12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

129. mál, fjárlög 1948

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef enga brtt. varðandi mitt kjördæmi. Ég hef talið hyggilegra að hafa annan hátt á í þeim efnum að þessu sinni og hef þess vegna ekki borið fram till., en ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um fáein atriði þeirra brtt., sem fjvn. flytur og snerta N-Ísafjarðarsýslu, og fyrst og fremst áætlað framlag til hafnargerða og til brimbrjóts í Bolungavík. N. leggur til, að greiddar verði á 13. gr. kr. 150000, og kemst ég ekki hjá að skýra nokkur atriði í sambandi við þessar framkvæmdir. Eins og hv. þm. muna, var hafizt handa um þessar framkvæmdir á árinn 1945 og þeim haldið áfram til haustsins, en þá tókst svo illa til, að öll sú hleðsla, sem unnið hafði verið að á sumrinu, hrundi í miklu aftakaveðri, sem gerði um haustið, og voru hafnarmannvirkin nær ónothæf veturinn 1946–1947, og var með herkjum hægt að nota fyrirhleðsluna þannig, að útgerð stöðvaðist ekki, vegna harðfylgis sjómanna á þessum stað. Þegar þessir atburðir höfðu gerzt, tók hreppsnefnd Hólshrepps þá afstöðu að æskja þess, að allur kostnaður við þetta tjón yrði greiddur úr ríkissjóði. Ég þarf ekki að flytja fram að nýju þau rök, sem ég hef áður flutt út af þessu máli. Þm. hafa áður heyrt þau, og væri aðeins endurtekning að fara að flytja málið á ný. S.l. sumar var unnið að því að bæta þetta tjón, og hefur verið unnið fyrir rúmlega 700 þús. kr., og er það mín skoðun, að upphæð sú, er tjónið nam, verði viðbótarkostnaður við það, sem upphaflega var gert ráð fyrir. Nú er það svo, að á fjárl. 1941 voru aðeins veittar kr. 250 þús. til mannvirkisins, og eins og þm. vita, er það aðeins lítill hluti kostnaðarins. Í samræmi við mína fyrri skoðun í þessu máli vil ég halda því fram, að ríkissjóði beri að greiða allt það tjón, sem á mannvirkinu varð. Þess vegna verður það óhjákvæmilegt fyrir mig að ræða um það við fjvn. og stj., að tekið verði upp á heimildargr. að greiða hafnarsjóði Hólshrepps a.m.k. 350 þús. kr. aukakostnað, sem á mannvirkinu varð. Ég get látið nægja þetta yfirlit um þetta mannvirki, en mun ræða um það við fjvn. og fyrst og fremst fjmrh. að fá þessa fjárveitingu upp tekna, vegna þess að það er óhjákvæmilegt. Í lausaskuldum hefur safnazt fyrir töluvert á fjórða hundrað þús. kr., og er það mikil byrði fyrir fátækt hreppsfélag og algerlega óviðunandi, ef ríkissjóður ætlar að láta við svo búið standa. Ég vænti þess, að þótt hv. fjvn. hafi ekki í fyrstu séð nauðsyn þess að taka óskir okkar hv. 3. landsk. (HV) til greina, muni hún við frekari athugun taka þetta mál til endurnýjaðrar athugunar. Ég mun ekki sætta mig við neitt annað en það, að ríkissjóður greiði allt það tjón, sem á mannvirkinu hefur orðið.

Þá vildi ég minna á það, að hv. fjvn. hefur ætlað til bryggju í Hnífsdal kr. 50 þús. í stað kr. 150 þús., sem við höfðum farið fram á. Það hefur verið gerð áætlun um þessar framkvæmdir, og þær stranda alveg, ef þetta er ekki veitt. Og ég vil segja það, að það er miklu skynsamlegra af hv. n. að veita alls ekki neitt til slíkra mannvirkja en að veita það, sem ekki er hægt að hefja framkvæmdir með. Slíkar fjárveitingar eru algerlega út í bláinn. Það þýðir það, að þegar þarf að steypa fyrir 150 þús. kr. á einu sumri og veittar eru kr. 50 þús., eyðileggur það alla áætlun og þýðir það, að framkvæmdir skuli ekki hafnar fyrr en síðar. Ég vænti þess, að þessu verði einnig breytt.

Í sambandi við fjárveitingar vegna framkvæmda í Sléttuhreppi og Grunnavíkurhreppi vil ég segja, að það er atriði, sem ég ekki kemst hjá að ræða við hv. n. og stj. N. hefur fengið miklar upplýsingar um þessar framkvæmdir frá sr. Jónmundi Halldórssyni, svo að ég tel ekki þörf á að bæta þar við.

Ég skal ekki fara að ræða hér brtt., sem fluttar eru á þskj. 479 af hv. 3. landsk. þm. Þær eru, að ég held allar, teknar orðréttar upp úr bréfi, sem við í sameiningu skrifuðum hv. fjvn. um óskir okkar fyrir hérað okkar. Ég mun að sjálfsögðu fylgja öllum þessum brtt., þótt ég kynni betur við að hafa þann hátt á, sem hefur verið, bæði milli okkar og fyrri landsk. þm., að kjördæmakosinn þm. og landsk. hefðu samráð um till. Ég tel, að þessi háttur sé eðlilegri og líklegri til þess að koma þessum málum fram. Ég vil ekki væna hv. þm. um, að hann vilji ekki hafa þetta svona, og hvort sem svo er eða ekki, mun ég fylgja þessum till., enda eru þær allar upp úr bréfi, sem ég skrifaði fjvn. — eða er ekki svo, 3. landsk.? (HV: Jú, nema það eru örlítið breyttar upphæðir sums staðar.)

Ég vil aðeins segja það, að mér þykir sem fé það, sem hv. n. ætlar til þessara héraða, muni vera helzt til lítið. Ég segi það ekki vegna þess, að mér finnist önnur héruð fá of mikið, enda er það enginn mælikvarði á réttmæti fjárveitinga til héraða, heldur þörfin á hverjum stað. Og ég vil fullyrða, að þörfin er meiri heldur en fram kemur af því, sem ætlað er til brúa og vega. Náttúrlega finnst öllum þm., að héruðum þeirra sé gert of lágt undir höfði, en verkin tala vestur þar.

Ég vil kasta hér fram uppástungu, sem ekki snertir efni fjárl., en afgreiðslu þeirra og meðferð ríkisfjár yfirleitt. Ég hygg, að svo fari, að Alþ. hljóti að leysa sig úr þeim vanda, sem það er sett. í hverju sinni, þegar það afgreiðir fjárl. og á að skipta fénu niður. Ég held, að heppilegast væri að stefna að því að auka sjálfsstjórn héraðanna eða fjórðunganna, þannig að Alþ. úthlutaði sérstakri heildarfjárveitingu til þessara framkvæmda, sem héraðsstjórnirnar síðan skiptu. Það hafa komið fram till. um þetta frá fjórðungsþingi Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungs, og tel ég þetta skynsamlega hugmynd, sem orðið geti til að bæta — ekki einasta á þann hátt að létta ábyrgðinni af þm., heldur að skapa réttari meðferð ríkisfjár.

Þá ætlaði ég að minnast nokkuð á till. okkar hv. þm. Ísaf. um byggingarkostnað til sjúkrahúss á Ísafirði, 250000 kr. Hv. þm. Ísaf. (FJ) hefur gert grein fyrir þessari till. Því fer svo fjarri, að það sé óeðlilegt að veita fé til endurbóta á sjúkrahúsi, og ég veit ekki hvernig það hefur komizt inn í höfuðið á þm., að það megi hvergi reka eða viðhalda sjúkrahúsi nema í Reykjavík. Mér skilst, að þau dæmi, sem hér eru um fjórðungssjúkrahús, sanni þetta algerlega. Það hefur þokazt nokkuð með sjúkrahús á Akureyri, en það hefur ekki fengizt viðurkennt sem fjórðungssjúkrahús í þeirri merkingu, sem upphaflega var lögð í það orð, sem sé að ríkið kostaði þau yfirleitt. Ég sé ekki, að það sé nein goðgá, þegar sjúkrahús Vesturlands er að grotna niður, þótt ríkið taki ábyrgð á því. Mér þykir undarlegt, að hv. þm. Barð., sem líka hefur með sjúkrahús að gera, skuli vera á móti þessu. Þetta tengist svo við seinni hluta till Ég vil taka það fram, að það hefur fyrr verið halli á sjúkrahúsinu, en þar sem vitað er, að vaxandi dýrtíð hefur verið, er eðlilegt, að hallinn hafi verið mestur á þessu ári.

Ég vil ljúka máli mínu með að endurtaka það, sem ég sagði áður, að ég tel það vænlegra fyrir þær framkvæmdir, sem mestu varða, að flytja ekki um þær brtt. við þessa umr. En ég mun nota tímann til 3. umr. til umræðna við hv. fjvn. og fjmrh. og halda þar fram þeim málum, sem ég hef borið fram till. um til fjvn.