28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

195. mál, Marshallaðstoðin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef áður rætt hér um Marshallaðstoðina svonefndu og látið í ljós afstöðu mína og míns flokks og fer því ekki nú út í það mál almennt. Þegar það mál var reifað hér af hæstv. ríkisstj., þá var lögð á það áherzla, að við Íslendingar værum í samstarfi Vestur-Evrópu sem veitendur, og þá var ekki gengið út frá því, að við þyrftum nokkurn tíma að taka á móti gjöfum. Það er nú komið á daginn, að það hefur verið gert, og er þetta frv. staðfesting á því og felur í sér heimild fyrir ríkisstj. til að taka á móti gjöfum. Í slíku samstarfi, sem við nú erum, þá er nógu slæmt að taka við lánum, en er þó verjandi, ef lánin eru tekin til arðbærra framkvæmda, en gjafir eða framlag án endurgjalds, eins og það er kallað, þýðir í fyrsta lagi niðurlægingu að mínum dómi. Að öðru leyti er ég hræddur um eftir það, sem gerzt hefur, að þetta framlag sé engin gjöf, heldur sé það goldið dýrara verði, en við höfum efni á. Ég er á móti þessu frv., en þar sem það fer til þeirrar n., sem ég á sæti í, segi ég ekki um það fleiri orð að sinni.