10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

195. mál, Marshallaðstoðin

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér finnst nú satt að segja, að það sé orðið mjög mikið efamál, hvort halda eigi áfram þingfundi, þegar að minnsta kosti stendur yfir einn flokksfundur og frsm. fyrir stjfrv. er svo upptekinn, að hann getur ekki haft framsögu fyrir frv. Mér finnst bara skrípaleikur að halda áfram þingfundi með þessu móti og vil benda hæstv. forseta á þetta, þar sem hann á að sjá um, að málin fái þinglega afgreiðslu. Ég mun þó ekki skorast undan að hafa framsögu fyrir minni hl., þótt það sé nú reyndar vanalegt, að frsm. meiri hl. gangi fyrir.

Hér í þessu frv. er farið fram á það, að ríkisstj. sé veitt heimild til að taka á móti fjárframlögum án endurgjalds. Hér hefur áður verið rætt um afstöðuna til Marshallssamningsins í heild, og mun ég því ekki gera hann að umtalsefni hér, heldur aðeins þetta atriði. Eins og vitað er, var samningurinn aldrei lagður fyrir Alþingi til samþykkis, heldur samþykktu forseti og ríkisstjórn hann samkvæmt valdi, sem þau töldu sig hafa, en utanrmn. taldi þetta „að taka án endurgjalds“, þess eðlis, að fyrir því þyrfti sérstaka löggildingu. Nú er svo komið, að ríkisstj. vill fá staðfestingu Alþingis á þessum þætti, og það er um leið það fyrsta, sem lagt er fyrir Alþingi af þessum samningi. Ég harma, að til þess skuli koma, að ríkisstj. skuli fara fram á það við Alþ. að fá að taka við fjárframlagi endurgjaldslaust. Við höfum lengst af verið fátæk þjóð, og þegar við hér áður fyrr bjuggum við baxl og bágindi, þótti okkur leitt að þurfa að taka við gjöfum. Eftir síðasta stríð vorum við svo vel stæðir, að við gátum gefið öðrum gjafir, og frá því var sagt hvað eftir annað í útvarpi og blöðum og við vorum stoltir af. Við skoðuðum þetta sem siðferðislega skyldu okkar, þar sem við höfðum orðið svo vel úti í stríðinu, meðan ýmsar aðrar þjóðir liðu hinar ægilegustu hörmungar. Bandaríkin græddu stórkostlega á síðasta stríði, og við Íslendingar græddum líka nokkuð. Hin almenna afstaða þjóðarinnar var sú, að ekki kæmi til mála, að við þyrftum að taka við fjárframlögum án endurgjalds, og slík var líka afstaða ríkisstj. fyrst eftir að hún tók við völdum. Því var lýst yfir af ríkisstj. árið 1947, að þótt Ísland gerðist þátttakandi í efnahagssamvinnu Norðurálfuþjóðanna, þá yrði Ísland þar veitandi, en ekki þiggjandi. Þetta voru orð ráðherranna, og þau voru endurspeglun af stolti þjóðarinnar og áliti hennar á þessum málum. Í umr., sem fram fóru um haustið um þetta mál, komst hæstv. utanrrh. svo að orði:

„Því miður er efnahagur margra Evrópuríkja svo slæmur eftir eyðileggingar styrjaldarinnar, að þeim er um megn að standa sjálf straum af endurreisnarstarfinu. Þess vegna er það von þeirra, að áætlanir þessar verði grundvöllur þess, að Bandaríkin veiti þeim fjárhagslegan tilstyrk. Ísland er hins vegar ekki í hópi þeirra þjóða, sem hafa beðið um slíka aðstoð, og við skulum vona, að við berum gæfu til þess að haga svo málum okkar, að við þurfum ekki á henni að halda.“

Þetta voru þá orð hæstv. utanrrh., og ég býst við, að þau hafi verið töluð fyrir hönd allrar ríkisstj. Þá leit ríkisstj. svo á, að hún mundi ekki þurfa á þessu að halda. Hæstv. utanrrh. lýsti því yfir, að hörmungar stríðsins hefðu valdið því, að sumar Evrópuþjóðirnar yrðu að treysta á slíkar gjafir. Nú er svo komið eftir tvö ár, frá því að þessar yfirlýsingar voru gefnar, að ríkisstj. fer fram á heimild til að taka á móti framlögum án endurgjalds. Ríkisstj. hefur því ekki borið gæfu til að stjórna landinu rétt, heldur hefur hún í hverju máli kveðið upp dóm yfir sinni eigin stefnu. Í hinni alkunnu grg. fyrir hækkuninni á tóbaki og áfengi var sagt, að þar sem allt hefði hækkað, yrði þetta að hækka líka. Í grg. fyrir benzínskattinum var sagt, að þar sem hann væri lægri hér en erlendis, þá yrði hann að hækka. Og svo kemur hér fram beiðni um að fá að taka við fjárframlögum frá Bandaríkjunum endurgjaldslaust. Ég álít það í fyrsta lagi mjög leitt, að íslenzka ríkisstj. skuli koma fram með svona frv. eftir að hafa gefið sterkorða yfrlýsingu um það, að slíkt skyldi aldrei koma fyrir. Þá vil ég líka benda á, að með því að taka við framlögum án endurgjalds frá erlendu ríki, göngumst við undir skuldbindingar, sem leiða til þess, að þetta ríki getur haft áhrif á fjármálaráðstafanir innanlands. Í Marshallssamningnum fjallar 4. kafli eingöngu um þau ákvæði, sem koma til greina, þegar aðstoð er veitt án endurgjalds, en þegar samningurinn var ræddur hér árið 1948, var þessi grein sama og ekkert rædd, þar sem enginn reiknaði með því þá, að nokkurn tíma kæmi til þess, að við þyrftum að taka við gjafafé. Og ég held því að þeir, sem á annað borð láta sig einhverju skipta, hvað þeir samþ., ættu að athuga þær greinar samningsins, sem leggja okkur skyldur á herðar. T.d. er mjög athugandi 6. gr. í 4. kafla, sem segir, að jafnóðum og Ísland tekur á móti framlögum í dollurum, þá eigi að leggja inn á reikning í Landsbankanum jafnháa upphæð í íslenzku fé. Síðan eru sérstök fyrirmæli um, með hvaða skilyrðum þetta fé megi nota. Í 6. gr. segir svo: „Ríkisstj. Íslands getur hafið innstæður, sem fyrir hendi kunna að vera á hinum sérstaka reikningi, til þeirra ráðstafana, sem samkomulag kann að nást um á hverjum tíma við ríkisstjórn Bandaríkja Ameríku. Við athugun á till., sem ríkisstj. Íslands gerir um ráðstafanir á innstæðum á hinum sérstaka reikningi, mun ríkisstj. Bandaríkja Ameríku hafa í huga þá þörf, sem er á því að efla eða viðhalda öryggi í peningamálum og fjármálum innanlands á Íslandi og á því að efla framleiðslustörf og milliríkjaviðskipti, svo og leit að og eflingu á nýjum auðlindum á Íslandi, þar með talið sérstaklega: a. útgjöld vegna fyrirætlana eða áætlana, þ. á m. þeirra, sem eru þáttur í heildaráætlun um eflingu framleiðslugetu Íslands og hinna þátttökuríkjanna, og fyrirætlana eða áætlana, sem erlendur gjaldeyriskostnaður við er greiddur með aðstoð, sem ríkisstj. Bandaríkja Ameríku veitir samkv. l. frá 1948 um efnahagssamvinnu eða á annan hátt, eða með lánum frá alþjóðabankanum. b. útgjöld í sambandi við leit að og aukna framleiðslu á efnivörum, sem þörf kann að vera fyrir í Bandaríkjum Ameríku vegna skorts, sem er eða líklegt er, að verði á slíkum vörum í Bandaríkjum Ameríku; og c. niðurgreiðslur, sem um munar, á þjóðarskuldum, einkum á skuldum Landsbanka Íslands eða annarra bankastofnana.“

Ég vil nú í sambandi við þetta síðasta benda á, hvort hér er rétt þýtt: „especially debt held by the National Bank of Iceland.“ Þetta er þýtt með „skuldum Landsbanka Íslands“ o.s.frv. Ég skal nú ekki fullyrða, hver venja er með slíkar þýðingar, en ég held, að óhætt sé að segja, að þetta þýði réttilega „skuldir við Landsbanka Íslands“ o.s.frv. Þó getur verið, að með íslenzku þýðingunni sé átt við skuldir Landsbankans út á við hjá öðrum þjóðum.

Ég er nú ekki mjög kunnugur orðatiltækjum á ensku en ég hygg, að öll 6. gr. beri það með sér, að um leið og Ísland tekur á móti þessum framlögum og leggur jafnháa upphæð í íslenzkum peningum til hlíðar, þá megum við ekki hagnýta þá peninga nema að fengnu leyfi stjórnar Bandaríkjanna. Stjórn Bandaríkjanna lofar að athuga þær till., sem íslenzka ríkisstj. gerir, með hliðsjón af því að „viðhalda öryggi í peningamálum og fjármálum innanlands á Íslandi.“ Og nú vil ég spyrja í sambandi við þetta ákvæði: Eru fyrir hendi tilmæli frá Landsbankanum um það sérstaklega, að þetta fé verði notað til þess að grynna á skuldum ríkissjóðs við bankana? Og í öðru lagi: Er það fullkomið vald, sem stjórn Bandaríkjanna fær sem sá aðili er veitir þetta fé? Er þá einmitt ekki hugsanlegt, að það vald verði notað til þess að þrýsta á gengislækkun? Hvað oft rekum við okkur ekki á í Marshallssamningnum skuldbindingar um að halda réttu gengi? Ég tel því þá hættu felast í því, að íslenzka ríkisstj. geri 4. kafla þessara laga gildandi, að það mundi verða vatn á myllu þeirra, er vilja fella gengi íslenzku krónunnar. Það hefur komið fram í leynibréfi bankastjóranna, að þeir telja gengi krónunnar allt of hátt, og ég held, að samþykkt þessara l. þýddi aukinn styrk fyrir þá og aðra með sömu skoðun. Þessi grein þýðir í öðru lagi, að Bandaríkjastjórn kemur til með að hafa visst vald yfir því, hvernig þetta fé, sem lagt er á hinn sérstaka reikning, er notað. Stjórn Bandaríkjanna gæti sett ýmis skilyrði um það, hver atvinnutækin yrðu, og jafnvel um það, hvenær þau yrðu rekstrarhæf. Ég vil vekja athygli á þessu, því að ég álít, að Íslendingar fái, eins og nú er komið, erlent fé til þess að koma upp atvinnutækjum í landi sínu. Þótt ýmsum muni þykja betra að fá það að gjöf en láni og þótt ég viti og viðurkenni fyllilega, hvaða hættur felist í því að taka fé að láni, þá álít ég það mun heppilegra. Við munum þá einir geta ráðið því, til hvers það er notað og hve mikið það er, og getum þá eingöngu miðað við okkar þjóðarhag. En ef við aftur á móti treystum á gjafafé, erum við undirorpnir þeim skuldbindingum, sem ég var að lesa upp áðan. Við höfum verið með eitt mál hér í þinginu, sem er að einhverju leyti imprað á í minnihlutaáliti mínu, þ.e.a.s. áburðarverksmiðjuna, og vitum, að þegar upprunalega var rætt um byggingu áburðarverksmiðju á Íslandi á fundi efnahagsmálastofnunarinnar í París, mætti það mál mótspyrnu, sem aðallega kom frá þeim stóriðjulöndum, sem ekki vildu, að Íslendingar hagnýttu sitt vatnsafl til að koma stóriðju á fót í landi sínu. Þetta var viðurkennt af hæstv. atvmrh. og einnig, að aðalmótspyrnan hefði komið frá fulltrúum tveggja eða þriggja auðhringa í Bandaríkjunum, Englandi og Þýzkalandi, sem hirða allan arðinn af slíkri framleiðslu og eru því vitanlega andstæðir slíkri stóriðju á Íslandi. Eftir að felld hafði verið till. frá okkur sósíalistum um byggingu stórrar og afkastamikillar áburðarverksmiðju og búið var að ræða frv. í báðum deildum, kemur svo brtt. við síðustu umr. málsins í Ed. — og nær samþykki — sem kveður svo á, að taka eigi auðmagn einstaklinga í byggingu verksmiðjunnar og veita þeim síðan sérréttindi í stj., sem draga mun mjög úr því ótvíræða valdi, sem ríkið á að hafa yfir þessu fyrirtæki. Ég hef alltaf verið sannfærður um það, þótt samþ. hafi nú verið að byggja aðeins 10 þús. smálesta verksmiðju, þá verði horfið að því ráði, þegar framkvæmdir hafa verið hafnar, að hafa verksmiðjuna miklu stærri, eða að minnsta kosti í huga þann möguleika. Hins vegar hef ég alltaf haft mikinn áhuga fyrir því, að yfirráð íslenzka ríkisins yfir fyrsta stóriðjufyrirtækinu, sem byggt er á virkjun hinna miklu fossa okkar, yrðu sem bezt tryggð, og að vald og eign ríkisins yrðu alveg ótvíræð þannig að engir erlendir auðhringar gætu náð valdi yfir slíkum stórrekstri. Við megum vera minnugir þess, að ekki eru nema 2–3 ár síðan háð var barátta til þess að koma í veg fyrir, að erlent auðmagn fengi tök á stóriðjurekstri á Íslandi. Nú kemur fram till. í Ed. að gefa auðmagni afgerandi vald yfir þessu fyrirtæki. Ég skal ekkert fullyrða um, hver ætlunin með þessu er, en hitt er víst, að hér er opnuð leið fyrir erlent auðmagn að ná afgerandi valdi yfir áburðarverksmiðjunni, og það er athugandi, að í Marshallsamningnum, eins og Bandaríkjakongressið samþ. hann, eru alveg sérstök ákvæði um, að þau lönd, sem þátttakendur eru í honum, skuldbinda sig til að veita bandarískum borgurum samsvarandi leyfi til fjárfestingar og borgarar þess ákveðna lands hafa. Að vísu var nokkur varnagli sleginn af hæstv. ríkisstj., þegar Marshallsamningurinn var gerður. Það er þannig: „Samkomulag er um, að ákvæði 5. gr., 2. mgr., samningsins skuli eigi skilið þannig, að af þeim leiði samningaumleitanir um breytingu á fiskveiðalöggjöf Íslands. Þá er og samkomulag um, að ákvæði, sem 5. gr. kynni að gefa tilefni til og háð eru samkomulagi beggja ríkisstj., muni verða í samræmi við ákvæði íslenzkra laga.“ Á enskunni stendur nú að vísu „will take into account the provisions of the laws of Ieeland.“ M.ö.o. fiskveiðalöggjöfin er tekin þarna út úr alveg sérstaklega, en hún er mjög lítið atriði fyrir Bandaríkin. En stóriðja á Íslandi, sérstaklega í sambandi við virkjun Urriðafoss eða fossanna við Búrfell, það er mál, sem við vitum, að bandarísku auðhringarnir hafa áhuga á. Ef gerður væri samningur í samræmi við þetta frv., sem grundvallaðist á samningunum frá 5. júlí 1948, sem ég hef nú gert að umtalsefni, þá verður vitanlega afstaða Bandaríkjanna til að beita áhrifum sínum, hvernig þetta fé er notað, miklu sterkari en ef um lán væri að ræða. Nú er vitað mál, að fyrirkomulag atvinnurekstrar á Íslandi og Bandaríkjunum er mjög ólíkt. Þar er ríkisrekstur álitinn hinn argasti bolsévismi, en hér er ríkisrekstur líklega meiri en í nokkru öðru landi, sem er í efnahagssamvinnustofnuninni. Þegar nú Bandaríkjastj. eða bandarískir auðhringar fá vald yfir eða aðstöðu til þess að komast yfir slík fyrirtæki sem áburðarverksmiðju, þá er ekki að efa, að þeir reyna að nota sína aðstöðu til að draga sem mest úr áhrifum ríkisins á því sviði og koma því eingöngu undir stj. einstaklinga.

Það er engin tilviljun, að hér koma fram till. frá þeim hv. þm. úr Sjálfstfl., sem ákafastir eru fylgismenn þeirrar stj., sem mest er andvíg ríkisrekstri, að draga á öllum sviðum úr áhrifum ríkisins í atvinnumálum þjóðarinnar. Og svo þegar till. eins og sú, sem fram kom í hv. Ed. við áburðarverksmiðjufrv., renna í gegnum þingið, þá virðist hér vera um að ræða eina samfellda atlögu gegn því, að Íslendingar hafi afgerandi vald yfir sinni stóriðju. Ég álít því, að það vald, sem Bandaríkjastj. fær til áhrifa á, hvernig þessu fé er varið, sé hættulegt fyrir sjálfsforræði Íslendinga í atvinnumálum sínum og því strax af þeirri ástæðu andvígur samþykkt þessa frv.

Þá vil ég taka fram í sambandi við 6. gr. 5. kafla fyrrnefnds samnings, að ég álít ákaflega óviðeigandi, að Bandaríkin séu að gefa okkur gjafir og auglýsa það fyrir öllum heiminum, á sama tíma sem þau brjóta þá samninga, sem þeir hafa við okkur gert. Á ég þar við tollsvikin á Keflavíkurflugvelli, sem ég hygg, að nemi milljónum. Á meðan Bandaríkin greiða ekki slíkar upphæðir, sem þeir tvímælalaust eru skyldir til að gera, og hæstv. ríkisstj. gerir ekki einu sinni tilraun til að innheimta þetta, þá álit ég það ákaflega óviðkunnanlegt, að það sé kallað, að við séum að þiggja gjafir, og básúnað út um allan heim, m.a.s. í einu stjórnarblaðanna lýst mikilli ánægju og gleði yfir því, hve háir við erum á lista Bandaríkjanna yfir ölmusuþjóðir.

Að lokum álít ég, að hér sé ekki um framlag án endurgjalds að ræða. Bandaríkjastj. fær með þessum gjöfum íslenzku ríkisstj. svo háða sér og þau áhrif á Íslandi, að hún innheimtir sjálf það endurgjald, sem hún fær fyrir þetta framlag. hafi þetta ekki verið meiningin hjá stjórn Bandaríkjanna, var það a.m.k. ákaflega taktlaust að auglýsa fyrir öllum heiminum sama daginn sem ákveðið var, að hálf hæstv. ríkisstj. færi vestur, að Bandaríkjastj. veitti Íslandi að gjöf 21/2 millj. dollara. Og nú er ríkisstj. að leggja þetta frv. fram, eftir að Atlantshafssamningurinn hefur verið knúinn í gegn hér á Alþ.

Ég álít því þetta frv. vera svo varhugavert, að okkur beri þess vegna að fella það. Það má vel vera, að þeim röksemdum verði haldið á móti, að við séum í vandræðum með peninga. Og 16 millj. kr. er mikill peningur, það er alveg satt, en ég verð að segja það, að það var meiri peningur, sem tapaðist fyrir aðgerðir ríkisstj. með togarastöðvuninni í vetur, því að þá tapaði þjóðin yfir 20 milljónum í erlendum gjaldeyri. Og hefði ríkisstj. verið umhugað um að halda vel á spöðunum þá, þá væri það fé til ráðstöfunar núna, og er það hærri upphæð en hér er um að ræða, upphæð, sem hægt hefði verið að nota til uppbyggingar atvinnuveganna eftir því, sem við sjálfir álitum hagkvæmast, og án þess að þurfa að vera að leita til annarrar þjóðar um leyfi til þess að fá samþykkt, hvernig slíkri uppbyggingu skyldi hagað. Þegar verið er að ræða um þetta mál, þá er alltaf gripið til gjaldeyrisþarfarinnar. Ég veit ekki betur en að framlag okkar til alþjóðabankans, samtals um 2 milljónir dollara, hafi að engu leyti verið tekið út af okkur, og ég veit heldur ekki til þess, að leitað hafi verið til hans af okkur. Ég held þó, að það lægi nær að taka það fé út að láni þaðan, sem svarar til þess fjár, sem við höfum lagt þar fram, áður en gengið er inn á þessa braut. Áður en ríkisstj. notar sér slíka möguleika, þá er það nokkuð langt gengið að fara að valda þjóðinni þeirri níðingslegu smán, sem þessu er samfara. Ég legg því til, að frv. verði fellt.