09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. 1. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum til að svara 3. landsk., því að ræða hans kom þessu máli lítið við. Hann var að reyna að færa ástæður fyrir því að mæta ekki á fundi sjútvn. beggja deilda, sem hann var boðaður á. Og aðalástæðan var sú, að slíkt væri ekki venja. Veit ekki þm., að þingnefndir kalla oft ýmsa menn á sinn fund og það meira að segja utanþingsmenn, hvað þá þm., sem er höfundur að því frv., sem verið er að ræða um. Annars er ég ekkert að ásaka 3. landsk. fyrir að mæta ekki á þessum fundi nefndanna, þó að það hefði verið vænlegra til samkomulags, þ.e.a.s. ef einhver samstarfsvilji er fyrir hendi hjá þessum þm., heldur en vera hér með alls konar dylgjur og persónulegar árásir á mig í sambandi við þetta mál. Um mína skriflegu brtt. er það að segja, að hún er flutt vegna ábendingar lögfræðings, sem telur hana nauðsynlega til skýringar, þess vegna hef ég tekið hana upp. Hitt er allt annað mál, þó að nefndirnar hafi ekki orðið sammála um þetta atriði, og tel ég enga ástæðu til að ásaka mína meðnm. fyrir það. 3. landsk. telur þessa till. ekki eiga rétt á sér, og ég er heldur ekki að ásaka hann fyrir það, það er hans sjónarmið. En hann verður bara að gæta að því, að það eru til fleiri sjónarmið en hans, og sé svo, eins og mætur lögfræðingur heldur fram, að brtt. sé nauðsynleg til að skýra anda laganna og taka af allan vafa, þá álít ég hana eiga fullan rétt á sér.

Það hefur verið deilt mikið í sambandi við þetta mál um það, hverja sé raunverulega verið að tryggja. Ég hef sýnt fram á, að það er ekki einungis verið að tryggja útgerðarmenn, heldur alla þjóðina, því að um leið og aðalatvinnuvegur þjóðarinnar er tryggður, þá er það um leið trygging fyrir alla þjóðina. Í þessu sambandi er rétt að minna á tvö dæmi í sambandi við tryggingar. Annað er Samábyrgð Íslands. Hverjir ættu að bera byrðarnar af henni nema útgerðarmenn? En þrátt fyrir það veit ég ekki betur en ríkissjóður hafi lagt fram mikið fé í það fyrirtæki og sé auk þess í ábyrgð fyrir allri starfseminni. Hitt dæmið er stríðsslysatryggingin, en af þeirri áhættu hefur ríkissjóður lagt fram 60%, og þetta hefur hvort tveggja þótt sjálfsagt. Nú þykir það aftur á móti hrein goðgá, ef þeir, sem mestan rjóma fleyta í þjóðfélaginu, eiga að láta lítið brot af tekjum sínum í þennan sjóð.

Þá vil ég segja nokkur orð til 1. þm. Reykv. og þm. N-Þ., sem ég get afgreitt í einu og sama högginu. Það er táknrænt fyrir málflutning þeirra, að meginuppistaðan í þeirra rökum voru persónulegar ádeilur á mig, þegar verið er að ræða mál, sem snertir líf eða dauða bátaútvegsins á Íslandi. Það er ekki að furða, þó að þeir leggi hart að sér til að komast á þing. Þá eru þessir menn að tala um, að ég sé svo yfirgangssamur, að þeir geti ekki snúið sér við. Þetta eiga svo að vera rök í málinu. Ég held, að 1. þm. Reykv. hefði verið sæmra að taka þátt í afgreiðslu málsins í n. en koma með svona fáránlega útúrsnúninga. Annars sýnir þetta er til vill enn betur, en allt annað, hversu gersamlega rökþrota hann er í sinni eiginhagsmunabaráttu. Ef athuguð er afstaða mín til þessa máls annars vegar, en afstaða þeirra hins vegar, þá er fljótt hægt að komast að raun um, af hverju ágreiningurinn stafar.

Ég veit ekki til, að ég eigi nokkra kollu, sem kæmi til með að njóta styrks úr þessum sjóði. Ég er þess vegna ekki að vernda mína eigin hagsmuni, heldur rétt þeirra manna, sem standa í baráttu fyrir tilveru sinni, sem um leið er barátta fyrir aðalatvinnuvegi þjóðarinnar og þar af leiðandi barátta fyrir lífi og velferð alls almennings í landinu. Þeir slá hins vegar hring um sína eigin hagsmuni og þau sérréttindi, sem viss stétt hefur lengi haft í þessu landi. Það er þess vegna ekki að furða, þó að þeir kasti að mér svívirðingum. Annar þessara þm. er að passa aumingja Sambandið, sem er svo fátækt, að allur ágóðinn fer í skatta. Þó er vitað, að þetta fyrirtæki er svo fjársterkt, að það getur leyst af hendi mörg og merkileg verkefni, sem gífurlegt fjármagn þarf til, og hefur í fjölda mörg ár notið stórkostlegra skattfríðinda, en er samt svo fátækt, að það þolir ekki þetta álag, slíkt mundi jafnvel geta lagt það í gröfina. Það eru ekki lítil rök þetta. Hv. 1. þm. Reykv. sagðist ekki vera að spilla málinu, þó að till. hans valdi því, að sjóðurinn fái 2 millj. kr. minni tekjur á ári. Það liggur nú ákaflega ljóst fyrir, hvort slíkt er ekki að spilla fyrir málinu. — Hlutur þm. N-Þ. er ekki öfundsverður í þessu máli. Hann byrjar á að taka að sér að semja frv. fyrir ríkisstj., og við athugun á því máli kemst hann að þeirri niðurstöðu, að þessi sjóður þurfi 6 millj. kr. í stofnfé, en hvar endar svo þessi þm. sitt skeið? Jú þannig, að þessi sjóður skuli ekki hafa nema 2 millj. í stofnfé. Hann kastar þarna 4 millj. fyrir borð og verður ekki flökurt af. Það er að segja, þegar hann tekur að sér þetta vandaverk, þá kemst hann að raun um, að sjóðurinn þurfi að fá þessar tekjur, en nú við afgreiðslu málsins hér í þinginu er hann orðinn á móti því, að sjóðurinn fái þessar tekjur, og vinnur til að takast í hendur við heildsalaforingjann, sem hann hefur nú ekki þótzt vera neitt hrifinn af, til þess að svíkja málið, og eingöngu vegna þess, að það kemur ofur lítið við Sambandið. Það verð ég að segja, að ég vildi ekki hafa svona sögu að baki mér. Svo var 1. þm. Reykv. að kvarta undan verðlagsákvæðunum, sem hann hefur nú verið meira og minna viðriðinn í áratug. Ég vil nú spyrja hann í því sambandi, hver sé ástæðan fyrir því, að menn sitja nótt og dag fyrir utan dyr hjá viðskiptanefnd til að ná í leyfi, eins og Spegillinn sýnir svo ágæta skopmynd af í síðasta tölublaði. Er það kannske vegna þess, að um of sé þrengt að álagningunni, að ekki megi draga af henni 1/2%? Eða eru líkur til, að þessir menn mundu hanga þarna nótt og dag, í stað þess að vinna eitthvert nýtilegt verk, ef ekkert væri upp úr því að hafa? Ef svo er, þá væri þeim nær að fara út á fleyturnar og vinna heldur en að eyða hálfu lífinu á tröppunum hjá viðskiptanefnd. En ég er alveg viss um, að þeir væru ekki búnir að fara einn túr, þegar þeir kysu heldur að fara í land og halda áfram sinni fyrri iðju, þó svo að þeir ættu að greiða 1/2% í hlutatryggingasjóðinn. Það er sannarlega hreinn viðbjóður að heyra alþingismenn verja þannig sína eigin hagsmuni gegn þeim, sem hætta lífi og limum, til þess að aðrir geti fleytt rjómann af viðskiptunum í landinu. Svo var eins og minnzt væri á eitthvað voðalegt, þegar farið var fram á, að bankarnir legðu eitthvað í þennan sjóð. Mér hefði nú þótt meiri sómi fyrir bankana að bjóða framlag til sjóðsins, því að það er ekki ólíkt því, þegar góður bóndi gefur kúnni sinni vel. Sjávarútvegurinn er sannarlega mjólkurkýr bankanna, þó að innflytjendurnir mjólki hana líka, og þar af leiðandi bæði eðlilegt og sjálfsagt, að þessir aðilar leggi fé í þennan styrktarsjóð útvegsins. 1. þm. Reykv. var að ræða um það, að hvergi væri stoppað með eyðslu í alls konar framkvæmdir. Þetta er bara allt annað mál en það, sem hér er til umr., auk þess, sem þessar framkvæmdir skapa ekki gjaldeyri. Það er til dæmis ekki verið að skapa gjaldeyri með því að byggja bindindishöll í Reykjavík eða bankahús, og varla hefur sá bankinn tapað, sem nýlega hefur reist yfir sig stórhýsi upp á margar milljónir. Hv. þm. N-Þ. var að ásaka mig fyrir, að ég notaði hvert tækifæri til að hreyta ónotum að Sambandinu. Ég leyfi mér að lýsa þetta alger ósannindi. Ég velt ekki til, að ég hafi verið með nokkur ónot í garð samvinnufélaganna. Ég hef aðeins bent réttilega á, að þau hafi setið við annað borð í sambandi við skattaálögur en margar aðrar stofnanir, en annað hef ég ekki sagt.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál meira nú. Það mun koma í ljós við atkvgr. um þær till., sem fyrir liggja, hvern hug menn bera til þessa máls, þó að gera megi ráð fyrir, að málinu sé markaður bás annars staðar, þar sem aðrar klær ráða, en það verður munað, ekki einungis af mér, heldur líka þeim mönnum, sem þræla fyrir þær stéttir, sem ekki vilja sleppa neinu af þeim sérréttindum, er þær enn hafa í þjóðfélaginu. Og það verður heildsalastéttinni til lítils sóma, ef rýra á tekjur hlutatryggingasjóðsins um 2 millj. kr. hennar vegna.