22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

182. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir á þskj. 470, er sérstaks eðlis að tvennu leyti. fyrst og fremst vegna þess, hve þýðingarmikið það væri fyrir landsbyggðina, ef hægt yrði að fá fram rýmkun á landhelginni, eins og tilætlunin er með frv., og hins vegar vegna þess, hve mál þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið. Það hefði því verið æskilegt, að þetta mál hefði verið undirbúið svo, að ekki þurfi að verða harðvítugar deilur um það hér í þinginu, og helzt, að hægt væri að afgreiða þó án þess að kæmi til mikils ágreinings milli flokka.

Þetta hefur nú orðið þannig, að málið hefur að vísu komið til umræðna í utanrmn., en að því er ég bezt veit, hafa þó ekki verið gerðar alvarlegar tilraunir til þess að samræma sjónarmiðin þar, og frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. án tillits til breytinga. sem óskað var eftir í utanrmn. Auk þess er það flutt á allra seinustu dögum þingsins, þegar annríki er svo mikið, að nm. hafa mjög takmarkaðan tíma, – í sjútvn. hefur aðeins verið drepið á það á tveimur fundum, og það er loks afgreitt, ekki á fundi, heldur utan fundar og án þess að sannprófað hafi verið í n., hvort hægt væri að fá samkomulag. Ég hef því orðið að flytja sérálit einn á þskj. 617. En ég tel það alls ekki fullreynt, að ekki hefði náðst samkomulag í n. um samhljóða afgreiðslu, ef tími og tækifæri hefði verið fyrir hendi. Um það er ekki sérstaklega að sakast af minni hálfu, en ég hefði talið miklu ákjósanlegra, að reynt hefði verið að fá fullt samkomulag, og hefði þá mátt vænta meiri árangurs af þeirri lagasetningu, sem hér er stofnað til.

Það má segja, að þetta frv. feli í sér nokkuð óvanalega afgreiðslu á stóru máli, því að með 1. gr. gefur Alþ., sem löggjafarvaldið hefur, einu ráðuneyti fullt vald til að ákveða það, sem venjulega er gert með lögum, sem sé takmark verndarsvæðanna umhverfis landið, og ekki einasta það, heldur og vald til að setja allar reglur, sem eigi að gilda til verndar þessum svæðum. Það liggur í augum uppi, að hinn eðlilegi og venjulegi háttur á þessu er sá, að þingið sjálft setji lög um annað eins og þetta — ákveði sjálft stærð verndarsvæðanna umhverfis landið og ekki síður hitt, sem alltaf hefur verið venja, að reglur um þessa verndun séu settar af Alþ.

Ég hef við þær umr., sem farið hafa fram í sjútvn. talið rétt að veita stj. takmarkaða heimild til að ákveða takmörk verndarsvæðanna, en vildi ekki fallast á, að ráðuneytinu væri gefin þessi heimild nema með fyrirvara, sem meiri hl. n. hefur gengizt inn á að flytja og frsm. gat um áðan. Þar sem hann er góður lögfræðingur og túlkar þetta þannig, er sá skilningur efalaust réttur, og ég vænti þess, að stj. fallist á það, að eftir að þessu hefur verið bætt inn í gr., hafi stj. ekki heimild til að rýra l. um fiskveiðar í landhelgi.

Það gæti þó verið betra, að þessu væri bætt inn eftir 2. málsl. í staðinn fyrir 1. Málsl. Það er eðlilegra og tæki þá til hvors tveggja. Ég er viss um, að ef þetta hefði verið rætt í n., hefði n. fallizt á það, því að það fer betur, og efnislega er breyt. engin samkvæmt skilningi hv. frsm.

En þótt ráðuneytinu sé samkvæmt 1. gr. I. fengin þessi heimild, þá felur 2. gr. I. í sér ákvæði um. að takmörk og vernd fiskimiðanna sé komin undir milliríkjasamningum. Í grg. er vísað til samninga við Danmörk og Bretland og alþjóðasamninga um möskvastærð. Ef Ísland er þjóðréttarlega bundið á þennan hátt, þá er ekki nema rétt, að það sé tekið fram, en ég gef ekki fallizt á, að þetta gildi um samninga hér eftir, þ.e.a.s. að stj. hafi heimild til að gera samninga, er upphefja samninga og l. þau, er nú gilda til verndar fiskimiðunum. Fræðilega er ekki hægt að neita því, að stj. geti gert slíka samninga samkvæmt ákvæðum þessarar gr. Því er haldið fram, að þótt þetta ákvæði standi, muni engin stj. gera slíka samninga, en þessu ákvæði svipar þó nokkuð til hins fyrra. Ég skal ekki lengja umr. mikið í sambandi við þetta. en það er vitað, að áður hefur verið sótt fast á um ívilnanir og er enn, t.d. hvað síldveiðarnar snertir. Það er líklegt, að fastara verði sótt á í þessum efnum, ef stj. hefur fengið heimild til að gera slíka samninga. Það er því enginn skaði skeður, þó að þetta sé fellt burt, og engin nauðsyn til að hafa það í l. Vegna þess að ég tel heimildina óþarfa, vil ég ekki fallast á hana og Legg áherzlu á, að 2. brtt. mín á þskj. 617 verði samþ. Ef brtt. mín nær ekki fram að ganga, mun ég greiða atkv. móti 2. gr.

Ég skal svo ekki gefa frekari tilefni til deilna um málið. Ég viðurkenni meginefni frv. um að færa út landhelgina, það er svo þýðingarmikið, að nauðsyn er, að það nái fram að ganga, en ég tel, að stj. eigi að gæta þess, að ekki sé ástæða til tortryggni af hálfu Alþ. í sambandi við afgreiðslu málsins. Bezt er, að samkomulag geti orðið um málið, og ég vænti því þess, að d. fallist á brtt. mína á þskj. 617. Það væri bezt, ef hægt væri að skila málinu frá d. án ágreinings.