09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Það eru fyrst örfá orð út af deilu okkar hv. 1. landsk. um það, hvenær lágmarkskauptryggingar hafi fyrst verið upp teknar. Vildi ég segja um þetta örfá orð, þar sem hv. 1. landsk, innleiddi þetta mál í umr. við 2. umr. og sagði sig vera föður og frumkvöðul þessarar lágmarkstryggingar. Ég mótmælti þessu þá og taldi fyrstu samningana um þetta hafa verið gerða af Sjómannafélagi Norðurlands sumarið 1936. í dag mótmælti hv. 1. landsk. þessu og reyndi að færa rök að því sem áður, að hann væri upphafsmaður þessarar lágmarkstryggingar, er tókst svo óhöndulega, að þegar hann vitnaði til síldarvertíðarinnar 1936, þá er þangað einmitt að rekja upphaf þessarar lágmarkstryggingar. Hann færði sömu rök fram í dag, sem sé þau, að hinn 17. jan. 1936 hefði Sjómannafélag Reykjavíkur, þar sem hann er formaður, gert samning um lágmarkskauptryggingu, en aðalatriðið er, að hann var alls ekki gerður við samtök atvinnurekenda, heldur einstakan atvinnurekanda, og því er ekki rétt, að sá samningur hafi brotið brautina fyrir lágmarkstryggingunum. Sá samningur markaði engin djúp spor í baráttunni fyrir þeim, heldur var sú braut brotin með einu harðvítugasta verkfalli, sem háð var af Sjómannafélagi Norðurlands 1936 og því miður án stuðnings frá hv. 1. landsk. og hans mönnum, en þetta verkfall varð til þess, að samningar fengust við samtök útgerðarmanna um lágmarkskauptryggingu, og eru nú slíkir samningar almennt í gildi. Þetta er staðreynd, og hversu sem hv. 1. landsk. langar til að slá sig til riddara á þessu máli, þá getur hann það ekki, og hefði hann ekki átt að leiða þetta mál inn í umr. Það er ósmekklegt, og hefur hann af því engan sérstakan heiður.

Þá skal ég víkja nokkuð að málinu sjálfu. — Eftir að sjútvn. hafði komið sér saman um brtt. á þskj. 670 og þar voru upp tekin atriði úr till. mínum frá 2. umr., sem þá voru felldar, af því að þær voru í sambandi við annað, þá hef ég ekki lagt fram sérstakar brtt. um önnur atriði, sem ég þó vildi breyta, þar sem tekið hefur verið tillit til minna brtt. um það að tryggja sjóðnum lágmarkstekjur, 4 millj. kr. á ári, og er þetta mjög þýðingarmikið atriði, því að tekjur sjóðsins eru ekki nógu tryggar samkv. frv. eftir 2. umr. Raunar vildi ég, að tekjur sjóðsins yrðu meiri, svo að hægt væri að samþ. till. mína um hækkun bóta, en á það vildi n. ekki fallast. Sömuleiðis hefur n. tekið upp 5. brtt. á þskj. 670, sem er brtt. við 10. gr. og gengur út á að koma í veg fyrir, að hægt verði að nota bæturnar til þess að halda uppi óreiðu í útgerðinni, sem annars var hægt, ef greinin var óbreytt, og eins og ég sagði, eftir að n. hafði tekið tillit til þessara atriða úr brtt. mínum, þá hafði ég ekki ætlað mér að bera fram sérstakar brtt. nú við 3. umr., en nú kemur hér fram brtt. frá þeim hv. þm. NÞ. og hv. 1. þm. Reykv. um það að raska mjög þeim tekjuöflunarleiðum, sem samþ. voru við 2. umr., og ef sú till, verður samþ. nú við 3. umr., þá leiðir það líklega til, að 3. brtt. n. verði ekki samþ., því að þeir, sem mundu samþ. brtt. á þskj. 672, mundu ekki telja ríkissjóði fært að leggja fram tvöfalt framlag. Það er því hætta á, að þessi till, n. verði felld, og er þar með komið í veg fyrir, að þessi tekjuöflunarleið verði farin. Vegna þessa get ég ekki fylgt brtt. á þskj. 672, og þegar á annað borð er farið að deila um tekjuöflunarleiðir, þá flyt ég aftur brtt., ásamt hv. 1. þm. N–M., á þskj. 678 um það, að í stað innflutningsgjalds skuli tekin 10% af árlegum hagnaði Landsbankans og Útvegsbankans. Ef þessi till. yrði samþ., þá er ekkert í vegi, að þeir, sem samþ. hana, gætu einnig samþ. 3. till. n. um að tryggja sjóðnum 4 millj. kr. árstekjur, og mundi þá ríkissjóður alveg sleppa við að leggja fram fé til sjóðsins. Af þessum sökum vil ég gefa hv. þdm. tækifæri til þess að greiða atkv. um þessa till. út af fyrir sig, þar sem hún var felld í sambandi við annað við 2. umr., og vil ég gjarna fá að vita það ákveðið, hvort hv. þdm. vilja heldur taka úr ríkissjóði a.m.k. 11/2 millj. kr. árlega, eða hvort þeir vilja taka þetta og meira af hagnaði bankanna og tryggja þar með hag sjóðsins enn betur. Eins og ég gat um, er hv. 1. þm. N–M. meðflm. að þessari till. og hefur lýst því yfir við 2. umr., að hann telji þessa tekjuöflunarleið æskilega.

Hv. form. sjútvn. hefur á sérstöku þskj., 671, flutt brtt. við 9. gr., um að við gr. bætist ný málsgr., er orðist svo: „Engan hlut má bæta upp meira en svo, að hann verði jafnstór að verðmæti meðalaflahlut skipa í öðrum flokki, sem ekki ná rétti til bóta úr sjóðnum og stunda sams konar veiðar.“ Rökin fyrir þessu eru þau, að samkv. 9. gr. geti átt sér stað, að skip, sem fær bætur samkv. henni, verði hlutarhærra en meðaltal skipa. Ég veit nú ekki, hvort þetta muni geta átt sér stað, en ef svo verður, þá er það af því, að mistök eiga sér stað í flokkun skipanna, en ef í hverjum flokki eru skip með sömu veiðiskilyrði, þá held ég, að ekki sé mikil hætta á, að meðaltal í þeim bótaflokki geti orðið 74,5% af meðalafla, svo að mér finnst þetta tæplega koma til greina. Hins vegar held ég, að ef um slíkt misræmi væri að ræða, þá gæti það valdið óréttmætum hömlum á bótum samkv. 9. gr., þannig að ef um misræmi er að ræða milli flokka, þá held ég, að það gæti orðið í gagnstæða átt við það, sem hv. flm. brtt. hugsar sér. Því sé ég ekki ástæðu til að styðja till. og efast um, að hún sé til bóta á gr.

Út af orðum hv. 3. landsk. um það, að n. hefði lappað upp á frv. eftir 2. umr. og reynt að leiðrétta það ósamræmi, sem þá hafði skapazt, þá er það að vísu rétt, að frv. þurfti þá endurskoðunar við, og er það ekki undarlegt, en út af því, sem hann sagði um bótastigann, er hann taldi ekki nægilega skýrt tekið fram, að meta ætti verðmæti aflans, en ekki magn, þá vil ég segja, að þetta er nákvæmlega eins og þegar frv. var lagt fyrir. Það er að vísu rétt, að í inngangi kaflans er talað um verðmæti, en í 9. gr. um aflamagn, og er það ósamræmi, en það er ekki n. að kenna, og sjálfsagt verður aflaverðmætið lagt til grundvallar, því að það er ekki annað en verðmæti aflans, sem ákveður afkomu útgerðarinnar á hverjum tíma.