09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það var alveg ljóst eftir atkvgr. við 2. umr. þessa máls, að sjútvn. þyrfti að taka málið til athugunar, áður en þessi umr. færi fram. N. tók málið fyrir á fundi sínum í morgun og ræddi það eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. á þskj. 664. Á fundi n. mætti hv. þm. Ísaf., form. sjútvn. Nd., og ræddi við n. um þær breytingar, sem málið hefur nú tekið, og samræmingu á hinum ýmsu brtt., sem fram hafa komið. Nefndin hefur orðið sammála um að bera fram 7 brtt. við það eins og það liggur fyrir á þskj. 664. Ég vil þó taka fram, að einstakir nefndarmenn, þó sérstaklega hv. þm. NÞ., hafa óbundnar hendur við atkvgr. og um að fylgja eða flytja brtt. Þar á meðal hef ég sem form. n. borið fram brtt. á þskj. 671, og von er á annarri frá hv. þm. N-Þ. og hv. 1. þm. Reykv.

Ég vil nú í stuttu máli lýsa þeim brtt., sem n. ber fram sameiginlega. — Fyrsta brtt. er, að á eftir 4. gr. komi ný grein, er orðist eins og stendur á þskj. 670. Þessi brtt. var felld við 2. umr. á þeim forsendum, að hún ætti að koma í stað 9. gr. Öllum nefndarmönnum var samt ljóst, að þetta þyrfti að komast inn í frv., og samkomulag varð um, að það skyldi koma sem ný gr. á eftir 4. gr. Um þetta var enginn ágreiningur í nefndinni.

Þá er næsta brtt., við 6. gr. Það var samþ. við 2. umr., að ráðh. ákvæði „laun“ stjórnarinnar og endurskoðenda, en samkomulag varð um það í n., að í staðinn fyrir orðið „laun“ kæmi: þóknun.

Þriðja brtt. n. er við 8. gr., þannig að á eftir 2. tölulið komi nýr liður, sem orðist svo: „3. Ef tekjur sjóðsins samkv. 1. og 2. tölulið nema minna en 4 millj. kr., skal ríkissjóður leggja sjóðnum til fé, sem vantar á 4 milljónir.“ Nú er gert ráð fyrir, að tekjur sjóðsins nemi samkv. 1. og 2. tölulið 8. gr. samtals 3–31/2 millj. kr. Þær tekjur geta vitanlega breytzt, og þótti n. rétt að setja þetta ákvæði inn í frv. Það hlýtur að liggja ljóst fyrir, að eðlilegt er að tryggja sjóðnum ákveðnar árstekjur, og verður það varla gert á annan hagkvæmari hátt en þennan. Um þetta atriði, 4 millj. kr. árstekjur, var fullt samkomulag í n.

Fjórða brtt. er við 9. gr., þannig að fyrir 1. og 2. málsgr. komi ný málsgrein, sem orðist á þessa leið: „Nú hefur almennur aflabrestur orðið á einhverju veiðisvæði, svo að til sjóðsins kasta kemur um bætur. Skal þá hvert það skip, sem aflar 45% eða minna af meðalafla skipa þess flokks á viðkomandi veiðisvæði, fá bætt 40% af því, sem vantar á meðalafla, og síðan, með vaxandi afla, lækkandi hundraðshluta bóta samkv. eftirfarandi reglu.“ Þessi breyting er gerð fyrir þá sök, að nú eru í 9. gr. tvær málsgr., sem varla geta átt hvor við aðra og því ekki rétt að láta þær standa. Um þessa breytingu var fullt samkomulag í nefndinni.

Fimmta brtt. er við 10. gr., og orðist hún á þessa leið: „Ef skip veiða minna en 20% af meðalafla viðkomandi flokks, skal sjóðstjórnin rannsaka sérstaklega, hvernig á slíku aflaleysi stendur. Ef þá kemur í ljós, að vítaverð vanræksla eða óstjórn á útgerðinni á verulegan þátt í aflaleysinu, er sjóðstjórninni heimilt að draga úr þeim bótum, sem viðkomandi skipum bæri samkv. hinni almennu reglu 9. greinar, eða fella bæturnar alveg niður, ef um mikil víti er að ræða.“ Hér er sá mikli eðlismunur á, ef þetta verður samþ., að strax skal grafa fyrir rætur þess meins — ef um það er að ræða —, sem aflabrestinum veldur, en eins og frv. er nú úr garði gert, getur það dregizt í þrjú ár. Um þessa breytingu var einnig fullt samkomulag í nefndinni.

Sjötta breytingin er við 11. gr. Við þá grein bar ég fram brtt. við 2. umr., sem felld var þá, en n. þótti, að athuguðu máli, rétt að orða greinina upp og hafa hana svo hljóðandi: „Nú fær útgerðarmaður fé úr sjóðnum, og getur stjórn hans þá krafizt þeirrar tryggingar af útgerðarmanninum, sem henni þykir þörf, fyrir því, að fénu verði varið til greiðslu á eftirtöldum gjaldaliðum í þeirri röð, sem hér er talíð: Kaup og fæði skipverja, vátryggingargjöld og önnur hliðstæð gjöld, eftir því sem greiðslur hrökkva til hverju sinni.“ Nefndinni þótti, að mjög erfitt yrði, eins og 11. gr. frv. í sinni núverandi mynd segir, að greiða fyrst kaup og fæði, vátryggingargjöld, kol, olíu, beitu og veiðarfærakostnað o.s.frv., allt með framlagi frá þessum sjóði. Hún tók því þann kostinn að telja aðeins upp í frv. þrjá liði, er ganga skyldu fyrir, síðan skyldi annar kostnaður greiddur eftir því, sem fé hrykki til.

Sjöunda brtt. er við 14. gr. Ég hafði borið fram brtt. við 14. gr., en hún var felld við 2. umr. Aftur á móti getur 14. gr. ekki staðizt eins og hún nú er í frv., og leggur n. því til, að þessi grein verði orðuð svo: „Ráðh. setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.“

Allar þessar brtt. ber sjútvn. fram sameiginlega: Þó ber þess að geta, að 1. þm. Reykv. var ekki á fundi, þegar n. afgr. málið. Ég vil einnig taka það fram, að n. ætlast að sjálfsögðu til, að þegar samin er reglugerð samkv. 4. gr., þá verði þeir bátar, sem aðeins stunda sumarveiði, ekki útilokaðir frá ákvæðum þessara laga. Það á að vera tryggt með reglugerð, að eigendur þeirra báta geti einnig fengið bætur. — Þá hef ég tekið fram allt það helzta í sambandi við þessar brtt., en ég vil benda á, að verði þær samþ., þá er þar með sköpuð ein samræmd heild úr þessu frv. Það getur þó vel svo farið, að einhverjar aðrar brtt., t.d. við 4. gr., verði samþ., og er þá nauðsynlegt að taka sumar þessara til baka. Eins og er finnst mér þó eðlilegast, að þessar brtt. verði samþ. og frv. þannig sent til Nd.

Ég hef nú við þessa umr. borið sjálfur fram brtt. við 9. gr., á þskj. 671, sem er þannig, að á eftir 4. málsgr. komi: „Engan hlut má bæta upp meira en svo, að hann verði jafnhár að verðmæti meðalaflahlut skipa í öðrum flokki, sem ekki ná rétti til bóta úr sjóðnum og stunda sams konar veiðar.“ Ég tel, að þessi brtt. sé alveg óhjákvæmileg, en á það hafa hv. meðnefndarmenn mínir ekki getað fallizt og vísa til þess, að í 9. gr. sé ákvæði um, hvernig bæta skuli aflann, en þrátt fyrir það tel ég ekki vera hægt að standa á því. Ef ekkert svipað ákvæði og felst í brtt. minni er sett inn í frv., gæti þar af skapazt mikið ranglæti. Þetta ákvæði var í einni af þeim brtt. frá mér, sem felldar voru við 2. umr., en ég tel, að eins og málum er nú komið, sé alveg nauðsynlegt, að þessi grein komist inn í frv.

Þá var og rætt um það í n., hvort ekki ætti að breyta síðustu málsgr. 9. gr. í sambandi við stofnfé sjóðsins, þ.e.a.s., hvort leyfa ætti meiri eða minni greiðslur en sú málsgr. segir til um. Sumir nm. vildu ekki hafa stofnféð svo fastbundið eins og þar er gert ráð fyrir, en aðrir vildu auka við það fé á ári hverju, sem ekki mætti hreyfa. Ég var meðal þeirra síðarnefndu, en hef þó ekki viljað koma fram með brtt. um þetta atriði nú, þótt það sé auðvitað mjög varhugavert að gera ekki ráðstafanir til þess, að sjóðurinn, sem á að vera hjálparhella útgerðarinnar, aukist og stækki frá ári til árs. Helzt þyrfti hann að vera 25–100 millj., ef öruggur og tryggur ætti að vera.

Ég hygg nú, að ég hafi tekið allt fram fyrir hönd n., sem fram þarf að taka, og vænti þess, að þær brtt., sem hún gerir, verði samþ. Hinir aðrir nm. munu svo að líkindum gera grein fyrir sinni afstöðu.