19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

129. mál, fjárlög 1948

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 606, III, um að ríkisstj. verði heimilað „að kaupa jarðirnar Gesthús og Bakkakot á Álftanesi til handa jarðakaupasjóði, ef samkomulag næst um verð og greiðsluskilmála, enda greiði sjóðurinn andvirði jarðanna.“ Ástæðan fyrir því, að ég ber þessa brtt. fram, er sú, að það er nokkur ágreiningur þarna á milli ábúandans á Gesthúsum og ríkisins út af því, að honum var fyrir nokkrum árum meinað að taka sand í fjörunni hjá sér, sem hefur verið allmikill tekjuliður hjá honum á undanförnum árum. Þessi sandtaka var felld niður, og það var gert í því skyni að verja ströndina skemmdum af sjávarfangi. Nú líta margir svo á, að þessi sandtaka, sem var niður undir fjöruborði, hafi ekki nein áhrif á landbrotið, sem hefur haldið áfram jafnt og þétt. þrátt fyrir þetta bann. Og það hafa staðið um tíma málaferli á hendur ríkinu út af þessu, sem ég skal ekki segja um, hvernig lýkur. En ég vil gjarnan ekki liggja undir málaferlum út af þessu. Og á síðasta ári var varið allmiklu fé til þess að verja þetta svæði á Álftanesi vestanverðu fyrir landbroti af sjávargangi. En það er talið, að allt Álftanesið sé í hættu af því landbroti, sem hefur verið þarna undanfarið og heldur áfram. En það er einmitt á þessum jörðum, sem hér er um að ræða í brtt., sem aðallandvarnargarðarnir yrðu gerðir til varnar fyrir landbrotinu, og þætti mér miklu hentara, að ríkið réði alveg yfir þeim jörðum, þar sem landvarnargarðarnir yrðu lagðir, og þyrfti ekki við aðra en sjálft sig að semja um landvarnirnar, sem þarna yrðu gerðar. Af þessum ástæðum vildi ég óska eftir heimild til þess að yfirtaka þessar jarðir fyrir ríkið, ef samkomulag næst um verð og greiðsluskilmála.

Þá vil ég leyfa mér að bera hér fram skrifl. brtt. við fjárlagafrv. fyrir árið 1948, með því að ekki mun verða reynt héðan af að láta prenta þær. Þannig er mál vaxið, að nú í dag kom, ásamt hv. þm. Siglf., maður að máli við mig, sem staddur er hér, frá bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar, og fóru þeir fram á, að aflað væri heimildar í sambandi við fjárl., ábyrgðarheimildar fyrir Siglufjarðarkaupstað til þess að bæta við Skeiðsfossrafvirkjunina síðari vélasamstæðu Fljótaárorkuversins. En eins og vitað er, hefur þessi rafveita starfað um skeið með hálfum afköstum á móts við það, sem talið er, að hún geti afkastað, af þeirri ástæðu, að ekki hefur enn tekizt að koma upp hinni síðari vélasamstæðu orkuversins. Þessi virkjun varð alldýr og hefur átt örðugt með að standa undir rekstri sínum, og hefur ríkið orðið að taka að sér greiðslu á vöxtum og afborgunum lána í þessu efni. Og það eru ekki líkur til annars en að þetta haldi áfram um skeið, ef ekki er hægt að fullnota virkjunina. En það þykir öruggt, að ef hægt væri að ná úr virkjuninni því afli, sem aðstæður leyfa, þá mundi þetta vera fjárhagslega öruggt fyrirtæki, sem mundi geta staðið undir öllum sínum skuldbindingum og greiðslum, og er það skiljanlegt, þar sem talið er. að ekki þurfi nema 3 til 4 millj. kr. til þess að tvöfalda þau afköst, sem nú eru fyrir hendi hjá orkuverinu og kostað hafa bæjarfélagið og ríkissjóð í ábyrgðum upp undir 14 millj. kr. —Mér þykir leitt, að þetta mál skyldi koma svo seint, að ekki skyldi vera hægt að ræða það við fjvn. En mér skilst, að hún hafi lokið störfum og því af eðlilegum ástæðum ekki unnt að ná til eyrna hennar. En ég tel þetta svo mikið nauðsynjamál fyrir Siglufjarðarbæ og fyrir ríkið í heild að geta fullgert þetta mannvirki, til þess að koma því í rekstrarhæft stand og fjárhagslega sjálfstæða aðstöðu, að ég hef tekið að mér í samráði við meðráðh. mína að gerast flm. að þessari heimildartill., og vænti ég, að hv. alþm. líti svipað á þetta mál eins og ég. Það fylgdu hér með nokkrar skýringar á þessu máli, sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér sérstaklega, af því að ég hef tekið hér fram aðalafriði málsins. Hér er hægt með tiltölulega lítilli viðbót að tvöfalda afköst og tekjur þessarar virkjunar og þar með gera bæði Siglufjarðarbæ og ríkinu. sem er hér í ábyrgð, léttara undir fæti um að láta fyrirtækið borga sig niður. Ég leyfi mér, í áframhaldi af þessu, að leggja hér fram fyrir hæstv. forseta brtt. við fjárlagafrv., 22. gr., um að aftan við XXIII. lið komi nýr liður, er verði IXIV. liður, svo hljóðandi: „Að ábyrgjast fyrir Siglufjarðarkaupstað lán, allt að 2 millj. króna, þó ekki yfir 85% stofnkostnaðar, til þess að standast kostnað við kaup og uppsetningu á seinni vélasamstæðu Fljótaárorkuversins og til þess að ljúka við orkuverið og innanbæjarveitu á Siglufirði, enda samþykkir Alþingi jafnframt, að þessa stækkun raforkuvers Siglufjarðarkaupstaðar megi framkvæma.“