09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. þm. Barð. ræddi mikið um það, að bankarnir mjólkuðu sjávarútveginn. Ég veit nú ekki, hvernig á að skilja þetta hjá þm., þegar þess er gætt, að bankarnir tapa oft miklu fé á útveginum. Ef hægt er að tala um slíkt, þá mjólka bankarnir alla atvinnuvegina og allar stéttir, og gagnkvæmt hafa allar stéttir mikil not af bönkunum. Það er því nauðsynlegt, að bankarnir séu vel stæðir, svo að þeir geti innt sitt hlutverk af hendi.

En ef farið er nánar út í skipti bankanna við útgerðina, þá veit ég ekki betur en mest af gróða bankanna hafi runnið til hennar fyrr og síðar, því að bankinn hefur tapað litið á öðrum starfsgreinum. Ég segi þetta ekki sem neina ásökun á útgerðina. Þessi atvinnuvegur er áhættusamur, en hjá þeirri áhættu verður ekki komizt. En það sýnir það líka, hversu nauðsynlegt er einmitt fyrir þennan atvinnuveg, að hagur bankanna sé góður, svo að þeir hafi bolmagn til að rétta hjálparhönd, þegar illa árar.

Um það atriði í ræðu þm. Barð., hverjir sitja á tröppunum hjá viðskiptanefnd, skal ég ekki fullyrða, en óhætt er að segja, að þar komi menn úr öllum stéttum, og má meðal annarra minna á allan iðnaðinn, sem sækir þangað sín leyfi, námsmenn, sem nema erlendis, og alla, sem eitthvað ferðast út fyrir landssteinana, svo að það er óhætt að slá föstu, að það eru ekki allt innflytjendur, sem leita til viðskiptanefndar, þó að þeir komi þar eðlilega líka í sambandi við sina atvinnu.

Þá vildi þm. láta í það skina, að það væri sök okkar þm. N-Þ., ef sjóðurinn fengi ekki þær tekjur, sem hann þyrfti, því að við gerðum allt til að draga úr tekjum hans. Þetta er algerlega rangt, þó að okkur greini á um leiðir til tekjuöflunar. Hv. þm. hefur haldið því fram þar til í kvöld, að prósentgjaldið, sem hann vill leggja á skv. sinni brtt., muni nema 11/2 millj. og sé því samsvarandi prósentunum af aflaverðmætinu. Ef því sjóðurinn fær minni tekjur en ráð er fyrir gert, þá er það hans hringlandahætti að kenna og engu öðru.