19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

129. mál, fjárlög 1948

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Það hafa orðið mér vonbrigði og allmörgum alþm., að byggingarstyrkur til listamannanna Gunnlaugs Blöndals, Gunnlaugs Schevings og Nínu Tryggvadóttur skuli hafa fallið burt í till. hv. fjvn. Nokkrir alþm. hafa þegar flutt till. um að greiða Gunnlaugi Blöndal og Gunnlaugi Scheving þennan styrk. og sömuleiðis erum við Gylfi Þ. Gíslason og Sigurður Bjarnason flm.till. á þskj. 582, um að Nínu Tryggvadóttur verði veittur byggingarstyrkur á fjárl. Nína er dóttir Tryggva Guðmundssonar, sem var gjaldkeri hjá Áfengisverzlun ríkisins, að mig minnir — hins mesta ágætismanns að allra dómi. Hún hóf nám á listaháskólanum í Kaupmannahöfn; síðan var hún um nokkurt skeið við nám í París og stríðsárin dvaldist hún í Bandaríkjunum. Hún hefur barizt áfram með fágætum dugnaði, nýtni og sparsemi og hlotið mikla viðurkenningu. Hún hélt sýningu í Bandaríkjunum fyrir tveimur—þremur árum og fékk mjög lofsamlega dóma. Ég hef ekki átt kost á að ná í það eintak af Morgunblaðinu, þar sem þessir dómar birtust. En henni hefur verið boðið að sýna aftur í New York, og segir í bréfi því til hennar, að eftir hinn mikla sigur, sem sýning hennar hafi verið, hafi verið ákveðið að bjóða henni að hafa aðra sýningu í haust. Hún tók þessu boði, en vegna gjaldeyrisskorts komst hún ekki í tæka tíð, en er nú komin til Bandaríkjanna og mun sýna þar í vor. Hún hefur haldið allmargar sýningar hér heima, og hafa þær verið vel sóttar. Ég hef hlerað, að mynd sú, sem hér er til sýnis eftir hana í lestrarsal, hafi ekki fallið þm. í geð, og því hefur jafnvel verið haldið fram, að myndin mundi verða þess valdandi, að hún fengi ekki styrkinn. Nú er þessi mynd á mjög slæmum stað þarna og nýtur sín ekki vegna skorts á fjarlægð og góðri birtu, en hún hefur mjög fallegan litblæ og fagrar línur, og væri henni komið fyrir á betri stað, t.d. í Ed., mundu þm. e.t.v. læra að meta hana betur. Annars vona ég, að hv. alþm. láti ekki listamanninn gjalda þess, þótt hv. menntamálaráði sé ósýnt um að velja myndir, sem þm. falla í geð, og það væri ekki úr vegi að rifja upp í sambandi við þetta gamla vísu eftir Steingrím Thorsteinsson:

Lastaranum líkar ei neitt,

lætur hann ganga róginn.

Finni hann laufblað fölnað eitt,

fordæmir hann skóginn.

Raunar held ég, að þessi mynd sé alls ekki fölnað laufblað, heldur finnst mér hún fögur. Og í trausti þess, að hæstv. Alþ. láti hina ágætu listakonu njóta viðurkenningar, tel ég óþarft að fjölyrða meira um þessa brtt. og læt máli mínu lokið.