12.03.1948
Sameinað þing: 53. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

129. mál, fjárlög 1948

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Barð., form. fjvn., er hann flutti áðan, sérstaklega þá hlið, sem snýr að þeim brtt., sem ég hef flutt hér. Hv. þm. byrjaði með því að ræða um ástæðuna fyrir því, að niðurskurður hefur verið framkvæmdur á íþróttasjóði, og var í því sambandi með ýmsar hugleiðingar um það, hvernig á því stæði, að sú upphæð, 1 millj. kr., væri lækkuð, og sagði eitthvað á þá leið, að ástæðan hefði verið sú, að núv. ráðh. hefði beitt sér fyrir því, að upphæðin væri hækkuð um 300 þús., til þess að Reykjavíkurbær með sínum mannvirkjum fengi þá upphæð. Ég skal viðurkenna, að ég var ekki í þingsölunum, þegar sú breyt. var gerð hér, en þykist mega fullyrða, að þetta sé á misskilningi byggt að því er snertir þm. utan Rvíkur. Ég reikna með því, að flestir þm. hafi greitt atkv. með hækkuninni til þess að hækka framlög til íþróttamannvirkja víðs vegar á landinu, en ekki til þess að þetta færi til Reykjavíkurbæjar. — Þm. minntist á, að það hefði ekki verið nein goðgá að skera íþróttasjóð niður um 100 þús. kr., og gat um það, að annað hefði verið skorið niður, sem nauðsynlegra væri. Það er ekki ætlun mín að mæla því bót, að n. hefur skorið niður annað, og mætti hún vel hafa látið það ógert, en ég vil benda þessum þm. á það, að það eru fleiri aðilar til en fjvn., og niðurskurður hefur oft verið framkvæmdur af öðrum en fjvn. Hér er um niðurskurð um 400 þús. kr. að ræða, en ekki 100 þús., og n. virðist vilja skera það enn niður. Einu rökin, sem komið hafa fram í fjvn. fyrir þessum niðurskurði á íþróttasjóði, eru þau, að ekki þýði að láta í þetta stórar upphæðir, þar sem allar byggingar og framkvæmdir mundu stranda á fjárhagsráði, sem mundi ekki leyfa slíkt. Nú eru í landinu 20 íþróttamannvirki, og til þess að þeim verði lokið, þarf 500–600 þús. kr. Þar við bætist, að á mörgum stöðum á landinu þarf nauðsynlegra viðgerða við, t.d. þarf víða að breyta sundlaugum mikið. Líka má benda á, að á Akranesi, í Keflavík og í Hafnarfirði eru mjög dýr mannvirki, sem eru sundlaugar, sem verður að byggja við, til þess að þau komi að fullum notum. Fleira mætti nefna í þessu sambandi. Því má ekki gleyma, að verja verður stórum upphæðum til þess að styrkja íþróttasamböndin í landinu. Með þessum 600 þús., sem meiri hl. fjvn. leggur til, að sjóðurinn fái til ráðstöfunar, má slá föstu, að draga verður svo saman margt nú, að það er ekki verjandi. Ég segi það því enn einu sinni, að þrátt fyrir það að þessi till. liggur fyrir, hef ég þá von, að upphæðin verði hækkuð frá því, sem meiri bl. n. leggur til á þessu stigi málsins.

Hv. þm. var með skens í sambandi við till mína um hækkun til bókasafns verkamanna og sagði, að kaupa mætti allmikið af Laxnessbókum fyrir 4 þús. kr. Ég vil sízt lasta það, að verkamenn lesi Laxnessbækur, og má kaupa allmikið fyrir 4 þús. kr., en verkamenn les,a fleiri bækur, og með núverandi verðlagi er það ekki svo mikið magn, sem kaupa má fyrir 4 þús. kr., sem dreifa á um allar sveitir landsins.

Um hafnargerð í Hafnarfirði og þá upphæð, sem ég hef lagt til, að breytt yrði, fór þm. þeim orðum, að ekkert réttlæti væri í því, að Hafnarfjörður fengi meira en gert er ráð fyrir, og hefði meira að segja verið farið fram úr því, sem réttlátt gæti talizt, en samgmrh. hefði viljað hækka þessa upphæð og hefði það verið gert. Þetta er að vísu gott og lofsvert, að þm. hefur tekið þessum framförum, en ég vil, að hann skilji það til fulls og vilji láta Hafnarfjörð njóta þess að auka sín mannvirki og auka sína höfn.

Hv. þm. var svona hálft í hvoru að reyna að gera lítið úr leiklistarstarfseminni í Hafnarfirði með því meðal annars, að hún mundi vera á öðru stigi en leiklistin í Rvík. Ég skal ekki um það segja, á hvaða stígi leiklistin er í Hafnarfirði, en ef miða á við það, að íbúar Rvíkur hafi sæmilegan smekk fyrir leiklist, og þegar þess er gætt, að þeir hafa verið sæknir á þau leikrit, sem sýnd hafa verið í Hafnarfirði, má ætla, að leiklistarstarfsemin í Hafnarfirði standi á háu stigi.

Það voru ekki önnur atriði, sem ég tel ástæðu til að ræða um í sambandi við þá ræðu, sem hv. þm. Barð. flutti, en vil að lokum segja það, sem ég sagði í upphafi, að ég vona, að sá skilningur verði hér ríkjandi, að þessar till. nái fram að ganga. Þessar till. eru allar svo hóflegar og sanngjarnar, að þess er vænzt, að þm. sannfærist um það, að hér er kröfum stillt í hóf, og greiði þessum till. atkv. sitt, þó að form. fjvn., hv. þm. Barð., mæli gegn þeim sem flestum öðrum brtt., sem fram hafa komið. Það hefur áður skeð hér í þingsalnum, að orð form. fjvn. hafa ekki verið skoðuð sem úrslitadómur um gildi till. og þess vegna hans orð ekki látin ráða, heldur fyrst og fremst sannfæring þm., og ef svo verður, er ég ekki hræddur um, að þessar brtt. nái ekki fram að ganga.