22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

182. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég vil þakka n. fyrir afgreiðslu þessa máls. Málið hefur verið rætt í utanrmn. og meiri hl. hennar fallizt á það, sömuleiðis sérfræðingar þeir í alþjóðarétti, sem starfað hafa hjá stj. Það kom þá til tals, að orðalagið yrði líkt því og greinir í brtt. n., ef komið gæti til mála, að einhver stj. notaði sér þessa heimild til þess að semja reglugerð, er færi í gagnstæða átt. en efni frv. er að stækka svæðið, en hið gagnstæða að minnka það. Sumum þótti þó ástæðulaust að gera ráð fyrir slíku, þar sem meginefni frv. er aukin og betri verndun en verið hefur áður. \ú hefur sjútvn. viljað taka af öll tvímæli í þessum efnum og leggur því til, að aftan við 1. málsl. 1. gr. bætist: enda verði friðun fiskstofnsins á engan hátt rýrð frá því, sem verið hefur. — Þegar svo er komið, get ég vel fallizt á það, svo að þetta verði óvefengjanlegt, og hef ekkert á móti því að ganga að breyttu orðalagi, en þá er þess líka að vænta, að ekki verði frekar um neina tortryggni að ræða.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en ég áleit nauðsynlegt að láta þetta koma fram. þótt við getum kannske ekki stigið risaskref í þessum málum, munum við stefna í rétta átt og ekki hrökkva aftur á bak.

Ég tel, að hv. minni hl. skjóti fram hjá, einkum þegar reikna má með því, að brtt. meiri hl. verði samþ. Ég mun svo ekki ræða þetta mál frekar, nema sérstakt tilefni gefist til.