02.11.1948
Efri deild: 7. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

26. mál, happadrættislán ríkissjóðs

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég mun aðeins gera örstutta athugasemd. Það hefur glatt mig, að hæstv. fjmrh. reyndi ekki að verja það, sem ég hafði hér vítt, að hér væri verið að ýta undir lægstu hvatir þjóðarinnar. Hitt er ég sammála honum um, að það þarf að taka peninga úr veltu. Til þess eru margar aðrar aðferðir en sú, sem hér er reynd og venur menn á að eiga allt á hættu. Það þarf að uppræta þann hugsunarhátt og reyna að innræta hverjum manni að starfa þannig, að hann sé fjárhagslega öruggur. En það er það, sem hæstv. ríkisstj. vinnur á móti með þessu frv. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um, að peningum þarf að ná úr umferð, en til þess eru margar miklu heppilegri leiðir en þessi.