23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

129. mál, fjárlög 1948

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sem talaði hér í gærkvöld af hálfu kommúnistaflokksins, hefur sjálfsagt reynt að tina til flest það, sem hann hefur getað fundið núv. ríkisstjórn tii ávirðingar, en það var í stuttu máli þetta, eftir því, sem ég gat komizt næst:

Ríkisstj. hefur lofað fullri atvinnu fyrir alla, en haft alla tilburði til að svíkja það. Hún hefur svipt launþega 10% af launum þeirra. Hún hefur hækkað vextina. Hún hefur þurrkað út allt framtak einstaklingsins, bæði á sviði atvinnurekstrar og verzlunar. Byggingariðnaðurinn hefur verið hnepptur í fjötra og framkvæmdir stöðvaðar að mestu. Hún hefur ekkert sinnt um útvegun hráefna til iðnaðar. Réttur samkvæmt alþýðutryggingalögunum hefur verið rýrður. Ódýr lán til bygginga hafa verið afnumin. Lán úr stofnlánasjóði hafa verið stöðvuð. Ríkisstj. hefur valið stefnu í útflutningsmálum, sem fjandsamleg er hagsmunum þjóðarinnar. Hún hefur ákveðið að taka þátt í Marshallkerfinu. Hún er fulltrúi erlends valds á Íslandi.

Ofan á þetta kryddaði svo þm. með spádómum um styrjöld, sem mér virtist hann telja alveg yfirvofandi. Hann sagðist nú ekki sjá skýjaborgir eins og 1944, heldur rústir, og hann ákærði ríkisstj. fyrir andvaraleysi í því sambandi og skírskotaði til þjóðarinnar að feta nú í fótspor sinna beztu fyrirrennara, taka völdin af stjórninni og hefja hinn rétta stríðsundirbúning, því að alþýðan hlyti að sigra í þeim átökum, sem fram undan væru.

Kom þm. í því sambandi með ýmsar merkilegar upplýsingar, eins og þær, að sósíalistaherir mundu þegar í upphafi styrjaldar þeirrar, er nú stæði fyrir dyrum, standa gráir fyrir járnum á strönd Atlantshafsins — hann gleymdi að vísu að segja hvar, en það er hægt að ímynda sér, það eru ekki svo margir möguleikar til, — og að Ísland mundi verða gert að styrjaldarvettvangi. Kaupstaðirnir Reykjavík, Hafnarfjörður og Keflavík mundu verða jafnaðir við jörðu, og viðurstyggð eyðileggingar mundi hvarvetna blasa við. Manni verður á að spyrja: Hver ætlar að gera þetta, og hvernig veit þm. allt þetta? En ég kem að því síðar, og bezt að taka hlutina í réttri röð.

Hv. þm. sagði fyrst, að ríkisstj. hefði lofað atvinnu handa öllum; hins vegar skildist manni, að hún hefði gert það, sem í hennar valdi stóð, til að svíkja þetta, en ekki tekizt vegna síldveiðanna í Hvalfirði. Það eitt er rétt í þessu, að ríkisstj. setti það efst á stefnuskrá sína að leitast við af fremsta megni að sjá um, að atvinna yrði fyrir hendi handa öllum landsmönnum. Þetta hefur tekizt giftusamlega á þann hátt, að mjög lítið atvinnuleysi hefur verið í landinu þetta ár, sem liðið er síðan hún tók við völdum; og fullyrða má, að ekki hafi verið hægt að fullnægja eftirspurninni eftir vinnuafli í ýmsum atvinnugreinum. Það er nú einu sinni svo, að ekki er hægt að flytja menn tafarlaust milli starfa og staða í lýðfrjálsu landi, eins og sagt er að eigi sér stað í ríkjum, þar sem kommúnistar telja að stjórnarfarið sé til fyrirmyndar, og þess vegna getur það komið fyrir hér, að einhverjir séu atvinnulausir í einni atvinnugrein, þó að nægilegt væri fyrir þá að gera í annarri. Yfirleitt má því segja, að nægileg vinna hafi verið fyrir hendi fyrir alla landsmenn, sem gátu tekið því, sem í boði var, og vildu það. Þessi fyrsta ádeila Einars Olgeirssonar fellur því máttlaus til jarðar og ómerk.

Önnur athugasemdin var: Ríkisstj. hefur svipt alla launþega landsins 10% af launum þeirra. Skal það nú athugað.

Með dýrtíðarlögunum var ákveðið, til þess að halda framleiðslustarfseminni gangandi, að greiða aðeins vísitöluuppbót miðað við 300 stig. Kommúnistar sögðu, þegar þessi lög voru sett, að framfærsluvísitala, eins og hún var reiknuð, mundi bráðlega hækka upp í 350 stig, og almenningur mundi því fá kaup sitt skert sem næmi 50 stigum. En hvernig hefur reynslan orðið? Vísitalan hefur síðan þessar ráðstafanir voru gerðar verið í 319 stigum og lækkunin því hvorki orðið 50 stig né 10%, heldur 19 stig, eða tæp 6%, sem er mjög nálægt því, sem gert var ráð fyrir í upphafi, þegar lögin voru sett. Og ég fullyrði, að það hafi verið sú minnsta lækkun, sem nokkrar líkur eru til að komast megi af með, þar sem því fer svo víðs fjarri, að höfuðatvinnuvegir okkar geti borið sig með þeim tilkostnaði, sem er innanlands, og því markaðsverði, sem fáanlegt er erlendis. Um þetta vitna fjárlögin bezt.

Það, sem sérstaklega setur svip á fjárlögin að þessu sinni og mér liggur við að segja óhugnanlegan svip, er 19. gr. þeirra. Þar er gert ráð fyrir að veita til niðurgreiðslu á vörum hvorki meira né minna en 55 millj. kr. Þessi upphæð hefur farið vaxandi ár eftir ár. Á fjárlögum ársins 1946 var gert ráð fyrir 12 milljónum kr. í þessu skyni; á fjárlögum ársins 1947 35 milljónum kr. og nú 55 milljónum. Þessar tölur, teknar úr fjárlögum tveggja síðustu ára og yfirstandandi árs, gefa betur til kynna en mörg orð, hvert stefnir. Fjórða partinum af öllum gjöldum ríkissjóðs er nú varið til að halda framleiðslukostnaðinum niðri og til að bæta upp útflutningsverðið. Þannig er ósamræmið orðið gífurlegt milli framleiðslukostnaðar hér og sölumöguleikanna erlendis. Samtímis er því haldið fram af stjórnarandstöðunni, kommúnistum, að ríkisstj. setji eftir megni fótinn fyrir atvinnuþróunina í landinu og haldi kaupinu smánarlega lágt niðri. Ég vil aftur á móti halda því fram, að hér sé af ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar á Alþingi gengið eins langt til stuðnings við atvinnuvegina og vinnandi fólk í landinu og hagur ríkissjóðsins frekast leyfir — og kannske lengra. En með þessum aðgerðum hefur tekizt að halda í horfinu, greiða útvegsmönnum og bændum það, sem talið er, að minnst sé hægt að komast af með fyrir afurðirnar til þess að framleiðslustarfsemin geti haldið áfram, og það hefur hún gert nokkurn veginn viðstöðulaust. Enn fremur hefur tekizt að mestu að forðast kauplækkanir, nema þau 19 vísitölustig umfram 300, sem nú eru ekki greidd. Hvort og hve lengi þetta tekst, er ómögulegt að segja. Það fer eftir erlendu markaðsverði á afurðunum annars vegar og fjárhagsgetu ríkissjóðs hins vegar. En eitt er vist: Sýndarbarátta kommúnista gegn þessum ráðstöfunum ríkisstj. er ekki sprottin af umhyggju fyrir alþýðu þessa lands. Hún er rekin án tillits til þess, hvort nokkrir praktískir möguleikar eru fyrir hendi að uppfylla kröfur þeirra. Hún er einvörðungu og eingöngu rekin sem sýndarleikur og glæfraspil til þess að reyna að skapa upplausn, sem síðar væri hægt að hafa af pólitískan vinning. Þess vegna ber öllum að kryfja ráð þeirra og tillögur vel til mergjar, og munu menn þá fljótt komast að hinu sanna.

Vextir hafa verið hækkaðir, sagði hv. þm., og það var eitt af því fáa, sem hann skýrði rétt frá. Vextir, bæði innlánsvextir og útlánsvextir, voru hækkaðir um síðustu áramót, þó ekki upp í það, sem þeir voru fyrir stríð, en þá voru þeir hækkaðir vegna mikils framboðs á peningum og lítillar eftirspurnar. Nú hefur þetta ástand breytzt. Vegna hinnar gífurlegu fjárfestingar, sem átt hefur sér stað eftir styrjaldarlokin, hefur eftirspurnin eftir lánsfé vaxið miklu meira en hægt hefur verið að fullnægja. Vaxtahækkunin er raunverulega ekki annað en að viðurkenna þetta ástand; því að hefðu bankarnir ekki hækkað innlánsvexti sína, mundi sjálfsagt mjög verulegur hluti af því fé, sem þar er geymt, hafa horfið þaðan og farið í umferð manna á milli með vöxtum, sem sízt væru lægri og sjálfsagt miklu hærri en nú hefur verið ákveðið að hafa þá, og hafa farið til hluta, sem kannske ekki allir væru beinlínis þarfir fyrir þjóðfélagsheildina. Með vaxtahækkuninni hefur hins vegar tekizt að draga úr því fé, sem er í umferð og geymt heima, svo að lánaviðskiptin ættu þá sem því svarar að geta verið meiri hjá bönkunum.

Annars, er það eitt okkar alvarlegasta vandamál, hversu mikill skortur er orðinn á lánsfé, hvernig sem úr verður leyst. Ýmsum verkum, sem ákveðið hafði verið að framkvæma, bæði hjá einstaklingum og hinu opinbera, bæjum og ríki, hefur orðið að fresta vegna féleysis. Ég nefni til dæmis landshafnargerð í Njarðvík og Austurveg austur yfir Hellisheiði, sem hvort tveggja er þó lögtekið og á því að gera. En og bæta úr þessari lánsfjárþörf með aukinni seðlaútgáfu, eins og kommúnistar vilja, er að eyðileggja alla efnahagsstarfsemi í landinu og sparifé, sem þjóðin hefur lagt til hliðar til öryggis fyrir afkomu sína. Þessi fólskulega aðferð til að eyðileggja fjárhagskerfi þjóðarinnar hefur viða verið reynd og alls staðar farið á sömu leið, — endað með efnahagslegu öngþveiti.

Lán úr stofnlánasjóði hafa verið stöðvuð, sagði Einar Olgeirsson — og þykist koma af fjöllum. En sannleikurinn í því máli er sá, að í tíð fyrrv. stj. voru veittar 100 millj. kr. til A-lána stofnlánasjóðs. Á sama tíma var Einar Olgeirsson með í að úthluta í nýbyggingarráði ávísunum á 148 millj. kr. Undarlegt þetta, að dómi Einars Olgeirssonar, að ekki skuli vera hægt að greiða yfir 140 millj. kr. úr 100 millj. kr. sjóði!

Ódýr lán til bygginga hafa verið afnumin, sagði hv. þm. Byggingariðnaðurinn hefur verið hnepptur í fjötra og framkvæmdir stöðvaðar að mestu. — Sannleiksgildi þessara orða má þegar marka af því, að á frumdrögum þeim að fjárfestingaráætlun, sem fjárhagsráð hefur samið og ríkisstj. hafa verið afhent, er gert ráð fyrir, að notuð verði í ár, 1948, til bygginga 50–60 þús. tonn af sementi, en það er með því mesta, sem nokkurn tíma hefur verið notað hér á landi, og annað byggingarefni samkvæmt því, og varið til þessarar fjárfestingar yfir 300 millj. kr., eða sem svarar að verðmæti um 3/4 alls útflutnings eins og hann er nú áætlaður. Skyldi nokkur maður utan kommúnistaflokksins vera til svo forstokkaður, að kalla þetta stöðvun á byggingarstarfseminni í landinu? Og ekki er þetta af því, að þeir viti ekki betur, því að þessar skýrslur fjárhagsráðs hafa þeir haft með höndum og meira að segja látið prenta, áður en þeim var fulllokið.

Einar Olgeirsson sat í nýbyggingarráði hátt á þriðja ár. Í því ráði lauk hann aldrei við samningu þeirra áætlana, er honum var með lögum falið að gera. Hins vegar hefur fjárhagsráð nú unnið mjög merkilegt starf með setningu tveggja stórra áætlana, og er önnur um innflutninginn til landsins og gjaldeyrisþörfina 1948 og hin um fjárfestingu þessa árs. Þessi áætlunargerð á, ef vel tekst, að mynda grundvöllinn að skipulegum þjóðarbúskap, sem aldrei fyrr hefur verið reyndur hér á landi, en fjöldi þjóða hefur nú tekið upp. Þetta er Einar Olgeirsson að fjandskapast út í af vanmegnugri reiði yfir því að hafa ekki önnur ádeiluefni betri á ríkisstj. Og þegar hann er búinn að hella sér yfir höftin og fjötrana, sem sósíalistar í öðrum löndum, þar sem þeir ráða, kalla rannar allt öðru nafni, þá leið frá brjósti hans andvarp eitthvað á þessa leið: Ríkisstj. hefur þurrkað út allt framtak einstaklingsins bæði á sviði verzlunar og atvinnurekstrar ! Já, á dauða mínum átti ég von, en ekki þessu, — að Einar Olgeirsson skyldi taka að sér að gerast málsvari hins frjálsa framtaks í atvinnumálum, gegn Sjálfstfl., sem hann, eins og raunar fleiri, hefur deilt harðlega á fyrir skefjalausa einstaklingshyggju. Svo langt getur lýðskrumið gengið hjá þessum hv. þm. og svo auðvelt á hann með að bregða sér í allra kvikinda líki, að hann tekur að sér að deila á Sjálfstfl. fyrir að gæta ekki betur framtaks einstaklingsins ! Ja, það þarf brjóstheilindi til þess arna.

Réttur samkvæmt almannatryggingalögunum hefur verið rýrður stórkostlega, sagði hv. þm. Við skulum athuga þetta.

Sá fótur er fyrir því, að samkvæmt dýrtíðarlögunum eru bótagreiðslur miðaðar við vísitölu 300, eða lækkuðu um tæp 6%, eins og hjá launþegum. Þó er frá þessu sú veigamikla undantekning, að elli- og örorkulífeyrir er miðaður við vísitölu 315; og meðan vísitalan helzt í 319, eins og hún er nú, svarar þetta til rúmlega 1% og getur því tæplega kallazt tilfinnanlegt.

Framlagið til trygginganna úr ríkissjóði hefur í meðferð fjárl. að vísu verið lækkað um 1.5 millj. kr., og má vera, að það sé þetta, sem hv. þm. á við. En um þessa lækkun er það að segja, að hún hefur engin áhrif á bótagreiðslur trygginganna, því að þessi upphæð var fyrir hendi sem rekstrarafgangur frá s.l. ári og yfirfærist til þessa árs, svo að útkoman verður hin sama og ef framlagið hefði staðið óbreytt og engin yfirfærsla frá fyrra ári átt sér stað.

Ríkisstj. hefur átt hlut að því, að fjárhagsráð hefur aflað sér nákvæmra skýrslna um starfsemi iðnaðarfyrirtækjanna í landinu, sem ekki voru áður til, hráefnaþörf þeirra, framleiðslugetu og tölu vinnufólks. Á grundvelli þessara gagna hefur fjárhagsráð miklu betri aðstöðu en nokkurn tíma var áður til þess að gera sér grein fyrir þörfum þessarar starfsemi og hvað spara megi í innflutningi af unnum vörum vegna hennar. Að ekki hefur tekizt að útvega nægileg hráefni til iðnaðarins, stafar hvorki af skilningsleysi né viljaskorti, heldur af gjaldeyrisskorti, sumpart, og sumpart af því, að þessar hráefnavörur hafa ekki fengizt á hinum erlendu mörkuðum, og mun verða úr því bætt strax og möguleikar eru fyrir hendi.

Þá sagði hv. þm., að ríkisstj. hefði valið sér stefnu í útflutningsmálum, sem fjandsamleg væri hagsmunum þjóðarinnar; Austur-Evrópuþjóðirnar hefðu verið vanræktar og allt miðað við að hafa viðskipti við Bandaríkin og England. Hæstv. utanrrh. sýndi fram á það í gærkvöld, hvernig hér er farið með staðlausa stafi, hvernig allt hefur verið gert, sem unnt er, til að ná verzlunarsamböndum við þessar þjóðir, og ekki strandað á okkur, heldur miklu fremur á hinu, að þessar þjóðir hafa ýmist ekki viljað við okkur tala, ekki viljað kaupa þær vörur, er við höfðum að bjóða, eða þótt þær of dýrar. Sannleikurinn er, að að þessum málum hefur verið unnið jafnt í Austur-Evrópu og annars staðar og ekkert tækifæri látið ónotað til að selja afurðir okkar á hagstæðu verði, án þess þó að binda okkur neins staðar þann fjötur um fót, sem hæpið væri að una við pólitískt séð. En það er það, sem kommúnistar hafa viljað láta gera. Þeir hafa viljað eyðileggja öll okkar sambönd við Vestur-Evrópu og Bandaríkin, en knýta tengslin þeim mun fastar við Sovétríkin og Austur-Evrópu. Þetta hefur ríkisstj. ekki viljað, og af þessu stafa hinar ofsafengnu ádeilur á ríkisstj. fyrir skakka verzlunarpólitík, er þeir telja fjandsamlega hagsmunum þjóðarinnar, eins og Einar Olgeirsson orðaði það í ræðu sinni í gær.

Sannast sagna hef ég oft undrazt þann gífurlega áróður, sem rekinn hefur verið af kommúnistum fyrir því að flytja að fullu og öllu verzlunarviðskipti okkar til Rússlands og Austur-Evrópuþjóðanna, svo augsýnilega óhagkvæmt og lítt framkvæmanlegt sem það er. En nú er skýringin komin: Þeir eru að reyna að draga þjóðina í ákveðinn dilk í þeim átökum, sem þeir telja sig vita, að nú séu í vændum. Allt niðurlag ræðu Einars Olgeirssonar var lýsing á hinni ferlegu styrjöld, sem nú væri yfirvofandi milli austursins og vestursins. Hann sá í huganum aðeins hrundar borgir og rústir. Hann skírskotaði til þjóðarinnar að búast nú til þessara átaka og skipa sér réttu megin, því að enginn vafi væri á því, hver mundi sigra í þeim átökum. Og við áttum ekki að skipa okkur þar í sveit, sem málstaðurinn væri betri; það virtist mér aukaatriði. Heldur áttum við að gera það til þess að bjarga okkar skinni. Hann notaði óttann sem aðalvopn og hótanir, sem minna óhugnanlega á svipaðan áróður og átti sér stað fyrir átta árum og á árunum þar á undan.

Þessi framkoma sýnir, að hér er nákvæmlega sama á ferðinni og manni var sagt, að gerzt hefði í Osló skömmu fyrir innrás nazista, en þar gerðist þá þessi atburður: Þýzka sendiráðið í Osló kallaði til — eða kannske réttara sagt bauð til sín öllum helztu áhrifamönnum þar í borg, sem það náði til, og sýndi þeim kvikmynd, sem nazistar höfðu látið gera af leifturhernaði þeim, er þeir þá ráku og kölluðu svo, og af öllum þeim eyðileggingum, sem viðnám og mótspyrna á móti þeim í því stríði þýddi. Þeir væru vissir með sigurinn, viðnámið kæmi þeim, sem á var ráðizt, að engu haldi, og því væri bezt að gefast upp strax, skilyrðislaust. Þessar dulbúnu hótanir áttu að verka á Norðmenn á þann hátt, að þeir þyrðu ekki að setja sig upp til varnar, þegar Þjóðverjar réðust á þá, sem þeir voru þá ákveðnir í að gera. En Norðmenn tóku öðruvísi á móti þeim. Þeir börðust meðan nokkur von var. Þeir risu upp og mótmæltu hinni freklegu frelsissviptingu — þ.e.a.s. allir nema kommúnistar, sem í upphafi hinnar þýzku árásar tóku öðruvísi á móti en allir aðrir, og hafa nú orðið að þola fyrir landráðastimpil norskra dómstóla. Frelsið var Norðmönnum meira virði en nokkrar borgir, og þeir börðust til þrautar, töpuðu í bili, en unnu sigur að lokum. Og enn virðast þeir vera sama sinnis, því að forsætisráðherra þeirra hefur nýlega lýst yfir því, að eigi þeir aðeins um tvennt að velja, annaðhvort friðinn eða frelsið, þá muni þeir hiklaust kjósa að berjast fyrir frelsinu. Svona hugsa nú Norðmenn. En ef það er rétt, sem Einar Olgeirsson sagði í gær, að sósíalistaherir mundu þegar í byrjun þessa stríðs, sem hann boðaði, ráðast fram til stranda Atlantshafsins, virðist Norðmönnum munu verða hætt.

Einar Olgeirsson og félagar hans hafa reynt ýmsar aðferðir við sitt pólitíska trúboð. Þeir reyndu í upphafi að kynna flokk sinn og stefnu hans ódulbúið, eins og það er í raun og veru, en fengu fáa fylgjendur. Þá brugðu þeir yfir sig sakleysishjúp sameiningar og lýðræðis, með ýmiss konar annarri svikagyllingu. Nokkrir fleiri bættust þá í hópinn, sem í sakleysi trúðu því, að flokkurinn meinti það, sem hann sagði. En það þótti ekki heldur nóg. Þá var gripið til þess ráðs að reyna að eyðileggja framleiðslu- og fjárhagskerfi þjóðarinnar með kröfum til atvinnuveganna um kaupgjald, sem þeir vissu, að ekki var hægt að borga, kröfum til bankanna um lán, sem ekki voru peningar til fyrir, og kröfum til ríkissjóðs um fjárframlög, sem ekki var hægt að afla, í því trausti, að hægt væri í skjóli þess ástands, sem þá skapaðist, að auka fylgið. Einnig þetta hefur mistekizt til þessa. Þá var gripið til þess úrræðis að krefjast þess, að öllum leiðum væri lokað til fyrrverandi viðskiptalanda okkar í vestri og að verzluninni væri beint til Austur-Evrópu í þeirri von, að því er nú virðist bert, að hnýta okkur þar þeim böndum, að mótstaða íslenzku þjóðarinnar yrði veikt og hún dregin í ákveðinn pólitískan dilk á sama hátt og gerzt hefur austur þar. En ekki heldur í þessari viðleitni höfðu þeir heppnina með sér. Og nú þegar allt um þrýtur, kemur Einar Olgeirsson hér fram á Alþingi og boðar rústir og dauða, ef Íslendingar sjái ekki að sér. En ég get fullvissað Einar Olgeirsson um það, að þetta er allra ólíklegasta aðferðin við Íslendinga. Þeir láta aldrei kúgast af hótunum um rústir og eyðileggingu. Þeir munu kynna sér málavexti alla, eftir því sem föng eru á. Þeir munu síðan gera upp sínar skoðanir og fella sinn dóm. Að vísu eru þeir fáir og smáir, og munar því kannske ekki miklu, hvorum megin hryggjar þeir liggja. En íslenzk alþýða mun aldrei með hótunum eða ógnunum láta hræða sig til fylgilags við neinn.