19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

129. mál, fjárlög 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það mun vera eftir að útbýta brtt. hér, sem e.t.v. má þó tala fyrir. Ég er meðflm. að nokkrum brtt. Ég geri brtt. við brtt. á þskj. nr. 582, XI, en minni brtt. hefur ekki verið útbýtt enn. Sú brtt., sem hv. þm. S-Þ. var að mæla hér fyrir áðan, á þskj. 582, er um minnismerki Jóns Arasonar. Ég álít þá brtt. mjög vel til fallna, sem hv. þm. S-Þ. hefur flutt, og að það sé að öllu leyti viðeigandi, að Alþ. hugsi til þess að gera nokkrar ráðstafanir til þess að minnast 400 ára ártíðar Jóns Arasonar og sona hans. En ég hef hugsað mér, að e.t.v. væri réttara að hafa nokkuð annan hátt á þessu. Brtt. mín er á þá leið, að brtt. orðist svo, að varið verði 15 þús. kr. til þess að undirbúa minnismerki um Jón biskup Arason og syni hans, er reist verði í Skálholti fyrir árið 1950, og verði látin fara fram samkeppni um hugmyndina milli íslenzkra myndhöggvara, en dómnefnd skipuð af menntmrh. dæmi um, hver tekin sé. Ég veit að vísu, að það minnismerki, sem hv. þm. S-Þ. var að lýsa hér, að Einar Jónsson fyrir löngu hefur gert hugmynd að, mun vera fagurt. Það er fyrst og fremst symbólskt líkneski, sem þarna er um að ræða, og, að mér virðist, fyrst og fremst miðað við trúarhetju, sem látið hafi líf sitt. En ég álít, að það, sem Íslendingar eigi fyrst og fremst að minnast í sambandi við Jón Arason og syni hans, sé, að þeir voru föðurlandsvinir og að minnismerki í Skálholti um þá eigi að standa í sambandi við það, og eigi ekki eingöngu að minna á aftöku Jóns Arasonar, heldur sona hans líka, og að það eigi að gera það minnismerki þannig úr garði, að fólk skilji slíkt minnismerki vel. En það vill oft vanta á, þegar um minnismerki er að ræða. — Ég vona, að a.m.k. önnur þessara brtt. verði samþ. Það er að öllu leyti viðeigandi, að slíkt sé gert.

Ég flyt ekki fleiri brtt. við þessa 3. umr. fjárl. Það er ekki vegna þess, að ég sé svo ánægður með afgreiðslu frv., að mér finnist ekki ástæða til þess. Ég ræddi hér við 2. umr. fjárl. allýtarlega um mína skoðun á því, hvernig hefði átt að afgr. fjárl. Og það er auðséð á þeirri aðferð, sem hv. meiri hl. fjvn. hefur á afgreiðslu frv., að það er hv. fjvn. eða hæstv. ríkisstj. að kenna, að ekki fæst, að fjárlagafrv. verði afgr. svo, að vansalaust sé af Alþ. Alþ. hafði sjálft ákveðið að afgr. fjárl. fyrir árið 1948 með öðrum hætti en nú er stefnt að, með tilliti til yfirlýsingar fjárhagsráðs og þeirra áætlana, sem það átti að semja. Það hlýtur að vera hlutverk Alþ. að láta fara fram umr. um þær áætlanir, svo framarlega að Alþ. ætlaði að taka ábyrgðina á sig um það, hvernig landinn verður stjórnað í ár. Það uppkast að hinum ófullkomnu og illa gerðu áætlunum, sem fyrir lágu við 2. umr. fjárlagafrv., var almennt ekki rætt hér í þinginu. Alþ. hafði tækifæri þar til þess að láta í ljós skoðanir sínar á þessum málum og líka fordæmingu sína á því, hve hraksmánarlega var gengið frá þessum málum. En þetta var ekki gert. Það var ekkert gert til þess að laga þetta á nokkurn hátt. Og þó átti með þessum ráðstöfunum að leggja grundvöll að öruggara og fullkomnara atvinnulífi í landinu en gert hafði verið áður. En ekkert af þessu var gert. Það eina þess vegna, sem gerzt hefur í þessu, er, að Alþ. hefur með þeim h, sem það setti um fjárhagsráð, skapað skrifstofubákn, sem einvörðungu íþyngir landsmönnum, en ekkert jákvætt hefur gert til þess að létta lífsbaráttuna fyrir þeim. Alþ. hafði tækifæri til þess að láta í ljós sína skoðun á þessu og taka í taumana. Ekkert af þessu hefur verið gert. Ég ætla ekki að fara að halda neina langa ræðu um þetta aftur, hve gersamlega ófullnægjandi er að ganga frá þessu máli á þennan hátt. Ég tala nú ekki um, þegar þar að auki kemur sú yfirlýsing hv. þm. Ísaf., að of lítið sé til af peningum sem erlendum gjaldeyri, og svo lítur út sem hæstv. ríkisstj. hafi ekki hugmynd um, í hvað hún á að eyða peningum, þegar hún skipar stofnanir, sem hindra menn frá því að vinna og starfa í landinu. — Ég vildi aðeins láta þessa skoðun koma í ljós aftur, vegna þess að ég er mjög óánægður með þá afgreiðslu, sem hefur átt sér stað hér á þessu máli, þó að ég muni ekki gera till. aftur til að bæta þar úr. Það er auðséð, hvert stefnir í þessum efnum, að það á að reyna að brjóta vald Alþ. niður og ræna því valdi frá Alþ., sem það hefur haft, og fá það í hendur lítilli embættismannaklíku hér í Rvík, sem sölsar undir sig öll völd yfir afhafnalífi og verzlunarlífi landsmanna. Þetta veit ég, að meiri bl. hv. alþm. er ljóst, þeim hlut. 2 hv. þm., sem styðja hæstv. ríkisstj. En vegna þess, sem ég sagði við 2. umr. um þetta mál, þá vildi ég láta þá skoðun mína í ljós, að ég álít, að það hefði átt að taka þessi atriði til alvarlegrar umr. við 2. umr. fjárl., en það hefur ekki verið gert.

Hvað snertir hins vegar þá hlið, sem snýr að fjárframlögum ríkisins, þá hefur ýmislegt verið lagfært þar með þeim brtt., sem fram hafa komið líka frá hv. fjvn. Ýmislegt af þeim brtt., sem einstakir hv. þm. bera fram. miðar líka í sömu átt. Og vil ég vonast til þess, að þær lagfæringar, sem þar eru fram komnar till. um, verði samþ., því að með því yrði ofurlítið bætt úr misrétti á ýmsum sviðum. En það lagar ekki allt, sem aflaga fer um heildarafgreiðslu fjárl., sem ég er hræddur um, að verði þjóðinni mjög dýrkeypt, þegar kemur fram á þetta ár.