19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Í sambandi við brtt. frá báðum hv. þm. Skagf. vildi ég aðeins geta þess, að þetta mál var rætt, og ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Fjvn. hefur ekki séð sér fært að mæla með því á þessu stigi málsins og sér sér ekki fært að leggja til, að brtt. verði samþ.

Út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. um fjárhagsráð þykir mér rétt að taka fram, að í fjárlögum eru teknar upp af fjvn. aðeins 2 millj. kr. til þess að standast allan þann kostnað, sem er í sambandi við verðlagseftirlitið yfirleitt. Og þetta er sem svarar líklega upp undir 11/2 millj. minna en upplýst er, að fyrirtækið muni kosta. Og það hefur af hæstv. ríkisstj. verið óskað eftir, að það yrði tekið til athugunar, hvort ekki væri hægt að taka inn hærri upphæð til þess, og hins vegar óskað, að athugað yrði, hvort ekki væri hægt að samþ. tekjuliði á móti á fjárl. En fjvn. hefur ekki getað fallizt á að taka þarna inn hærri útgjaldaliði. Og ég undirstrika það, að fjvn. lítur svo á, að það ætti að draga saman þennan gífurlega kostnað. Og það er bezt undirstrikað með því, að fjvn. vill ekki leggja til hærri upphæð í þessu skyni. Mér þykir rétt að láta þetta koma hér fram vegna orða hv. 2. þm. Reykv. Í þessu felst alls ekki skoðun fjvn. eða fjvnm. á fjárhagsráði og störfum þess. Og ég vil ekki heldur blanda hér inn í minni persónulegu skoðun um málið, þegar ég mæli hér sem form. og frsm. fjvn. En ég tek enn fram, að það er von og ósk fjvn., að vegna þessa kostnaðar þurfi ekki að vera sérstakar fjárgreiðslur úr ríkissjóði á annan hátt en þann, sem ákveðið er um í l., að stofnunin geti haft nógar tekjur af þeim leyfum, sem hún gefur út.

Í sambandi við ræðu hv. 1. þm. N-M. vil ég taka fram, að það kom nú ekkert nýtt fram í ræðunni. Ég er búinn að heyra þetta bergmál gegnum mörg þing. Það eru alltaf sömu hlunnindin, sem þessi hv. þm. vill fá fram fyrir einstaka menn, án þess að tala um, hvort eigi að taka með aðra menn, sem stendur eins á um. Ég lít svo á. að þarna sé ekki um loforð að ræða frá hæstv. Alþ. gagnvart innkaupum á sænskum húsum, sem þessi hv. þm. talar svo oft um. Þetta var heimilað, að endurgreiða toll af þessum timburhúsum, en það var alveg lagt í hendur ríkisstj., hvort hún notaði þessa heimild. Og þessi hv. þm. veit vel, að þó að Alþ. heimili ríkisstj. eitthvað, þá er ríkisstj. ekki bundin við það sem lög. Og það var af því, að ríkisstj. hafði meiri réttlætistilfinningu í sambandi við þetta mál en hv. 1. þm. N-M., að hún notaði ekki þessa heimild.

Viðvíkjandi vegarkaflanum, sem hv. 1. þm. N-M. talaði um, víl ég benda hv. þm. á, að þegar vegalögin voru hér til umr. síðast, þá kom fram brtt., sem borin var fram um Gemlufallsveg. Og það þótti þá ekki fýsilegt að samþ. brtt. um Gemlufallsveg niður að sjónum eða veg til Sandgerðis, af því að ef það hefði verið gert, þá hefði frv. um breyt. á vegal. orðið að fara á milli deilda. Og alveg sérstaklega þótti þá varhugavert að breyta því frv. vegna þess, að búið var að fá samkomulag samgmn. um það og þm. yfirleitt, sem hafði verið leitað samkomulags við, um afgreiðslu á breyt. á vegal., eins og það frv. stóð á því stigi, þegar þessar till. voru felldar. Og hv. 1. þm. N-M. er kunnugt um, að þegar búið er að gera slíkt samkomulag, er erfitt að taka inn og samþ. þær brtt., sem raska öllu samkomulaginu. — En ástæðan til þess, að þessi vegur til Sandgerðis var tekinn upp á heimildargr., er sú, að vegamálastjóri og hæstv. samgmrh. lögðu mjög eindregið með því, vegna þess að ef þessi vegur verður ekki gerður, kemur áreiðanlega krafa frá Sandgerði um að bæta mjög höfnina þar. En fái þeir þennan veg til Sandgerðis, þá geta íbúarnir þar sætt sig við að flytja þungavöru til sín frá landshöfninni í Njarðvíkum, sem þá hefði tekjur af því, að vörunni væri skipað þar upp. — Vegamálastjóri og hæstv. samgmrh. vildu, að þetta framlag yrði sett inn á 13. gr., sem fjvn. vildi ekki gera, til þess m.a. að íþyngja ekki þeim öðrum vegum, sem átti að leggja fé til á 13. gr. En þessi rök viðkomandi Sandgerðishöfn og flutningum á þungavörunni frá landshöfninni, sem Sandgerðingar mundu sætta sig við, ef þeir fengju þennan veg, —þessi rök lágu fyrir fjvn. Hv. 1. þm. N-M. getur svo metið þau á sinn mælikvarða. Aðrir meta þau frá sínu sjónarmiði, og á því verður alltaf mismunandi mat, eftir því sem menn eru gerðir. En mér þótti rétt að skýra frá, að svona er það til komið, að þessi upphæð er á 22. gr.