjög alvarlegar bilanir, þannig að augljóst er, að ekki verður hjá því komizt lengi að endurbyggja þá bryggju, auk þess sem hún er of lítil fyrir skipaafgreiðslu, sem þar fer fram, og þarf því að breikka hana verulega til þess að fá meira pláss við bryggjuna og meira dýpi við hana fyrir skip, sem nú eru farin að flytja vörur þangað og munu gera hér eftir. Jafnframt þessu er alveg óhjákvæmilegt að byggja dráttarbraut á Akureyri til þess að fullnægja þeirri þörf, sem á því er að geta tekið upp á Norðurlandi þau skip, sem stunda þaðan veiðar. Og hafa sömuleiðis verið gerðar áætlanir um byggingu og tekin ákvörðun um það að hefjast handa á þessu ári og ljúka þeirri dráttarbrautarbyggingu á tveimur árum, þessu ári og næsta ári. Áætlanir um þetta hefur vitamálaskrifstofan gert og telur, að þurfi 1.5 millj. kr. Um endurbyggingu hafskipabryggjunnar hefur sama skrifstofa gert áætlanir og telur, að muni þurfa til þess 2 millj. kr., þannig að þær framkvæmdir, sem Akureyrarkaupstaður þarf að hafa með höndum á þessu ári eða næsta ári, eru áætlaðar upp á 3.5 millj. kr., eða ef því væri skipt á tvö árin, þá væru það 1750 þús. kr., sem þyrfti að vinna fyrir hvort árið um sig. Og 2/3 hluta af því ber ríkissjóði að leggja fram samkvæmt hinum almennu hafnarl. Nú hef ég heyrt það, að rök hv. fjvn. fyrir þessari ákvörðun sinni, að veita aðeins 75 þús. kr. til hafnargerðar á Akureyri, byggðust á því, að Akureyrarkaupstaður ætti innistæðu hjá ríkinu af fyrri fjárveitingu, sem ekki hefði verið unnið fyrir, og sú innistæða væri svo mikil, að ekki væri ástæða til þess að bæta við það vegna þess, að ekki yrði unnið fyrir það allt á þessu ári. Eins og ég hef þegar sýnt fram á, eru líkur til, að unnið verði það mikið að hafnargerð Akureyrar á þessu og næsta ári, að framlag úr ríkissjóði ætti á hverju ári um sig að vera um 100 þús. kr. — 230 þús. kr. mun innistæðan vera, og þyrfti að veita 470 þús. kr. á þessu ári til þess að mæta framlagi ríkissjóðs til þessara fyrirhuguðu framkvæmda. Nú er mér kunnugt um, að á ýmsum fleiri stöðum stendur þannig á, að ríkissjóður er á eftir tímanum með sitt lögboðna framlag, þannig að þótt ekki yrðu veittar þessar 470 þús. kr., þá yrði það að vísu sambærilegt við ýmsar aðrar hafnir að því leyti, að ríkissjóður er langt á ettir. En svona rök vil ég ekki taka gild fyrir því, að ekki sé veitt til Akureyrar upphæð, sem sé sambærileg við aðrar hafnir, sem svipaðar framkvæmdir hafa á prjónunum. Og því hef ég lagt til, að Akureyri verði sett í flokk með 6 eða 7 stöðum öðrum, sem lagt er til, að fái 250 þús. kr. hver, fyrir utan einn þeirra, sem er Akranes, sem gert er ráð fyrir, að fái 350 þús. kr. Ég hefði viljað geta sætzt á það, að Akureyri yrði tekin í flokk með hinum 7 stöðum og fengi 250 þús. kr., og hef ég leyft mér að flytja brtt. um það. Ég held, að þessi afstaða hv. fjvn. sé byggð á því, að henni hafi ekki verið nægilega kunnugt um þær framkvæmdir, sem standa fyrir dyrum í hafnarmálum Akureyrarkaupstaðar. Og ég vildi því mælast til þess við hv. form. fjvn. og frsm. n., að hann vildi taka brtt. til athugunar á ný milli 2. og 3. umr., og mundi ég þá taka þessa till. aftur til 3. umr., ef einhver von væri til þess, að hún yrði tekin til frekari athugunar, því að ég veit ekki, á hverju það ætti að byggjast, þegar jafnstór og þýðingarmikill staður sem Akureyri er, þar sem fiskiskip af öllu Norðurlandi verða iðulega að leita hafnar, vegna þess að skilyrði fyrir þau eru ekki nægileg annars staðar, þegar slíkir staðir hafa ákveðið svo miklar framkvæmdir eins og fyrir liggur, að Akureyri hefur gert, að þá skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri fjárveitingu en raun ber vitni í till. hv. fjvn. Ég fæ ekki skilið, að Akureyri skuli vera sett miklu lægra, hvað fjárveitingu snertir, en þeir aðrir 6 eða 7 staðir, sem n. leggur til, að veittar verði til 250 þús. kr.

Þá er hér loks brtt., sem ég hef flutt hér á þskj. 484 um það, að inn í kaflann um framlög til nýrra akvega verði tekinn nýr liður til þess að breyta þjóðveginum fyrir norðan Akureyri og brúa Glerá, 100 þús. kr. Það hefur nokkuð lengi verið talað um það fyrir norðan, og hafa farið fram viðræður við vegamálastjóra um það, að nauðsyn væri að breyta legu þjóðvegarins fyrir norðan Akureyri vegna þess, hve hún væri óheppileg, og þá alveg sérstaklega kaflanum innan við Glerá og brúnni, sem á henni er. En brúin er þarna niðri í djúpu gili, og eru mjög krappar beygjur báðum megin. Auk þess er vegurinn mjög hlykkjóttur, bæði norðan við brúna og eins sunnan við hana. Og gatan, sem komið er eftir inn í bæinn, Brekkugatan, er mjög óheppileg vegna þess, hve hún er þröng og erfið aðstaða til þess að breikka hana, enda ekki ætlazt til þess eftir skipulagi bæjarins, heldur er ætlazt til þess, að vegurinn liggi um Gleráreyrarnar og inn í Glerárgötuna, sem ætlazt er til, að verði breið umferðargata. En þessi lega vegarins veldur því, að umferð teppist iðulega þarna á veturna, vegna þess að snjór sezt í gilið, sem brúin er í, og á ýmsa aðra staði á veginum þarna. Og hafa verið miklar umr. um að breyta þessari legu vegarins og leggja hann gegnum Glerárþorp og byggja nýja brú á Glerá á þeim stað, þar sem nú er aðeins göngubrú yfir ána, sem sameinar Glerárþorp og Akureyrarbæ. Það hefur verið gerð áætlun um kostnað af því að breyta þannig legu vegarins og byggja nýja brú. Sú áætlun hefur verið gerð af Akureyrarbæ og endurskoðuð af verkfræðingi vegamálastjóra, Árna Pálssyni. Áætlunin mun vera upp á 400 þús. kr., bæði til þess að byggja brúna og breyta veginum á þessum kafla. Nú hefur hv. fjvn. hins vegar ekki tekið upp neinar till. í þessu efni, sem er kannske varla að vænta, vegna þess að ég veit ekki, hvort þetta hefur komið fram á þann hátt. Ég veit ekki, hvort bréf bæjarstjórnarinnar hefur legið fyrir fjvn. En ég hef leyft mér að flytja brtt. um, að 100 þús. kr. verði teknar upp í þessu skyni, eða einn fjórði partur af því, sem áætlað er, að þetta kosti, og mundi slík fjárveiting geta orðið til þess, að þessi framkvæmd yrði hafin og henni þá lokið á næstu árum, eftir því sem fé yrði veitt til þess frekar á fjárl. fram yfir þessa upphæð, sem hér er farið fram á. Ég held, að ekki verði um það deilt, að mjög mikil samgöngubót yrði að því að gera þessa breyt., ekki aðeins vegna þess, að með þessu yrðu betri tengsli á milli Glerárþorps, sem er orðið allfjölmennt þorp, og Akureyrarbæjar, heldur vegna þess, að það mundi mjög mikið greiða úr þeim samgönguerfiðleikum, sem þarna eru á vetrum, og líka greiða mikið fyrir fólksflutningum, sem fara fram á þessari leið. En þarna norðan Akureyrar og út með Eyjafirði er víðáttumikil sveit, sem hefur mikla mjólkurframleiðslu, og þaðan er flutt mjólkin til Akureyrar. Ég held, að það séu 7 eða 8 hreppar, sem þurfa að flytja mjólk til bæjarins þá leið. Og það mundi greiða mjög mikið fyrir þeim mjólkurflutningum, et veginum yrði breytt á þennan hátt og komizt alveg fram hjá þeim erfiðleikum, sem stafa af snjóþyngslum á þessum kafla vegarins.

Ég held, að ég hafi þá gert grein fyrir þeim fjórum brtt., sem ég hef hér flutt. En ég vil aðeins endurtaka það, að mér væri alveg sérstök þökk á því varðandi till. um hafnargerð á Akureyri, að hv. fjvn. vildi taka það mál til nánari athugunar, áður en 3. umr. fjárl. fer fram.