09.05.1949
Efri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

184. mál, hlutatryggingarsjóður bátaútvegsins

Frsm. meiri hl. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla að lýsa yfir iðrun minni, ef við 1. þm. Reykv. höfum verið svo vondir við þm. Barð. eins og hann vill vera láta, þennan sérstaklega orðvara og prúða mann, sem aldrei lætur út úr sér nokkurt skammaryrði. Slíkt væri svívirðileg meðferð á þessum hógværa og ljúfa manni. Ég vil því skjóta því til deildarinnar, hvort ég er sekur í svo dæmafárri meðferð. — Ég hef ekki talað um afstöðu þm. Barð. til S.Í.S. eða um þá stofnun sem neitt aðalatriði í þessu máli. Það, sem ég tel aðalatriðið, er óréttætið, sem leiðir af því að færa byrðarnar, sem felast í samþykkt þessa frv., yfir á sérstakar stéttir, án þess að nokkurt tillit sé tekið til þess, hvort þær séu færar um að bera þær eða ekki. Ef þm. Barð. telur, að auka beri álögur á innflytjendur, þá átti hann að koma með till. um það í sambandi við fjárlögin. Ríkissjóði hefði ekki veitt af auknum tekjum og með því móti ef til vill verið færari um að leggja fé til þessa sjóðs, sem hér er um að ræða. En eins og ég hef áður tekið fram, tel ég, að hið opinbera framlag til hlutatryggingasjóðsins eigi að koma frá öllum almenningi, og ég óttast ekki dóm sögunnar um þá skoðun mína. Að lokum vil ég svo segja það, að það er þessi þm. sjálfur, sem er að gera tilraun til að draga úr tekjum sjóðsins, en ekki við hinir, því að í frv. er gert ráð fyrir 11/2 millj. kr. tekjum, sem hann vill fella niður, svo að það er hann sjálfur, sem á heiðurinn af því, ef tekjurnar rýrna, en ekki við, sem reynum að leiðrétta ranglætið í till. hans.