19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

129. mál, fjárlög 1948

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég flyt ásamt öðrum þm. 3 brtt. við fjárl. á þskj. 582, og vil ég víkja nokkuð að þeim og fyrst að 9. brtt. á þskj. 582. um að auka styrk til leikskóla úr 25500 kr. í 36000 kr. Á fjárlögum er gert ráð fyrir framlagi til þriggja skóla, tveggja í Rvík, skóla Lárusar Pálssonar og skóla Soffíu Guðlaugsdóttur, og eins á Akureyri, skóla Jóns Norðfjörðs. Fjvn. barst svo erindi frá Ævari Kvaran um að styrkja skóla hans, sem hann stofnaði eftir heimkomu sína frá útlöndum. Í skóla þessum ern nú 18 nemendur, og mun þetta vera stærsti leikskóli í landinu, og væri því næsta óeðlilegt, að hann fengi engan styrk. Hv. fjvn. treysti sér ekki til að mæla með auknu framlagi, en ákvað að hafa upphæðina þá sömu og fela ráðh. að úthluta henni til skólanna. En ef úthluta á til skóla Ævars, hlýtur upphæðin til hinna 3 skólanna að minnka. Þetta telja þeir, sem meta starf skólanna, ekki æskilegt. Þess vegna berum við fram þessa till., að hækka styrkinn þannig, að skóli Ævars fái svipað framlag og skóli Lárusar Pálssonar, og vonumst við eftir, að alþ. samþ. þetta, svo að ekki komi til þess, að skerða þurfi styrkinn til gömlu skólanna.

Þá flyt ég 12. brtt. á þskj. 582 ásamt 4 öðrum þm., um að endurveita þeim Gunnlaugi Blöndal og Gunnlaugi Scheving byggingarstyrk þann, sem þeim var veittur á síðustu fjárl. Hvorugur hafði hafið byggingu og þar af leiðandi ekki tekið styrkinn út, en nú er kunnugt, að Gunnlaugur Scheving hefur hafið byggingu og gert ráð fyrir, að féð væri til reiðu. Fjvn. hafði áður mælt með till. um endurveitingu, en síðar dró hún till. sína um byggingarstyrk til baka. Það er ekki sanngjarnt að fella endurveitingu til þessara manna niður, þar eð þeir hafa haft réttmæta ástæðu til að treysta þessu og hafið framkvæmdir í því trausti. Enn fremur er ég meðflm. að 13. brtt., um byggingarstyrk handa Nínu Tryggvadóttur, en með þeirri till. verður mælt af öðrum.