28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

195. mál, Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, getur aðstoð sú, sem veitt er samkvæmt samningi um efnahagslega samvinnu milli Bandaríkjanna og Íslands, verið í þrenns konar formi. Í fyrsta lagi getur verið um lán að ræða, í öðru lagi um framlag án endurgjalds og í þriðja lagi skilorðsbundið framlag. Við höfum nú fengið samkvæmt þessum samningi lán að upphæð 2,3 millj. kr. og skilorðsbundið framlag 5,3 millj. kr. Lánið var tekið í júlí 1948 og eingöngu notað til kaupa á síldarbræðsluskipi, vélum og öðrum framleiðslutækjum. Lánið er með mjög hagstæðum kjörum, þar sem vextir eru aðeins 21/2% og lánstími 35 ár, en lánið er bæði vaxta- og afborganalaust fyrstu árin. Svo hagstætt lán hefði hvergi fengizt á hinum almenna lánamarkaði. — Skilorðsbundna framlagið var veitt þannig, að við fengum dollaragjaldeyri fyrir vörur, sem seldar voru til annarra bandalagsríkja, en Bandaríkjanna. Við seldum t.d. fisk, lýsi og ýmiss konar sjávarafurðir til Mið-Evrópu og fengum þar fyrir dollaragreiðslur, svo að viðskipti, sem við þurftum nauðsynlega að hafa við Bandaríkin, gátu farið fram, enda þótt dollaratekjur okkar af beinum sölum til Bandaríkjanna væru svo litlar, að slík viðskipti hefðu reynzt ógerleg, ef þessi aðstoð hefði ekki komið til. — Nú eigum við kost á að fá 2,5 milljónir dollara sem framlag án endurgjalds, og er þetta frv. flutt til að leita eftir heimild handa ríkisstj. til að taka á móti og ráðstafa þessu framlagi. Meiningin er að láta allt framlagið ganga til þess að kaupa efnivörur og vélar skv. þeirri fjögurra ára áætlun, sem ríkisstj. birti í vetur, en vegna skorts á dollurum verðum við þó að nota nokkurn hluta framlagsins til kaupa á neyzluvörum, sem okkur eru nauðsynlegar. en aðeins fáanlegar í Bandaríkjunum. Því er ætlunin að leggja til hliðar jafnháa upphæð og til þess fer í öðrum gjaldeyri til kaupa á framleiðslutækjum, sem fást utan Bandaríkjanna, svo að raunverulega fer allt framlagið til kaupa á efnivörum og vélum. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að framlaginu verði ekki ráðstafað nema með samþykki Alþingis. Sé ég svo ekki þörf á að hafa þessa framsögu öllu lengri. Ég vil aðeins undirstrika það, að ef við hefðum ekki orðið þessarar aðstoðar aðnjótandi, þá hefðu hin mjög svo nauðsynlegu viðskipti okkar við Bandaríkin torveldazt svo, að líklegt er, að þau hefðu stöðvazt að mestu eða öllu leyti. Ég vil svo vænta þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.