15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

188. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að lýsa yfir hér við þessa 1. umr., að ég mun ekki sjá mér fært að fylgja þessu frv. Skal ég gera grein fyrir því.

Þessi hugmynd um „bandorm“ kom fyrst fram, þegar séð var, að fjárlagafrv., sem lagt var fram hér á Alþ., mundi þurfa að hækka um 10 til 15 millj. kr. og ekki var vitað, að hægt mundi vera að spara hliðstæðar upphæðir á rekstrargjöldum ríkisins. Þá var það rætt á milli þess hluta fjvn., sem styður hæstv. ríkisstj., og af hæstv. ríkisstj., hvaða leiðir hægt væri að finna til þess að fá jafnvægi í afgreiðslu fjárl., og var þá minnzt á mörg lög, sem hugsað var, hvort hægt mundi að fresta framkvæmdum á til þess að ná æskilegum rekstrarjöfnuði og síðan greiðslujöfnuði, ef unnt væri. Ég hygg, að það hafi verið um 10 eða 20 lagafyrirmæli frá síðustu árum, sem rætt var um þá að komast að samkomulagi um að binda saman í „bandorm“, sem kallað er, og fá framkvæmdum samkv. þeim frestað. Ég lýsti því strax yfir, — og bið hæstv. ráðh. að minnast þess, vegna þeirrar afstöðu, sem ég hef tekið opinberlega, — ég lýsti þá yfir, að óheppilegt þætti mér að fara inn á þá braut að raska gildi nýstaðfestra laga frá Alþ., sem enn hefði ekki sýnt sig, hvernig mundu reynast hjá þjóðinni. Ég tel slíkt gersamlega óverjandi, fyrr en hægt sé að benda á, að I. geri eitthvað annað eða meira en að íþyngja ríkissjóði með fjárframlögum. Því að það má aldrei meta lög á þann mælikvarða einan, hvort ríkissjóður verður að láta úti einhverjar fjárfúlgur, heldur verður líka að taka með í reikninginn, hve mikið ríkissjóður fær inn á móti. Og ég tel, að þetta hafi ekki verið athugað nægilega gaumgæfilega í þessu sambandi, þegar um er að ræða að fresta framkvæmd nýstaðfestra laga frá Alþ. í því skyni að spara. Það hefur verið býsnazt hér mjög yfir eyðslu ríkissjóðs á undanförnum árum. En ég man ekki betur en að 1943 væru ríkisútgjöldin 110 milljónir kr. Síðan á því ári hafa bæði ríkið og einstaklingar farið inn á mjög stórkostlegar framkvæmdir í landinu, framkvæmdir, sem kostað hafa ríkissjóð milljónir kr. og milljónatugi í hækkuðum útgjöldum. Og nú eru ríkisútgjöldin alls komin upp undir 220 millj. kr. í stað 110 millj. kr. 1943. En á sama tíma skapast ríkissjóði jafnmiklar eða meiri tekjur. Þessu má ekki loka augunum fyrir. Og þegar sú staðreynd er fyrir hendi, að þegar ríkissjóður hefur tvöfaldað gjöld sín og á sama tíma meir en tvöfaldast tekjurnar, þá er ríkisstj. ekki á rangri braut fjárhagslega, því að slík aukning á veltunni hlýtur að koma öllum almenningi til góða. Enda hefur aldrei á nokkru ári verið eins mikið fjármagn hjá þjóðinni eins og nú. Ég þarf um það ekki annað en að vísa til tveggja staðreynda, annars vegar hins gífurlega fjármagns, sem kemur inn við frjáls framlög til barnahjálparinnar, sem er á þriðju millj. kr. hér á landi, án þess að nokkur maður sé þvingaður til þess, og hins vegar má benda á í þessu sambandi það gífurlega fjármagn, sem þjóðin leggur fram fyrir tóbak og brennivín á hverju ári. Slíkt mundi ekki eiga sér stað, ef þjóðin hefði ekki ráð á því. Ég tel því, að það að láta bresta vonir fjölda fólks um framkvæmd nýsettra laga af Alþ., með því að kippa að sér hendinni um framkvæmd þeirra, sé alveg röng stefna. Þessi afstaða mín er hæstv. fjmrh. ekki neitt ný af minni hálfu. Ég hef haldið þessari stefnu fram frá því fyrsta. En ef nauðsynlegt er vegna fjárhags ríkissjóðs, sem ég á þessu stigi málsins ekki viðurkenni, að fresta fjárfrumlögum ríkissjóðs, þ.e. skera niður eða afnema gildi laga, sem hafa verið staðfest, þá á sízt af öllu að byrja á þessari löggjöf hér, heldur á miklu nýrri löggjöf, og það er löggjöfin um fjárhagsráð. Þennan fyrirvara gerði ég strax, og skoðun mín hefur ekki breytzt í því máli, og skal ég fara nokkru nánar út í það atriði. Með l. um fjárhagsráð er gert ráð fyrir því, að öll viðskipti og öll fjárfesting fari um hendur þessa mikla ráðs. Það hefur nú sýnt sig, að þetta hefur haft þann kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, þó að þessi stofnun hafi ekki enn staðið í heilt ár, að þessi stofnun mun vera búin að kosta ríkissjóð um þrjár eða á fjórðu millj. kr., og fer kostnaðurinn við hana vaxandi. En annað er lakara við þetta ráð. Það hefur sýnt sig, að þessi stofnun hefur á þessu stigi lagt dauða hönd á fjöldamörg fyrirtæki á þessu landi, þannig að ef þessu drepandi fargi er ekki létt af, þá fyrst fær ríkissjóður skell, svo mikið fjárhagslegt áfall, að hæstv. fjmrh. er alveg óhætt að skrifa langan lista af lögum, sem þá þarf að afnema, þegar svo er komið. Það er alveg áreiðanlegt, og er vert að athuga það þegar á þessu stigi. Þegar við lítum á, hvað gert er í þessari stofnun, fjárhagsráði, þá er sjáanlegt, að ekkert vit er í að hafa þar 5 menn á launum, þar sem fjórir þeirra hafa 42 þús. króna hver og sá fimmti 45 þús. króna í laun. Ég sé ekki annað en að um þá skrifstofuvinnu sé að ræða hjá þessu ráði, sem heyrir til fjmrn., sem þó kostar upp undir eina millj. kr., sem sé bókstaflega hægt að skera niður og spara þann kostnað allan og láta þann sparnað mæta einni millj. kr. af því, sem hæstv. ráðh. óskar að spara, í stað einnar millj. kr., sem talað er um í einum liðnum hér í þessu frv. Sú breyt., sem hér þarf að gera, er að setja upp eina viðskiptanefnd, sem hafi með öll þessi mál að gera í einu, hvar bankarnir eigi hver sinn fulltrúa, og láta það, sem fjárhagsráð annast þarflegt, ganga í gegnum þá einu stofnun og ekkert annað. — Og það, sem fjárhagsráð hefur gert viðkomandi fjárfestingu, er ekki samkvæmt lögum. Það er ákveðið í l., að skýrslur um fjárfestingu séu komnar til fjvn. þannig, að hægt sé að byggja á þeim við afgreiðslu n. á fjárlagafrv. Og þegar þessi skýrsla er komin sem opinbert skjal til fjvn., — þó að ég hafi fengið áminningu um, að tæplega væri leyfilegt að sýna hana sem þskj., – þá er það ekki einu sinni svo, að þessi skýrsla sé gerð í samræmi við fjárlagafrv., þar sem fjárfestingu er þar gert ráð fyrir á allt annan hátt en í fjárl. Fjárfesting samkv. þeirri skýrslu er um 14 millj. kr. til vega og brúa í landinu, — rétt eins og viðhaldið á þessum hlutum var á síðasta ári, og ekkert annað. Þetta er nægilegt til þess að sýna, að þessi stofnun út af fyrir sig er engan veginn svo þörf og nauðsynleg, að kosta þurfi til hennar millj. króna á ári. Skýrsla sú, sem fjárhagsráð hefur gert, er merkileg að mörgu leyti. En þetta hefði mátt gera í gegnum hagstofuna, án þess að hafa við þetta yfirstjórn manna, sem kostar alls um 200 þús. kr., til þess að segja þessum starfsmönnum fyrir verkum. — Ég mun síðar við umr. um þetta mál gera brtt. um, að fyrsti liðurinn til að spara, ef halda á áfram á þeirri braut að fresta framkvæmd laga, verði þá að fresta framkvæmd laga um fjárhagsráð um óákveðinn tíma.

Ég vil í sambandi við þetta benda hæstv. fjmrh. á, að síðan þessar umr. fóru fram, sem ég gat um, við hæstv. ríkisstj., hefur hver einasta tilrann, smá og stór, sem fjvn. hefur gert í því skyni að spara á fjárl. við rekstrarútgjöld ríkisins, verið raunverulega felld, sumpart vegna óska hæstv. ríkisstj., sem ekki gat fellt sig við að gera þetta eða hitt til sparnaðar, af því að það snerti einhverja hagsmuni þeirra flokka, sem stóðu að þessum eða hinum ráðh. Ég vil í sambandi við það benda á það m.a., að tilraun var gerð til þess af fjvn. að fella niður 150 þús. kr. framlag í sambandi við húsaleigunefndina í Rvík. Sú brtt. var tekin til baka samkv. ósk hæstv. fors- og félmrh. En á sama tíma berst hann með hnúum og hnefum á móti þeirri lagabreyt., sem ég o.fl. hugsuðu að koma hér fram um breyt. á l. um húsaleigu, til þess að fá á þessum málum nokkra leiðréttingu, svo að hægt sé á þann veg að bæta úr húsnæðisvandræðunum. Svo kemur frv. frá hæstv. ríkisstj. um að kippa grundvellinum undan því, að hægt sé að losna út úr húsnæðisöngþveitinu í landinu. Þessi þríkantur er rekinn hér. Og ég er viss um, að hæstv. ríkisstj. rekur sig á eitthvert hornið á þessum þríkanti svo illa, að hún muni muna eftir því, ef ekki er við því gert í tíma. — Síðan þetta skeði, hefur verið afgr. hér í þessari hv. d. mál, sem mun kosta ríkissjóð milljónir króna, ef það verður samþ. í hv. Nd., ef sá andi ríkir þar, sem ríkt hefur hér í þessari hv. d. Og að þetta hefur gengið hér í gegn, hefur gert fyrst og fremst forseti þess flokks, sem mest hefur varað við fjársukki, Framsfl., m.a. hefur hv. þm. Str. haft forustuna í því hér að samþ. að láta 4 millj. kr. til fiskiðjuvers í Hornafirði. Nýlega var búið að samþ. að láta aðrar 4 millj. kr., einnig með fullu samþykki langflestra hv. þm. Framsfl. hér, í landshöfn á sama stað. Þá eru komnar á fáum dögum samþykktir, með samþykki þessa flokks, sem eru um átta millj. króna í einn stað, Hornafjörð. Og ef þessar till. um framlög verða einnig samþ. í hv. Nd., þá má geta nærri, hvernig þjóðin sættir sig yfirleitt við það á sama tíma að fella burt gildi laga, sem fjöldamargar vonir ungra og upprennandi manna eru tengdar við. Ég fæ ekki séð, að nein ríkisstj. geti endað þing á þann hátt að láta slíkt misræmi viðgangast, sem ég hef hér bent á. — Ég vil einnig benda á í sambandi við það, að verið er að ræða um að fresta um einnar millj. kr. greiðslu á ári til nýbýla og landnáms, að þá hefur einmitt verið samþ. í dag hér að láta standa í l. um bændaskóla það ákvæði, sem getur kostað ríkissjóð milljónir kr. Þar á ríkissjóður að taka að sér að byggja nýbýli fyrir einstaka menn á ríkisjörðum fyrir stórar fjárfúlgur. Og þetta er gert á sama tíma sem verið er að ræða hér um að nema í burt verulegan hluta af fjárframlagi, sem lögum samkv. á að renna til nýbýlasjóðs, sem stofnaður hefur verið til þess að menn geti sjálfir byggt sér nýbýli í landinu. Ég er ekki svo heillum horfinn enn, þó að ég styðji þessa hæstv. ríkisstj., að ég sjái ekki í gegnum þetta þokumyrkur, sem hér er þyrlað upp í sambandi við þetta mál. Ég mun ekki treysta mér til þess að fylgja frv. um svona lagafyrirmæli. Ég held, að stefnan um afgreiðslu fjárl. verði eitthvað að breytast, a.m.k. frá því sem enn er hér, til þess að hægt sé að vænta þess, að fullt fylgi fáist um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil líka benda á, að það var rætt um það einnig að gera ýtarlegar tilraunir til þess að lækka gjöld tryggingastofnunarinnar. Nú er ég út af fyrir sig ekki fylgjandi því, því að ég álít tryggingalöggjöfina svo mikils virði, að það eigi ekki að skerða gildi hennar fyrst um sinn. Hins vegar voru aðrir menn, sem léðu þessu máli, sem hér liggur fyrir, fylgi í sambandi við það, að einnig væri tekið á því máli. Og við vitum, hvernig með það mál hefur verið farið. Ef það hefði átt að minnka nokkuð kostnað við tryggingamálin, þá var náttúrlega ekkert fyrir hendi annað en að fresta framkvæmd einhvers kafla þeirra, sem ég hef þó verið alveg á móti, að gert verði. Þetta var ekki gert, enda var hæstv. forsrh. á móti því. Ég er honum þakklátur fyrir það.

Viðkomandi því ákvæði í 1. tölul. 1. gr. frv., að fjárframlög og lánveitingar af hálfu ríkissjóðs til sveitarfélaga komi því aðeins til framkvæmda, að sérstök heimild sé veitt til þess í fjárl. hverju sinni, í sambandi við III. kafla viðkomandi laga, þá finnst mér, að það hefði ekki verið neitt fjarri sanni, að í l. frá upphafi hefði staðið þessi gr., sem hæstv. ráðh. vill nú fá inn. (Fjmrh.: Þetta ætti að standa í öllum lögum.) En eftir þeim skilningi, sem hér hefur ríkt í þessari hv. d., fæ ég ekki séð, hvernig hæstv. ráðh. hugsar sér að fá þetta ákvæði fram. Og þó að hæstv. ráðh. fái þetta samþ. hér, hvernig mun það þá koma til með að halda? Ég efa kannske nokkuð, að þetta ákvæði haldi, miðað við þann hugsunarhátt, sem hefur komið fram í sambandi við aðrar samþykktir hér í hv. þd. Og haldi þetta ekki, þá er verr farið en heima setið. Mér finnst það, sem fram hefur komið í sambandi við viðleitni til þess að spara á fjárl., benda á veikt samstarf hjá hæstv. ríkisstj., og má geta nærri, hve veik aðstaða hæstv. fjmrh. mun verða um að framfylgja þessari löggjöf, sem hér er frv. um, þótt samþ. verði. Og þó að hv. þd. samþ. þetta frv. hér, þá býr áreiðanlega allt annað þar á bak við hjá hv. þd. — þegar tekið er tillit til þeirra fjárframlaga, sem ég hef lýst, að hér hafa samþ. verið — heldur en það, sem knýr fram hreinskilna ádeilu mína í þessu máli og málum, sem ég hef lýst nú, og ætti hæstv. fjmrh. að athuga það, áður en hann lætur aka sér lengra út í þetta fen.

Um 2. Tölul. 1. gr. frv. hef ég ekkert að segja, því að mér finnst ekki nema eðlilegt, að þetta eftirlit sé látið bera sig. Mun ég geta fellt mig við þetta.

Ég mun eðlilega ekki geta fylgt 3. tölul. 1. gr. frv. af ástæðum, sem ég þegar hef tekið fram. Og ég tel, að fyrsti liður 1. gr. þessa frv., ef á að samþ. það, eigi að vera að fresta framkvæmd laga um fjárhagsráð, því að það mundi spara ríkissjóði stórfé og hleypa lífi aftur í þá atvinnuvegi, sem hinn dauði hrammur fjárhagsráðs hefur legið á, og gefa einstaklingum og félögum það traust á sjálfum sér, sem nauðsynlegt er til gæfu, og enn fremur skapa ríkissjóði meiri tekjur en hægt er að hugsa sér, að hann hafi, meðan atvinnulífið er í þeim fjötrum, sem það nú er í, beinlínis fyrir framkvæmdir og afskipti fjárhagsráðs. Ég mun því bera fram hér við síðari umr. málsins brtt. um, að það verði 1. gr. frv. að fresta framkvæmdum fjárhagsráðslaganna.