22.03.1948
Sameinað þing: 59. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

129. mál, fjárlög 1948

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. 2. þm. Reykv. talaði um of mikið ofstæki í íslenzkum stjórnmálum. Það var eitt af fáu, sem rétt var mælt í ræðu hans,en skaut mjög skökku við önnur orð hans og daglega hegðun blaðs hans. Mig undrar t.d. ekki, þó að talsmenn háttvirts Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., hafi sitthvað að setja út á stjórnarstörf þau, sem þeir telja mig bera ábyrgð á því, því að hlýhugur sá, sem forustumenn þess flokks óneitanlega báru til mín um skeið, hefur þegar fyrir löngu tekið að kólna verulega og hefur nú síðustu mánuðina komizt langt niður fyrir frostmark. Kveður svo rammt að þessu, að það eitt að vera í ætt við mig, hefur í Þjóðviljanum verið talið skyldmönnum mínum til skammar, samanber það, er hið málgefna blað sagði um bróður minn, að hann væri „annars sæmilegur maður“, þ.e.a.s. að slepptri þeirri ávirðingu að vera bróðir Bjarna Benediktssonar. En úr því að heift þeirra flokksmanna á mér kemur fram með svo margvíslegu og stundum hlálegu móti, sem raun ber vitni um, getur mig, sem sagt, ekki undrað, þó að það eitt. að ég ber t.d. ábyrgð á samningagerð við aðrar þjóðir og þ. á m. því, að unnið hefur verið að gerð verzlunarsamninga við England, hvetji forustulið háttv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., til enn meiri andstöðu gegn samningum við Breta en ella hefði verið, og er þó ekki á fjandskap þeirra í garð viðskipta við Breta aukandi. Því að enginn skyldi halda, að þetta væri í fyrsta skipti, sem þessir hv. þm. réðust harkalega gegn samningum við Breta.Kann ég ekki að nefna neitt dæmi þess, að þeir hafi ekki ráðizt heiftúðlega á samninga við þessa beztu viðskipta- og vinaþjóð okkar, nema ef verið hefur meðan algert bandalag var milli Rússa og Breta í síðustu styrjöld. Hefur mátt einu gilda um, hvort í raun og veru hafi verið í önnur hús að venda en til Breta eða ekki. Ætíð hafa þessir hv. þm. talið samningagerð við Breta jafnsvívirðilega. Þess vegna sagði Þjóðviljinn t.d. 28. jan. 1910 m.a. á þessa leið:

„Þjóðviljinn álítur ríkisstj. hafa framið hið háskalegasta verk með samkomulagi við brezku stjórnina. Þess vegna verði þjóðin að taka í taumana og eyðileggja afleiðingarnar af þessu glapræði með því að gera samning við Þjóðverja líka.“

Þegar Þjóðviljinn hafði gefið upp alla von um, að verzlunarsamningar yrðu gerðir við Þjóðverja og siglingum haldið þangað meðan á stríðinu stæði, benti hann 2. apríl 1941 á, „að siglingaleiðin til Murmansk er álíka löng og til Englands og tvímælalaust áhættuminnsta siglingaleið. sem til greina kemur,“ enda vildi hann þá láta „leita leyfis beggja stríðsaðila til að sigla til Rússlands.“ Þetta var á þeim tíma, sem Þjóðverjar fengu mikinn hluta lífs- og hernaðarnauðsynja frá Rússlandi eða öðrum löndum yfir Rússland. Óþarft er að ræða um, hver gæfa hefði fylgt því fyrir Íslendinga, ef þá hefði verið farið að ráðum Þjóðviljans. En það mundi sízt gæfuríkara nú en þá.

Nú eins og áður þykist hv. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., geta bent á nógu marga aðra en Englendinga til að semja við. Raunar er eins og þeir séu nokkuð linari að þessu sinni en stundum áður í því að fullyrða, að Rússar einir muni kaupa af okkur allar afurðir landsmanna. Það er eins og samningar hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, við afskipunarmanninn rússneska, hr. Semenov, hafi dregið nokkuð úr hinni blindu og ofsalegu trú á, að Rússar mundu vilja kaupa allar okkar vörur, aðeins ef þeir ættu kost á. Verður og að segja eins og er, að reynslan nú sýnir, að því fer fjarri, að Rússar séu ginnkeyptir fyrir samningsgerð við okkur. 2. des. í vetur gaf ég utanrrn. fyrirmæli um, að samtímis skyldi leitað viðskiptasamninga af okkar hálfu við Breta og Rússa. Bretar tjáðu sig skjótlega fúsa til að taka upp samninga, og hefur undanfarið verið að þeim unnið, þó að fullnaðarsamningar séu enn ekki gerðir. Rússar svöruðu aftur á móti ekki fyrr en 13. janúar, en þá sögðu þeir, að með skírskotum til þess, að samningaumleitanir í fyrra hafi tekið of langan tíma, óski þeir eftir að fá lista yfir magn og tegundir þeirra vara, sem Íslendingar vilji selja til Rússlands og kaupa þaðan. Íslenzka utanrrn. samþ. slíka tilhögun þegar hinn 19. jan. og sendi síðan hinn 26. jan. vörulista símleiðis austur á bóginn. 30. jan. var þaðan óskað nokkurra nánari upplýsinga, og voru þær gefnar strax daginn eftir. Síðan hefur af okkar hálfu hvað eftir annað verið spurzt fyrir um undirtektir og líkur til samningagerðar, og var íslenzka sendifulltrúanum í Moskva í febrúar bent á það kurteislega af Rússa hálfu, að ekki væri um annað að gera en bíða, þangað til viðkomandi stjórnarvöld hefðu tekið ákvarðanir sínar, og fékk hann aftur sama svarið nokkru síðar.

Þarf eigi að fjölyrða um, hverjar afleiðingar þess hefðu orðið, ef samningar við Breta hefðu með öllu verið látnir bíða þangað til fullnægjandi svör fengust í Moskva, eða ef aðrar viðskiptaþjóðir okkar, þ. á m. Bretar, hefðu reynzt jafnseinar um svör sem Rússar.

Gangur samninganna í fyrra sýndi og, að rússnesk stjórnarvöld voru treg til ákvarðana, fyrr en samkomulag hafði náðst við Breta. Þá náðust þó að lokum samningar við Rússa, og var það að sjálfsögðu gleðiefni ríkisstj. jafnt sem öðrum Íslendingum, því að vissulega er það mikið áhugamál þessari ríkisstj. sem öðrum góðum landsmönnum, að við eigum skipti við sem flestar þjóðir, og þá eigi sízt við hina miklu og voldugu rússnesku þjóð. En vitanlega er það ekki á valdi okkar einna að kveða á um, hvort svo megi verða. Við getum ekki þröngvað vörum okkar upp á Rússa, fremur en aðrar þjóðir, og þær ákveða eftir sinni hentisemi, en ekki okkar, hvenær og hvort þær vilja við okkur semja.

Þó að eftir Semenovsævintýrið nokkuð hafi dofnað yfir þeirri draumsjón hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., að Íslendingar skyldu byggja alla sína framtíð á einkaviðskiptum við Rússa, þá linnir ekki ásökunum þeirra flokksmanna um, að linlega hafi verið haldið á samningum okkar við aðrar austlægar þjóðir. Er raunar ekki látið sitja við þá ásökun eina, heldur haldið fram, að núv. ríkisstj. vilji helzt ekki skipta við neina meginlandsþjóð, heldur halda viðskiptunum einungis að Bretum og Bandaríkjamönnum.

Hve staðlausar þessar ásakanir eru, sést helzt með því að bera saman útflutning okkar til ýmissa landa annars vegar árið 1946, þegar hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistar, voru allt árið í stjórn og hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, réð yfir útflutningi sjávarafurða, og árið 1947, þegar núv. stjórn sat að völdum 11 mánuði. Bæði árin var útflutningurinn í heild mjög svipaður, eða sem næst 290 millj. kr., þó ívið lægri, 1 millj. síðara árið. Bæði árin er útflutningurinn til Bretlands langmestur, eða fyrra árið tæpar 106 millj. kr., en síðara árið rúmar 107 milljónir. Útflutningurinn til Rússlands er hins vegar rúmlega 571/2 millj. 1916, en rúmlega 51 millj. 1947. Útflutningurinn til Rússlands minnkar þannig að vísu um 3 millj. En þess ber að gæta, bæði um Rússland og Bretland, að ef síldveiði hefði orðið svo sem vonir stóðu til á sumrinu 1947, hefði útflutningur til beggja landanna orðið mun meiri en raunin varð. Til Rússlands hefði hann sennilega numið nærri 90 millj. í stað þeirra 54, er hann raunverulega varð. Það stóð því ekki á íslenzku ríkisstj. um mikil skipti við Rússa 1947, heldur var það blessuð síldin, sem lét sig vanta til þess móts. — Útflutningurinn til Tékkóslóvakíu jókst hins vegar úr 81/2 millj. 1946 upp í rúmlega 14 millj. kr. á árinu 1947. Nokkru minni, en þó veruleg, aukning varð á útflutningnum til Frakklands, þ.e.a.s. úr rúmlega 81/2 millj. upp í rúmlega 12 millj. Hlutfallslega miklu meiri varð aukningin til Póllands, eða úr 750 þús. kr. upp í 41/2 milljón rúmlega. Mikil aukning varð einnig til Hollands, eða úr tæpum 2 millj. 800 þús. kr. í rúmar 6 millj. kr., og til Finnlands úr 1400 þús. kr. í 3800 þús. kr., til Grikklands úr 101/2 millj. í tæpar 13200 þús. kr., til Þýzkalands úr 280 þús. kr. í 5280 þús. kr. Mestur varð samt munurinn á Ítalíu. Þangað var 1946 flutt fyrir tæpar 61/2 millj., en 1947 fyrir rúmar 24 millj. kr. Útflutningurinn til Bandaríkjanna minnkaði hins vegar úr h. u. b. 381/2 millj. kr. niður í tæpar 15 millj., og er það að vísu allt annað en ánægjuleg staðreynd. og hefði veríð skynsamlegra að ávita stjórnina fyrir hana en hitt, sem hún hefur verið sökuð um.

Af þessum tölum má sjá, hversu gersamlega staðlausar þær ásakanir eru, sem hv. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., og málgögn hans hafa í tíma og ótíma látið dynja á mér og núv. hæstv. ríkisstj. um það, að við vildum eingöngu skipta við Bretland og Bandaríkin, en forðast skipti víð einmitt þau lönd, sem mesta aukningin hefur orðið á skiptum við í okkar stjórnartíð. Fer því einnig mjög fjarri, að við höfum látið við þetta sitja. Í haust var undirritaður samningur við Holland, sem gerir mögulegt, að útflutningurinn þangað verði h. u. b. 30 millj. kr. Þá hefur í sambandi við brezku samningana verið unnið að fullnaðarsamkomulagi um fisksölu okkar í vesturhluta Þýzkalands, en þegar áður var búið að semja að meginstefnu um, að þangað mætti á þessu ári selja allt að 70 þús. tonn af fiski. Telja kunnugir, að togaraútgerðin eigi líf sitt undir þeim markaði, sem þar hefur fengizt. Að vísu skiptir það ekki miklu máli, en nú þegar er búið að flytja til Þýzkalands 3400 tonn af ísaðri síld við góðu verði, og má bera það saman við, að hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, lét í ráðherratíð sinni flytja út 377 tonn af sams konar síld, og varð tap á þeirri framkvæmd að upphæð kr. 63880.81.

Nú nýlega hefur og samningur verið undirritaður við Tékkóslóvakíu, sem á að gera möguleg helmingi meiri viðskipti á árinu 1948 en voru 1947, en h. u. b. 4 sinnum meiri voru 1946, þegar hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, Sósfl., voru í ríkisstj. Málsvarar þess flokks hafa raunar sakað mig um, að ég hafi staðið á móti þeim samningum og tafið þá. Sannleikurinn er alveg gagnstæður. Þegar sýnt var, hversu stórum samningum var unnt að koma á í Tékkóslóvakíu s.l. haust, þá lét ég með góðu samþ. annarra stjórnvalda hér ganga í, að slíkt þyrfti ekki að stranda á íslenzkum innflutningsyfirvöldum. Þessu varð ekki komið á nema með mikilli vinnu og breytingu á innflutningi okkar frá því, sem áður hafði verið. Þetta tók töluverðan tíma, en vegna þess, af hverju kappi var unnið og af einlægum vilja til lausnar málsins, þá tókst þó að lokum að ná því, sem við vildum vinna að.

Hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistar, hafa talið það til sérstakra gæða núv. hæstv. ríkisstj. í Tékkóslóvakíu, að hún skuli hafa gert þennan samning. Auðvitað ber að fagna því, að núv. ríkisstj. Tékkóslóvakíu skyldi, eins og hin fyrri, vilja semja við Íslendinga. Þó hygg ég, að hjá báðum hafi ráðið hið sama. Báðar hafa þær talið það landi sínu til góðs að semja við okkur, enda er það mála sannast, að þó að margir gallar séu á algeru einræði fram yfir jafnvel takmarkað lýðræði, þá fylgja einræðinu samt, sem betur fer, ekki þau ósköp, að fólkið hætti að borða fisk eða skepnurnar síldarmjöl af sjálfdáðum jafnskjótt og einræði skellur á. Mun um þessa samninga sem flesta aðra gilda hið sama og Rússar sögðu við íslenzku samningamennina í fyrra, „að þeir mundu sem góðir kaupmenn gera kaupin þar, sem þau væru hagkvæmust.“

Það er þessi grundvöllur gagnkvæmlega hagkvæmra viðskipta, sem núv. ríkisstj. hyggur, að utanríkisverzlun okkar verði einungis byggð á. Við teljum okkur auðsæjan hag að því að hafa vinsamleg viðskipti við sem flestar þjóðir. Við teljum, að hagurinn muni ekki fara eftir því, hvaða stjórnarfyrirkomulag ríkir í hverju landi, heldur hvaða greiðslu við fáum á hverjum stað, og verður þá m.a. að gæta nokkurs hófs í því, hversu miklir vöruskiptasamningar eru gerðir, því að verðlagið skv. slíkum samningum sést t.d. af þvottaefninu, sem hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, býsnaðist yfir. En sams konar verðlagi á öllum innfluttum vörum sækist þessi hv. þm. eftir.

Hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistar, fara hins vegar ekki dult með það, að þeir vilja beina meginhlutanum af útflutningi okkar austur fyrir járntjaldið, og virðist hin æðsta hugsjón þeirra vera sú, að afurðir okkar séu ekki etnar af neinum öðrum en þeim, sem kommúnistískri stjórn lúta. Ein helzta ástæðan fyrir þessari afstöðu þeirra er vafalaust trúarleg lotning þeirra og dásömun á öllu, sem kommúnistískan keim ber, og þá ekki síður því, sem einnig er rússneskt að uppruna. Þessi auðmýkt þeirra kemur fram með ýmislegum hætti og stundum ærið broslegum. Viðskiptasamningar hv. þm. Siglf. (ÁkJ) við rússneska afskipunarmanninn, hr. Semenov, áttu vafalaust rætur sínar að rekja til þess, að hinn síðarnefndi var rússneskur að ætt og hingað sendur af kommúnistískri stjórn.

Hið sama kemur einnig fram á ekki síður kynlegan hátt í ýmissi fræðslustarfsemi hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., um kommúnismann í Rússlandi. Eitt af því, sem þessir menn nota hér á landi sérstaklega í áróðursskyni, er átölur á óhófslíf „yfirstéttarinnar“, sem þeir Kalla svo. Hafa þeir flokksbræður meðal annars viljað hindra, að vínveitingar væru í opinberum veizlum, til að stuðla að bindindi og einföldum lifnaðarháttum. Hefur þetta að vísu nokkuð stangazt á hegðun sjálfra þeirra, allt frá því, er fyrsti bæjarstjóri úr þessum flokki bauð broddborgurum staðarins „upp á glas“, svo sem ótvírætt var fram tekið í fagurlega prentuðu boðskorti, og þangað til ráðh. flokksins héldu eigi síður en embættisbræður þeirra fagrar veizlur á almannakostnað á valdatíma sínum. Þrátt fyrir þessa framkomu þeirra hefur ekki vantað atkvæði þeirra á Alþingi, er þeir voru að segja öðrum fyrir verkum um hófsama hegðun, né hefur skort á orðaskvaldur þeirra, hvort heldur í Þjóðviljanum eða gegnum málpípu þeirra, hv. 6. þm. Reykv., Sigfús Sigurhjartarson. Sumt, sem útgáfufyrirtæki flokks þessa, Mál og menning, hefur hirt um ástand í þessum efnum í óskalandi kommúnismans, skýtur raunar mjög skökku við annan áróður þeirra hér á landi, þó að það sé ekki eins fjarlægt því, sem framkvæmdin hefur orðið bæði hjá hv. sameiningarflokksmönnum alþýðu, sósíalistum, og öðrum, og hefur sú framkvæmd þó frekar verið kennd við fordæmanlega „yfirstéttarsiði“ en „draumsjónir verkalýðsins“. En einmitt það, að þeir flokksmenn skuli taka sig fram um að birta slíkt hér á landi, sýnir, hvílík dálæti þeir hafa á öllu, sem kommúnistískt er. — Ein slík frásögn er í bók eftir amerískan blaðamann, Rkhard E. Lauterbach. Nefnist bókin „Réttlæti, en ekki hefnd“ og er gefin út af Máli og menningu í Reykjavík 1946. Nokkur formálsorð hefur einn af helztu forvígismönnum kommúnista hér á landi, Ásgeir Blöndal Magnússon, ritað. Í formálsorðunum segir Ásgeir um höfundinn: „En hitt er meira um vert, að hann hefur ágætis athyglisgáfu, hann er heiðarlegur í frásögn sinni og gerir sér einlæglega far um að komast að því sanna.“ Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa nokkra kafla úr þessari bók, og birtast þeir á síðu 112–118. Þar segir Svo:

„Einu skiptin, sem Sovétleiðtogarnir sýna á sér fleiri en eina hlið, sérstaklega útlendingum, er þegar þeir hvíla sig og fá sér vodka í veizlum og samkvæmum. Þá skemmta þeir sér með sama áhuganum og þeir vinna störf sín....

Í febrúar (þ.e. meðan á stríðinu stóð) var mér boðið að mæta í samkvæmi, sem haldið var í tilefni af tuttugu og sex ára afmæli Rauða hersins. Það voru Molofov-hjónin, sem buðu. Boðskortið var skrautlegt, og á því stóð „samkvæmisklæðnaður með heiðursmerkjum“. Samkvæmið var haldið í Spírodonivka-höll, þar sem Moskvuráðstefnan var haldin. Hún er ekki í Kreml, en strangur vörður er hafður um hana. Öryggislögreglan við hliðin leit samt ekki á boðskortið mitt né skilríki. Þeir þekkja alla útlendinga í Moskvu í sjón. Mér fannst oft, að þeir mundu geta sagt mér, hvað ég hefði borðað í morgunverð á þriðjudaginn fyrir þrem víkum. — Um hálf-níuleytið byrjuðu Molotovhjónin að taka á móti gestunum í einum af kristalsdanssölum hallarinnar. Þau stóðu undir glitrandi kristalsljósakrónu og tóku í hönd allra. Hópur eftir hóp af skrautklæddum stjórnarerindrekum, stássstofu-hershöfðingjum og baðkarsflotaforingjum frá öllum siðmenntuðum löndum jarðar, þar á meðal frá Japan, kom inn í salinn ....

Í þrjá stundarfjórðunga streymdu gestirnir inn, stórir og smáir ....

Þegar móttakan var um garð gengin, voru drukkin nokkur glös, og síðan voru hljómleikar. Að hljómleikunum loknum leiddi Molotov hópinn að matborðunum. Borðsalirnir voru tíu. Á miðju gólfi hvers þeirra stóð borð, hlaðið mat og drykk. — Sakúski (dýrindisfæða) frá styrjuhrognum til nautasteikar og andakjöts var þar í svo ríkum mæli, að þegar heitu réttirnir komu nokkrum klukkutímum síðar, var enginn svangur nema þjónarnir. Þeir hlóðu í sífellu diska og hurfu með þá bak við hin þykku silkitjöld. Máltíðin var ágæt og endaði með alls konar ábætum og rauðu kampavíni. — Flestir gestanna sáu fyrir sér sjálfir, en í bakherbergi voru borð, þar sem hægt var að fá réttina færða sér. Þar sátu Molotov-hjónin ....

Snemma var byrjað að skála á mörgum tungumálum . . . .

Um miðnætti byrjuðu gestirnir að reika milli herbergjanna ....

Þarna var að finna alla helztu leiðtoga Sovétríkjanna, veraldlega og andlega, nema hershöfðingjana í herforingjaráði Rauða hersins og Sdanov, formann flokksins í Leningrad ....

Ég gekk aftur til herbergisins, þar sem hinir hæstsettu gestir höfðu nú breytt um víntegundir og voru farnir að drekka kampavín í stað vodka ....

Kl. 2 eftir miðnætti var veizlan sem fjörugust. Í hinum stóra danssal var dansað og hlegið, en á milli dansanna sungu þeir Koslovski og Baturin, tveir vinsælir söngvarar. Visinsky hafði augsýnilega lagt alla leynilega stjórnmálastarfsemi á hilluna þetta kvöld og var ákveðinn í að skemmta sér sem bezt og sjá til þess, að allir aðrir gerðu það líka. Hann var í einum hinna nýju dökkbláu einkennisbúninga rússnesku utanríkisþjónustunnar, og á honum hékk Lenin-orða hans ....

Í enn öðru herbergi drukku Búdjónni og Vorosjilov skálar á víxl, meðan aðstoðarforingjar þeirra biðu í kringum þá og veltu fyrir sér, hvernig þeir gætu fengið þá til að hætta ...

Kl. þrjú um morguninn byrjuðu menn að fara. Þjónarnir fóru að telja silfurborðbúnaðinn. Hljómsveitin lék enn þá og Visinsky var að dansa fallegan vínarvals. Búdjónni hélt utan um tvo riddaraliðsforingja, og þeir sungu gamlan kósakkasöng. Ehrenburgh hélt enn hrókaræður yfir Maískí.

Margir gestanna fóru ekki fyrr en umferðarbanninu var aflétt kl. 6 um morguninn. Ég staulaðist heim fótgangandi ásamt nokkrum öðrum fréttariturum. Á leiðinni vorum við stöðvaðir af varðmanni og beðnir um næturvegabréf okkar. Sumir okkar voru með þau á sér, en við sýndum þau ekki. Í stað þess svöruðum við: „Við vorum hjá Molotov-hjónunum“. Varðmaðurinn blíðkaðist ekkert. Honum var sýnt eitt boðskortið ..... Svipur hans og látbragð breyttist skyndilega. Hann kom aftur, rétti okkur boðskortíð, heilsaði okkur að hermannasið, bað okkur að afsaka og bauð okkur góða nótt.“

Ég vek athygli á því, að þessi lýsing er lesin úr riti, sem sjálft félagið Mál og menning, þá undir forustu Kristins Andréssonar, fremsta menningarfrömuðs kommúnista hér á landi, hefur dreift í þúsundum eintaka um land allt. Enda segir Ásgeir Blöndal Magnússon í formála sínum, að höfundurinn „leyfi staðreyndum að tala sínu máli“, hann segi „hispurslaust frá skorti og vandræðum, erfiðum kjörum og baráttu fólksins og lýsir einnig draumum þess og hetjudáðum.“

Auðvitað skortir mig öll skilyrði til að dæma um sannleiksgildi þessarar frásagnar. Það skiptir ekki heldur máli í þessu sambandi. Það er ekki lýsing á samkvæmislífi ráðamanna í Moskva, sem hefur þýðingu fyrir okkur, heldur hugarástand þeirra manna í flokksfyrirtæki kommúnista hér á landi, Máli og menningu, sem láta slíka lýsingu frá sér fara í áróðursskyni í mörg þúsund eintökum og tala um það í sömu andránni, að verið sé að lýsa „draumum“ fólksins. Þegar íhugað er þetta sálarástand ráðamanna í hv. Sameiningarflokki alþýðu, Sósfl., þá er það skiljanlegt, að þeir hafi jafnmikinn hug á að koma í veg fyrir, að nokkrir aðrir en kommúnistar eti íslenzkan fisk, sem að verja allar athafnir kommúnistískra stjórna, bæði í innanríkis- og utanríkismálum, svo sem þær væru beinlínis gerðar til framdráttar flokki þeirra hér á landi og í hans umboði.

Nú verður því ekki neitað, að hin kommúnistísku ríki, og þá einkum Rússland, hafa gerzt ærið athafnasöm á vettvangi utanríkismála hin síðari ár. Áður en síðasta heimsstyrjöld hófst, var aðeins eitt kommúnistaríki til, að vísu harla stórt, sem sé Sovétsambandið rússneska. Með leynilegum viðbótum griðasáttmála Þýzkalands og Sovétsambandsins frá 23. ágúst 1939 var svo ákveðið, að austurhluti Póllands, Bessarabia og baltnesku löndin, þ.e. Finnland, Eistland, Lettland og Lithauen skyldu verða á áhrifasvæði Sovétsambandsins. Þrátt fyrir sakleysislegt orðalag leyniákvæða þessara duldist hvorugum hinna háu samningsaðila, hvað í þeim fólst. Þjóðunum, sem um var samið, lærðist það hins vegar ekki fyrr en smám saman, því að enginn fulltrúi þeirra var kvaddur til þess móts, er örlögum þeirra var ráðið til lykta. Leið þó ekki á löngu, áður en íbúarnir í Austur-Póllandi, Eistlandi, Lettlandi, Lithauen, Bessarabíu og Finnlandi fundu af eigin raun, hvað það kostar þegnana, jafnvel í öðrum og sjálfstæðum ríkjum, þegar slíkir sættast sem Stalín og Hitler, því að á næstu mánuðum eftir gerð griðasáttmálans voru öll þessi lönd innlimuð Sovétsambandinu nema Finnland, sem þó átti mjög um sárt að binda eftir vetrarstyrjöldina 1939–1940. Þeir atburðir, sem síðan hafa gerzt í Júgóslavíu, Póllandi, Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi, Tékkóslóvakíu og nú eru að gerast í Finnlandi, eru í beinu framhaldi hinna, sem hófust með gerð griðasáttmálans 23. ágúst 1939.

Auðvitað getur engum blandazt hugur um meginþýðingu þessara atburða fyrir alla þá, sem lifa í þeim hluta heims, er við byggjum.

Þess gerist engin þörf fyrir mig að lýsa hér, hvílíkum óhug hefur slegið á allan þorra Íslendinga sem aðra frjálshuga menn um heim allan við atburði þessa. Fjölmargar samkomur, bæði hér á landi og með nágrannaþjóðum okkar, hafa lýst hinni almennu óbeit, er athæfi þetta álit hefur vakið, og er þó ekki nema að vonum, að það veki sérstakan ugg hér á landi, er við sjáum hverja þjóðina af annarri missa frelsi sitt á ný, er það höfðu öðlazt um svipað leyti og við fengum fullveldi okkar viðurkennt 1918, og voru því að vissu leyti jafnaldrar okkar. En þeim mun ískyggilegra er, að til eru Íslendingar, sem ekki aðeins afsaka og verja þessa atburði, heldur draga enga dul á, að þeir telji alla þessa atburðarás hið mesta fagnaðarefni, sem þeir miklast yfir að eiga nokkurn þátt í. Í hópi þessara manna skal fyrstan frægan telja Halldór Kiljan Laxness, sem lét svo ummælt um örlög Póllands á árinu 1939:

„Þrem vikum eftir undirskrift griðasáttmálans er bolsévisminn á bökkum Veiksel. Fimmtán milljónir manna í miðaldalegu lénstímaríki, sem frægt var fyrir mestu bændaörbirgð á Vesturlöndum, hafa árekstralítið og án verulegra blóðsúthellinga hoppað inn í ráðstjórnarskipulag verkamanna og bænda.

Ég skil ekki almennilega, hvernig bolsévikkar ættu að sjá nokkuð hneyksli í því, að 15 milljónir manna eru þegjandi og hljóðalaust innlimaðir undir bolsévismann.“

Ummæli sama skálds réttum 9 árum síðar sýna, að kaldyrði þess um sorgarsögu Pólverja 1939 voru engin augnabliks skyssa, heldur mælt af öruggri sannfæringu, því að 15. nóv. 1947 segir skáldið svo:

„En það er nú svona samt, að kommúnisminn er kominn inn í miðja Evrópu og fram með öllu Eystrasalti og í Berlín og á alla mögulega staði, þar sem hann þótti óhugsanlegur fyrir fáeinum árum. Það virðist svo sem ekkert geti stöðvað hann, staðbundnir sigrar eða ósigrar í einhverjum útkjálkakosningum ráða þar ekki neinum úrslitum.“

Þær útkjálkakosningar, sem skáldið á við, voru í Frakklandi, Englandi, höfuðborg Ítalíu, Noregi, Danmörku og Finnlandi. Í öllum þessum löndum gengu frjálsir menn til kosninga, en það telur skáldið ekki mikils um vert. Í augum þess skiptir öllu máli, hvort kommúnisminn sækir fram eða ekki. Hjá skáldinu hefur vilji fólksins sjálfs enga þýðingu. Ef fólkið sér ekki sjálft, hvað því er fyrir beztu, telur skáldið, að aðrir verði að hafa vit fyrir því með þeim fyrirvara einum, að auðvitað verða þessir forvígismenn fólksins að hafa vit á því að vera Halldóri Kiljan Laxness sammála.

Mörgum hefur hrosið hugur við kaldlyndi því, er lýsti sér í þessum ummælum skáldsins. En það er fullkominn misskilningur að ásaka skáldið persónulega. Í orðum skáldsins kemur einmitt fram einn meginþátturinn í öllu fræðikerfi kommúnismans, sem sé. sá, að allt ríkisvald, sem ekki er í höndum kommúnista, sé hættulegt fyrir framgang kommúnismans og þar með velgengni alþýðunnar, hvort sem því er beitt inn á við eða út á við í skiptum milli ríkjanna. Af þessu draga kommúnistar þá ályktun, að splundra verði ríkisskipulagi allra þjóða, sem ekki hafa tekið upp kommúnismann.

Í riti sínu um „vandamál í kenningum Lenins“ kemst Stalín svo að orði: „Umbótamanninum eru umbæturnar allt .... Í augum byltingamannsins aftur á móti .... eru umbæturnar ætíð gerðar til að grafa undan þjóðskipulaginu .... ætlaðar til að vera virki fyrir áframhaldandi eflingu byltingarhreyfingarinnar.“

Í sama riti segir Stalin enn fremur: „Alþjóðleg þýðing byltingar okkar liggur í því, að hún er .... fyrsta skref í heimsbyltingunni og öruggur grundvöllur fyrir áframhaldandi eflingu hennar .... Hvað er land okkar, þegar það byggir upp sósíalismann, annað en grundvöllur fyrir heimsbyltinguna?“

Í ljósi þessara kenninga er fögnuður Halldórs Kiljans Laxness og annarra kommúnista yfir frelsismissi þjóðanna skiljanlegur. Meðan þær njóta enn frelsis síns, eru þær í augum þessara manna sem villuráfandi sauðir. En þegar ægivald kommúnismans umlykur þær, þykir þeim sem þessar þjóðir séu eins og barn í móðurfaðmi. Og úr því að þeir líta svo á, hljóta þeir ekki síður að óska þjóð sinni að komast í þennan náðarfaðm en þeir óska þess öðrum og sér fjarlægari þjóðum. Í ljósi þessa er og auðskilið, af hverju kommúnistar í Noregi vildu ólmir, að Rússar fengju herstöðvar á Svalbarða, en kommúnistar hér á landi slógust í för með sér þjóðræknari mönnum um að neita því, að Bandaríkin fengju herstöð á Íslandi. Hnattstaða Svalbarða er slík, að Rússar töldu sér fært að fara þess á leit að fá þar herstöð. Lega Íslands er aftur á móti sú, að að óbreyttum valdahlutföllum í heiminum gat ekki komið til greina, að Sovétríkin fengju herstöð hér. En úr því að hinu bezta varð ekki náð, létu kommúnistar sér nægja hið næstbezta, sem sé að þykjast vinna að því með öðrum Íslendingum, að engin erlend þjóð fengi hér hernaðarbækistöð. Af því varð þó sá árangur í þeirra augum, að Ísland varð varnarlaust og því opið öllum, sem á okkur vilja ráðast. Þó að þeir í því skyni þyrftu að bregða sér í dulgervi þjóðernisástarinnar, sem þeir annars þykjast hafa yfirunnið, tóku þeir sér það ekki nærri, því að höfuðspámaður þeirra, Lenin, hefur einmitt í ritinu „Barnasjúkdómur vinstri stefnunnar í kommúnismanum“, skrifað: „Við verðum að vera reiðubúnir að nota brögð, svik, lögbrot, að skjóta undan og fela sannleikann“. Meðal boðorða Lenins er og þetta: „Við getum og verðum að rita .... á því máli, sem sáir meðal fjöldans hatri, viðbjóði, fyrirlitningu og svipuðum tilfinningum til þeirra, sem aðra skoðun hafa“.

Menn sjá af þessu, hvaðan nýársboðskapur Þjóðviljans um meira miskunnarleysi muni vera sprottinn. En þó að mönnum þyki baráttuaðferðir kommúnista vera hatursfullar, þá mega menn ekki halda, að miskunnarleysið spretti af mannvonzku hvers einstaks kommúnista um sig. Í hugum kommúnista er kommúnisminn ekki aðeins stjórnmálaskoðun, heldur óyggjandi vísindi. Þeir telja, að með kommúnismanum sé í eitt skipti fyrir öll fundin lausnin á öllum þjóðfélagsvandamálum. Í huga sínum sameina kommúnistar sannfæringu vísindamannsins um réttmæti kennisetninga vísindanna við trú strangtrúarmannsins á æðri opinberunum. Gallinn er sá, að í augum alls þorra manna hefur kommúnisminn hvorki helgi trúarsetninganna né sannleiksgildi staðreynda og lögmála vísindanna. Við vitum of mikið um uppruna kommúnismans til að við getum trúað á hann sem guðdómlega opinberun, jafnvel þó að frumhöfundur hans hafi verið fjölfróður síðskeggur af ætt spámannanna og kirkjurit austur í Moskva hafi nýlega skýrt frá því, að Stalín sé af guði sendur. Fræðilegur grundvöllur kommúnismans hefur og ætíð verið of veikur til, að hann ætti nokkuð skylt við vísindi, enda hefur reynslan afsannað réttmæti flestra af kenningum Karls Marx, þó að hinn verði ekki neitað, að fáir hafi haft meiri áhrif með skrifum sínum en einmitt hann, að vísu um sumt til góðs, en þó að mestu til ills. — En þó að við, sem ekki erum blindaðir af trúarofstæki kommúnismans, sjáum veilurnar, sem í honum eru, má það ekki verða til þess, að við misskiljum eða vanmetum þá, sem enn trúa kenningum hans jafnörugglega og því, að jörðin gangi umhverfis sólina. Allir þeir, sem þessa trú eða kenningu játa, hvar sem þeir eru í heiminum, telja sig tilheyra einum og sama flokknum. Um þetta vitna ekki aðeins dagleg orð og athafnir kommúnista um víða veröld, svo sem t.d. skrif Þjóðviljans hér á landi undanfarin misseri. Heldur hefur þetta og beinlínis sannazt á lögfræðilega óyggjandi hátt um framferði hinna alræmdu kommúnistísku njósnara í njósnaramálunum frægu í Kanada. En þar kom á daginn, að menn, sem í daglegri breytni máttu ekki vamm sitt vita, létu leiðast til að fremja landráð gegn þjóð sinni, vegna þess að þeir með því héldu sig vera að vinna að sigri hins alþjóðlega kommúnisma. Þeir höfðu bundizt þeim félagsskap, alþjóðasamtökum kommúnista, er í huga þeirra blandaðist saman við Sovétríkin rússnesku, sem þeir settu ofar sínu eigin föðurlandi. Sama ber enn við í Noregi, þegar nafntogaður kommúnisti þar heitir þjóð sinni því, að þar muni innan skamms endurtaka sig atburðirnir í Tékkóslóvakíu. Sumir mundu sjálfsagt segja, að ekki sé að marka það, hvernig kommúnistar komi fram í Kanada eða Noregi. Íslendingar, þótt kommúnistar séu, hafi annað eðli, og á orðaskvaldri Þjóðviljans taki enginn maður mark. Að vísu tala líkurnar sinn ótvíræða máli, og fáir munu trúa því, að það sé tilviljunin einber, að þeir eru skólabræður frá Moskva Gottwald forsrh. í Tékkóslóvakíu og Þóroddur Guðmundsson fyrrv. alþm., sá sem sagði: „Hvað varðar okkur um þjóðarhagsmuni?“ En við á Alþ. Íslendinga þurfum engar getgátur um þetta efni. Við höfum fyrir okkur ummæli manns, sem við persónulega metum mikils, þó að við séum honum mjög ósammála, þ.e. hv. 4. landsk. þm., Brynjólfs Bjarnasonar, aðalstjórnanda hv.

Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl. hér á landi, Á 7. þingi Komintern í Moskva mælti hann á þessa leið:

„Að vísu erum við lítill flokkur, en við erum einn hluti hins mikla byltingarflokks heimsins, sem á slíka menn að foringjum eins og Stalín og Dimitroff“.

Dimitroff þessi er sá hinn sami, sem nýlega á þingi þjóðar sinnar hótaði stjórnarandstöðunni með lífláti, ef hún gerðist svo djörf að greiða atkvæði á móti fjárlagafrv. ríkisstj. En allir vissu, að það voru ekki orðin tóm, sem þar voru viðhöfð, því að skömmu áður hafði Dimitroff staðið fyrir aftöku Petkovs, eins af frjálslyndustu stjórnmálamönnum Búlgaríu, og síðan réttlætt líflát hans með því, að það mundi ekki hafa orðið, ef Vesturveldin hefðu ekki mótmælt aftökunni. Sjálfur hafði Dimitroff lent í höndum nazista á árinu 1933. Var hann þá ákærður fyrir þátttöku í Ríkisdagsbrunanum, en slapp úr þeim heljarklóm vegna mótmæla hins siðmenntaða heims á því réttarmorði, er menn hugðu, að á honum ætti að fremja. Á árinu 1947 „varð“ Dimitroff hins vegar að láta taka landa sinn af lífi, vegna þess að ella óttaðist hann að verða fyrir álitshnekki. En hv. 4. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, hefur lengi haft mikið dálæti á Dimitroff, því að 1939 skrifaði Brynjólfur:

„Í því sambandi er gott að minnast orða Dimitroffs: Prófsteinninn á einlægni og heiðarleik hvers starfmanns verkalýðshreyfingarinnar, hvers verkalýðsflokks og hvers lýðræðissinna í auðvaldsríkjunum, er afstaða hans til hins mikla lands sósíalismans“.

En frá eigin brjósti skrifar Brynjólfur þá: „Vonir verkalýðsins um sigur sósíalismans eru tengdar við það, að til er sósíalistískt stórveldi, sem ræður yfir sjötta hlutanum af þurrlendi jarðar“. — Og sumarið 1941 sagði Brynjólfur hér á Alþingi: „Þeir munu reynast beztir Íslendingarnir, sem hafa hina sósíalistísku alþjóðahyggju að leiðarvísi í allri sinni framkomu“. Í sömu ræðu sinni segir Brynjólfur Bjarnason um herverndarsamninginn við Bandaríkin frá 1941: „Það mun verða litið svo á, að með yfirlýsingu ríkisstj., hæstv. forsrh. til forseta Bandaríkjanna, hafi Ísland glatað hlutleysi sínu. — — — Þýzka útvarpið lét ekki á sér standa að lýsa því yfir, að Bandaríkin séu komin þangað, sem stríðið er, og þar verði skotið án allrar miskunnar. — — —

Ef ráðstafanir Bandaríkjanna yrðu til þess, að veitt yrði virk aðstoð í þeirri baráttu, sem háð er á austurvígstöðvunum, þá mundu Íslendingar ekki heldur telja ettir sér það, sem af því stafaði, en það er bezt að láta verkin tala“.

Þarna er ekki farið dult með, hvað inni fyrir býr. Ef Íslendingar verða Rússum að gagni, þá telja þeir ekki eftir sér, að skotið verði á þá án allrar miskunnar. Menn beri þetta saman við hræsnisskraf hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, um hlutleysisstefnu þessara herra.

Nú þykir mér eðlilegt, að menn spyrji mig: Ef allt þetta er rétt, sem þú segir um eðli og starfshætti kommúnista, og engu af því er hægt að hnekkja vegna þess, að það er allt byggt á óhagganlegum staðreyndum og ummælum kommúnista sjálfra um stefnu sína, hvernig stendur þá á því, að þú skyldir vinna að því, að kommúnistar kæmust í stjórn á Íslandi og síðan styðja þá í stjórn um meira en tveggja ára bil? — Auðvitað er eðlilegt, að spurt sé. Skiptir það að vísu ekki öllu um eðli kommúnismans, hvort ég hef ætíð skilið það til hlítar eða ekki. Hætturnar, sem af kommúnismanum stafa, eru jafngeigvænlegar fyrir því. Að vísu er mér ljósara eðli kommúnismans nú en mér var það þá, enda voru þá fyrir hendi veigamiklar ástæður, sem gerðu það líklegt, að kommúnistar hefðu séð að sér frá því, sem áður var. Gangur síðustu heimsstyrjaldar sannaði svo skýrt sem verða mátti, að sú höfuðkenning kommúnista var röng, að auðvaldsríkin, þ.e. öll ríki, sem ekki lúta kenningum kommúnista, sætu á svikráðum við Sovétríkin og biðu aðeins færis að ráðast á þau og jafna þjóðskipulag þeirra við jörð. Þvert á móti leituðu vestrænu lýðræðisríkin bandalags við Sovétríkin gegn nazistunum þýzku, áður en styrjöldin brauzt út, þó að Sovétríkin kysu þá fremur að semja við nazista en lýðræðisríkin í vestri. En jafnskjótt og nazistar réðust á Sovétríkin, komu lýðræðisríkin í vestri Sovétríkjunum til hjálpar. Þau léðu aldrei máls á því að láta Þjóðverja í friði um að koma Sovétríkjunum á kné, svo sem vissulega hefði verið sjálfsagt frá þeirra sjónarmiði, ef kenningar kommúnista um einangrun annarra á Sovétríkjunum og ófarnaðaróskir þeim til handa hefðu haft við rök að styðjast. Ég játa, að ég var það barn að halda, að kommúnistar um heim allan mundu láta sér þessar staðreyndir að kenningu verða. Þeir mundu sjá og skilja; að lýðræðisríkin vilja ekkert fremur en fá að lifa sjálf í friði og lofa öðrum að lifa í friði á sama veg, hverjum eftir sinni lífsskoðun. Upplausn Komintern virtist gefa til kynna, að ráðamennirnir í Moskva væru komnir á þessa skoðun. Að þeir litu ekki lengur á land sitt sem stökkbretti fyrir alheimsbyltinguna, er engin þjóð getur verið óhult fyrir.

Seinni stríðsárin og fram yfir styrjaldarlok átti sér ekki aðeins stað náin samvinna Sovétsambandsins og lýðræðisríkjanna um milliríkjamál, heldur gengu kommúnistar og víðs vegar í lið með frelsisunnandi mönnum innan ríkjanna til að varpa af þeim oki nazismans. Varð þetta til þess, að kommúnistar tóku um skeið þátt í borgaralegum stjórnum, t.d. í Frakklandi, Belgíu, Ítalíu, Noregi og Danmörku, auk landanna í A.-Evrópu, sem menn þá vissu enn eigi, hversu ömurleg örlög mundu hljóta. Samtímis þessu höfðu einmitt í sambandi við hernám Breta og herverndarsamninginn við Bandaríkin gerzt þeir atburðir hér innanlands, sem ég vonaði, að hefðu sannfært meðlimi hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., um, að þrátt fyrir allan skoðanamun, þá vildum við láta þá ekki síður en aðra njóta góðs af því, að við Íslendingar stæðum saman gegn erlendu valdi, ef það ætlaði að hafa óréttmæt skipti af málefnum okkar eða frjálsræði íslenzkra, borgara. Að þessu athuguðu sýndist mér ekki áhorfsmál, að ef ekki væri unnt að létta þeirri skömm af Alþingi að geta ekki myndað þingræðisstjórn á annan veg en með þátttöku hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., í ríkisstj. um sinn, og með þeim skilyrðum að öðru leyti, sem aðgengilegt væri, þá væri sjálfsagt að gera slíka tilraun. Hitt hef ég aldrei farið dult með, að í mér var þá þegar nokkur geigur, að hv. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., væri ekki þess trausts verður, sem ég og aðrir þá settum til hans. Því miður fór svo, að geigurinn reyndist ekki ástæðulaus með öllu. Því ber ekki að neita, að á meðal íslenzkra kommúnista eru margir mikilhæfir menn, og þeir studdu að framgangi ýmissa þjóðnytjamála, á meðan þeir um skeið sátu nokkuð á strák sínum, einkum fyrri hluta þess tímabils, er þeir áttu sæti í hæstv. fyrrv. ríkisstj. Kom þó skjótt í ljós, að hv. Sameiningarflokkur alþýðu, sósíalistar, vildu að vísu, meðan þeir nutu forustu sjálfstæðismanna, vinna að öflun nýrra atvinnutækja, en höfðu ekki sama hug á því og samstarfsmenn þeirra, að tækin yrðu almenningi að notum undir núv. þjóðskipulagi, heldur virtust þeir fyrst og fremst hafa hug á að veikja fjárhagskerfi þjóðarinnar og þar með grafa undan sjálfu þjóðskipulaginu. — Einkum kom þó ágreiningur fram út úr utanríkismálunum. Snemma árs 1945 var Íslandi gefinn kostur á að gerast stofnandi að félagsskap Sameinuðu þjóðanna, gegn því að segja Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur. Hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistar, gerðu þessa ósk þegar að sinni. Þótti ýmsum þá þegar ákefð þeirra í þessu harla tortryggileg. Ákefðin sú verður að vísu skiljanlegri, en ekki miður tortryggileg, eftir að upplýst er orðið, að það voru Rússar, sem settu þetta skilyrði fyrir þátttöku okkar og nokkurra annarra ríkja í stofnun sameinuðu þjóðanna. Allur þorri þm. og annarra landsmanna, sem vitneskju fékk um þetta, snerist þegar í stað á móti þessum stríðsæsingum hv. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl. Þeim mun merkilegri var þessi stríðsáhugi þeirra fyrri hluta árs 1945, sem þeir nokkrum víkum síðar og æ síðan hafa hamrað á því, að Íslendingar ættu alls ekki að láta deilur stórveldanna til sín taka. Eru óneitanlega meira en litlar líkur til þess, að hv. sameiningarflokksmenn alþýðu, sósíalistar, verði þeirri stefnu ekki trúir lengur en á meðan þeir halda, að rétt stjórnarvöld íslenzk og Íslendingar yfirleitt muni, ef til kemur, verða andsnúnir hinum alþjóðlega kommúnisma.

Reynslan frá 1945 og allt, sem síðan hefur gerzt, sýnir, að ef þessir hv. þm. og skoðanabræður þeirra hefðu trú á því, að Ísland á einhvern veg gæti orðið til þess að ryðja braut framgangi hins alþjóðlega kommúnisma, eða ef hann gæti náð yfirráðum hér á landi, mundu þeir ekki eitt augnablik hika við að leggja sig alla fram um, að svo mætti verða. Reynsla okkar er ekkert einstakt fyrirbrigði. Hún hefur hvarvetna orðið hin sama. Allt of víða hefur kommúnistum orðið að ætlan sinni. Þar hefur kyndill frelsisins slokknað og járntjald verið dregið fyrir eðlileg samskipti þjóðanna. En alls staðar þar, sem lýðræðið hefur haldið velli, hafa kommúnistar hrakizt úr stjórn. Frá þessu er Finnland eina undantekningin, og þarf ekki að eyða orðum að því, af hverju þeir fá enn að taka þar þátt í stjórn.

Tiltrú sú, sem kommúnistar áunnu sér á stríðsárunum, er nú hvarvetna horfin. Menn hafa nú skilið, að barátta kommúnista gegn nazismanum var ekki barátta fyrir frelsi, heldur barátta fyrir öðru formi einræðis, sízt mildara eða mannúðlegra, þar sem kommúnistar ætla sjálfum sér húsbóndasessinn. Hið gamla Komintern hefur og verið endurvakið með nýju nafni þó, til að reyna að dylja, að allt er með sama hætti og áður um ósjálfstæði hinna einstöku flokksdeilda gegn allsherjarmiðstöðinni. Hér á landi hikuðu kommúnistar ekki eitt augnablik við að setja hollustu við hinn alþjóðlega kommúnisma ofar trúmennsku sinni við íslenzka alþýðu eða þjóðina í heild. Þeir stukku fyrir borð af stjórnarfleyinu strax og sýnt var, að aðrir létu ekki hafa sig til að ofurselja þjóðarhagsmuni, þó að kommúnistar krefðust þess með ofbeldi og írafári af þjónslund við alþjóðafélagsskap sinn.

Við vitum öll, að ein uppáhaldsósannindi hv. Sameiningarflokks alþýðu, sósíalista, eru þau, að Bandaríkin hafi herstöð hér á landi. Þessum ósannindum dreifa þeir flokksmenn ekki aðeins ósleitilega út hér á landi, heldur öfluglega um heim allan til framgangs hinum alþjóðlega kommúnisma. Atferli Bandaríkjanna á að vera sönnun um yfirgang þeirra í garð smáþjóðar. Hafa sumir málsvarar hins alþjóðlega kommúnisma á alþjóða vettvangi gengið svo langt að bera saman hörku Bandaríkjanna gagnvart okkur, minnstu þjóð heimsins, við sætleik Sovétríkjanna við smáþjóðir þær, sem undir þau eiga að sækja. Þann samanburð þarf ekki að gera hér á Íslandi, enda þarf ekki minnar umsagnar, hvernig Sovétríkin hafi komið fram við nágranna sína. Hitt veit ég, að Bandaríkin hafa fyrr og síðar komið svo fram við Ísland sem það væri sjálfum þeim jafnrétthár aðili við samningsgerð alla, og eru þau þó voldugasta ríki veraldar nú, en við það veikasta. Betur væri, að öll voldug ríki hefðu þolað nágrönnum sínum sams konar neitun um herstöðvar og Bandaríkin þoldu okkur á sínum tíma og nú nýlega t.d. smáríkinu Panama í Mið-Ameríku. En þessar staðreyndir draga ekki úr áróðri kommúnista. Áróðursmönnum þeirra eru ósannindin sannleikanum ljúfari, ef þau ýta fremur undir sigur kommúnismans en sjálfar staðreyndirnar. Hvort sem hinn alþjóðlegi kommúnismi kann að hafa gagn af þessum ósannindum eða ekki, er víst, að þau eru fram flutt íslenzku þjóðinni til óþurftar.

Ef hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, trúir á ógnir atómstyrjaldar með þeim hætti, sem hann hét hér áðan, hvernig fær hann sig þá til að skrökva því upp, að hér á landi sé herstöð, þegar hann veit jafnvel og aðrir, að þetta eru alger ósannindi? Hver fær neitað því, að með þessu er hann að kalla hættu yfir land sitt? Og er þá eðlilegt, að Einar Olgeirsson verði að svara því, hver það verði, sem kasti atómbombunni, sem hann segir okkur, að eyða muni íslenzku þjóðinni, ef hún verði honum ekki hlýðin. Íslenzka þjóðin vill vera í vináttu við allar þjóðir, jafnt þær, sem standa henni fjarlægast að hugsunarhætti, stjórnháttum og menningu allri, sem hinar, sem okkur eru skyldari. En þó að Íslendingar unni öllum þjóðum góðs, er þó eigi nema von til, að þeir uni því illa, að reynt er að spilla vinfengi þeirra við þær þjóðir, sem þeir eru næstir, ekki aðeins að hnattstöðu, heldur einnig um menningu. hugsunarhátt og stjórnarfar. Íslendingar eru vestræn þjóð, bæði að legu og hugsunarhætti. Aðrar vestrænar þjóðir munar að vísu ekki mikið um atbeina okkar, en fyrir okkur er lífsskilyrði að njóta samúðar þeirra og tilstyrks. Við höfum og gerzt aðilar að Marshalláætluninni, bæði vegna þess, að við vildum af veikum mætti efla heilbrigða samvinnu vestrænna þjóða, en ekki síður vegna hins, að við höfum beina hagsmuni af viðreisn og uppbyggingu Vestur-Evrópu. Við erum einn hluti hennar, og þær meinsemdir, sem þar grafa um sig, gera okkur tjón áður en varir. Hið hörmulega ástand, sem í þessum löndum er nú, veldur því, að frjáls viðskipti eru mikið til úr sögunni, en í þess stað eru komin nær eingöngu vöruskipti í öllum samningum Evrópuríkja. Þetta veldur því, að allar Evrópuþjóðir skortir nú mjög hinn eina alþjóðlega gjaldeyri, sem hvarvetna er nú gjaldgengur, sem sé dollara. Þessi skortur mun einnig mjög gera vart við sig hér á næstu mánuðum, jafnvel þó að okkur að öðru leyti takist að rétta við verzlunarjöfnuð okkar, svo sem allt kapp verður lagt á. Ef atvinnuvegir landsmanna eiga ekki að stöðvast og ömurlegt atvinnuleysi að hefja hér innreið sína, er þess vegna óumflýjanlegt, að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til þess að afla okkur dollaragjaldeyris. Einnig af þeim ástæðum höfum við ríka eiginhagsmuni af að taka þátt í Marshalláætluninni, eins og allar hinar frjálsu þjóðir Evrópu gera. En einmitt vegna þess, að Marshalláætlunin er nú helzta von um viðrétting og endurreisn, hamast kommúnistar gegn henni meira en nokkru öðru. Um það voru gefin fyrirmæli á stofnfundi Kominform, hins endurreista Komintern, á s.l. hausti. Hv. 2. þm. Reykv. (EOl) lét þá ekki á sér standa um þjónsstarfið og flutti jafnskjótt hina alræmdu tillögu sína gegn Marshalláætluninni hér á Alþingi. Hafa þeir félagar því miður ekki látið hina hraklegu útreið sína sér að kenningu verða, sbr. það, er þeir af undirlægjuskap sínum við fyrirmælin austan að létu Alþýðusamband Íslands neita að taka þátt í viðræðum verkalýðsfélaga annarra vestrænna þjóða um þá viðreisn, sem okkur er ekki síður nauðsynleg en þeim.

Því er ekki að neita, að uggur er nú í mönnum um heim allan um ástandið í alþjóðamálum. Við Íslendingar ráðum áreiðanlega aldrei neinum úrslitum á þeim vettvangi. Þjóð okkar er svo fámenn, að á síðari árum eru mörg dæmi þess í einræðisríkjunum, að miklu meiri mannfjöldi en hér er hafi verið fluttur nauðugur til og settur niður á allt annan stað og við önnur kjör en hann áður átti við að búa. En þó að við ráðum engum úrslitum, tjáir okkur ekki að loka augunum fyrir því, sem er að gerast. Við verðum að skilja, af hvaða rótum hættan er runnin. Það eru hinar löngu úreltu fræðikenningar kommúnista um, að ófriður sé óumflýjanlegur, ef hinn alþjóðlegi kommúnismi er ekki alls ráðandi í heiminum, sem nú eru hættulegastar heimsfriðinum og sambúð þjóðanna. Vonin um frið byggist á því, að menn læri, að mannkynið nær mestum þroska, ef hvert menningarþjóðfélag fær að dafna út af fyrir sig. Að menn skilji, að það eru fleiri en ein leið, sem menn geta farið til að ná þeirri sælu, er fæst hér á jörðu. Norðurlöndin urðu meðal fremstu menningarþjóða heimsins, þegar þau lærðu, að þau áttu ekki að seilast til yfirráða hvert yfir öðru. Sama í enn þá stærra mæli hefur átt sér stað innan brezka heimsveldisins og í allri Vestur-Evrópu. Með svipuðum hætti og þó með enn stórfenglegra og happaríkara móti hefur þróunin orðið í Ameríku, og Bandaríki Norður-Ameríku hafa einmitt orðið öflugasta ríki veraldarinnar undir þessu merki frelsis og umburðarlyndis. Ef allar þjóðir læra það að lifa sjálfar og lofa öðrum þjóðum að lifa eftir sínu eigin höfði, en vinna þó saman í bróðerni og frelsi, þegar á liggur, þá eru mestar líkur til, að voðanum verði bægt frá. Ég hef eindregna trú á, að svo megi verða og að hinir raunsæju forustumenn hins alþjóðlega kommúnisma, hvort sem þeir eru í stórveldum heimsins eða í smáríkjunum, sjái, að tortryggni þeirra, og raunar fræðigrundvöllur allur, er hvort tveggja á misskilningi byggt, — að aðrar þjóðir vilja ekkert fremur en samvinnu við þá, einungis á grundvelli frelsis, jafnræðis og mannréttinda. En á meðan sívaxandi tortryggni og hatur á alla bóga er vaxandi, er hætta fyrir hendi.

Við ráðum aldrei við hin erlendu upptök hættunnar, og við munum aldrei gerast árásarmenn á neina erlenda þjóð. Til þess skortir okkur bæði vilja og getu. En þrátt fyrir það verðum við að skilja, að voðinn utan að ógnar einnig okkur. Að svo miklu leyti sem hann kann að brjótast út í ófriði milli þjóðanna, vitum við þó, að við getum ekki einu sinni varið okkur sjálfir. Þjóðin öll og landið liggur varnarlaust fyrir hverjum, sem það vill hremma með nokkrum herstyrk. En það er annað, sem við getum og verðum að verja okkur gegn. Það er, að þjóðfélagi okkar sé splundrað innan frá af mönnum, sem taka við fyrirmælum erlendis að. Um það verður ekki lengur villzt, að kommúnistarnir, sem öllu ráða í Sameiningarflokki alþýðu, Sósfl., eru með þessu marki brenndir. Þeir vilja leiða yfir landið sams konar stjórnarhætti og lagzt hafa eins og mara yfir þjóðirnar í Austur-Evrópu. Við Íslendingar deilum um margt. Við eigum að deila um margt, því að deilur að vissu marki eru öflugur þáttur í endurbótum og framförum. Í öllum deilunum megum við þó aldrei missa sjónar af því, sem mikilverðast er, en það er sjálft frelsið. Hér á landi er öflugur flokkur, sem þó er aðeins angi af þúsundfalt öflugri alþjóðasamtökum, er vill frelsið feigt. Fyrir andvaraleysi og sundrung þjóðanna hafa ýmsar þeirra orðið að lúta í lægra haldi fyrir ofbeldinu. Svo getur einnig farið hér, ef við sofnum á verðinum eða ef við gleymum því, sem mest er um vert, vegna ósamkomulags um minna verða hluti. Látum slíkt aldrei henda okkur. Sláum öruggan hring til verndar því frelsi, sem barátta kynslóðanna hefur fært okkur.