19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

129. mál, fjárlög 1948

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Við þm. Skagf. flytjum hér eina brtt. Og þar sem svo hefur atvikazt, að samþm. minn, sem er 1. flm., er lasinn, þá hef ég lofað að segja hér nokkur orð um þessa brtt. á þskj. 597, þar sem lagt er til, að til kennarabústaðar á Hólum verði veittar 50 þús. kr., og yrði það fyrsta greiðsla. Ástæðan til þess, að við flytjum þessa brtt., er sú, að á Hólum er ekki til neinn kennarakostnaður. En s.l. ár var unnið við að reisa skólastjórabústað og lagt fram nokkurt fé til þess að ljúka honum. En aftur á móti hefur hvorki verið reistur bústaður fyrir kennara né ráðsmann, eins og gert hefur verið og verið er að gera á Hvanneyri. Það er þess vegna von, að kennarar á Hólum telji sig eiga við erfiðari aðstöðu að búa en þeir á Hvanneyri, og bera þeir það mjög eðlilega saman. Það er líka ekki því að neita, að það er ekki á neinn hátt sambærilegt, og auk þess koma þar til greina sérstakar ástæður, sem gera það að verkum, að þetta er nauðsynlegt fyrir þá á Hólum. Það hefur og verið mjög lagt að okkur þm. kjördæmisins að fá þann mikla mun jafnaðan, sem nú virðist vera um þessa tvo skóla, þar sem undanfarið hefur verið varið allmiklu fé til framkvæmda á Hvanneyri umfram það, sem skólanum á Hólum hefur verið veitt. Og kemur slíkt til með að hafa áhrif á aðsókn að skólunum, þegar svo hefur verið misskipt milli þessara tveggja skóla. sem eiga að vinna sams konar starf, að undirbúa bændaefnin undir sitt lífsstarf. Og fyrir þær sakir höfum við flutt þessa brtt., enda þótt okkur sé ljóst, að þetta sé ekki hentugur tími og litlar eða kannske engar líkur til þess, að brtt. verði samþ. En við viljum þó engu að síður sýna fulla viðleitni í þá átt, og þótt ýmsar ástæður verði þess valdandi nú, að hún verði ekki samþ., þá viljum við láta það alveg sérstaklega koma fram, að við getum ekki sætt okkur við, að ríkissjóður taki aðallega annan bændaskólanna upp á arma sína, en láti hinn sitja á hakanum til lengdar. Ég hygg, að á tveimur árum sé komið á aðra millj. kr. til Hvanneyrarskólans til margvíslegra umbóta, ef allt er talið.

Við sendum beiðni til hv. fjvn. um, að hún sinnti þessu máli. Ég ætla ekki að ásaka hv. fjvn. Ég veit ekki um örðuga aðstöðu hennar, ekki sízt til slíkra mála sem þessa.