12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af fsp. frá hv. þm. A-Húnv. og út af bréfi, sem fjvn. hefur borizt í dag um þetta atriði, vildi ég óska eftir því, að hæstv. forseti sæi um það, að hæstv. fjmrh. og hæstv. atvmrh. yrðu við þessa umr., því að ég sé mér ekki fært að slíta minni ræðu í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrr en fengin er hrein yfirlýsing frá hæstv. ráðh. um þetta mál, því að þetta er svo stórkostlegt atriði fyrir heil héruð landsins og einstaka þm., að ég vil ekki að slitið sé 2. umr. um fjárl., fyrr en viðkomandi ráðh. hafa fengizt til að gefa hreina og skýra yfirlýsingu um þetta. Hins vegar vil ég nota tækifærið til að svara ýmsum athugasemdum, sem komið hafa fram við fjárl. og till. frá fjvn., en það eru ekki margir af þeim mönnum hér viðstaddir, sem borið hafa fram þær athugasemdir. Ég verð þá að tala hér yfir tómum stólum, og taka þá einhverjir að sér að flytja þeim svörin. Ég skal þá, meðan ég býð eftir hæstv. ríkisstj., snúa mér nokkuð hér að minni hl. og því áliti, sem hann gefur hér út með þeim till., sem liggja fyrir. Ég vil í sambandi við nál. á þskj. 466 leyfa mér að benda á og mótmæla þeim fullyrðingum, sem hér eru færðar fram í 2. málsgr., að þær brtt., sem gerðar eru, séu eftir beinni skipun ríkisstj. Ég hygg nú, að þetta sé komið hér inn af misskilningi, en ef svo er ekki, þá er það komið af öðrum lakari hvötum, því að það er hreinn misskilningur, að frá ríkisstj. hafi til fjvn. komið nein fyrirskipun, enda hefði hún ekki tekið við slíkum fyrirskipunum, og vil ég vísa til afgreiðslu þeirra mála, þegar eitt skipti átti að gera tilraun til að gera slíka fyrirskipun. Ég hélt, að meðnm. mínum væru svo í fersku minni þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar af minni hálfu sem form. n., að þeir hefðu ekki ástæðu til að bera mér á brýn, að ég tæki á móti skipunum frá hæstv. ríkisstj. eða öðrum í sambandi við afgreiðslu málsins. Hitt er annað atriði, að sá hluti fjvn., sem styður hæstv. ríkisstj., hefur fulla samvinnu við hana um afgreiðslu málsins og hefur verið tekið fullkomlega tillit til vilja hennar í þeim málum og orðið að hafa þar um samvinnu, slaka til og gefa eftir, eins og gerist við afgreiðslu mála þingsins, ekki sízt afgreiðslu fjárl. Minni hl. vill einmitt láta afgreiðslu fjvn. ganga svo seint vegna þess, að meiri hl. vill ekki taka við þeirri fyrirskipun, sem hér er tekin fram í nál., og hefur verið rætt um það á mörgum fundum ríkisstj. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram. Ég hef líka tekið fram í framsöguræðu minni, að þetta var gert samkv. ósk ríkisstj., sem er allt annað atriði.

Ég ætla að geyma mér að ræða um fyrstu 4 brtt. frá minni hl. á þskj. 467. ég sé að hæstv. ráðh. er að koma. Veit hæstv. forseti, hvort vegamrh. og samgmrh. koma? (Forseti: Ég hef gert ráðstafanir til þess, að þeir yrðu hér viðstaddir.) Þá er bezt ég snúi mér beint að ræðu hæstv. fjmrh. Ég get talað við frsm. minni hl. síðar í minni ræðu.

Hæstv. fjmrh. sagði í gær, að hann væri ekki að öllu leyti sammála mér, eftir því sem mín skoðun kom fram í framsögu um fjárl. Ég veit ekki hvað hann á við nema það atriði, sem ég hef skrifað niður og vildi aðeins fara nokkrum orðum um. Hann sagði um þau atriði, sem ég minntist á, að það þyrfti að betrumbæta þau, eins og m.a. fiskiðjuverið o.fl. Ég vil í þessu sambandi til að fyrirbyggja misskilning taka það fram, að ég er hvorki að ásaka fyrrv. ríkisstj. né núv. stjórn um það, að fiskiðjuverið hafi verið byggt, en fiskiðjuverið hefur verið byggt á mjög vafasömum heimildum, og þarf ekki annað en vísa til laganna um fiskimálan., þess kafla, sem ræðir um þetta atriði, og mun hæstv. ráðh. geta fullvissað sig um, að heimildin þar er vafasöm. Málið liggur þannig fyrir, að fyrrv. sjútvmrh. tekur fé, sem greitt er út með sérstakri lagaheimild til fiskimálan., sem hún á að verja til styrktar einstökum aðilum í landinu, einstaklingum eða félögum, til að koma upp frystihúsum m.a. og fiskiðjuverum, og einnig átti að styrkja till., sem fram kom um tilraun um nýtízku togara, samkvæmt þessum fyrirmælum. Fiskimálan. má einnig sjálf gera þessar tilraunir. Það er á þessari heimild sem fyrrv. sjútvmrh. leyfði fiskimálan. að ráðast í 8 millj. kr. fyrirtæki. Nú er það, eins og ég segi, ákaflega vafasamt, hvort hægt er að verja 8 millj. kr. úr ríkissjóði samkvæmt þessari gr. Ég hygg, að það lengsta, sem hægt er að færa undir þessi ákvæði án þess að brjóta l., væri, að fiskimálan. notaði eingöngu sitt eigið fé til þessara ráðstafana og færi ekki þar einni krónu fram yfir. Fiskimálan. tekur að byggja fiskiðjuver fyrir nærri 8 millj. kr. og tekur til þess lán hjá stofnlánadeildinni, sem engin heimild er fyrir, að megi lána slíkum fyrirtækjum, því að þar er ríkissjóður að lána sjálfum sér, og notar þess utan alla aðra sjóði, sem þeir geta fengið lán hjá, einnig Landsbanka Íslands. Ríkissjóður gengur sjálfur svo í ábyrgð fyrir þessum lánum. Nú hefur hæstv. sjútvmrh. með bréfi losað fiskimálasjóð undan þessari ábyrgð, og þar liggur galdurinn frá mínu sjónarmiði. Með öðrum orðum, fiskimálasjóður er ekki lengur ábyrgur fyrir hvorki byggingunni né rekstrinum. Nú hefur hæstv. ráðh. með bréfi um þetta einmitt tekið fiskiðjuverið undan fiskimálasjóði og rekur það á kostnað og ábyrgð ríkisins og bakað ríkissjóði sjálfum ábyrgð, sem annars ætti að hvíla á herðum fiskimálasjóðs. Ég veit, að jafnskýr maður eins og hæstv. ráðh. skilur þennan stórkostlega eðlismun í þessu máli og líka, hversu þunga ábyrgð hann hefur lagt á herðar ríkissjóðs, sem hann annars hefði ekki. Sannleikurinn í þessu máli er, að úr því sem komið er er ekkert annað að gera en að færa þetta aftur á fiskimálasjóð eða selja fiskiðjuverið á opinberu uppboði til þess að forða ríkissjóði frá þeirri fjárhagslegu hættu, sem honum hlýtur að stafa af svo stórkostlegum rekstri, eða í þriðja lagi, ef hæstv. ráðh. vill endilega losa fiskimálasjóð undan þessu, að taka kaleikinn frá honum, þá verður hann að leita sér heimildar hjá Alþ. til þess að mega tæma þennan kaleik í botn. Það er eðlilegt, þegar staðið er vikum saman í stappi við fjvn. um, hvort mætti hækka þennan vegarspotta um 50 þús. eða þessa brú um 10 þús., að við reynum að komast að samkomulagi um stóra skrá af verklegum framkvæmdum. Þá er líka eðlilegt, að form. þeirrar n. bendi á þá óskaplegu hættu, sem ríkissjóði er hleypt í með að taka þessa áhættu frá öðrum aðilum á sig sjálfan. Þetta kann að kosta, að á næstu fjárl. fáist ekkert til brúa eða vega, hvorki í Barðastrandarsýslu né annars staðar á landinn. Þannig er það nú, að þetta fyrirtæki á ekki fyrir skuldum. Ég veit, að þegar hæstv. ráðh. athugar þetta, þá mun hann sjá, hve mikil hætta þetta er. Það er ekki nauðsynlegt að skipta um stjórn í fyrirtækinu. Sjálfsagt eru það góðir menn, sem stjórna, en það er nauðsynlegt, að þjóðin viti það, hver ber ábyrgðina á þessum rekstri. Ef ríkissjóður á að bera ábyrgðina, þá verður að ganga frá því í heimild frá Alþ. Ég veit, að það verður búið að segja mörg orð um þetta mál, áður en ríkisstj. fær heimild frá Alþ. til þess að taka þetta.

Hæstv. ráðh. talaði um viðhald á vegum og það hefði farið fram úr áætlun. Það er rétt, að fyrir fjvn. lá beiðni frá vegamálastjóra um, hvort n. sjálf vildi ekki taka upp hjá sér að hækka um 2 millj. kr. N. sá ekki ástæðu til þess að gera þetta, því að hún var sjálf á þeirri skoðun eins og hæstv. ráðh., að sé notað svo mikið af þessu fé til endurbygginga vega og að breikka vegi o.s.frv., sparar það, ef heldur væri haldið í við vegamálastjóra í sambandi við viðhald á vegum. Ég er ráðh. sammála um það, að þetta sé eina leiðin til þess, að þetta fari ekki hækkandi ár frá ári. Mér hefur m.a. verið sagt, veit ekki, hvort það er rétt, að það sé búið að leggja akfæran veg upp að Helluhrauni. Ég hef ekki séð í fjárl. leyfi fyrir þessu, ef það hefur verið gert, þá hefur einhvers staðar þurft að taka fé til þess. Ég er ekki forvitinn og hef ekki farið að skoða þetta hraun eða nýja veginn, en sagt er, að á annað hundrað þús. kr. hafi farið í þetta. Hv. 1. þm. Rang. getur sagt um það. (HelgJ: Ætli það sé ekki orðum aukið? Það hefur verið lagt lítils háttar.) Þm. kallar það kannske lítils háttar, þó að 200 þús. kr. séu lagðar til þessa. Hvort sem það er mikið eða lítið, þá minnist ég ekki þess, að það hafi verið tekið upp á fjárl., að það mætti leggja fyrir ríkisfé skemmtiveg upp að Heklu. Ég skal ekki segja, hvort það er hlið á veginum og seldur sé aðgangur til þess að ná upp í kostnað.

Hæstv. ráðh. talaði um löggjöfina um stofnlánadeildina, það sjónarmið hefði verið til að vinna á móti flótta fólksins frá þorpum úti á landi til Faxaflóa og Reykjavíkur. Ég er sammála um það. Hins vegar ber enga nauðsyn til þess að láta þessi fyrirtæki vera skattfrjáls í ríkissjóð. Ég segi þetta ekki af neinni andúð á togaraútgerð bæjanna úti á landi, en þegar bæjartogararnir eru undanþegnir skatti, þá missir ríkissjóður við það miklar tekjur miðað við það, að þeir greiddu sömu skatta og togarar einstaklinga. Í raun og veru skuldar hver togari í Hafnarfirði ríkissjóði 500 þús. kr. á árunum 1940–1946, borið saman við togara í einstaklingseign. Ég veit hins vegar, að Hafnarfjarðarbær hefur ekki fleygt þessum peningum, hann hefur sjálfsagt haft fulla þörf á þeim til ýmissa framkvæmda, en þeir hafa bara ekki komið í ríkissjóð.

Þá kem ég að ummælum hæstv. fjmrh. um áætlunina og get svarað hv. minni hl. að nokkru leyti um leið. Hæstv. fjmrh. hefur bæði hér á hv. Alþingi og í viðtali við mig látið í ljós, að hann væri hræddur um, að tekjuáætlunin, sérstaklega varðandi verðtoll og vörumagnstoll, mundi ekki standast. Meiri hl. hefur fallizt á till. ráðh., sem er eðlileg frá hans hálfu, því að það er skylda hvers fjmrh. að vera varkár á þessu sviði, og þegar aðstaða ríkissjóðs er ekki góð, aðallega vegna vanskila ýmissa aðila, þá er eðlilegt að áætla tekjurnar varlega, einkum þar sem greiðslujöfnuðurinn er svo óhagstæður sem raun her vitni á frv. Þetta er skiljanlegt sjónarmið og háttur þeirra manna, sem vilja vera varfærnir. Hins vegar fellst ég ekki á, að tekjurnar verði ekki meiri en gert er ráð fyrir á frv., þótt ég viti hins vegar, að það eru nógu margar holur til að gleypa þær tekjur, sem fást kynnu umfram áætlun, því að það er mín skoðun, að árið 1948 verði tekjuhæsta ár í sögu þjóðarinnar. Með innflutningsáætlun fjárhagsráðs er gert ráð fyrir 300 milljóna króna innflutningi á árinu. Þetta ætti að gefa í verðtoll 45 milljónir, því að skýrsla undanfarandi 15 ára sýnir, að hann hefur aldrei farið niður úr 14% og ekki upp úr 16%, svo að trúlega verður hann um 15% og gefur þá 45 millj. kr. Ofan á það bætast svo 4 milljónir í skipagreiðslur, sem fjárhagsráð raunar telur til duldra greiðslna, svo að tollurinn verður alls um 50 milljónir, og þegar búið er að hækka verðtollinn um 65%, þá er þetta komið upp í 80 millj. kr. Það er sagt, að þegar sé búið að gefa út leyfi fyrir 150 millj. kr. eða helmingi áætlunarinnar, og má því reikna með, að ekki verði minni leyfi gefin út það sem eftir er ársins, svo að líklegt er, að áætlunin standi að því leyti. Ég leyfi mér að benda á, að ég hélt því sama fram um afkomu ríkisins árið 1947. og það fór svo, að allt, sem ég hélt fram um þau efni, hefur nú komið á daginn. Og það finnast engin rök fyrir því, að tekjur ríkissjóðs bregðist árið 1948, nema sérstök áföll komi fyrir, svo sem ef atvinnuvegirnir stöðvuðust vegna langvarandi verkfalla eða eitthvað þess háttar. Hitt er svo annað atriði, að gjöldin munu aukast líka, og því hefur meiri hl. n. getað fallizt á áætlun fjmrh., því að vitað er, að ríkissjóður hefur í mörg horn að lita bæði fyrir sjálfan sig og fyrir aðra, t.d. mun hann meira en lítið þurfa að líta til síldarverksmiðjanna, því að rekstur þeirra mun nú með stórtapi. En með öllum þeim forsendum, sem ég hef skýrt frá, getur meiri hl. staðið með áætlun hæstv. fjmrh.

Í sambandi við orð hæstv. fjmrh. um seinagang hjá fjárhagsráði, þá vek ég athygli á því, að þetta er í annað skipti í vetur, sem ráðh. kemur hingað í Alþ. til þess að klaga fjárhagsráð. Hæstv. fjmrh. ber nú fram kveinstafl um það, að hann fái ekki vilja sínum framgengt við hið volduga ráð, og um daginn kvaðst hæstv. menntmrh. engu ráða við fjárhagsráð um það, hvort íslenzkir námsmenn í útlöndum ættu að sveita eða ekki. Og hæstv. viðskmrh., sem mér skilst, að fjárhagsráð heyri undir, hefur einnig lýst yfir því, að hann ráði ekki við ráðið, þótt hann hafi ekki beinlínis verið með kveinstafi yfir því hér. Nú er það skýrt tekið fram í l. um fjárhagsráð, hver hafi yfirstjórn þess, og segir svo í 9. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórnin í heild hefur yfirstjórn fjárhagsráðs og tekur ákvarðanir um höfuðatriði og sker úr um ágreiningsmál, sem einhver fjárhagsráðsmaður skýtur til hennar. Ríkisstjórnin setur með reglugerð ákvæði um skipan, stjórn og starfsemi hinna einstöku deilda fjárhagsráðs, að fengnum tillögum þess.“ Ég held, að ekki sé hægt að ákveða skýrar, hver eigi að stjórna fjárhagsráði, og núv. hæstv. ríkisstj. óskaði einmitt að hafa þennan háttinn á í stað þess að láta Alþ. kjósa ráðið, af því að hún vildi geta hent ráðinu út, ef það ekki undirgengist hennar vilja. Það var krafa hæstv. ríkisstj., að hún fengi að ráða ráðinn ein, því að hún vildi ekki láta það knésetja sig. Ég verð að segja, að það er hreinn vesaldómur hjá hæstv. ríkisstj., ef hún nú afsalar sér valdi sínu. Það er nú vitað, að þau öfl eru í fjárhagsráði, sem stjórnin ræður ekki við, og er þetta viðurkennt af tveim hæstv. ráðh., en þá ber hæstv. ríkisstj. að gera alvöru úr því að láta ráðið ekki kúga sig eða þá að skjóta málinu til Alþ. og láta það kjósa nýja menn í ráðið, og bæri þá Alþ. ábyrgð á störfum þess. Segi ég þetta að gefnu tilefni frá hæstv. fjmrh., þegar hann lýsir yfir því, að tekjuáætlun hans muni bresta vegna óþægðar embættismanna ríkisstjórnarinnar. Hæstv. fjmrh. sagði enn fremur, að hann hefði ekki getað fengið svör frá fjárhagsráði. Ég vildi nú spyrja hæstv. ráðh., hvort tekjuáætlunin, sem byggð er á áætlun fjárhagsráðs, er gerð með hans vilja eða gegn hans vilja. Það er upplýst, að búið er að veita innflutningsleyfi upp á 147 millj. kr. Ég vil enn fremur spyrja, hverjum þetta hafi verið veitt og til hvers. Það er alveg óþolandi, að ekki sé birt að minnsta kosti vikulega skrá yfir þá, sem fá leyfin. Það ganga þrálátar sögur um það, að sumar verzlanir fái afrit af innflutningsleyfunum. Ég skal ekki segja um sannleiksgildi þessa orðróms, en það er nauðsynlegt að hnekkja svona sögum með því að upplýsa málið. Ég skal upplýsa það, að það fyrirtæki, sem ég er við riðinn, hefur sótt um innflutningsleyfi á útgerðarvörum fyrir á aðra milljón króna, en fengið leyfi fyrir eitthvað 15 þúsundum. Það er því sannarlega tímabært að spyrja, hverjir fái leyfin. Árið 1046 átti ég innflutningsleyfi fyrir 100 bílum, en var svikinn og fékk ekki einn sinni leyfisgjaldið endurgreitt, en svo voru fluttir inn bílar fyrir tugi milljóna. Manni verður á að spyrja: Er verið að skipuleggja einokun í landinu? Það er eðlilegast að upplýsa þessi mál, svo að öllum megi vera kunnugt, hvað rétt er.

Þá vildi ég snúa mér að öðru máli, sem er brennandi spursmál fyrir alla hv. þm., og óska ég ákveðinna svara hæstv. fjmrh. í því efni og mun ekki treysta mér sem form. fjvn. til að skila fjárl. til afgreiðslu fyrr en úr því er skorið. Hv. þm. A-Húnv., hæstv. forseti, hefur spurt mig áð, hvernig hugsað væri að fara með geymslufé í framtíðinni. Ég vil upplýsa það, að hæstv. samgmrh. mætti 3. þ. m. á fundi í n. og vildi þá fá svar um það, hvernig n. liti á þetta mál, því að ósk hefði komið um það frá hæstv. fjmrh., að fé þetta yrði ekki greitt út. Fjvn. tók málið fyrir, og skal ég lesa úr gerðabók n., hvað þar gerðist. Í dag var mér afhent afrit af bréfi hæstv. fjmrh. til vegagerðarinnar, og skal ég nú lesa þetta hvort tveggja, með leyfi hæstv. forseta. Bréf fjmrh. hljóðar svo:

„Að gefnu tilefni tilkynnist hér með, að ráðuneytið ritaði samgmrn. 12. jan. þ. á. á þessa leið:

„Með því að ákveðið hefur verið, að yfirfæra ekki til næsta árs ónotað fjárlagafé frá fyrra ári, er þess vænzt, að ráðuneytið tilkynni þeim stofnunum, sem undir það heyra, þessa ráðstöfun og leggi jafnframt fyrir þær að endurgreiða í ríkissjóð allt það fé, sem þær kunna að hafa fengið greitt, en ekki hefur verið unnið fyrir eða notað á annan hátt. Hins vegar mun þetta ráðuneyti taka slíkar fjárveitingar upp á næsta árs fjárlög sem endurveitingu, ef þess er óskað.“

Reikninga vegagerðarinnar fyrir s.l. ár ber því að gera upp í samræmi við framanritað.“ Út af þessu máli hefur n. ritað ráðh. í dag og látið í ljós afstöðu sína, og er þá fyrirspurn hv. þm. A-Húnv., hæstv. forseta, svarað. Bréf n. er svo hljóðandi: „Þá óskaði samgmrh. einnig eftir því, að n. tæki afstöðu til þess, hvort hún mælti með því, að fé það, sem 1947 hafði á fjárlögum verið veitt til verklegra framkvæmda og eigi verið notað á árinu, skyldi sett á sérstakan reikning sem geymslufé eða tekið upp að nýju á fjárlfrv. 1948 sem endurveiting til þessara framkvæmda, þar sem fjmrh. hefði ósk.að eftir því að þurfa ekki að greiða féð út og talið eðlilegast, að leitað væri endurveitingar fyrir upphæðunum: Það er einróma álit og vilji fjvn., að fé það, sem á hverjum tíma er veitt til verklegra framkvæmda, verði geymt á sérstökum reikningi sem eign þeirra aðila, sem féð hefur verið veitt til, ef það er ekki notað á því ári, sem til er ætlazt samkvæmt fjárl., svo að ekki þurfi að koma til endurveitingar sömu fjárhæða á síðari fjárl. Gildir þetta að sjálfsögðu og um þær fjárveitingar, sem veittar voru til verklegra framkvæmda á árinu 1947 og eigi hafa verið notaðar á því ári.“

Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að nokkuð var farið inn á þetta í sambandi við brtt. um fjárframlag til Skálholtsskóla, og ég vil taka það fram, að ef hér á að fara inn á þá nýju braut að láta ekki féð á sérstakan reikning sem eign viðkomandi aðila, þá skapar það slíkan glundroða, að ekki verður hægt að úthluta fé til brúa og vega, þá yrði að taka allt, sem geymt er, 990 þús., í vegi, enn meira í brýr, ca. 2 milljónir í hafnir, sem auka rekstrarútgjöld, og mér er sem ég sjái framan í hæstv. fjmrh., ef það yrði gert. Ég óska þess, að hæstv. fjmrh. gefi mér skýrslu um það, hvernig hann hugsi sér að fara með þessi mál. Ég ætla að gefa hæstv. ráðh. tækifæri til þess að svara, áður en ég held áfram máli mínu. (Fjmrh.: Herra forseti. það er óþarfi. að ég tali strax. Ég ætla að bíða þar til hv. þm. Barð. hefur lokið máli sínu.)

Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þá þolinmæði, sem hann sýnir mér með því að hlusta á mál mitt, og mun ég halda áfram ræðu minni.

Hæstv. menntmrh. á brtt. á þskj. 461 um Vattarnesveg, og óskar hann þess, að hún verði leiðrétt. Hann óskaði einnig eftir því, að ég sem form. fjvn. tæki aftur brtt. um framlag til íþróttasjóðs til 3. umr. Þá hefur hæstv. forsrh. farið þess á leit, að brtt. á þskj. 461 við 11. gr., það er kostnaður við húsaleigunefndir, verði tekin aftur til 3. umr. Sama er að segja um 12. og 14. brtt. á þskj., um laun skattdómara.. Ég vil í þessu sambandi benda á, að ef á að fara að taka allar brtt. aftur til 3. umr., er hætt við, að ekki verði unnt að halda þeim hring utan um fjárl., sem gert er ráð fyrir. Hæstv. menntmrh. spurðist fyrir um það, hvort framlag til lesstofa, sbr. 33. brtt., mundi einnig ná til lesstofa úti á landi. Hugmyndin er að styrkja slíkar lesstofur á verstöðum, og í fyrra var þessum styrk skipt niður á Akranes, Flatey, Grímsey og Stykkishólm. Það er sjálfsagt að athuga milli umr., hvort ekki sé rétt að hækka þennan póst eitthvað. Hæstv. menntmrh. fór einnig fram á það, að tekinn yrði inn á fjárlögin 10–12 þús. kr. styrkur til félagsins Anglia til þess að bjóða hingað enskum prófessorum. Þessi upphæð er ekki há, og hygg ég, að slíkt væri unnt vegna þess, en þetta mundi skapa fordæmi, svo að önnur félög kæmu á eftir, t.d. franska félagið. Hæstv. ríkisstj. ætti að geta fundið aðra lausn á þessu en að koma þessu inn á fjárl. Skal ég nú snúa máli mínu að hv. 8. landsk. þm.

Ég þykist í ræðu minni um innflutninginn hafa svarað till. á þskj. 467 og fært fyrir því þung rök, að halda beri niðri útgjöldum ríkissjóðs, eins og hægt er. Ég er persónulega ekki á móti mörgum þeim hækkunum, sem þar eru lagðar til, en rök hæstv. ráðh. um það, að nauðsynlegt sé að halda í, eru þung, og því aðeins verður hægt að halda greiðslujöfnuði. Ég vil t.d. benda á till. um hækkun til hafnargerða, að ef sú till. yrði samþ., er brotið það prinsip, sem ákveðið var í fjvn. og hv. 8. landsk. vildi ekki láta brjóta. Sama svar gildir um tillag til barnaskólabygginga. Það er alls ekki unnt að uppfylla þessar kröfur. Undanfarin ár hefur ríkt mikil bjartsýni í þessum efnum og skólalöggjöfin sett sem mörg önnur merkileg lagaboð. Það er án efa gott og blessað, að sem flestir landsmenn hljóti góða menntun, en nú er svo komið, að ef á að vera hægt að halda framleiðslu landsmanna gangandi, þá verða skólarnir að sínum hlut að verða fyrir barðinu á því sem margt annað. Þeir menn, það fólk, sem sækir skóla mestan part ársins, gerir litinn hluta til þess að hjálpa til við framleiðsluna, og skólarnir taka mikinn fjölda frá framleiðslustörfunum og hirða um leið mikinn erlendan gjaldeyri. Nú verður því miður að draga úr þessu, engu síður en framlagi til nýrra brúa og vega. Sama er að segja um 9. og 10. brtt. Ég skil ekki, hve mikið kapp er lagt á þetta mál. Fyrir tveim árum var íþróttasjóðurinn hækkaður. Nú er lagt til, að hann verði enn hækkaður úr 700 þús. kr. í 1 millj. kr. Ég skil ekki, hvert kapp er lagt á að fá þessa hækkun, er hundruð nytsamra verkefna bíða, — eru látin sitja á hakanum ár eftir ár. Það er engin goðgá, þó að eitthvað sé skorið niður til skólanna nú í ár. Það liggur eitthvað annað bak við þessa miklu sókn en hrifningin af sjálfu málefninu, gæti ég trúað. Varðandi 11. brtt. þá snertir hún mjög mitt kjördæmi, en ég mun ekki krefjast hækkana, þó að þúsundir verkefna liggi þar fyrir, og sama er að segja um 12. brtt. Mikið hefur verið veitt til vélasjóðs á undanförnum árum. Þyrfti að athuga vel, að þessi verkfæri, sem keypt hafa verið til landsins, verði betur með farin og betur varðveitt en hingað til hefur raunin á orðið. Það væri mikils virði, ef veitt væri hagnýt fræðsla um meðferð þessara áhalda. Um póstinn til fiskimálasjóðs er það að segja, að ég er á móti honum. Hann fær tekjur, sem inn koma af útflutningsgjaldi á fiski.

Hv. 3. landsk. gaf þær upplýsingar hér í gær, að hann væri ekki ánægður með þær upphæðir, sem ætlaðar væru til verklegra framkvæmda. Meiri hl. fjvn. er líka óánægður með þær, en þær hafa verið lækkaðar vegna brýnnar nauðsynjar. Hann sagðist einnig vera óánægður með skiptingu fjárins. Ég hef aldrei búizt við þeim dómi frá hv. alþm., að þeir væru allir ánægðir með skiptinguna. Þetta er nú borið hér fram eftir að það hefur verið margrætt í n. Síðan fær frv. sinn hæstaréttardóm hér í Sþ., og þess vegna koma fram brtt. við fjárl. Síðan ég kom á þing 1942, man ég ekki til, að jafnfáar brtt. hafi fram komið við fjárlagafrv. Hv. þm. sagði, að ekki væri dregið úr fjárframlagi til vega á Suðurlandi. Ég barðist fyrir því, að meira yrði veitt til Vestfjarðakjálkans, en þau rök hafa verið færð fram, að Sunnlendingar hafi litið sem ekkert fé fengið til hafnargerða hingað til, og komi því hærri styrkur til þeirra til vega til þess að jafna það hlutfall að nokkru. Hins vegar get ég viðurkennt, að meira fé hefur farið til vegagerðar á Suðurlandi en til hafnargerða í Barðastrandarsýslu og S-Múlasýslu. Til þessa hefur nokkuð verið tekið tillit er hafnarstyrkjum hefur verið úthlutað. Eðlilegt er einnig, er vegastyrkjum er úthlutað, að taka tillit til þess, hvernig ástatt er um hafnaraðstöðu í héruðunum, er vegabótastyrknum er úthlutað. Skilyrði þess t.d., að höfuðborgin geti fengið nóga mjólk, er það, að góðir vegir fyrir þungaflutninga séu fyrir hendi á Suðurlandinu, og hafa t.d. allir þm. Reykv. hlúð að því, að svo mætti verða. Þetta eru rök, sem ég er ekki á móti og get gert að mínum rökum. Það hafa verið lagðir þrír þjóðvegir austur fyrir Hellisheiði: Hellisheiðarvegur, Þingvallavegur og Krýsuvíkurvegur, og nú er verið að undirbúa að taka 25 millj. kr. lán til þess að steypa veg austur að Selfossi. En hér er um líka nauðsyn að ræða á mörgum öðrum stöðum á landinu. Patreksfjörður á það á hættu, að bærinn verði mjólkurlaus, ef ekki verður bætt úr samgönguvandræðunum. Ég loka nú ekki ávallt augunum fyrir því, sem satt er, en mikið fé hefur á undanförnum árum verið lagt í vegi um Borgarfjörð, Norðurlandsveg; einnig hafnargerðir þar og til ferjuvegar yfir Hvalfjörð. Það er ekki aðeins hv. þm. Borgf., heldur meira en helmingur þm., sem að þessu hafa staðið, þó að hv. þm. Borgf. hafi lagt sitt þunga láð á vogina. Það er því með öllu rangt að halda því fram, að ég dragi sérstaklega taum kjördæmis míns um skiptingu á milli kjósenda á Vesturlandi og þó sérstaklega Barðastrandarsýslu. En sem betur fer hafa hv. þm. látið undan kröfum mínum á svipaðan hátt og ég hef reynt að fullnægja kröfum annarra þm. Barðastrandarsýsla er raunverulega tvær sýslur, þótt hún sé eitt kjördæmi. Ísafjarðarsýsla er ekki talin á manntali vera nema ein sýsla, og Norður- og Vestursýslan hafa líka sama sýslumann. Væri því ekki að undra, þá að Barðastrandarsýsla þyrfti meira fé til ýmissa framkvæmda en hvor hinna. Það er prýðilegt vegasamband á milli Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslu, en í Barðastrandarsýslu er svo háttað, að jafnvel póstar verða að ferðast yfir kletta og klungur til þess að komast á milli. Milli Króksfjarðarness og Patreksfjarðar gengur póstbáturinn.

Ég vil enn fremur benda á, að n. hafði fullan skilning á þörf Bolungavíkur fyrir samband við Ísafjörð. Það er því rangt, er hv. 3. landsk. ásakar n. fyrir ranglæti í þeim málum. Það var fullur skilningur á því að veita nægilegt fé. Það var lagt fé til Súðavíkurvegar, sem nauðsyn er á, að komist í samband við Ísafjörð.

Hitt þótti ekki eins aðkallandi. Patreksfjörður er enn í dag lokaður frá öllum bændabýlum. Á Rauðasandi eru þrjú eða fjögur kúabú, en enn er ekki komið á vegasamband við kauptúnið. Til þess að koma á sambandi hafa verið veittar 70 þús. kr. í þennan veg, en ég hafði farið fram á 200 þús. kr. Ég vil líka benda á, að enn hefur ekki komizt á samband inn á Barðaströnd, svo að hægt sé að halda áfram póstleiðinni. Það er því fjarri því, að fjvn. hafi beygt sig undir minn vilja í þessum efnum, þótt frekur sé. Ég veit ekki betur en að þskj. liggi fyrir um það, að hv. þm. vill fara yfir jökla á Vestfjörðum með vegi og leggja strax fram 100 þús. kr. í því skyni. Það virðist meira aðkallandi að koma byggðinni, sem er, í vegasamband.

Norður-Ísafjarðarsýsla er fyrsta sýsla á landinu, sem fékk 250 þús. kr. til byggingar ferjuhafna. Bryggjan á Arngerðareyri var réttlætt með því, að hún væri endastöð á langleið. Svo þótti sjálfsagt að byggja aðra, þótt engin heimild væri fyrir því frá Alþ. Það upplýstist líka, að ríkissjóður hafði verið svo rausnarlegur að byggja einu sementskari of mikið. Nú segja kunnugir það, að útfiri sé svo mikið á Melgraseyri, að ekki sé hægt að byggja bryggju þar. (SK: Þetta er ekki rétt.) Hvort sem svo er eða ekki, var engin heimild fyrir þessu. Um brimbrjótinn í Bolungavík er það að segja, að í fyrra voru veittar til hans 215 þús. kr., án þess að neitt framlag kæmi á móti, eins og reglan er. Svo er þetta kallað ranglæti! Það er ekki að furða, þótt n. brjóti sig ekki í mola, þegar svona er í pottinn búið. Það er engu líkara en að það þurfi ekki annað en að styðja á hnapp til þess að fá það, sem maður vill. Það eru ekki litlir eiginleikar, sem fjvn. eru gefnir, ef hún bara þarf að taka við óskaseðlum og gefa út ávísanir í samræmi við þá.

Í sambandi við brýrnar vil ég benda á, að ég held, að ekki sé um það deilt, hve mikil nauðsyn er á því að byggja nýja Þjórsárbrú. Hver vill taka ábyrgð á því, nema kannske hv. 3. landsk., að brúin hrynji, eins og fór um Ölfusárbrú. Ég játa þó, að ef menn vildu skuldbinda sig til að nota aðeins þriggja tonna vagna, þá mundi brúin endast lengur. En það verður þá að breyta atvinnuháttunum. Annars má segja n. það til dýrðar, að hún sýndi skilning á því að draga úr eins og hægt var á þessu ári.

Ég vil drepa á eina af till. hv. 3. landsk., út af Skálavík. Ég veit ekki til þess, að Skálavík sé í hafnarlögunum og eigi rétt á framlagi. Í sambandi við úthlutunina til hafna er vert að benda á það, að ríkissjóður stendur í 2.7 millj. kr. skuld til ýmissa hafnarsjóða í landinu. Það væri fyllsta réttlæti, að þeim væri fyrst og fremst úthlutað þessu fé, en þá hefði Norður-Ísafjarðarsýsla ekki fengið neitt. Sé til ranglæti í þessu sambandi, þá er það varðandi Hnífsdal og Bolungavík, sem ekki hefðu átt að fá neitt, meðan þeir staðir, sem kröfu eiga til þess, fá ekki sitt. N. vildi reyna að sýna vilja til þess, að þessi héruð lentu ekki í erfiðleikum, en þó voru öðrum skapaðir erfiðleikar með því.

Ég vil svo að síðustu benda á í sambandi við bjargráðastyrk til Sléttuhrepps og Grunnavíkurhrepps, að það er rétt, að séra Jónmundur Halldórsson lýsti þessu ýtarlega fyrir n. En hvorki í upplýsingum séra Jónmundar né annars staðar hefur það komið fram, til hvers á að nota þetta fé. Hér er líka farið inn á nýja braut, sem ekki er vitað hvert leiðir, t.d. hvort þetta getur haft í för með sér flutninga frá öðrum hreppum. Það virðist sjálfsagt að meta það skýrt í hvert skipti, til hvers á að verja fénu. Það væri bezt, að hv. 3. landsk., er hann fer um þessa hreppa næst, leggi starf í að finna leiðir, er ekki kosti meira en 150 þús. kr., fá samkomulag aðila og biðja síðan þingið að leggja blessun sína á það. Ég held svo, að ég hafi ekki þurft að ræða fleira við þennan hv. þm.

Hv. 11. landsk. ræddi um íþróttasjóð. Um það mál hef ég rætt áður og endurtek það ekki nú.

Viðvíkjandi 6. tölul. á þskj. 479, að til bókasafns verkamanna komi 10 þús. í stað 4 þús., er það að segja, að ekkert erindi lá fyrir hjá n. um þetta. Auk þess, ef safnið fær 4 þús., má jafnvel kaupa talsvert af Laxnessbókum fyrir það. Ég sé mér því ekki fært að mæla með þessari till. Sama gildir um 9. tölul. á þessu þskj., um hækkun framlags til hafnargerðar í Hafnarfirði. Ég hefði óskað, að Hafnarfjörður fengi 350 þús. kr., þó að ríkissjóður sé honum ekkert skuldugur, en þá hefði líka Akranes átt að fá 519 þús. í stað 350 þús. og Patreksfjörður 460 þús. kr. í stað 250 þús., í samræmi við það, sem ríkissjóður skuldar. Togaraútgerð er á báðum stöðum, og Hafnarfjörður hefur sízt meiri nauðsyn á framlagi en þeir, sem eiga inni. Annars var þetta mál rætt við samgmrh. og framlaginu breytt úr 100 þús. kr. í 250 þús. kr.

Viðvíkjandi styrknum til leikfélagsins þarf ég ekki að hafa mörg orð. Eðlilegast væri að styrkur til leikfélaganna væri veittur í einni upphæð. Ég skal ekki bera saman þann aðstöðumun, sem er hér, hvað snertir Akranes og Hafnarfjörð, þar sem Hafnfirðingar geta sótt leiksýningar í Reykjavík, nema þá að leiklistin sé komin á það æðra stig í Hafnarfirði, að Hafnfirðingum sé það andlegt kvalræði að sækja leiksýningar hér í Reykjavík.

Ég sakna hennar Katrínar minnar, og verð því að biðja hv. 11. landsk. að flytja henni ástamálin frá mér. Hún talaði um það, að hún ætti till. á þskj. 480, og sagði, að fjvn. ætti að vera kunnugt um hana, því að hún hefði verið hjá fjvn. síðan í haust. Ég álít það nú grundvallarskilyrði, að menn viti, í hvaða n. málin eiga að fara. Þessi till. hefur aldrei komið til fjvn., heldur fór hún til allshn. Form. allshn. ber því ábyrgð á því, ef ekki verða fleiri ástamál milli okkar Katrínar, þar sem hann hefur ekki skilað till. Þar sem fjvn. veit því ekkert um gögn, er ekki eðlilegt, að hún hafi tekið tillit til till. — Vill ekki hæstv. forseti sjá til þess, að þessir hv. þm., sem hafa svo mikið að tala um, að þeir hafa ekki tíma til að hlusta, fari út. (FJ: Við hlustum.) — Ég vil benda á það, að skornar hafa verið niður 170 þús. kr. til ríkisspítalanna, sem ekki er gott, því að það var það, sem allra sízt mátti skera niður. Ég er sammála um það, að nauðsyn sé að koma þessu upp, en málið þarf betri undirbúning, og þegar það kemur til fjvn., mun hún taka afstöðu til þess. Ég minnist þess ekki, að barnaverndarnefnd hafi sent neitt til fjvn. þessu viðvíkjandi, en það hefur ef til vill komið til heilbr.- og félmn., þar sem hv. 2. landsk. á sæti.

Þá var það hv. þm. Ísaf., sem segist hlusta. Hann leggur það til á þskj. 485, að sjúkrahúsi Ísafjarðar sé endurgreiddur sá halli., sem það hefur orðið fyrir vegna dvalar utanbæjarsjúklinga á sjúkrahúsinu. Hann segir, að ekki hafi fengizt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar til þess að hafa gjöldin svo há, að sjúkrahúsið geti borið sig. Það er furðulegt, að þannig skuli hafa verið farið með þessi mál, án þess að bætt væri úr. Enn furðulegra er það, að hér er um að ræða halla, sem verið hefur síðustu 20 ár. Ég vildi leyfa mér að spyrja, hvort þetta hafi ekki orðið ljóst fyrr en Alþfl. tapaði stjórn bæjarins. Ég hef orð hv. þm. fyrir því, að sjúkrahúsið hafi verið rekið með halla síðustu 20 ár, en í till. er farið fram á það, að 200 þús. kr. séu veittar vegna halla á árunum 1942–1947. (FJ: Eru það 20 ár?) Nei, en hv. þm. sagði, að halli hefði verið í 20 ár. Af hverju verður hann vitur fyrst nú? Ég held, með tilvísun til þessara upplýsinga, að ekki sé ástæða til þess að taka till. alvarlega. Ég býst ekki við, að hægt sé að veita fé til viðhalds sjúkrahúsum. Fé er veitt til byggingar sjúkrahúsa, en ekki til viðhalds sjúkrahúsa, sem dröbbuð hafa verið niður á þennan hátt í mörg ár. Ég vil líka benda á það, að sjúkrahús Ísafjarðar hefur fengið ákveðinn styrk úr ríkissjóði á hvert rúm, en tvö önnur sjúkrahús, er ekki þurfa síður styrks við, hafa engan styrk fengið. Bæði eru byggð til þess að standa undir íbúum sýslnanna, en líka fyrir slasaða sjómenn, og ríkissjóður hefur ekkert lagt fram í rekstrarkostnað fyrir þau. Ef till. hv. þm. Ísaf. verður samþ., sýnist mér rétt að bera fram till. í sömu átt fyrir þau bæði.

Út af till. hv. 6. landsk. á þskj. 480 vildi ég segja þetta: Landlæknir mætti hjá n. og óskaði eftir, að fjárframlögin til heilbrigðismálanna væru mikið aukin, en þessu var ekki hægt að sinna. Ef 300 þús. kr. eru veittar til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, vænti ég, að byggingin geti haldið áfram. Það verður líka að gera kröfur til manna heima fyrir. Fátækari staðir en Akureyri hafa orðið að leita til sinna sparisjóða í þessu sambandi, til þess að ríkissjóður legði á móti. Þó að ekki verði fallizt á hækkunina, stafar það ekki af andúð á húsinu, síður en svo.

Ég ætla ekki að tala mikið um Öxnadalsheiðarveginn. Það var mikið rætt um það í fjvn., hvorri stefnunni ætti að halda, að leggja meira af hinum stóru vegum og minna til hinna smærri veganna eða öfugt. En hvað eiga litlu vegirnir að bíða lengi? Sú stefna varð ofan á í fjvn. að reyna að tengja saman vegakerfið fyrir það fólk, sem vinnur að framleiðslunni. Þessi brtt. um að lækka framlagið til Öxnadalsheiðarvegar um 100 þús. kr. er leiðrétting. Það var meiningin að láta þann veg fá 400 þús. kr., en alls ekki 500 þús. kr., eins og stendur í till., og ég held, að ég hafi lýst því í minni framsöguræðu.

Í sambandi við brtt. frá hv. 6. landsk. þm. um tillag til hafnar á Akureyri þykir mér rétt að segja frá því hér, að það er verið að byggja stórt mannvirki á Akureyri, sem er dráttarbraut. En það mun vera þannig, að ekkert samkomulag er um það, að bærinn reki þessa dráttarbraut. Það mun vera helzt á oddinum nú, að bærinn byggi dráttarbrautina, til þess að hann geti fengið styrkinn úr ríkissjóði, leigi hana síðan ákveðnum mönnum um ákveðinn tíma til þess að reka hana. Og ef þetta er rétt, þá er það a.m.k. að fara ákaflega mikið í kringum lögin, ef ekki að brjóta þau. Og eftir viðtali við fulltrúa bæjarstjórnarinnar skildist mér, að búið væri að tryggja fé til þessara framkvæmda. Og kemur þá í hlut næstu fjvn. að úthluta á móti því, sem unnið hefur verið þarna. — Nú er hér skrá yfir það fé, sem ýmsir sjóðir eiga inni hjá ríkinu. Og ég veit ekki betur en að Akureyrarbær eigi hér inni 230.500 kr. í ár. Og þegar við áttum að ákveða það, hve mikið fé færi til staða, annars vegar þessa staðar, sem á inni 230.500 kr. og sáralitið eða ekkert hefur gert á tveimur árum annað en undirbúið sig, eða til Akraness, sem ríkið studdi með 519 þús. kr. og hefur alveg sérstaklega gert ráðstafanir til þess að kaupa ker. sem sparar ríkissjóði hundruð þúsunda kr., ef ekki milljónir í fjárframlögum til þeirrar hafnar, þá held ég, að ekki sé hægt með réttu að feila þann dóm, að það sé af skilningsleysi að láta ekki nema 15 þús. kr. til Akureyrarhafnar. Fjvn. var fullkunnugt um þessi mál öll, og hún telur, að með því að nota þessar 230 þús. kr. og þessar 75 þús. kr., þ.e.a.s. um 300 þús., geti Akureyrarbær þá látið vinna fyrir um 600 þús. kr. að þessum framkvæmdum með því að leggja fé á móti. Ég held því, að það sé ekki ástæða til að taka þessa brtt. alvarlega, sem hv. 6. landsk. þm. var að tala um í þessu efni. — Viðkomandi till., sem hv. 6. landsk. var að ræða um, um veginn hjá Akureyri, vil ég leyfa mér að benda á, að það er mjög vafasamt, að hægt sé að veita fé til þess fyrirtækis nema með sérstöku lagafyrirmæli, því að þarna er þjóðvegur, og það er þarna brú. Og ég efa, að hægt sé að leggja fram 400 þús. kr. til þess að laga þennan veg, sem þarna er um að ræða, og byggja nýja brú án þess að taka upp ákvæði um það í öðrum l. en fjárl. Og hitt er ég alveg viss um, að þeir, sem verða að bíða árum saman með að fá brýr á stór vatnsföll, þeir munu ekki greiða atkvæði með brtt. um 400 þús. kr. til þess mannvirkis, sem þessi brtt. er um. Ég mun því ekki sjá mér fært að leggja það til við fjvn., að þessi brtt. verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um það, sem hv. þm. A-Húnv. sagði hér í sambandi við 75. brtt. n. Það hafa verið um þetta atriði mjög skiptar skoðanir. Ég vil benda hv. þm. A-Húnv. á, að ég er ekki alveg viss um, að það sé réttur skilningur, að það sé ekki hægt að gera þetta með einföldu fjárlagaákvæði.

Í sambandi við brtt. frá hv. 1. þm. Árn. um framlag til Geirs Sigurðssonar fyrrv. lögregluþjóns vil ég taka fram, að þetta var á fjárl. í fyrra, 6 þús. kr. til þessa manns. Þetta hafði ekki verið tekið upp af ríkisstj. og n. sá ekki ástæðu til að taka þetta upp, enda hafði ekki komið fram till. um það. En atkv. skera úr um þetta. Hins vegar, ef hv. flm. vill taka brtt. aftur til 3. umr., mun fjvn. athuga hana. En ég get engu lofað um það, hvort n. muni mæla með henni. — Viðkomandi brtt. frá hv. þm. S–Þ. um að færa til vegaframkvæmdir innan héraðs, þá skal ég minnast á það við fjvn., og væri þá eðlilegast, að hv. flm. tæki brtt. aftur til 3. umr.

Það er dálítið fleira, sem komið hefur fram hér undir umr., sem ég mun láta bíða að svara, þar til ég þarf að svara nýrri árás á fjvn.