15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

182. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins er hér komið fram sem einn þáttur í því starfi, sem, eins og hv. alþm. er kunnugt. hefur átt sér stað á undanförnum árum með það fyrir augum að leitast við að vinna á móti hinni sífellt vaxandi eyðileggingu á fiskimiðum. Þetta er nú orðið þeim mun nauðsynlegra sem veiðitæknin er komin á hærra og öflugra stig en hún áður hefur verið. Ég tel mig ekki þurfa að fara um þetta mörgum orðum. Athugasemdirnar við lagafrv. þetta skýra það eins vel og betur heldur en ég mundi geta gert, þótt ég héldi um það sérstaklega ýtarlega ræðu.

Það er náttúrlega, af eðlilegum ástæðum, ekki farið neitt geyst af stað í því að tryggja — eða gera ráðstafanir til að tryggja — þessi okkar landsréttindi, sem er fiskveiðirétturinn innan íslenzkrar landhelgi, en vísindalegar rannsóknir eru grundvöllur að því að tryggja þennan rétt.

Eins og tekið er fram í grg., eru eðlilega átök í heiminum varðandi landhelgina, hve langt hún skuli ná hjá hverri þjóð, og eru uppi ýmsar reglur um það. Mjög eru skiptar skoðanir um það, hvað rétt sé eða heppilegt, að landhelgin nái langt út. Eins og segir t grg., eru annars vegar þær þjóðir, sem meiri hagsmuna hafa að gæta af fiskveiðum sínum við strendur annarra landa en sinnar eigin. Þau ríki eru því yfirleitt fylgjandi að hefta sem mest hendur strandríkja til einhliða ráðstafana á þessu sviði. Hins vegar eru þær þjóðir, sem stunda mest veiðar við sínar eigin strendur, áfram um að hafa landhelgina sem víðasta, og er eðlilegt, að Íslendingar séu framarlega í röð þeirra þjóða. Ég mun ekki hér fara að lýsa því, hversu mismunandi eða víðtækar eru reglur hinna ýmsu þjóða á þessu sviði.

Á það er enn fremur bent í athugasemdunum, að við framkvæmd yfirráðaréttar ríkis á fiskimiðum er eðlilegt, að farnar séu tvær leiðir. Önnur er sú, að ríki ákveði landhelgi sína fyrst og fremst með sínar eigin fiskveiðar fyrir augum. Önnur ríki hafa látið landhelgina liggja milli hluta í þessu sambandi og ákvarðað yfirráðarétt sinn yfir fiskveiðum án tillits til hennar. Síðari leiðin er að því leyti eðlilegri, að ýmis atriði, sem fólgin eru í hugtakinu „landhelgi“, eru óskyld yfirráðarétti yfir fiskveiðum og því að ýmsu leyti óheppilegt að blanda því tvennu saman.

Ég tel, að ekki sé þörf á að hafa fleiri orð um þetta að sinni, og vona að hv. d. geti fallizt á afgreiðslu þessa máls. Ég vil óska þess, að málinn verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.