09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður um brtt. þær, sem fram eru nú komnar. Ég hef fallizt á þær vegna breytinga þeirra, sem frv. tók við 2. umr. málsins. Ég skal sem sagt ekki hafa langan formála, en vil þó taka fram, að við 8. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið bæti við, sem á vantar 4 millj. kr., að ef brtt. á þskj. 672 er samþ., þá er það skilningur okkar allra í n., að þá komi það ekki til greina og það verði að taka fullt tillit til þess við atkvgr. Hins vegar skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, því að ég hygg, að það sé vænst til samkomulags að halda sér við frv. eins og það er nú hvað tekjuöflun snertir. Maður veit ekki, hvaða breytingum það kann að taka, ef farið verður að breyta því frá því, sem það er nú. Það er ekki tilætlun okkar, að ríkið leggi fram tvöfalt framlag. Það er of mikil kvöð á ríkissjóðinn.

Það, sem kom mér til að standa hér upp, voru ummæli, sem féllu hér við 2. umr. málsins hjá hv. 6. landsk. þm. Þegar ég minntist á það, hvernig hlutatryggingin væri til komin, og færði mín rök fyrir því, þá mótmælti hv. 6. landsk. þm. því sem röngu. Ég vil láta það koma fram hér, að það er alrangt hjá hv. þm., að hlutatryggingin eigi upptök sín hjá Sjómannafélagi Norðurlands á árinu 1936. Ég ætla að upplýsa hv. 6. landsk. og aðra hv. dm. um það, að fyrsta hlutatryggingin, sem hér er viðurkennd og gerð með samningi, var gerð við Hafstein Bergþórsson hér í Reykjavík sem sérsamningur og sú hlutatrygging átti að gilda um allar veiðar, línuveiðar, síldveiðar o.s.frv. Umr. um þetta mál byrjuðu á árinu 1935. Næsta hlutatrygging, sem er gerð af sama félagi, þá höfðu engin einstök félög tekið þetta eftir, — er dagsett 6. febr. og er við félag bátaútvegsmanna hér í Reykjavík og snertir útgerð með lóðum. Þarna eru komnir tveir samningar, sem eru um hlutatryggingu. Þessi stefna, sem var tekin upp af okkar félagi, vakti eftirtekt úti um landið, en kemur ekki til umræðu úti um landið fyrr en við síldveiðisamningana, sem þá voru gerðir það sama ár. Það vil] svo til, að Sjómannafélag Reykjavíkur fer að ræða síldveiðisamningana í byrjun mal það ár, og þá var að sjálfsögðu talað um hlutatryggingu á síldveiðunum, sem þegar var komin í samninga í sambandi við aðrar veiðar, og það endaði með því, að samningur er gerður 14. júní um hlutatryggingu á síldveiðum. Þá hafði ekkert félag á landinu annað samið um hlutatryggingu á síldveiðum. En það, sem hv. 6. landsk. þm. er að vitna í út af því, sem hér var að gerast á Suðurlandi, var, að þá fylgdist þetta félag, Sjómannafélag Norðurlands, með í þessu, og gaf það út kauptaxta 25. maí, en þá eru samningar hér í fullum gangi sunnanlands um þetta atriði. En því máli lyktar ekki hjá þeim þarna fyrir norðan fyrr en um 17. eða 18. júní eftir þessi átök, sem þá áttu sér stað. Þá er sá kauptaxti í meginatriðum viðurkenndur, en það mun ekki hafa verið gerður samningur. Það er því alrangt, sem hv. 6. landsk. þm. hélt fram, að þeir fyrir norðan ættu upptökin í þessu máli, því að hreyfingin er komin að sunnan og þeir tóku síðan upp þessa stefnu fyrir norðan. Og ég sagði, að ég væri faðir að þessu, og það er rétt, að ég hreyfði þessu máli fyrst innan félagsstjórnarinnar á sínum tíma. Ég vildi láta þetta koma fram, svo að ekki væri hægt að segja, að ég hefði farið með rangt mál. Um frv. vil ég svo að öðru leyti segja það, að ég er að sjálfsögðu ekki alls kostar ánægður með það í þeirri mynd, sem það nú er í, og þá sérstaklega vegna þess, að með þeim breyt., sem frv. hefur tekið í þessari deild, hefur verið tolli af þeim mönnum létt, útgerðarmönnunum, sem ég tel, að séu sá aðilinn, sem hefði átt að leggja að verulegu leyti af mörkum til þessara trygginga. Ég mun sætta mig við þetta ákvæði, sem kemur í stað þess, að eins og þetta var fyrst, þá var ætlazt til, að gjaldið væri tekið af óskiptum afla. Ég mun fylgja frv., ef það fer í gegnum hv. d. eins og það nú kemur frá sjútvn.