12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

129. mál, fjárlög 1948

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef ekki flutt neinar brtt. við fjárlagafrv. nú við þessa umr. og ætla mér nú ekki að fara að hefja hér neinar almennar umr. um frv. og brtt. hv. fjvn. En ekki að síður þykir mér ástæða til að segja hér nokkur orð, og þá fyrst um eina brtt. hv. meiri hl. fjvn., sem er á þskj. 461. En það er 41. brtt. þar, sem fjallar um það að fella niður einnar millj. kr. fjárveitingu af lögbundnu framlagi til nýbýla og byggðahverfa, eins og það er ákveðið í l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum frá 1946. Ég skal taka það fram, að það hefur ekki verið leitað samkomulags um þessa brtt. við nýbýlastjórn ríkisins eða framkvæmdastjóra hennar. Og ég tel fyrir mitt leyti og hygg, að það sé einnig svo um mína samnefndarmenn, að meðan í fjárl. ríkisins er jafnmikið af fjárframlögum til ónauðsynlegrar eyðslu eins og enn er, þá beri ekki að byrja sparnaðarniðurskurð á því að höggva þarna niður og stoppa þær framkvæmdir, sem áformaðar hafa verið á þessu sviði og nauðsynlegar eru á komandi árum. Einn samstarfsmaður minn, hv. 1. þm. Skagf., búnaðarmálastjórinn, talaði nýlega um þessi mál í útvarpsræðu og gat þess, sem við vitum allir, að ástæðurnar til þess — varðandi ákvæði l. um nýbýli og samvinnubyggðir eða þann hlutann, sem er um byggðahverfi og er í l. frá 1936 og eins í l. frá 1941, — að engar framkvæmdir höfðu verið hafnar í þeim efnum, voru einungis þær, að ekkert fé hafði verið til þess veitt. Nú er fyrst með þessum lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum frá 1946 ákveðið að veita 21/2 millj. kr. á ári í 10 ár, í fyrsta sinn 1947. Og mér þykir í sjálfu sér nokkuð hart, að hv. meiri hl. fjvn. skuli telja þessa upphæð þá fjárhæð í fjárl., sem fyrst beri að ráðast á. Auk þess er þess að geta, að í sjálfu sér er náttúrlega ekki hugsanlegt, að þetta hafi verulega þýðingu, nema viðkomandi l. sé breytt, því að ákvæði þeirra eru mjög skýr um það, að það eigi að leggja þetta fé fram. Nú í dag hefur að vísu líka verið lagt fram í Ed. frv. um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga, en samkvæmt því frv., eins og það er orðað, er ætlazt til þess að taka eina millj. kr. af framlagi til byggingarsjóðs, sem þessi l. eru um. Það mun að vísu vera villa í því frv., sennilega af óaðgæzlu. — En ég vil leyfa mér að fara fram á það við hv. form. og frsm. fjvn., að hann taki þennan 41. tölul. brtt. aftur til 3. umr., þar til séð kynni að verða, hvort þessi ákvæði í frv. í hv. Ed. til breyt. á þessu ákvæði ná fram að ganga.

Varðandi þau mál, sem mér standa næst sem þm., snertandi mitt hérað um samgöngubætur og hafnarbætur og annað, sem ég óskaði eftir, að lagt yrði fram fé til á fjárl., þá er mér náttúrlega ljóst, að hv. fjvn., sem hefur takmarkaða fjárhæð til að skipta og hlutfallslega lægri en oft áður, er í miklum vanda stödd viðkomandi skiptingu á því fé. Get ég verið henni þakklátur fyrir ýmsar hennar till., að því leyti sem hún hefur tekið mínar óskir meira eða minna til greina. En ég vil segja, að í því sambandi eru tvö nauðsynjamál, sem mér þykir eiginlega það lítið fé veitt til, að ég er nokkuð óánægður með það, þó að ég hafi ekki flutt brtt. um það við þessa umr. Annars vegar er það Skagastrandarvegur, sem full nauðsyn er á að geta klárað, og hins vegar Blöndubrúin. Ég mun taka eftir því, hvernig verður afgr. á fjárlagafrv. við lok þessarar umr. og einnig taka eftir brtt., sem fram koma við 3. umr., og athuga eftir því, hvort ég tel líklegt til árangurs að bera fram brtt. um þessi atriði.

Loks vil ég svo víkja að einni brtt. frá hv. meiri hl. fjvn., sem er síðasta brtt. á þskj. nr. 461, nr. 75, um frestun á framkvæmdum, ef fjárskortur verður hjá ríkissjóði, og um geymslu á því fé, sem ætlað er samkv. fjárl. til þessara framkvæmda, sem þar er um að ræða. Þessi brtt. er að því leyti til nokkuð óljóst orðuð, að það er ekki tekið fram í henni, sem einhver ágreiningur mun vera um, hvort það sé ekki ætlun fjvn., að það fé, sem veitt hefur verið á fjárl., en ekki hefur verið eytt, vegna þess að það hafa ekki verið veittar nægilega háar fjárveitingar á undanförnum tveimur til þremur árum til vega- og lendingarbóta, — hvort það sé ekki ætlunin, að það fé sé geymt áfram, þangað til hægt er af ástæðum varðandi vinnukraft og efni að ráðast í þær framkvæmdir, sem féð hefur verið veitt til. Ég vænti þess, að hv. frsm. meiri hl. fjvn. svari því síðar, áður en þessari umr. er lokið, og greini þá nánar frá, hvort það sé ekki meining hv. fjvn., sem að vísu tekur sig nokkuð greinilega út í brtt., sem n. hefur gert varðandi Skálholtsskóla, sem tekinn var upp endurflutningur á fjárveitingu til. En þetta atriði skiptir mjög miklu máli um ýmsar þær framkvæmdir, sem hafa verið veittar tiltöluleg litlar upphæðir til á undanförnum tveimur árum, og það litlar, að þess vegna hefur ekki verið hægt að hefja framkvæmdir.

Að öðru leyti ætla ég að leiða hjá mér að ræða þau mál, sem hér liggja fyrir í sambandi við fjárlagafrv., ef ekki gefst frekara tilefni til.