09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. hneykslaðist á því, að við hv. 1. þm. Reykv. skulum hafa leyft okkur að bera fram brtt., og talaði um, að ég hefði ekki haldið loforð mitt í einn dag. Nú var það svo, að ég hafði engu lofað. Hv. þm. vissi, að ég var óánægður með brtt. þá, sem samþ. var við 2. umr. Og er hann spurði, hvort ég mundi bera fram brtt., mun ég hafa sagt, að sennilega væri ekki til neins að fella niður meira en síðustu orðin. En hér var ekki um neitt loforð að ræða.

Allir hljóta nú að hafa myndað sér skoðun um þetta mál, svo að tilgangslaust er að fara um það mörgum orðum. Ég get ekki verið að elta ólar við fjarstæðu-hugmyndir hv. þm. um samvinnufélagsskapinn. Um þennan skatt er það að segja, að hann er allur annar en veltuskatturinn og mundi koma mjög við S.Í.S., sem þegar borgar nóg í skatta og útsvör, og verður þetta að teljast fráleit skattlagningaraðferð á einstök verzlunarfyrirtæki. Ég er ekki að halda því fram, að slík fyrirtæki séu yfirleitt illa stödd, en ég veit þó um S.Í.S., að þar er sáralítill arður. En ef menn hafa þá skoðun, að það sé bætandi á álögur á þessi verzlunarfyrirtæki, þá ætti það að koma fram í öðrum lögum en þessum. Hv. þm. taldi, að hagur útgerðarinnar væri mjög slæmur, og kann hann að segja það satt. En vitaskuld er þá fjarstæða að telja þetta eitthvert allsherjarbjargráð. Hitt er annað, að til þessa mætti grípa, er allra verstu árin koma. Það verður að gera allt aðrar ráðstafanir og víðtækari, ef það á að takast að tryggja útveginn alveg, og réttara væri t.d. í þessu tilfelli að leggja ákveðinn gjaldeyrisskatt á alla erlenda mynt, sem menn kaupa.

Annars sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum og læt máli mínu lokið.