22.03.1948
Sameinað þing: 59. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

129. mál, fjárlög 1948

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Í öllum lýðræðislöndum, þar sem ríkir frjáls flokkaskipan, en ekki einræði eins flokks, og þar sem þingræðisstjórnir fara með völd, þykir sjálfsagt og eðlilegt, að til sé stjórnarandstaða. Hún er jafnvel talin nauðsynlegur þáttur í lýðræðiskerfinu og er, ef hún er rekin af fullri samvizkusemi, skilningi og réttdæmi, mjög þýðingarmikil fyrir lýðræðisskipulagið. Það sést bezt, hvað Bretar, hin gamla og gróna lýðræðis- og þingræðisþjóð, meta nauðsyn stjórnarandstöðunnar mikils, að forustumaður stjórnarandstöðunnar skuli hafa há laun úr ríkissjóði. Er þar talið, að forusta stjórnarandstöðunnar sé svo merkilegur þáttur í lýðræðisskipulaginu, að nauðsynlegt sé, að sá maður, sem hana hefur með höndum, geti rækt starfið án þess að þurfa að leita sér atvinnu annars staðar, og að það sé ríkið sjálft. sem eigi að hlaupa undir bagga til þess að þetta starf verði stundað af skörungsskap og réttsýni. Núv. ríkisstj. þarf ekki að kvarta undan því, að hún hafi ekki mætt harðri andstöðu, og sízt má segja, að ekki hafi stjórnarandstaðan, kommúnistar, sýnt fulla tilburði til þess að vinna það, sem þeir mest máttu, til þess að draga úr framkvæmdum stj. og torvelda þær. En gallinn er aðeins sá, að hin kommúnistíska stjórnarandstaða er hvorki þjóðholl, leiðbeinandi né réttsýn. Þvert á móti verður þess vart í öllum gerðum hennar, að hím er ábyrgðarlaus, óþjóðholl og beinlínis þjóðskaðleg. Er ömurlegt til þess að vita, að þannig skuli nú högum háttað í íslenzku stjórnmálalífi, að stjórnarandstaðan sé haldin þeim höfuðgöllum, sem gera það að verkum, að hún verður að engu gagni, en getur orðið til mikils tjóns. Það er ekki einungis ofsi og óréttlæti stjórnarandstöðunnar. sem hefur reynt að gera núv. ríkisstj. allar þær skráveifur, sem mest má verða, heldur hefur ríkisstj. haft við að glíma gamlar syndir og ill áhrif kommúnista, á meðan þeir sátu illu heilli í ríkisstj.

Frá stjórnarsetu sinni hafa kommúnistar skilið eftir svo mikla óreiðu og mikið öngþveiti í þeim málum, sem þeir höfðu yfir að ráða, að leitt hefur til mikilla vandræða, einmitt á síðustu tímum. Og það er vist, að það röska ár, sem liðið er frá því að núv. stj. tók við völdum, verði hvergi nærri fullnægjandi til þess að bæta upp það böl, sem seta kommúnista olli í fyrrv. stjórn. Afleiðingar af þeirri stjórnarsetu munu verka um langa framtíð. Dæmi um þetta eru nærtæk og deginum ljósari. Fyrst má nefna, sem alkunnugt er, hinar nýju síldarverksmiðjur ríkisins, sem urðu vegna óstjórnar og bruðlunar röskum 20 millj. króna dýrari en áætlað var í öndverðu, og allar framkvæmdir í sambandi við byggingu verksmiðjanna með þeim endemum, að til mikilla vandkvæða horfir í náinni framtíð fyrir útvegsmenn og sjómenn og ríkið sjálft. Enn þá þarf að verja mörgum millj. króna til þess að endurbæta það. sem verst hefur verið farið með í byggingu síldarverksmiðja ríkisins, og kannast þar allir við mjölskemmuna miklu og síldargeymana, sem byggðir voru á því kviksyndi, að þeir hafa sigið verulega, og er nokkur hætta á, að það geti valdið tjóni. Það er einkennandi fyrir framkvæmdir kommúnista að byggja á kviksyndi geymslu fyrir þá dýrmætustu útflutningsvöru, sem Íslendingar hafa yfir að ráða. Það er táknrænt fyrir alla starfsemi þeirra.

Ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að byggingu síldarverksmiðja ríkisins og hinni dæmalausu framkvæmd, sem þar hefur átt sér stað. Sem betur fer, er þetta alkunnugt og landsmönnum til alvarlegrar viðvörunar. En ég get einnig nefnt annað dæmi, sem þó hefur og verið drepið á. Það er rekstur landssmiðjunnar og bátabyggingarnar, sem fóru fram undir stjórn konunúnista, á meðan þeir sátu í ríkisstj. Snemma árs 1945 ákvað ríkisstj. að láta á næstu einum til tveimur árum byggja hér á landi 50 vélbáta til fiskveiða, og skyldu þeir vera af tveimur stærðum, 35 og 50 tonn. Féll það illu heilli í hlut kommúnista í ríkisstj. að sjá um allar framkvæmdir og hafa yfirstjórn þeirra. Landssmiðjan átti í upphafi að taka að sér að byggja verulegan hluta þessara báta, þó að minna yrði úr en til stóð. Enda reyndist það svo, að þeir bátar, sem voru byggðir af landssmiðjunni undir stjórn kommúnista, hafa orðið rúmlega 77% dýrari en hjá þeim öðrum bátasmiðum, sem samtímis smíðuðu báta eftir sömu teikningum og verklýsingu. Er engu líkara en að verið hafi að verkum skemmdarstarfsemi til þess að eyðileggja álit og fjárhag þeirra ríkisstofnana, sem framkvæmdir höfðu með höndum. En það var ekki einungis það, að þessir bátar, sem byggðir voru af landssmiðjunni, yrðu þannig dýrari, eins og raun hefur á orðið, heldur þótti nauðsynlegt fyrir atbeina kommúnista að gera ráðstafanir til þess á miðju ári 1945 að panta mjög mikið af skipaeik, sem skyldi koma til landssmiðjunnar og notast við bátabygginguna. Eikin kom til landsins með ýmsum skipum á árunum 1945 og 1946. Kostaði hún. komin á hafnarbakkann hér. um 1,8 millj. kr. Lítið eitt af eik þessari hefur verið hægt að nota til bátabygginga. Eikin hefur til skamms tíma legið í nánd við landssmiðjuna, sumpart úti og sumpart í skemmum, sem leigðar hafa verið fyrir 28800 kr. á ári. En svo var með innkaupin á þessari eik, að hún er að mestu bandaeik, en byrðingaeik til þurrðar gengin. Frá byrjun voru flest stafnstykkin ónýt, þar sem þau voru hol af merg enda á milli. Eikin skemmdist líka og rifnaði við geymslu, og eftir atvikum verður því að leyfa kaupendum að velja úr hinni lélegu vöru. Það mun láta nærri, að afskrifa verði af eikinni um helming andvirðis hennar, og munar sannarlega um minna.

Það var sannarlega ekki heldur dregið úr kostnaði við stjórn landssmiðjunnar þann tíma sem kommúnistar réðu því fyrirtæki. Tveir menn voru á forstjóralaunum í sjö mánuði, og þegar ráðinn var nýr forstjóri til landssmiðjunnar, þótti sjálfsögð rausn af þáv. atvmrh. að kaupa handa honum íbúð fyrir 271 þús. kr., og var ákveðið, að hann skyldi auk launa sinna búa þar ókeypis. Einhver endurgreiðsla á leigu mun þó koma fram í því sambandi vegna lítillar kjallaraíbúðar. sem fylgir, og eins herbergis að auk, sem leigt hefur verið út. Bifreiðakostnaður tók stór stökk á þessum árum. Árið 1944 var bifreiðakostnaður landssmiðjunnar um 48 þús. kr., en 1945 118 þús. kr. og 1916 150 þús. kr. Er þetta aðeins nefnt sem dæmi um þá sérstöku óstjórn og óreiðu, sem virðist hafa verið í hverju því fyrirtæki, sem laut stjórn kommúnista meðan þeir sátu í ríkisstjórn. — Bókfært tap á skipasmiðastöð landssmiðjunnar, að meðtalinni afskrift stöðvarinnar í starfslok, var kr. 2345905.74, en vitað er með vissu, að tap á bátabyggingarstarfseminni er orðið yfir 3 millj. kr., og lendir það á ríkissjóði, eykur skuldabyrði hans og takmarkar möguleika hans til nytsamlegra framkvæmda.

Þó að stjórn og rekstur kommúnista á landssmiðjunni væri með endemum, hafa þó flugmálin ef til vil] farið enn þá verr úr hendi. Á árinu 1945 var dyggur kommúnisti skipaður flugmálastjóri og sérstök skrifstofa sett á laggirnar. En starfræksla flugvallanna á vegum Íslendinga hófst ekki fyrr en vorið 1916. Útkoman á rekstri flugmálanna 1916 hefur orðið geigvænleg, og má telja, að hallinn hafi orðið talsvert yfir 2 millj. kr. Er það og engin furða, þegar litið er á allan reksturinn, því að þar virðist hafa verið mest um það hugsað að hafa sem flesta menn í vinnu, og þá allra helzt gæðinga kommúnista og greiða þeim mjög rífleg laun. Einn af þeim mjög miklu útgjaldaliðum, sem er við rekstur flugmálanna 1946, er alls konar bifreiðaakstur. Samtals voru þá greiddar 25 þús. kr. fyrir lausaakstur eða leigu á bifreiðum, og þó er flugvöllurinn hér í Rvík falinn eiga í árslok 35 bifreiðar, en ekki munu þær alltaf hafa verið í nothæfu ástandi.

Þótt stjórn og rekstur flugmálanna væri á þann veg, sem lauslega hefur verið bent á með einstökum dæmum, þá tekur þó út yfir allan þjófabálk rekstur veitingahússins á flugvellinum í Rvík, sem rekið var á vegum flugmálanna 1916. Það hefur að vísu ekki tekizt að komast til botns í reikningunum; svo ófullkomnir og illa færðir eru þeir, að ekki verður komizt að ákveðinni niðurstöðu. Segir svo í niðurlagsorðum í skýrslu, sem tveir trúnaðarmenn ríkisstj. hafa gert um rekstur flugmálanna 1946:

„Það sætir hinni mestu furðu, hve framkvæmd þessara mála hefur farið illa úr hendi. Stafar þessi ófarnaður að okkar áliti fyrst og fremst af því, að allur undirbúningur undir starfið: Móttaka vallarins og þeirra verðmæta, sem honum fylgdu. fyrirkomulag á rekstri og bókhaldi hefur verið í molum. Þetta. er þeim mun undarlegra, þar sem forráðamaður flugmálanna hafði heilt ár til þess að undirbúa starfið, sem kostaði til ársloka 1945 á annað hundrað þús. kr., auk þess, sem eytt var á árinu 19t6, áður en afhending flugvallarins fór fram, en ekki er sundurgreint á reikningunum. Samt sem áður er engin skrá gerð yfir eignir, sem flugmálastjóri tekur við vorið 1946. Illa virðist hafa verið hugsað fyrir bókhaldi og engar reglur settar um meðferð hinna keyptu verðmæta, sem tryggðu, að auðvelt væri að fylgjast með því, hvað af þeim yrði. Yfirstjórn og eftirlit virðist hins vegar ekkert hafa verið á þessu sviði.“

Þannig farast þeim trúnaðarmönnum ríkisins orð, er athuguðu þessa óreiðusúpu.

Þá má og minnast á sukkið í sambandi við fiskkaup fiskimálanefndar á árunum 1945 og 1946. Þeir reikningar munu ekki vera gerðir upp að full.u, en svo munu kommúnistar hafa skilið við þau mál, er þeir fóru úr ríkisstj., að vanskilaskuldir námu þá um 1,3 millj. kr.

Þannig mætti lengi halda áfram að telja, en tími minn leyfir ekki að taka meira, þó að margt annað sé fyrir hendi. Það ræður og af líkum, að þessi óstjórn á ýmsu varðandi atvinnumál í tíð kommúnista segi nú til sín með stóraukinni skuldasöfnun ríkisins, enda hefur það gert að verkum, að illkleift hefur nú orðið á síðustu tímum að afla nauðsynlegs fjár hjá lánsstofnunum til þess að hrinda í framkvæmd nytsömum fyrirtækjum, svo sem nýjum verksmiðjum, byggingu íbúðarhúsa o. fl. Einmitt sú tregða á því að afla nauðsynlegs fjár á síðustu tímum á að verulegu leyti rætur sínar að rekja til þeirrar takmarkalausu óstjórnar og eyðslu, sem ríkti á þessum tímum á stjórnarsviðum, þar sem kommúnistar fóru með völd. Þannig mega þeir, sem með réttu kvarta undan skorti á fé til nýrra framleiðslutækja og nauðsynlegra íbúðarhúsabygginga, svo sem verkamannabústaða, samvinnubygginga og bæjarbygginga, súpa seyðið af óstjórn og fjárbruðli kommúnista meðan þeir sátu í ríkisstjórn.

En það er ekki einungis það, að núv. ríkisstj. hafi tekið við þessari illu arfleifð kommúnista, sem torveldað hefur henni framkvæmdir margra nytjamála. Síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, hafa kommúnistar barizt gegn hverju máli til að öryggja fjárhagslega afkomu og tryggja atvinnureksturinn í landinu. Það er vissulega ekki þeim að þakka, að til þessa hefur heppnazt ágætlega að komast hjá atvinnuleysi og vandræðum.

Þau pólitísku verkföll, sem kommúnistar stofnuðu til á síðastliðnu vori og sumri, voru mjög hættuleg fyrir rekstur síldarútvegsins og margar framkvæmdir aðrar í landinu. Það var beinlínis til þeirra stofnað af hálfu kommúnista til þess að síldarútgerðin gæti ekki komizt af stað eða yrði svo síðbúin, að verulegt tjón hlytist af, og skapa á þann hátt glundroða og upplausn í atvinnulífinu, nákvæmlega á sama hátt og kommúnistar í Frakklandi, Ítalíu og viðar hafa gert. Ofstækið og yfirtroðslur í þessum verkföllum kommúnista á s.l. sumri, þó einkum á Siglufirði, eru landskunnar. Það fór einnig svo, að þegar að lokum tókust samningar, þá var það ófrávíkjanlegt skilyrði af hálfu kommúnista. að ekki gengi úrskurður félagsdóms um yfirtroðslur þær of ofbeldi, er þeir höfðu í frammi haft á Siglufirði og kærð höfðu verið og félagsdómur var að því kominn að feila úrskurð um. Stöðvun kommúnista á flutningi myndastyttu Snorra Sturlusonar er ekki einungis fræg að endemum hér á landi, heldur barst óhróðurinn af þessu atviki til útlanda, og var það sannarlega ekki þeim að þakka, að það varð ekki til meiri álitshnekkis en raun varð á.

Svo þegar síldveiðin brást síðastliðið sumar og útlit var fyrir, að til þess mundi koma, að atvinnurekstur stöðvaðist vegna sívaxandi verðbólgu, þá gerðu kommúnistar allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að hindra, að nauðsynlegar ráðstafanir væru gerðar gegn verðbólgu og dýrtíð. Ríkisstj. fór, að vel yfirlögðu ráði, svo hógværlega í sakirnar sem frekast var unnt hvað það snerti að leggja byrðar á bök þeirra, sem minnstan viðnámsþróttinn hafa. Kommúnistar börðust af öllu afli gegn setningu löggjafar gegn vaxandi dýrtíð og spáðu því, að vísitalan mundi að löggjöfinni settri tafarlaust hækka upp í 350 stig, og væri þá tekin ógurleg fúlga af launastéttum landsins. Allt reyndist þetta falsspá. Vísitalan varð einungis 319 stig og var lækkuð um 9 stig með ýmsum ráðstöfunum frá því, setu hún ella hefði orðið í janúar s.l., og hefur tekizt að halda þeirri stöðvun enn. Kommúnistar gerðu allt, sem þeir gátu, til þess að æsa launastéttirnar í landinu til andstöðu við þessa löggjöf og allar framkvæmdir. Æddu agentar þeirra um landið til þess að reyna að undirbúa verkföll og uppsagnir á kaupsamningum. En almenningur var þroskaðri og skilningsbetri en þeir höfðu reiknað með, og vísaði verkalýðurinn æsingatilraunum þeirra á bug. En víst er, að vel þarf að standa á verði gegn nýjum tilraunum í sömu átt, og má einmitt búast við, að þær skemmdarverkatilraunir verði gerðar á sama tíma og í fyrra og í þeim sama tilgangi, að hindra síldarútgerðina.

Við afgreiðslu fjárlaga nú, svo sem oft áður, hafa kommúnistar sýnt fullkomið ábyrgðarleysi og hóflausa löngun til eyðslu. Þeir hafa flutt till. um hækkun útgjalda, er nema um 20 millj. kr., og hafa lagzt á móti öllum þeim sparnaði, sem reynt hefur verið að framkvæma. Þeir hafa í fávizku sinni hamazt gegn því, að framfylgt verði lögum um almannatryggingar, með því að draga tekjuafgang ársins 1947 frá væntanlegum útgjöldum 1918. Þeir hafa reynt að læða þeirri hugsun inn, að verið væri að draga úr og breyta löggjöfinni um almannatryggingar. En það á sér enga stoð í veruleikanum, heldur eru fjárveitingar til almannatrygginganna settar eins og menn ætluðu, að þær kostuðu ríkissjóð, miðað við löggjöfina eins og hún var frá 1946. Kommúnistar hafa viljað, að ríkið sé skyldað til að gefa loforð, án þess að nokkur úrræði væru fyrir hendi til að efna þau loforð, í sambandi við byggingarframkvæmdir. Þannig hefur allur ferill þeirra verið markaður af ábyrgðarleysi og beinni löngun til þess að stofna til hruns og atvinnuleysis í von um aukið fylgi, er það mundi skapa þeim.

Ótalið er enn þá það allra versta, en það er þjónusta kommúnista við erlent stórveldi og bein skemmdarstarfsemi þeirra gegn félagslegu öryggi og viðreisn. Átakanlegt dæmi um þetta er misnotkun þeirra á stjórn Alþýðusambands Íslands. Alþýðusamtökin á Norðurlöndum hafa um tugi ára haft náið samstarf sín á milli og ráðið ráðum sínum með kjörnum fulltrúum frá hverju landi. En frá því að kommúnistar komu til sögunnar, hefur það að sjálfsögðu verið skilyrði þess, að alþýðusamtökin væru hlutgeng í þessu samstarfi, að þau væru ekki undir stjórn og áhrifavaldi kommúnista. En þegar svo ömurlega tókst til fyrir nokkrum árum, að kommúnistar brutust til valda í Alþýðusambandinu, að vísu með rangsleitni og kúgun og nokkurri aðstoð pólitískra spekúlanta, hefur það með öllu einangrað sig frá samvinnu við sams konar samtök á Norðurlöndum. Er það út af fyrir sig ærið skaðlegt fyrir íslenzka alþýðu og ætti að vera ein af þeim röksemdum, sem leiddu til þess, að vald kommúnista yrði brotið á bak aftur í íslenzkum alþýðusamtökum.

Þegar fulltrúar frá norrænn alþýðusamtökunum héldu fund í Stokkhólmi í byrjun febrúarmánaðar s.l. átti Alþýðusamband Íslands þar að sjálfsögðu engan fullfrúa. Þar voru til umræðu og ályktana mörg mjög mikilsverð mál, er varða hag og framtíð alþýðusamtakanna á Norðurlöndum. Á þeim fundi var sérstaklega rædd nauðsyn verkalýðsins á því, að fjárhagsleg endurreisn og efling gæti átt sér stað á Norðurlöndum og yfirleitt í Vestur-Evrópu, allt með lýðræðishætti, og var þar ályktað, að skjót viðreisn Evrópu væri skilyrði fyrir fjárhagslegu og stjórnmálalegu sjálfstæði Norðurlanda, og þar með tryggingu frelsis og friðar. Í þeirri ályktun segir einnig svo: „Endurreisn fjárhags Evrópu á fyrst og fremst að gerast með einbeitingu eigin orku heimsálfu vorrar og í því formi, sem tryggir stjórnmálalegt lýðræði og mannréttindi, sem eru ómissandi hluti menningarinnar í vorum hluta heims.“ Þá voru og allir fulltrúar hinna sterku og þroskuðu alþýðusamtaka á Norðurlöndum á einu máli um það, að þau norrænu ríki, Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð, sem Marshalláætlunin taki til, leggi áherzlu á það, að fjárhagsleg aðstoð. samkvæmt því sem ráðgert er í áætluninni, sé mjög mikilvæg fyrir Vestur-Evrópu alla og nauðsynleg þeim löndum, sem eiga við erfiðleika að etja. — Ég nefni þessa ályktun frá fundinum í Stokkhólmi sem dæmi um það, hvernig lýðræðissinnuð alþýðuhreyfing ræður ráðum sínum, en utan við þær ráðagerðir stendur Alþýðusamband Íslands einangrað vegna ofbeldis íslenzkra kommúnista.

Í sambandi við Marshalláætlunina er rétt að minnast á afstöðu verkalýðssamtaka Vestur-Evrópu og tilraunir íslenzkra kommúnista sem stjórnenda Alþýðusambandsins til þess að vinna gegn þjóðarhag. Eins og alkunnugt er, hafa 16 ríki í Vestur-Evrópu tekið með þökkum og hafa uppi ráðagerðir til þess að notfæra sér aðstoð þá, sem fólgin er í Marshallhugmyndinni og Bandaríki Norður-Ameríku veita til þess að leggja nýjan og varanlegan grundvöll að auknu og blómlegu atvinnulífi. Verkalýðurinn í Vestur-Evrópu, sem ekki er háður ofurvaldi kommúnista, skilur þetta mætavel. Þess vegna var hafizt handa um fund verkalýðssamtakanna í þeim 16 löndum, sem eru þátttakendur í Marshalláætluninni, en þar skarst Alþýðusamband Íslands úr leik. Hinn 16. þ. m. var í London haldinn fundur fulltrúa verkalýðssamtaka í 15 löndum, sem hafa 270 milljónir íbúa. Þar voru mættir fulltrúar fyrir alþýðusamtök 14 ríkja í Vestur-Evrópu — þar vantaði aðeins Ísland og Ítalíu — og auk þess fulltrúar fyrir hin tvö stóru verkalýðssambönd í Bandaríkjunum. Allir fulltrúarnir voru á einu máli um það, að Marshalláætlunin væri einmitt sérstakt áhugamál verkalýðsins í öllum þessum löndum, til tryggingar fjárhagslegri endurreisn og atvinnu. Í ályktun þessa fulltrúafundar var m.a. sagt á þessa leið:

„Endurreisnaráformin, sem hafa hina mestu þýðingu fyrir velferð verkalýðsins. þarfnast ötuls stuðnings og samvinnu verkalýðssamtakanna í þeim löndum, sem hlut eiga að máli. Við óskum einlæglega eftir samstarfi verkalýðssamtakanna í sem allra flestum löndum og vísum á bug þeirri staðhæfingu, að með þessari framkvæmd sé verið að egna austrið gegn vestri.

Það verður að stuðla að því eftir megni, að hvert land fyrir sig geri sitt ýtrasta til þess að efla endurreisnina. Þessi skylda er nauðsynleg til þess að geta tekið þátt í samstarfinu. Fulltrúafundurinn hefur með stuðningi sínum við endurreisnaráformin fylgt hinum hefðbundnu starfsaðferðum verkalýðshreyfingarinnar, sem sé með því að stuðla að félagslegum, fjárhagslegum og stjórnmálalegum framförum, sem eru nauðsynleg til þess að styrkja þær meginreglur og öryggja frelsi þjóðanna og efla lýðræðislegar framfarir til þess að bæta hag og kjör verkalýðsins.

Fulltrúafundurinn hefur rækilega kynnt sér meginreglurnar um framkvæmd skiptingarinnar á fjárhagsaðstoðinni, sem Bandaríkin hafa ákveðið að veita Evrópu í anda alþjóðlegrar bræðralagshugsjónar. Fulltrúafundurinn telur, að endurreisn Evrópu sé vonlaus án hinnar miklu aðstoðar Bandaríkjanna. Fundurinn hefur og gengið úr skugga um það, að engin þau skilyrði fylgja aðstoðinni, er geri hana á nokkurn hátt óaðgengilega, og sérstaklega, að aðstoðin hafi á engan hátt í för með sér stjórnmálaafskipti né að Bandaríkin vilji á nokkurn hátt blanda sér í innri málefni þeirra ríkja, er aðstoðarinnar verða aðnjótandi.“

Þannig ályktaði fulltrúafundur verkalýðssamtakanna, að undangenginni ýtarlegri athugun og nákvæmari rannsókn á hinni fyrirhuguðu Marshallaðstoð.

En þrátt fyrir það, þótt íslenzkir kommúnistar, sem ráða Alþýðusambandinu, viti með vissu. að ríkisstj. og yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga vill fyrir sitt leyti taka þátt í framkvæmd Marshalláætlunarinnar með hinum Evrópuríkjunum, þá ákváðu kommúnistarnir, að Alþýðusambandið skyldi engan þátt eiga í ráðagerðum með verkalýðssamtökum Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna til þess að greiða götu fyrir þessu sameiginlega áhugamáli alþýðunnar. Með þessu móti reyna íslenzkir kommúnistar að gera það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að torvelda Íslandi þátttöku í viðreisnarstarfinu. En að sjálfsögðu eru þessar aðferðir í beinu samræmi við það boð, sem hefur verið látið út ganga frá miðstöðvum kommúnista í Austur-Evrópu um baráttu kommúnista hér í álfu gegn framkvæmd Marshalláætlunarinnar. Íslenzkir kommúnistar eiga þar sína yfirmenn, sem geta sagt þeim fyrir verkum, en íslenzkt löggjafarvald og íslenzkan þjóðarhag meta þeir að engu í samanburði við yfirboðara sína í austri.

Ég hef nefnt þetta, er ég nú hef drepið á, sem táknrænt dæmi um þjóðhættulega starfsetni íslenzkra kommúnista. En það er ekki eina dæmið. Kommúnistaflokkar allra landa hafa á síðustu tímum afhjúpað sig rækilega. Íslenzkir kommúnistar eru þar engin undantekning, þrátt fyrir það, þótt ekki beri flokkur þeirra kommúnistaheiti. En nafnbreyting hefur víðar orðið en á Íslandi. Menn kannast víst flestir við orð eins og „alþýðufylking“ og „alþýðulýðræðisflokkur“ og samtök, sem svo eru nefnd í Austur-Evrópu og öll eru undir járnharðri stjórn kommúnista, þó að nokkrir menn, sem ekki voru kommúnistar í upphafi, hafi slæðzt inn í þær fylkingar, en engu fengið að ráða. Íslenzkir kommúnistar hafa ekkert lært og engu gleymt frá því að þeir nefndu flokkinn hinu rétta nafni. Þeir eru sama útibúið og áður frá stórveldi í austurvegi, og það hefur komið greinilega í ljós í baráttu þeirra gegn því að eiga samleið með verkalýðssamtökum í nágrannalöndunum.

Í Vestur-Evrópu er nú háð hörð barátta með og móti endurreisn, skipulagi og öryggi í atvinnumálum. Bandaríki Norður-Ameríku gera sitt til þess að hjálpa þeim, sem berjast fyrir endurreisn, en Austur- Evrópuöflin berjast gegn henni. Áhugamál Bandaríkjanna í þessu sambandi eru nákvæmlega eins og lýðræðisaflanna í Vestur-Evrópu. Fyrir alla lýðræðissinna er sjálfsagt að taka þátt í Marshallhjálpinni. Það er engin ástæða til að ætla, að nein slík skilyrði fylgi, er skapi öngþveiti eða brjóti í bága við lýðræðisskipulagið. Bandaríkin lúta engu einræði. Hin volduga verkalýðshreyfing þar í landi styður af alhug Marshalláætlunina. Áhugamál hinna norrænu ríkja er að þessu leyti eins og Bretlands.

Við Íslendingar þurfum að vera einhuga um það að vinna með löndum Vestur-Evrópu, sem hafa sameiginleg áhugamál, og ekki hvað sízt þurfa Íslendingar að taka öflugan þátt í auknu samstarfi Norðurlanda í fjárhags-, félags- og menningarmálum, og mun ríkisstj. stuðla að því eftir mætti, enda er það í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj., og hefur hún einnig sýnt það í framkvæmdinni, þar sem hún hefur valið sérstaka fulltrúa af sinni hálfu til ráðagerða um aukna samvinnu við hin Norðurlöndin á þessum málefnasviðum. Það er nauðsynlegt, að alþýðusamtökin skilji þetta og meti; en ef svo á að verða, þurfa þau að breyta um forustu.

Útlitið í alheimsmálum er nú uggvænlegt, uggvænlegra en verið hefur um langt skeið. Allir þekkja þá hörmulegu atburði, sem gerzt hafa í Tékkóslóvakíu, þar sem kommúnistar hafa með ofríki og ofbeldi og í skjóli stórveldis brotizt til valda og sett á stofn einræði og lögregluríki, þar sem ritfrelsi er takmarkað eða afnumið, og sama máli gegnir um málfrelsi og þau mannréttindi, sem Vestur-Evrópuþjóðirnar meta mest. Finnland er í hættu statt. Reynt er að knýja það inn í hernaðarkerfi Austur-Evrópu þrátt fyrir það, þótt vitað sé, að yfirgnæfandi meiri hluti finnsku þjóðarinnar er því andvígur. Ekki verður enn séð fyrir endann á því, en þetta eru vissulega ömurlegir atburðir, sem vekja hefðu átt hvern lýðræðissinna og hvern frjálshuga mann á Íslandi til mótmæla og gagnrýni. En íslenzkir kommúnistar hafa farið nákvæmlega eins að og flokksbræður þeirra eða alþjóðadeildir kommúnista í öllum löndum. Þeir hafa varið yfirganginn og ofbeldið og ásælnina, hafi hún komið úr austri.

Á kommúnistafundi í Kaupmannahöfn sagði hið aldna skáld Martin Andersen-Nexö út af láti Jan Mazaryks, að hann hefði verið sósíaldemókrat með vestræna samúð, sem hefði verið þröngvað til að hegða sér sæmilega. Með því að fyrirfara sér hefði hann bætt fyrir öll þau brot, sem væru einkennandi fyrir demókratíið. Þessi orð hins mikla, danska skálds eru einkennandi fyrir það brjálæðiskennda ofstæki, er jafnvel sviptir hina bezt gefnu menn allri heilbrigðri dómgreind og skynsamlegri hugsun.

Íslendingum er mikil nauðsyn á að gera sér þetta fullkomlega ljóst. Ísland á ekki í útistöðum yfirleitt við neitt ríki og óskar ekki eftir öðru en mega lifa í friði og góðu samstarfi við allar þjóðir. En baráttan hefur hafizt milli austurs og vesturs. Ég vil vona, að engin hætta sé á, að ófriður brjótist út í bráð. En Íslendingar verða að gera sér það fullkomlega ljóst, hvað er að gerast í heiminum. Kommúnistar vilja heldur nazistískt einræði en frjálst lýðræði. Ef Frakkland og Ítalía verða einræðinu að bráð og lýðræðið bíður þar ósigur, þá verða aðeins eftir hér í álfu Bretland, svo kölluð Beneluxlönd og norrænu ríkin, að undanskildu Finnlandi, sem búa við lýðfrjálst stjórnarfyrirkomulag.

Jafnvel hin minnsta þjóð í Vestur-Evrópu, eins og Íslendingar, getur styrkt öfl lýðræðisins með því að taka djarflegan og ákveðinn þátt í samstarfi Vestur-Evrópuþjóðanna með það fyrir augum að vernda atvinnuöryggi og atvinnurekstur eftir lýðræðislegum háttum. Og þó að Íslendingar séu lítil þjóð og þó að landið sé fjarlægt öðrum ríkjum Vestur-Evrópu, þá höfum við samt hlutverk að vinna, hlutverk, er sæmir þjóð, sem ann lýðræði, hatar einræði og ofbeldi og vill eiga gott og náið samstarf sérstaklega við þau ríki, þar sem stjórnarhættir eru eins og áhugamálin falla saman. Engin minnimáttarkennd má draga úr þeim áformum. Og með gaumgæfni þurfa Íslendingar að athuga hið merkilega samstarf Bretlands, Frakklands og Benelux-landanna, er vera kann vísir að sterku og heilbrigðu samstarfi allra Vestur-Evrópuríkja, einmitt þeirra ríkja, sem ekki hugsa um árásir á aðra, heldur búast til varnar gegn ágengni og ofríki. Þau ríki eru okkur eðlilega nánast tengd að menningu og þjóðskipulagsháttum.

En í sambandi við það geigvænlega útlit, sem nú er í alþjóðamálum, þurfa Íslendingar ekki síður en aðrar þjóðir að gera sér fullkomlega ljóst, að íslenzkir kommúnistar eru nákvæmlega eins og kommúnistar allra annarra landa. Þeir eru fimmta herdeild, þeir eru njósnarar, sem hafa hlutverk að vinna fyrir erlend ríki. Augu allra ábyrgra manna eru nú að ljúkast upp hvað þetta snertir. Fjórir forsætisráðherrar í nágrannalöndum, sem allir eru auk þess jafnaðarmannaforingjar, hafa aðvarað þjóðir sínar í þessu efni. Það er Hedtoft í Danmörku, Gerhardsen í Noregi, Erlander í Svíþjóð og Attlee í Englandi. Og sérstaklega munu margir hafa tekið eftir ræðu Attlee forsætisráðherra Breta, ekki sízt þar sem hún kemur frá forustumanni þeirrar þjóðar, sem er alþekkt fyrir þolinmæði, langlundargeð og pólitískan þroska. Það er alveg áreiðanlegt, að Attlee forsætisráðherra boðar ekki út í bláinn ráðstafanir til þess að fimmta herdeild geti ekki orðið verkfæri til þess að svíkja föðurland sitt, þegar verst stendur á. Og í þessu sambandi má einnig minna á orð forseta norska Alþýðusambandsins, Konrad Nordahl. en hann lét nýlega svo um mælt, að í verkalýðssamtökunum reyndu kommúnistar allt hvað þeir gætu til þess að auka áhrif sin, og á því augnabliki, sem þeir hefðu þar yfirráð, mætti ganga út frá, að þeir gerðu tilraun til þess að lama allt atvinnulíf þjóðfélagsins og eyðileggja öll endurreisnaráform. Þetta eru vissulega alvarleg viðfangsefni fyrir íslenzku þjóðina. Augu hennar eru að opnast. Það sýna ekki hvað sízt kosningar í mörgum verkalýðsfélögum og samtökum upp á síðkastið, þar sem kommúnistum hefur verið víkið til hliðar. En betur má, ef duga skal. Áhrif kommúnista verða vegna öryggis þjóðarinnar að hverfa úr samtökum íslenzks almennings um land allt. Með öruggri forustu og að lýðræðisháttum verður að víkja kommúnistum til hliðar í samtökum fjöldans, svo að þeim gefist ekki færi á að vinna þjóðinni tjón, þegar mest ríður á. Þeir lýðræðissinnar, sem af misskilningi eða pólitískum spekulationum hafa hugsað sér samstarf við kommúnista, leika sér með fjöregg lýðræðisins. Glopri þeir því niður, er ógæfan vís.

Framtíð íslenzku þjóðarinnar er undir því komin, að hún á þessum alvörutímum einangri kommúnista frá áhrifum og sem almennust samtök takist meðal allra lýðræðissinna um alhliða endurbætur, sem tryggja hagsæld og öryggi almennings á öllum sviðum.