19.03.1948
Sameinað þing: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

129. mál, fjárlög 1948

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) [frh.]:

Ég var að skýra frá því, að þegar þann vanda bar að höndum í fjvn., að erfitt mundi að afgr. fjárl. nema með stórkostlega hækkandi útgjöldum, þá tók sá hluti fjvn., sem fylgir ríkisstj., sig saman um það að reyna að hafa fulla samvinnu við ríkisstj. um að halda útgjöldum eins mikið niðri og unnt væri og batzt samtökum um, að engar till. yrðu samþ. í fjvn., sem hefðu veruleg útgjöld í för með sér, sem ekki stæðu a.m.k. 5 stjórnarstuðningsmenn að í fjvn. Þegar þessi till. kemur hér, sem getur kostað ríkissjóð 250–350 þús. kr., þá er þetta samkomulag rofið. Það stendur ekki að þessari till. í fjvn. meiri hl. þeirra manna, sem styðja ríkisstj. — Ég vil benda á það, hvernig þessi fjárl. litu út, ef þessu hefði verið haldið í gegnum alla afgreiðslu fjárl. Það var vitanlegt, að stjórnarandstaðan stæði með öllum útgjaldatill., frá hverjum sem þær hefðu komið, og ef sjálfstæðismenn, sem eru 4 í n., hefðu viljað notfæra sér þetta, þá gátu þeir fengið stórkostlega hækkun á fjárl. sér til hagsbóta. Þess vegna harma ég það, að hv. 1. þm. Rang. skuli bera hér inn á síðustu stundu till. og lætur líta svo út sem ég hafi brugðizt skyldu minni um að bera fram till., sem ég var í andstöðu við, og þar af leiðandi gat till. ekki komið frá fjvn. óskiptri, hún hlaut þá að koma frá meiri hl. fjvn., en ég var ekki í þeim meiri hl., og hann átti þá að sjá um, að þessi till. kæmi þannig fram, en ekki ég.

Þetta samkomulag hefur verið haldið, en er nú brotið á síðustu stund af framsóknarfulltrúunum, og má þá sjá, hvernig þessi mál líta út, ef þeir fengju að ráða afgreiðslu fjárl.