10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (1059)

195. mál, Marshallaðstoðin

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það var nú í raun og veru gott, að það skyldi koma einhver framsöguræða af hálfu meiri hl. í þessu máli, og ef til vill var það ekki óeðlilegt, að hæstv. viðskmrh. flytti hana. Ég ætla að byrja á því að minnast á það, sem hæstv. viðskmrh. talaði um síðast. Hann átti ákaflega erfitt með að skilja þá samlíkingu, sem ég gerði út af tóbakinu og benzíninu og nú síðast Marshallframlaginu. Ég skal nú reyna að skýra þetta fyrir honum, svo að honum verði ljósari mislukkun fjármálastefnu stj. Það var eitt af stefnumálum ríkisstj. að lækka verðlagið í landinu. Hins vegar lýsti ríkisstj. því yfir í grg. fyrir hækkun á tóbaki, að verðlagið hefði almennt hækkað hjá sér í landinu undanfarin 2 ár. (Samgmrh.: Var það tekið fram, að það væri „hjá sér“?) Nei, en í landinu, sem hún stjórnaði, var meint með því. En í hennar stefnuskrá var yfirlýst sem aðalatriði, að hún ætlaði að sjá um, að verðlagið lækkaði. Þess vegna var þetta fyrsta gjaldþrotayfirlýsingin á hennar eigin yfirlýsingu í hennar stefnuskrá. Í öðru lagi hafði ríkisstj. lýst því yfir, að hún ætlaði að gera okkur Íslendinga samkeppnisfæra við aðrar þjóðir, lækka verðlagið og tilkostnaðinn, til þess að svo yrði. Þegar hún er svo með tveggja ára ríkisstj. búin að koma því til leiðar, að verðlagið hefur almennt hækkað í landinu og m.a. sérstaklega fyrir hennar eigin álögur, þá uppgötvar hún, að það er ein vara, benzín, sem er ódýrari hér en erlendis, ein vara, sem kannske gæti hjálpað okkur til þess að verða samkeppnisfærir við aðrar þjóðir. Hvað gerir ríkisstj. þá? Hún ákveður, að nú skuli endilega hækka benzín, stíga eitt skref, til þess að við höfum minni möguleika til þess að verða samkeppnisfærir. Ég veit ekki nema hæstv. viðskmrh. finni mótsetninguna í þessu, þegar hann athugar málið betur og ber saman við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. Ef til vill er hæstv. ráðh. farinn að gleyma stefnuyfirlýsingum ríkisstj., fyrst og fremst vegna þess að langt er síðan þær voru gefnar út, og í öðru lagi vegna þess, að ríkisstj. hefur sjaldan haft fyrir því að dusta rykið af þeim og því síður haft tíma til að rifja þær upp. Og viðvíkjandi þriðja atriðinu, þar sem hæstv. ráðh. skildi ekki, að hægt væri að tala um mislukkaða fjármálastjórn í sambandi við þessi mál, þá hélt ég, að ég hefði tekið það svo skýrt fram, að svo greindur maður sem hann er hefði átt að skilja það, sem ég sagði. Ég sagði, að einmitt einn af samráðh. hans hefði gefið yfirlýsingu um það fyrir tæpum 2 árum, að hann vonaðist til þess, að við Íslendingar gætum haldið svo á málum okkar, að við þyrftum ekki á fjárhagslegum tilstyrk Bandaríkjanna að halda, m.ö.o., að það yrði hægt að stjórna málum hér þannig, að við þyrftum ekki að þiggja gjafir, og hann notaði það orðatiltæki, „að við bærum gæfu til þess að haga málum okkar þannig: Og þegar það svo kemur í ljós með þessu frv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir, að hún segir: „Við þurfum á þessu að halda“ — þá finnst mér ákaflega eðlilegt að leiða þar af rökrétta viðurkenningu á því, að mislukkast hafi sú fjármálastefna, sem þessi ráðh. vonaðist til, að við Íslendingar bærum gæfu til þess að halda. Ég held þess vegna, ef hæstv. ráðh. athugar þetta nánar, þá komist hann að þeirri niðurstöðu, að einmitt í þessum þremur frv., sem ríkisstj. hefur látið leggja fyrir Alþ. nú síðustu dagana, þá hafi beinlínis af tilviljun komið mjög greinilega fram viðurkenning af hálfu ríkisstj. sjálfrar á því, hve fjármálastjórn hennar sé stórmislukkuð.

Þá ræddi hæstv. ráðh. um það í sambandi við þetta mál, hve viðskiptajöfnuðurinn við Bandaríkin væri óhagstæður og að eitt af því, sem gerði það að verkum, að við þyrftum á þessum styrk að halda, væri það, að við þyrftum að fá dollara, beinlínis þá tegund gjaldeyris. Við höfum nú einu sinni eða tvisvar áður rætt um þetta atriði sérstaklega hér á Alþ., en þó hefur í raun og veru aldrei verið rætt virkilega raunhæft um þetta. Ég hef haldið því fram, að allmikið af þeim vörum, sem við höfum flutt inn frá Bandaríkjunum, væri hægt að fá annars staðar frá, að við keyptum vörur fyrir dollara, sem við gætum greitt með öðrum gjaldeyri, og ég hef sagt, að ég væri alveg reiðubúinn að ræða það mál allnákvæmlega við hæstv. ráðh., ef það væri virkilega tekið fyrir að athuga innkaupin. Ég skal aðeins benda á í þessu sambandi, að korn, sem keypt hefur verið frá Bandaríkjunum, hefðum við getað fengið frá Evrópu, ef ekki væru lagðar á óeðlilegar viðskiptahömlur. Enn fremur vil ég geta þess, að olíu, sem við höfum fengið frá Bandaríkjunum, hefðum við getað fengið annars staðar frá. Ég veit ekki betur en að flutt hafi verið inn olía frá Bandaríkjunum, þó að eitthvað sé kannske farið að breyta því nú. Á skýrslum frá í fyrra var olía eitt af því, sem talið var upp. Í fyrstu áætluninni, sem kom fram um innflutning dollaravara til Íslands, var ekki nema 20% vörur, sem óhjákvæmilegt var að kaupa í Bandaríkjunum. Ég held þess vegna, að þessi skortur á dollurum, sem talað er um, sé á vissan hátt yfirdrifinn.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að óttinn við það, að ekki mundi vera hægt að greiða lán í dollurum til baka seinna, væri eitt af því, sem ylli þeirri afstöðu ríkisstj., að hún vildi síður taka lán, en heldur taka á móti gjöfum. Jafnhliða því sem hæstv. ráðh. sagði þetta, var hann að segja, að tilgangurinn með Marshalláætluninni og þessum samningi væri sá að losa okkur úr þeim óeðlilegu tengslum, sem þarna væri um að ræða, sem sé að gera okkur hvað dollaraþörfina snertir óháðari Bandaríkjunum. Það hefur verið látið í veðri vaka, að tilgangurinn með Marshalláætluninni og þessum samningi væri sá að sjá til þess, að í lok þeirrar áætlunar væri viðskiptajöfnuðurinn í dollurum við Bandaríkin orðinn nokkurn veginn jafn. M.ö.o., með því að hæstv. ráðh. lýsir því yfir, að hann óttist, að við munum ekki geta greitt lán, sem við kynnum að taka, til baka í dollurum, þá er hann um leið að lýsa því yfir, að hann búist við, að þessi viðleitni, sem látið er í veðri vaka, að sé tilgangurinn með Marshallsamningnum, muni ekki bera árangur. (Menntmrh.: Þvert á móti.) Nei, og það er líka nokkurn veginn vitanlegt, að svona muni þetta verða. Það er sem sé orðið altalað hjá öllum Marshalllöndunum, að afleiðingin af þessum Marshallsamningi verði sú, að þessi ríki muni eftir 1952 verða enn háðari Bandaríkjunum hvað dollaraþörfina snertir en þau voru áður, og ef til vill er það þetta sérstaklega, sem Bandaríkin sækjast eftir. Það er látið í veðri vaka, að þetta sé hjálp til viðreisnar og sjálfsbjargar, en að mínu áliti er þetta aðferð ameríska auðvaldsins til þess að gera þessar þjóðir sér beinlínís háðari. Ég held, að 1952 muni það koma í ljás, og það er nú þegar farið að ræða um það, að dollaraþörfin muni hjá flestum þessum þjóðum vera jafnbrýn og áður. Sú þjóð, sem ég hef mesta trú á, að mundi ef til vill bjarga sér nokkuð vel í þessu efni, eru Englendingar, m.a. vegna þess, að þeir voru áður eitt sterkasta ríkið þrátt fyrir sín miklu áföll, en almennt held ég, að útkoman verði sú fyrir Vestur-Evrópu, að 1952 verði byrjað á nýrri Marshalláætlun. Þá verður sagt, að öll þessi lönd séu í þörf fyrir dollara frá Bandaríkjunum og ekki hafi tekizt það, sem átti að gera eða var látið í veðri vaka, að ætti að gera með Marshalláætluninni. Ég viðurkenni, að þetta er hætta, að það verði erfitt að borga þetta til baka, af því að Bandaríkin beita Evrópuríkin þveröfugri pólitík við það, sem þau segjast vilja, að sé gert. Þau heimta innflutning til þessara landa í Evrópu, og á sama tíma gera þau öllum þessum þjóðum erfiðara að geta verzlað við þau, en vera ætti. Þau t.d. þvinga Ítalíu til að kaupa af sér bíla, sem er þó hægt að framleiða þar í landi. Það er útkoman, sem við verðum að dæma eftir, en ekki það, sem löndin láta í veðri vaka.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að það væri þakkarvert, en ekki ámælisvert að fá gjafir og stj. ætti frekar þakkir fyrir það en ámæli. Það er ekki aðeins ég, sem hér ámæli hæstv. stj., það er ríkisstj. sjálf með þeim orðum, sem einn af samráðh. hans lét uppi og ég hef áður vitnað í, að hann vonaðist til þess, að Íslendingar bæru gæfu til að haga svo málum sínum, að þeir þyrftu ekki að þiggja gjafir. Það lá ekki í þeim orðum þakklæti fyrir að stjórna þannig málum, að það þyrfti að þiggja gjafir, heldur væri það ógæfa, svo að það er ámæli, sem liggur í þeim orðum, sem komu frá hæstv. ríkisstj., þegar hún var að ræða þessi mál í upphafi og hafði ekki órað fyrir, hvernig hennar fjármálastjórn mundi mistakast gersamlega.

Þá spurði hæstv. ráðh. í sambandi við þetta, hvort við værum nú orðnir meiri menn en Englendingar og aðrar slíkar þjóðir, að við gætum ekki tekið á móti gjöfum. Ég býst við, að Englendingum og Norðmönnum yrði ekki skotaskuld að svara, ef þeir væru spurðir um þeirra siðferðilega rétt til þess jafnvel að krefjast þessara gjafa. Þeir mundu skírskota til þess, að þeir hefðu verið stríðsaðilar með Bandaríkjunum í styrjöld gegn sameiginlegum óvin, um, þar sem bæði þessi ríki hefðu fórnað stórkostlegum fjárhagslegum verðmætum fyrir utan mannslífin, á sama tíma sem Bandaríkin beinlínis sem ríki og þjóð hefðu grætt á styrjöldinni fjárhagslega á þeim fórnum, sem þessar samstarfsþjóðir þeirra færðu. Ég býst við, að þessum þjóðum yrði ekki skotaskuld að svara og mundu einnig benda á, að þessar kröfur gætu Íslendingar ekki gert, enda hefur það ekki verið flutt fram sem rök fyrir því, að við ættum kröfu á Marshallframlagi, að við hefðum fært svo miklar fórnir, Íslendingar, þó að við höfum vissulega fært þær.

Það er talað um það hér af hæstv. ráðh., að það sé þægilegt að geta fengið fé án þess að þurfa að borga það aftur. Það er ekki byggt á þeirri siðferðilegu kröfu, sem þessar stríðsþjóðir mundu byggja sína afstöðu á og hafa byggt sína afstöðu á, heldur aðeins að það sé þægilegt að fá gefins. En fyrst hæstv. ráðh. er að gera gys að því, að mér finnist við verða minni menn á að þiggja þetta fé, vil ég spyrja hann: Hefur hæstv. utanrrh., sem þóttist vera svo mikill maður 1947, að hann áleit, að Íslendingar gætu ekki þegið slíkar gjafir, minnkað síðan 1947, sakir þess að nú leggur hann til. að taka við þessu?

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að það væri rangt, sem ég hef áður haldið fram, að Marshallhjálpin væri notuð til að troða upp á þjóðirnar vörum, sem Bandaríkin þyrftu að losna við. Það er samt rétt, að hún hefur verið notuð til þess í flestum löndum Evrópu, en með þeim afleiðingum, að fjöldamörg helztu iðnaðarlöndin, eins og Belgía, Ítalía og önnur slík, hafa nú við tilfinnanlegt atvinnuleysi að búa og fluttar inn til þessara landa iðnaðarvörur, sem Bandaríkin framleiða og keppa með við þær vörur, sem viðkomandi lönd framleiða, og útrýma þeim jafnvel af markaðinum. Bandaríkin hindra einnig þessi lönd í að fá þau hráefni, sem þau þurfa til sinna verksmiðja, þannig að stóriðjufyrirtæki í þessum löndum eru nú meira og minna atvinnulaus, á sama tíma og afurðir Bandaríkjanna eru fluttar inn í ríkum mæli til þessara landa til sölu. Ég held, að það sé ákaflega fjarri því, að þeir, sem ræða um fjármálapólitík Bandaríkjanna í sambandi við Marshallhjálpina, geri sér ljóst, hvert Bandaríkin eru að stefna með þessu, vegna þess hvað annað er látið í veðri vaka en verið er af framkvæma. Ég hef litið á Marshalláætlunina sem eins konar kalt stríð auðvaldsins ameríska móti Vestur-Evrópu, móti auðmannastétt og verkalýðshreyfingu Evrópu.

Þetta kalda stríð gerist aðallega með tvennu eða þrennu móti. Ameríska auðvaldið knýr fram, að stóriðjufyrirtæki Vestur-Evrópu séu ýmist stöðvuð eða jafnvel seld ameríska auðvaldinu. Sérstaklega einbeitir auðvaldið sér við að láta stöðva þjóðnýtt fyrirtæki, eins og flugvélaverksmiðjurnar frönsku, eða hindra, að viðkomandi ríkisstjórnir þjóðnýti þau fyrirtæki, sem þær vilja þjóðnýta. Þannig var það, þegar átti að þjóðnýta stóriðjuna í Ruhr, sem Bretastjórn hafði ætlað sér að framkvæma. Samtímis því sem ameríska auðvaldið í skjóli Marshalláætlunarinnar leggur undir sig stóriðjufyrirtæki í Vestur-Evrópu í vaxandi mæli og kaupir þau eða knýr fram lokun þeirra, er brotið niður svo mikið af efnahagslegu sjálfstæði þessara ríkja, að þau verða að flytja inn vörur frá Bandaríkjunum til að útrýma sinni eigin stóriðju. Með þessu er eyðilagður efnahagslegur grundvöllur þessara ríkja og skapað atvinnuleysi, enda þarf ekki að vitna nema til Spaak, forsætisráðherra Belgíu, á síðasta fundi efnahagssamvinnustofnunarinnar, þegar hann talaði um, að 300 þús. atvinnuleysingjar væru í Belgíu, þegar hann ræddi um þær afleiðingar, sem Marshalláætlunin hefði haft á Belgíu. Samtímis þessum árásum á auðmannastétt Vestur-Evrópu og að verið er að leggja undir sig atvinnufyrirtæki hennar, er verið með atvinnuleysi og þeirri kjararýrnun, sem fram fer í þessum löndum, að ráðast á verkalýðshreyfingu þessara landa. Samtímis þessum árásum á Vestur-Evrópuríkin gerist svo það, að Bandaríkin tryggja sér yfirgnæfandi ítök í nýlendum allra Evrópuríkjanna, sem hafa verið valdamestu nýlenduríki heimsins, og það er svo langt komið, að allar dýrmætustu vörurnar frá þessum nýlendum eru nú fluttar til Bandaríkjanna, eins og t.d. öll úraníumframleiðsla Kongó, sem ameríska auðvaldið flytur allt þangað vestur. Sama er að segja um aðrar auðlindir, svo sem olíulindir og gúmmíekrur. Þar eru nú amerísku auðhringarnir, olíuhringurinn og gúmmíhringurinn, að ná tökum. Þetta eru þau tök, sem bandaríska auðvaldið beitir nú við auðmannastéttina í Evrópu. Þetta er aftur það, sem gerir þeim mögulegt að brjóta á bak keppinauta sína í Evrópu, og samtímis því sem það ræðst þannig á auðmannastéttina, koma í kjölfar þeirrar kúgunar árásir á verkalýðshreyfinguna í Vestur-Evrópu og lækkun hennar lífskjara. Þannig vex hin efnahagslega yfirdrottnun ameríska auðvaldsins yfir Vestur-Evrópu með hverju ári, sem líður, og það er eftirtektarvert, að nú um leið og Bandaríkin fara að verða meira vör við vaxandi kreppu heima hjá sér, þá herða þau, svo sem eðlilegt er frá þeirra sjónarmiði, á þeim ráðstöfunum, sem þau gera til þess að velta kreppunni yfir á Evrópuþjóðirnar, sem þeir kalla sig vera í samvinnu við. Atvinnuleysið er beinlínis útflutningur frá Bandaríkjunum til Vestur-Evrópu í skjóli Marshalláætlunarinnar. Aukið atvinnuleysi í skjóli Marshalláætlunarinnar stendur í beinu sambandi við þau fjárhagslegu ítök, sem Bandaríkin í skjóli Marshalláætlunarinnar hafa öðlazt yfir efnahag Vestur-Evrópuríkjanna.

Þá minntist hæstv. ráðh. á ótta hjá sósíalistum við, að efnahagsafkoman yrði betri í skjóli Marshalláætlunarinnar, og því værum við á móti þessari áætlun. Ég held, að það sé alveg nýtt, a.m.k. á síðustu árum, að bera okkur sósíalistum á brýn, að við værum hræddir við, að efnahagsafkoma almennings yrði betri. Ég veit ekki betur en einmitt sú barátta, sem hefur verið síðustu áratugina, sýni mjög greinilega, hvernig það hefur verið okkar áhugamál að gera efnahagsafkomuna betri, og okkur hefur tekizt að fá mjög miklu áorkað í því efni. Það er þess vegna út í hött að tala um, að við óttumst, að efnahagsafkoman verði betri. Ég býst ekki við, að neinn einstakur flokkur hér á landi hafi stuðlað meira að því en sósíalistar að gera efnahagsafkomu almennings betri. Okkur hefur verið legið á hálsi og ráðizt á okkur og barizt á móti okkur vegna þess, hvað okkur hefur tekizt að knýja fram miklar umbætur almenningi til handa. En það hafa verið gerðar ráðstafanir til að gera efnahagsafkomu almennings verri nú á síðustu árum. Þær ráðstafanir hafa verið gerðar af núverandi ríkisstj. af ráðnum hug með því að leggja fram og pína í gegnum þingið frv., sem skerða laun almennings og auka dýrtíðina, þannig að það er vitanlegt, að ef við sósíalistar hefðum áhuga fyrir, að efnahagsafkoma almennings yrði lakari, þá vinnum við gegn okkar óskum, en því fer svo fjarri, því að við höfum verið eini flokkurinn, sem hefur barizt á móti kjaraskerðingu hæstv. ríkisstj. á hendur almenningi og hefur tekizt dálítið að standa á móti því, þó að það sé ekki nægilegt. Það eru aðrir menn, sem hafa óttazt hér á landi, að afkoma almennings yrði betri. Það er hæstv. viðskmrh. og hans samverkamenn í ríkisstj., því að hæstv. viðskmrh. hefur látið sér um munn fara, að hann óttaðist, að við sósíalistar beittum okkur fyrir því, að verkamenn og launþegar bættu sín kjör og reyndu að bera af sér þau högg, sem hæstv. ríkisstj. veitti þeim, og vinna gegn þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. gerði til að rýra lífskjör þeirra. Hæstv. viðskmrh. hefur kallað það glæp að vinna að því að bæta efnahagsafkomu almennings. Það kemur því úr hörðustu átt, að hann skuli koma fram með þessa bábilju.

Þá minntist hæstv. ráðh. á skuldir ríkisins í Landsbankanum og lét þá skoðun í ljós, að það hefðu að vísu ekki komið fram tilmæli frá Landsbankanum, að Marshallframlagið yrði notað til að lækka skuldir ríkisins við bankann, en þó að slík tilmæli kæmu fram, þá væri það ekki óeðlilegt. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., vegna þess að hann er einnig bankamálaráðh.: Er það áreiðanlegt, að það hafi ekki komið fram nein tilmæli frá Landsbankaaum um, að Marshallframlagið yrði notað til þessa? Það væri æskilegt að fá því svarað ótvírætt, eftir að hæstv. ráðh. hefði athugað vel öll tilmæli, sem honum hafa borizt frá Landsbankanum. Viðvíkjandi svo hinu, hvort það sé rétt að verða við því, að sá gjaldeyrir, sem borgaður er inn á þennan reikning, yrði notaður til að greiða eða grynna á skuldum ríkissjóðs við Landsbankann, þá komum við að máli, sem ég álít tilefni til að ræða hér á þingi. Sannleikurinn er sá, að það hefur hvað eftir annað komið opinberlega frá hálfu bankans, að hann vildi gjarna, að ríkið greiddi eða lækkaði verulega á sínum skuldum, og t.d. happdrættistekjurnar hafa verið notaðar til að minnka skuldir ríkissjóðs þar. Nú hefur auðvitað ekki fengizt rætt hér um Landsbankann eins og um annað, sem þeirri stofnun við kemur. Þetta er tabú, og má ekki á það minnast. En það væri sannarlega ástæða til að ræða það, hvort ástæða er til fyrir ríkið á erfiðum tímum að vera að greiða niður skuldir við sjálft sig. Ríkið á þennan banka. Ríkið ræður yfir þessari stofnun, og þegar ríkið greiðir niður skuldir við bankann, aukast að sama skapi eignir þessarar ríkisstofnunar. Það er því að færa úr einum vasanum í annan. Ef til vill heldur hæstv. ráðh., að þetta sé einn af þessum dyntum mínum út af Landsbankanum. En ég vil benda á, að það er langt frá, að ég sé einn um þessa skoðun. Þetta er skoðun samflokksmanna hans í Svíþjóð og hefur að nokkru leyti verið gerð að undirstöðu fyrir þeirra fjármálapólitík. T.d. árin fyrir stríð hækkuðu skuldirnar við seðlabankann, og var það aðferð þeirra til að skapa eðlilega jöfnun í viðskiptalífinu og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Ég vil enn fremur benda honum á, að það er ekki aðeins meðal lærðra hagfræðinga úr sænska sósíaldemókrataflokknum, heldur varð ég einnig var við það hjá einum prófessor við Háskóla Íslands, sem einmitt fylgir Sjálfstfl. og hvað eftir annað hefur verið notaður sem sérfræðingur hæstv. ríkisstj. í þessum málum, þar sem hann telur ástæðulaust að auka yfirdrátt ríkisins við bankann frá því, sem nú er. Hins vegar veit ég, að stjórn bankans sækir það ákaflega fast, að ríkið grynni á skuldum sínum þar. Hún hefur gengið svo hart að ríkisstj., að fé, sem stj. hefur haft inn upp á síðkastið, sem skiptir meira en milljónatug króna, hefur beinlínis verið notað til að borga niður hjá bankanum, þó að stj. hafi haft mikla þörf á því til nytsamra framkvæmda. Ég álít beinlínis, að með þessum niðurgreiðslum sé verið að fórna fyrir vitlausa hagfræðikenningu nauðsynlegum framkvæmdum, sem ég veit, að bæði hæstv. stj. og fleiri hafa áhuga fyrir að framkvæma, það er verið að fórna þeim á altari skurðgoðs, misskilnings. Það er verið að pína þjóðina til að borga skuldir, það er verið að pína fram tekjuöflunarleiðir, sem öllum finnast hvimleiðar, til þess að framkvæma vitlausa hagfræði. Ég held, að þetta sé mál, sem vissulega sé þess virði, að það sé rætt af sérfræðingum þingsins.

Ég vil enn fremur vekja athygli hæstv. ráðh. á því, af því að við getum talað hér saman í góðu tómi, að þegar hann sagði áðan, að aðalatriðið væri að fá gjaldeyrinn, það væru ekki svo mikil vandræði með íslenzkar krónur, að það hafa komið fyrir mál, sem ég veit, að hann hefur mikinn áhuga fyrir, þar sem tekizt hefur að útvega erlendan gjaldeyri, en miklu erfiðara að útvega íslenzkan gjaldeyri að láni. Ég hef orðið var við það í sambandi við umr. um viðbótarvirkjun Sogsins, að af hálfu þeirra manna, sem hafa áhuga fyrir þeirri framkvæmd, sem eru margir, hefur verið talið eins erfitt að eiga við Landsbankann um að fá íslenzkt fé að láni til að framkvæma hina nýju virkjun eins og jafnvel að fá útlendan gjaldeyri, svo að það er mikil þörf á íslenzkum gjaldeyri til framkvæmda hér á landi, og þess vegna er það að öllu leyti rangt að láta hann lenda í þessari landsbankahít með því að greiða skuldirnar þar. Við ráðh. vitum báðir, að á síðustu þremur árum hefur bankinn grætt 48 millj. kr. í hreinan gróða og að hann hefur nú til ráðstöfunar um 85 millj. kr., og ríkisstofnun, sem þannig er stödd, þarf sannarlega ekki að ganga svo hart að, þegar þjóðin er í peningavandræðum og fé vantar til nauðsynlegustu framkvæmda, og láta slíkar framkvæmdir sitja á hakanum. Við vitum, að þessi banki svífur ekki í lausu lofti og hefur ekki gróða sinn af engu. Hann hefur hann ekki sízt af þeim gjaldeyri, sem þjóðin framleiðir og hann fær að miklu leyti einkarétt á. Þessi gjaldeyrir skapast ekki, nema framleiðslu landsmanna sé haldið í gangi, og henni verður ekki haldið í gangi, nema þjóðin hafi fé til að leggja í framleiðsluna, en stöðvist ekki fyrir harðvítuga innheimtu bankans á sínum skuldum. Það er stórskaðleg pólitík fyrir þjóðina og, þegar lengra er litið, fyrir bankann sjálfan.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, sem ég hef gert að umtalsefni út af þeim rétti, sem áskilinn er í amerískum l. og hefur verið viðurkenndur, þó að hæstv. ríkisstj. hafi reynt að setja fyrirvara. Hæstv. ráðh. kom ekki inn á það, sem ég sagði viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni.

Ég vakti í ræðu minni sérstaka athygli á hættunni á því, að þrýstingurinn mundi aukast frá hálfu amerísku stj. og þeirra aðila, sem hafa. áhuga á að fá þetta útlenda auðmagn inn í landið. Og ég vil vekja athygli ráðh. á því, að það er ekki undarlegt, þótt slíkur ótti komi hjá honum. Til þess liggja tvær ástæður. Annars vegar vitum við, að stór fyrirtæki, sem hafa áhuga á að koma ár sinni fyrir borð, hafa aðstöðu til leppmennsku, þ.e. að ná tökunum gegnum íslenzka aðila. Enn fremur höfum við fyrir okkur mjög harðvítug brot á íslenzkum lögum í sambandi við framkvæmd Keflavíkursamningsins, þar sem amerískum mönnum og auðfélögum eru veitt, þvert ofan í íslenzk lög; sérréttindi hér á landi. Og vegna þessarar reynslu er það ekki undarlegt, þó að maður óttist, að slíkt kunni að koma upp í sambandi við þá stóriðju, sem þyrfti að koma.

Ég ætla ekki að fara að deila um það, sem hæstv. ráðh. sagði ómaklega mælt hjá mér, þegar ég tengdi saman þessar 21/2 millj. dollara og Atlantshafssamninginn. Ég hef undirstrikað taktleysið hjá Bandaríkjastjórn, að láta þetta verða samferða, eins og gert var. Og ákaflega er mér nærri að halda, að Bandaríkjastjórn setji alla sína Marshallaðstoð og allar sínar „gjafir“ í beint samband við þær kröfur, sem sú stj. hefur fengið framfylgt um það hernaðarbandalag, sem nú hefur komizt á. Er ekki nýtt í milliríkjaviðskiptum, að slíkt hafi verið gert. Slíkt hefur tíðkazt t.d. allt frá því á 17. öld, þegar Frakkar voru sem sterkastir og voru að ná tökum á Englandi. Nógu mörg eru slík dæmi úr mannkynssögunni, hvernig sterk ríki veita framlag til ríkisstjórna til þess að ná afgerandi tökum á pólitískri ríkisstj. til þess svo að knýja hana til að framfylgja stefnu, sem lánardrottni er hentug. Bandaríkin eru með þessari fjármálapólitík að gera þessi ríki óbeint að sínum nýlendum og hjálendum.

Í því, sem hæstv. ráðh. minntist á um alþjóðabankann, fékk ég ekki svar um það, hvort reynt hafi verið að fá lán. Ég held það sé í þriðja skiptið, sem ég minnist á þetta mál í tvö ár, og hef aldrei getað fengið svar um það, hvort ríkisstj. hafi leitað fyrir sér um slíkt lán. Og samt held ég, — en þori þó ekki að fullyrða, —að í reglum alþjóðabankans og gjaldeyrissjóðsins sé svo fyrir mælt, að það eigi að gera ríkjum hægt um að fá lán úr þessum sjóðum, einmitt með tilliti til þess, að ríkin kunni að eiga erfitt með að greiða aftur í öðrum gjaldeyri en sínum eigin. Ég held t.d., að það eigi að vera alger möguleiki á því fyrir okkur að fá lán úr gjaldeyrissjóði án þess að vera skuldbundnir til að greiða til baka í dollurum. Ég held þess vegna, að ríkisstj. hafi átt fyrir löngu að vera búin að athuga þessi mál. Einn þm. í þessari hv. d, er í stj. gjaldeyrissjóðsins, þannig að það eru hæg heimatökin um athugun á þessu. Sannarlega er rétt að nota sér slíkt lán, áður en farið væri inn á þá braut, sem hér hefur verið farið.

Ég ætla ekki að fara inn á stjórnmálin almennt í ræðu hæstv. ráðh. Það er ekki vert, að við séum að munnhöggvast um slíkt „prívat“, skulum e.t.v. gera það, þegar við höfum fleiri áheyrendur. En viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. talaði um sjálft málið, held ég, að ég hafi gert flestu af því nokkur skil, og læt þar við sitja að svo stöddu.