23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

129. mál, fjárlög 1948

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mun fyrst víkja hér nokkrum orðum að ræðum ráðh. í gærkvöld. Allar voru þær með sama markinu brenndar, — sem sagt, aðalefnið Rússaníð, gamlar og nýjar lygasögur um kommúnista, og þó fyrst og fremst um kommúnista einhvers staðar langt úti í löndum. Þeir voru allir á Marshalllínunni, ráðh., og kepptust hver við annan um að segja sem ósvífnastar sögur um kommúnista, en slíkt er jafnan aðalundirbúningurinn að beinni Marshallhjálp. Allir vöruðust ráðh. að ræða stjórnarstörf sín, sem þó eiga að vera hér til umræðu. Þeir minntust ekki á loforðin, sem þeir gáfu fyrir ári síðan, — að ekki sé nú talað um efndirnar. Nei, þess í stað var kommúnistagrýlunni hampað eins og svo oft áður.

Hæstv. menntmrh., Eysteinn Jónsson, viðhafði þá aðferð að rangfæra gömul blaðaummæli og skrökva til um efni og aðstæður. Megináherzluna lagði hann á þá sögu, að á fyrstu stríðsárunum hafi kommúnistar reynt að svelta ensku þjóðina með því að vilja stöðva fiskflutninga þangað, en þess í stað hafi þeir hugsað sér að senda togaraflotann til Murmansk eða gera hann út við Ameríkustrendur. Eysteinn Jónsson veit fullvel, að hér skýrir hann rangt frá. Á ósvífinn hátt slítur hann setningar út úr samhengi og læzt ekki vita um það alvarlega ástand af völdum stríðshættunnar, sem íslenzkir sjómenn áttu við að búa um þessar mundir. Hann minntist ekki á, að það voru íslenzkir sjómenn, sem hættu siglingum með fisk, þegar kafbátahættan var mest, — að það voru aðstandendur þeirra, sem kröfðust stöðvunar, ef ekki fengist nægileg vernd. Eysteinn Jónsson lætur sig ekki muna um það að skella allri skuldinni á kommúnista, þó að hann viti, að orsakirnar voru sundurflakandi íslenzk skip, með myrtum íslenzkum mönnum, sem dregin voru að landi, og önnur skip, sem gersamlega var tortímt. En þannig er áróður þessara manna gegn kommúnistum; og því er líka reynt að sækja lygafréttirnar sem lengst að eða grafa upp eitthvað nógu gamalt.

Það var sami sultarsöngurinn í hæstv. menntmrh., Eysteini Jónssyni, og vant er: Nú er allt peningalaust, gjaldeyrislaust og tap á öllum hlutum. Það er tap á að salta fisk, tap á að frysta fisk, tap á Hvalfjarðarsíldinni og tap á nýju togurunum, tap á öllu nema kjötframleiðslunni. Á hana minntist hæstv. ráðh. ekki. Já, það er ekkert nýtt, að Eysteinn sjái peningaleysi og tap, sérstaklega hjá íslenzkum sjávarútvegi. Það er af þeim ástæðum, sem hann neitaði um leyfi til að reisa síldarverksmiðju rétt áður en stríðið skall á. Það var af því, sem hann bannaði skipakaup og lét sekta þá, sem slíkt gerðu. Það er af sömu ástæðu, sem hann grætur nú yfir því, að innstæðum þjóðarinnar skuli hafa verið varið til þess að kaupa 31 nýja togara, á annað hundrað fiskibáta, til verksmiðjubygginga o.s.frv. Það hefði verið annað viðhorf nú, segir Eysteinn, ef landsmenn hefðu ekki eytt innstæðunum þannig. Já, þá hefði nú mátt eta upp þær upphæðir, sem fóru til kaupa á atvinnutækjum. — Já, tap á útgerðinni. — En hverjir græða á íslenzkri útgerð? Það hefði kannske mátt minnast á það. Hvað græða kaupmenn, bankar, olíusalar, viðgerðaverkstæði og þeir, sem brangsa með gjaldeyri þjóðarinnar? Hvað græða þeir á útgerðinni? Og á hverju ætli Eysteinn Jónsson og aðrir embættismenn lifi fyrst og fremst, nema á íslenzkri útgerð?

Forsrh., Stefán Jóhann, var hér með hinn venjulega róg um nýju síldarverksmiðjurnar og landssmiðjuna. Það leynir sér ekki hatrið út í þær framkvæmdir, sem ráðizt var í af fyrrv. stj. Blákalt var því haldið fram, að nýju verksmiðjurnar á Siglufirði og Skagaströnd hafi farið 20 millj. kr. fram úr áætlun, þó að yfirlýsing byggingarnefndar liggi fyrir um, að engin kostnaðaráætlun var gerð. Kostnaðaráætlun var hins vegar gerð af Jóni Gunnarssyni 1943 um 10 þús. mála verksmiðju á Siglufirði, og var sú áætlun upp á 16 millj. kr., en 1946 reyndist svo bygging 12 þús. mála verksmiðju á Siglufirði um 20 millj. kr., þrátt fyrir stórhækkað verðlag.

Það er auðvelt verk að tína fram einstök mistök, sem alltaf verða við stórar framkvæmdir, þar sem tími er naumur. Þannig atvík eru eftirlæti stjórnarliðsins og notuð til persónulegra árása á Áka Jakobsson. Áki Jakobsson var svo ósvífinn, að hann lét framkvæma gildandi lög um byggingu síldarverksmiðja, en áður voru þau lög að engu höfð. Hann skipaði ópólitíska byggingarstjórn, og var enginn flokksmanna hans í stjórninni. Tveir menn voru skipaðir samkvæmt tilnefningu stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, sem sé þeir dr. Trausti Ólafsson og Magnús Vigfússon, og tveir án tilnefningar, þeir Þórður Runólfsson, vélaeftirlitsmaður ríkisins, og Snorri Stefánsson, verksmiðjustjóri á Siglufirði. Þessir menn sáu um allt verkið og stóðu sig með afbrigðum vel, eftir því sem kringumstæður leyfðu. Þeir komu verksmiðjunni upp á skemmri tíma en talið var hægt, en hafa í staðinn hlotið ámæli og svívirðingar núverandi valdamanna í landinu. — Nýja verksmiðjan á Siglufirði, sem tvímælalaust er bezta verksmiðja landsins, hefur unnið úr yfir 500 þús. málum af síld í vetur. Það þýðir gjaldeyrisverðmæti fyrir um 40–50 millj. kr. Þessi verksmiðja er ein dýrmætasta eign þjóðarinnar, og því er sem núverandi stjórnarvöld sjái rautt, þegar á hana er minnzt. Þessi verksmiðja hefur afkastað um 11 þúsundum mála á sólarhring, og í janúarmánuði s.l. afkastaði hún t.d. 33640 pokum af mjöli á móti 24280 pokum, sem báðar hinar verksmiðjurnar á Siglufirði afköstuðu þá. Í nýju verksmiðjunni unnu 62 menn, en í hinum báðum 106 menn, — sem sagt 50% meiri afköst, en nærri helmingi færri menn.

Af sama toga er landssmiðjurógurinn spunninn. Áki Jakobsson er sagður hafa stjórnað Landssmiðjunni, þó að í stjórn fyrirtækisins væru þrír embættismenn ríkisins, allir valdir af núverandi stjórnarflokkum og allir þeirra flokksmenn, en þeir eru: vegamálastjóri, vitamálastjóri og forstjóri skipaútgerðarinnar. En það er lítill vandi að búa til tap á öllum rekstri með þeim hætti, sem núv. stj. hefur haft á í sambandi við uppgjör bátasmiða landsmiðjunnar. Strax eftir ár eru nýkeyptar eignir afskrifaðar um milljónir króna og Landssmiðjan látin kaupa þær af sjálfri sér. Þannig upplýsir forsrh., að bátaeikin hafi verið afskrifuð um 900 þús. kr., og þó hefur eik stórhækkað í verði, og landssmiðjueikin hefur nú um skeið verið eina hjálp útvegsins í efnisleysinu, og hefur jafnvel þurft að flytja hana með fiskiskipum til útlanda til viðgerða og nýsmíða, vegna þess að eik er ófáanleg. — Tap bátabygginganna er fyrst og fremst tilbúið í tölum, sem ríkisstj. hefur látið búa til. Útistandandi skuldir voru gefnar eftir, eikin seld á slikk, vélar og tæki afskrifuð og húseignir seldar fyrir brot af réttu verði. Þannig var tapið búið til.

En víkjum nú að starfi og stefnu ríkisstj. Þeir Stefán Jóhann, Bjarni Ben. og Eysteinn hafa nú setið að völdum í rúmlega eitt ár. Þegar setzt var í stólana, stóð mikið til. Margt átti að gera og miklu var lofað. Í umboði hinnar nýju stjórnar las Stefán Jóhann upp alllanga þulu, en aðalefni hennar var á þessa leið:

Höfuðverkefni stjórnar minnar eru: að vernda sjálfstæði landsins,

að endurskoða stjórnarskrána,

að tryggja góð og örugg lífskjör allra landsmanna og áframhaldandi velmegun, að halda áfram og auka nýsköpun í íslenzku atvinnulífi.

Sérstaka áherzlu skal leggja á byggingu íbúðarhúsa við almenningshæfi, m.a. með útvegun lánsfjár og byggingarefnis. — Þá skal sett á stofn Innkaupastofnun ríkisins, sem flytji inn fyrir ríkisstofnanir og ríkisframkvæmdir. Verzlunarmálunum skal þannig hagað, að þeir flytji inn vörurnar, sem hagkvæmust innkaup gera, og almenningur skal fá að verzla þar, sem hann helzt kýs að hafa viðskipti sín. — Síðast, en ekki sízt. var svo fyrirheit stj. um baráttu af alefli gegn dýrtíðardraugnum.

Síðan þessi loforð voru gefin, er nú liðið rúmlega eitt ár. Hvað hefur gerzt á þessu tímabili? Hvernig er umhorfs í landsmálunum núna í dag? Við skulum virða fyrir okkur ástandið, bera saman loforð og efndir og gera okkur ljóst, hvert stefnir.

Við skulum fyrst athuga baráttu stjórnarinnar gegn dýrtíð og verðbólgu. Fyrsta stórátak stj. í þeim málum var að tvöfalda tollabyrðarnar á landsmönnum. Tollar voru hækkaðir í einni svipan um 40–50 millj. kr., og s.l. ár voru innheimtir tollar í ríkissjóð samtals um 100 millj. kr. Þessi tollabyrði jafngildir orðið 4–5 þús. króna álögum á hverja 5 manna fjölskyldu í landinu. Afleiðing þessa hefur orðið stórfelld hækkun á flestum vörum. Byggingar verða dýrari, vélar og tæki til framleiðslunnar verða dýrari og framkvæmdir allar verða dýrari og óhagstæðari. Afleiðing hinna gífurlegu tollahækkana hefur þegar orðið launahækkanir og hærri framleiðslukostnaður.

Önnur ráðstöfun stj. gegn dýrtíðinni var að leggja hinn svo nefnda söluskatt á allt vöruverð í landinn. Sá skattur er talinn nema yfir 20 millj. króna og á samkvæmt lögunum að koma fram í hækkuðu vöruverði. Áður hafði sams konar skattur verið lagður á, en þá var ákveðið, að hann mætti alls ekki hækka vöruverðið, heldur skyldi verzlunin bera skattinn. Nú mátti slíkt ekki, Nú varð skatturinn að koma fram í vöruverðinu. Heldur dálagleg dýrtíðarráðstöfun!

Þriðja ráðstöfun stjórnarinnar í dýrtíðarmálunum var svo bann við fullri vísitölugreiðslu á kaupgjald launþega. Með valdboði voru löglega gerðir kaupsamningar rofnir og launþegunum synjað um fulla dýrtíðaruppbót. Hér var um beint launarán að ræða, árás á kjör verkafólks og annarrar alþýðu, sem á sér fá fordæmi um ófyrirleitni og ósanngirni. Afleiðingar þessarar árásar hafa þegar orðið grunnkaupshækkanir hjá fjöldamörgum verkalýðsfélögum. Og enn eru mörg félög, sem ákveðið hafa sams konar svar, en bíða aðeins eftir löglegum uppsagnarfresti á samningum sínum. Fölsun á kaupgjaldssamningum helzt ekki uppi til lengdar, þó að slíkar krókaleiðir atvinnurekendavaldsins séu farnar.

Þá er rétt að minnast á enn eina ráðstöfun stjórnarinnar í baráttu hennar gegn dýrtíðinni, en það er hin almenna vaxtahækkun, sem nú hefur verið samþ. Þessi vaxtahækkun stórþyngir fyrir um allar framkvæmdir. Rekstrarútgjöld hækka, reksturinn ber sig verr, verðlag verður að hækka og dýrtíðin eykst. Vaxtahækkunin er ákveðin, þó að fyrir liggi óvefengjanlegar sannanir um meiri gróða bankanna en nokkru sinni áður. En peningamennirnir vilja fá meiri vexti, og undan kröfum þeirra er látið, þó að niður þurfi að skera laun almennings.

Þannig hefur barátta stj. verið í dýrtíðarmálunum. Þessar aðgerðir stj. eru auðvitað andstæðar loforðum hennar. En þær eru líka gersamlega andstæðar yfirlýstum stefnumálum stuðningsflokka stjórnarinnar. Það er kunnugt, að í stefnuskrá Alþfl. er lýst yfir andstöðu við tollaálögur, en á Alþingi hefur Alþfl. samþykkt allar tollahækkanir síðustu ára, og þegar formaður flokksins er orðinn forsrh., þá eru tollarnir tvöfaldaðir. — Framsókn átti ekki heldur nógu stór orð um veltuskattinn, þegar hún var í stjórnarandstöðu. Þá hét þessi skattur „óréttlátasti skatturinn“, „skatturinn gegn samvinnumönnum“ o.s.frv. En nú er þessi sami skattur samþykktur af Framsókn; gamla veltuskattsfrv. er nú tekið orðrétt upp, nema hvað nú er ákveðið, að skatturinn skuli hækka vöruverðið, en áður átti verzlunin að bera skattinn, og nú er skatturinn nærri helmingi hærri en áður. Hann er nú ein dýrtíðarráðstöfun Framsóknar.

Það er augljóst hverjum manni, að stj. hefur svíkið öll sín loforð um baráttu gegn dýrtíðinni. Í þeim efnum hefur hún öllu snúið öfugt. Hún hefur aukið dýrtíðina, en ekki minnkað.

Við skulum nú næst íhuga nokkuð ástandið í verzlunarmálunum og sjá, hvað stj. hefur efnt af loforðum sínum í þeim efnum. — Það er rétt að leiða fram sem vitni einn af stjórnarflokkunum sjálfum um ástandið í verzlunarmálunum og hvernig stj. hefur þar staðið við gefin loforð. Framsfl. hafði mörg og stór orð um verzlunarspillinguna áður en hann fór í ríkisstj. Hann fullyrti, að ekki kæmi til mála, að framsóknarmenn færu í ríkisstj. nema alveg væri tryggt, að hreinsað yrði til í þessum málum og verzlunareinokun heildsalanna af létt. En hvað hefur gerzt? Hvað segir Framsfl. um það? Þann 12. þ. m. segir Tíminn orðrétt á þessa leið:

„Í dag er verið að vinna markvisst að því á Íslandi að afnema verzlunarfrelsið. Innflutningshöftunum og skömmtununum er þannig beitt, að verzlunarfrelsið er að verða tómur bókstafur. Menn fá ekki að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila, sem þeir telja sér bezt og hagkvæmast að verzla við. Menn eru í mörgum tilfellum neyddir til að verzla við okrarana og svartamarkaðskaupmennina. Í flestum verzlunarstöðum landsins ríkir vöruþurrð vegna þess fyrirkomulags, sem ráðandi er í innflutnings- og skömmtunarmálunum.“

Og enn segir Tíminn: „Hátíðleg loforð, sem ríkisstjórn og Alþ. hafa gefið um endurbætur verzlunarinnar og viðskiptafrelsi almennings, eru einskisvirt og fótum troðin meðan þessu fer fram.“ Dálaglegt vottorð stjórnarblaðsins!

Þann 16. þ. m. minnist Tíminn á loforð stjórnarinnar um stofnun innkaupaverzlunar ríkisins, til innkaupa fyrir ríkisstofnanir og ríkisframkvæmdir. Blaðið segir m.a.: „Þessi lög, þ.e. lögin um innkaupastofnun ríkisins, voru sett á seinasta þingi í samræmi við það fyrirheit stjórnarsáttmálans, að sett skyldi á fót stofnun, sem annaðist innkaup á byggingarefni til opinberra framkvæmda. Þótt ár sé nú liðið frá setningu laganna, hólar ekki neitt á framkvæmd þeirra.“ — Þetta loforð hefur sem sagt gersamlega verið svikið, og er skýringin sú, segir Tíminn, að nokkrir heildsalar hafa komið í veg fyrir framkvæmd laganna.

Og hér er enn ein tilvitnun úr einu stjórnarblaðanna um ástandið í verzlunarmálunum. S.l. laugardag skrifaði Tíminn á þessa leið:

„Það hefur líka verið haldið þannig á stjórn skömmtunarmálanna, að þessar kröfur eru nú bornar fram af meiri krafti og alvöru en nokkru sinni fyrr. Um áramótin er úthlutað skömmtunarseðlum til hálfs árs. Þeir, sem fá þessa seðla, en engar vörur, sem þá sárast vantar, út á þá í grennd við sig, senda þá til Rvíkur og fá oft úrlausn þar, með ærnum aukakostnaði þó, eða þeir geyma þá í þeirri trú, að úr rætist með vorinu. Ef til vill leyfa stjórnarvöldin fyrir þann tíma, að þeir leggi þessa miða inn hjá verzlun heima í héraði sínu og hún fái síðan innflutningsleyfi út á þá. En næsti boðskapur stjórnarvaldanna verður ekki um það, heldur tilskipun á þá leið, að þeir, sem geymi seðla sína enn þá, skuli tapa rétti til þriggja mánaða úttektar um næstu mánaðamót, verði þeir ekki búnir að kaupa fyrir þá áður. Menn heyra þessa tilskipun í, vörulausum verzlunarstöðum, sem e.t.v. hafa póstsamband við Rvík á þriggja vikna fresti eða fjögurra. Og á sveitabæi langan og torsóttan veg frá þessum verzlunarstöðum berst hin volduga tilskipan yfirvaldanna í Rvík, sem hafa í hendi sér að metta einn, en svelta annan, ettir vísdómi sínum og náð. Og þeir menn, sem ráða þessu, keppast við að kenna sig við frjálsa verzlun, jöfnuð og réttlæti.“

Þetta var nýjasta lýsing Tímans á ástandinu, sem stjórn þeirra Stefáns Jóhanns, Bjarna Ben. og Eysteins hefur leitt yfir þjóðina í verzlunarmálunum. Hvert mannsbarn í landinu veit, að ríkisstj. hefur svikið blátt áfram allt, sem hún lofaði í verzlunarmálunum. Hún hefur ekki gert verzlunina ódýrari, heldur dýrari. Hún hefur ekki blakað við heildsölunum. Hún hefur svikið lögin um innkaupastofnun ríkisins, og hún hefur svikið loforðið um, að almenningur mætti ráða, hvar hann verzlaði. Það hefur ekki verið reynt að draga úr dýrtíðinni með breyttu verzlunarskipulagi, sem þó var sjálfsagðasti hluturinn í þessum málum. Kvótakerfið er enn í fullu gildi og innflutningsverzlunin þannig á leigu hjá nokkrum gæðingum stjórnarinnar. Öðrum heildsölum er svo ýtt til hliðar, þrátt fyrir glamrið um frjálsa samkeppni.

Sú skipan, sem ríkt hefur í verzlunarmálum þjóðarinnar, hefur leitt af sér gífurlegan gjaldeyrisflótta úr landi. Sannanir liggja fyrir um stórfalsanir á verðlagi innfluttra vara. Þannig hefur vöruverðið verið sprengt upp og dýrtíðin aukin. Vörur hafa einnig verið keyptar inn sannarlega á hærra verði en þörf var á. Og gjaldeyrir hefur verið yfirfærður án innkaupa eða í öðrum tilgangi en til var ætlazt. Þetta eru afleiðingar, sem eru óaðskiljanlegar því verzlunarskipulagi, sem núverandi stjórnarflokkar hafa jafnan staðið vörð um og viðhalda enn í dag. Á meðan þessu fer fram, á að draga úr dýrtíðinni með sílækkandi launum almennings og framleiðslufyrirtæki eru stöðvuð vegna gjaldeyrisskorts. En við verzlunarspillingunni má ekki blaka. — Framsókn var stórorð um verzlunarálagið áður en hún gekk í stjórnina. Þá lýsti hún því yfir, að skilyrði hennar fyrir stjórnarþátttöku væri breytt skipulag verzlunarmálanna. En hvað nú? Og Alþfl. á Íslandi stjórnar þessum dásemdarmálum. Það er hann, sem ber formlega ábyrgð á svikunum. Það er hann, sem hlífir heildsölubraskinu og gjaldeyrisflóttanum.

Víkjum nú að atvinnumálunum. Hvernig hefur stj. efnt loforð sín í þeim málum? Þar var lofað áframhaldandi nýsköpun, atvinnu handa öllum, skipulagningu vinnuaflsins og aukinni velmegun. Hverjar eru staðreyndirnar? Nýsköpunin er gersamlega stöðvuð. Lýsisherzluverksmiðjan er stöðvuð. Síldarniðursuðuverksmiðjan er stöðvuð. Fjöldi fyrirtækja stendur enn hálfkláraður, svo sem frystihús, fiskimjölsfyrirtæki, hafnargerðir og rafveitur, og neitað er um áframhaldandi lán. Stofnlánadeild sjávarútvegsins hefur verið lokað. Stöðvunarstefnan setur svip sinn á allt atvinnulíf landsins. Iðnaður landsins er að lognast út af. Ýmis fyrirtæki hafa hætt störfum vegna hráefnaskorts, önnur vinna annan hvern dag og sum aðeins hálfan daginn. Nauðsynlegustu vörur vantar til framleiðslunnar, og liggur jafnvel við, að sjómenn geti ekki stundað vinnu sina fyrir skorti á sjófatnaði, sjóstígvélum og öðru þvílíku. Þá að liðnir séu nærri fjórir mánuðir síðan samþykkt var á Alþ. að veita bátaútveginum stuðningslán vegna óhagstæðrar síldarútgerðar s.l. sumar, þá bólar enn ekkert á þessum lánum, og liggja sumir bátar fastir vegna skuldafjötra. Bátaútvegurinn hefur stórlega dregizt saman vegna síversnandi útgerðarskilyrða. og er sjáanlegt, að afleiðingin verður minnkandi framleiðsla. Vextir á lausaskuldum vegna útgerðarinnar hafa stórhækkað, veltuskattur lagður á ýmsar nauðsynjar, olía og aðrar nauðsynjar hafa stórhækkað í verði. Atvinnuleysið hefur þegar haldið innreið sína. Hér í Rvík er þegar orðið tilfinnanlegt atvinnuleysi hjá vissum atvinnustéttum, og mörg hundruð manns hafa ekki fulla atvinnu, og má búast við atvinnuleysi hvenær sem er. Hefði Hvalfjarðarsíldin ekki algerlega óvænt gripíð inn í, hefði hér verið almennt og mikið atvinnuleysi í allan vetur.

Þannig er umhorfs í atvinnumálunum eftir eins árs stjórnarsetu Stefáns Jóhanns, Bjarna Ben. og Eysteins. Þannig hafa þeir efnt loforðin um skipulagningu vinnunnar, atvinnu handa öllum og framhald nýsköpunarinnar. Nefndir og ráð stjórnarinnar, sem áttu að skipuleggja vinnuaflið, skipuleggja nú atvinnuleysi. Þau, sem áttu að skipuleggja innflutninginn, stöðva nauðsynlegan innflutning. Þau, sem áttu að skipuleggja áframhald nýsköpunarinnar, hafa stöðvað nýsköpunina, og þau, sem áttu að tryggja rekstur atvinnutækjanna, eru að stöðva atvinnutækin.

Ég hef nú rakið hér nokkur helztu loforð ríkisstj. og efndirnar á þeim. Ef að vanda lætur, fæst stjórnarliðið ekki til þess að ræða þessi mál. Fram hjá þeim er hlaupið í gersamlega óskyld mál, sem ekkert koma íslenzkum þjóðmálum við. Það, sem ég hef dregið hér fram, eru beinar staðreyndir, eru bókfest loforð og reynslan af framkvæmdunum. Stjórnarliðið grípur jafnan til þess ráðs að svara út úr og æpa upp erlendar æsifregnir. Það á engin frambærileg svör til afsökunar á því að hafa svíkið framkvæmd á ýmsum þeim lögum, sem ég hér hef rætt um. Nei, — en það segir bara í þess stað: Rússar eru svín! — Þeir geta ekki varið lögbrot sín á verkamönnum, en svara út í hött og segja: Í Tékkóslóvakíu ríkir ofbeldi! — Stjórnarsinnar reyna ekki að ræða verzlunarmálin, það hneyksli sem þau eru, en tala í stað þess um járntjaldið og veizluhöld Molotoff-hjónanna og að Gottvald í Tékkóslóvakíu og Þóroddur séu skólabræður. Þannig eru aðferðirnar. Þannig á að trufla rétta dómgreind almennings og komast undan áfellisdómi þjóðarinnar. Þetta tekst ekki. Þjóðin fyrirlítur þá öskurapa, sem ræða um erlenda viðburði eins og flón. Og hún mun áður en langt líður fella dóm sinn yfir þeim mönnum, sem nú eru að stefna efnahag hennar og atvinnumálum í strand.