10.05.1949
Neðri deild: 105. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

195. mál, Marshallaðstoðin

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Nokkur orð langar mig til að segja út af ræðu hæstv. viðskmrh. Í fyrsta lagi viðvíkjandi þeim atriðum, sem viðkoma vörum, sem við greiðum í dollurum. Hann talaði fyrst og fremst um hveiti og fóðurvörur. Ég býst við, að þetta hvort tveggja gætum við fengið frá Austur-Evrópu, svo framarlega sem við hefðum lagt upp úr því að flytja viðskiptin þangað. Þá taldi hæstv. ráðh. okkur geta fengið betri og hagkvæmari iðnaðarvöru frá Bandaríkjunum en annars staðar. Rétt er það. En það þýðir ekki, að við getum ekki fengið iðnaðarvörur annars staðar, sem gætu alveg eins komið í þeirra stað. Þegar við eigum erfitt með að útvega dollara, þá er ekki gefið, að við verðum að ganga að einhverjum afarkostum til að ná í þá bara til þess að fá vöru eitthvað ódýrari eða eitthvað finni en ella. Við yrðum kannske að kaupa vöruna í Englandi, og þó að þær hafi ekki alla þá kosti, sem amerískar vörur hafa, þá eigum við þó nóg pund til að greiða með. Í raun og veru fólst viðurkenning þess í orðum hæstv. viðskmrh., að hægt sé að kaupa iðnaðarvörurnar annars staðar, en í Ameríku, eða mjög mikið af þeim, þó að frá samkeppnissjónarmiði einu sé talið heppilegast að kaupa þær þaðan. En ameríska auðvaldið mun hafa áhuga fyrir, að vörurnar séu keyptar þaðan, og við þekkjum stóru framleiðsluhringana, sem leggja kapp á að leggja markaðina undir síg alls staðar.

Þá upplýsti hæstv. ráðh., að svona stæði illa viðskiptajöfnuðurinn við Bandaríkin, að 80% af innflutningi þaðan hefði verið greitt með Marshallfé. Hvað gerðu nú kollegar hans í brezku stj. í svona kringumstæðum? Mjög harðvítugar ráðstafanir til að draga úr þessum innflutningi frá Bandaríkjunum. Þeir hafa reynt það eins og þeir hafa getað, svo háðir sem þeir eru Bandaríkjunum, að hindra innflutning þaðan á hinum og þessum vörum. T.d. hefur verið harðvítug barátta um kvikmyndirnar, og hafa þeir brezku að vísu stundum orðið að láta í minni pokann. En ég hef aldrei orðið þess var hér, að þing eða stj. hafi gert neinar ráðstafanir til að reyna að sporna við innflutningi frá Bandaríkjunum. Í hvert skipti, sem mál þessi ber á góma, er slíku eytt, í stað þess að ef ríkisstj. hefði áhuga fyrir því að spara dollara mundi lagður fram listi ársfjórðungslega fyrir þjóðina um vörurnar, sem menn hefðu neyðzt til á síðasta ársfjórðungi að kaupa frá Bandaríkjunum, og síðan væri óskað eftir till. um, hvernig við gætum sloppið við það. Einmitt í þessu er áhugaleysið fyrir því að gera okkur óháða Bandaríkjunum um vörukaup. Virðist mér koma fram greinileg tilhneiging til að láta þetta ástand haldast, sem hæstv. ráðh. lýsti svo átakanlega, þegar hann sagði, að 80% af innflutningnum frá Bandaríkjunum væri greiddur með Marshallfé.

Þá minntist hv. ráðh. á skilgreiningu mína á áhrifum Marshallsamstarfsins og kvað mig telja það þýða raunverulegt samkeppnisstríð ameríska auðvaldsins gegn auðvaldinu í Vestur-Evrópu. Hann sagði okkur sósíalista berjast gegn Marshallsamstarfinu til þess að vernda auðvaldið í Vestur-Evrópu. En hér er verið að tala um árás ameríska auðvaldsins gegn verkalýðshreyfingunni í Evrópu, svo að það var óþarfi að snúa út úr þessu. Ég býst við, að það eigi eftir að koma enn áþreifanlegar á daginn, hvernig Bandaríkin eru að gera þessar stéttir háðar sér. Það má vera, að komi greinilega í ljós strax og eitthvað fer að létta til í Þýzkalandi, að amerísku auðfélögin séu búin að tryggja sér svo að segja öll völd yfir stóriðjunni í Ruhr, ítök í stálhringunum og kemísku hringunum, í þeim stóriðjuhringum, sem hafa verið voldugustu fyrirtæki Evrópu um áratuga skeið. Það er vert að hafa auga fyrir þessari þróun. Hún er það, sem gerist samtímis því, sem þetta volduga auðvald ræðst gegn alþýðunni í heiminum og gerir sínar ráðstafanir, fjárhagslegar, hernaðarlegar og pólitískar. Ameríska auðvaldið leggur nú kapp á að brjóta undir sig auðfyrirtæki annarra landa og hlífir þá engri stétt viðkomandi landa. Ég minntist á, að það er vegna þessa, að ég sé hættu á, að ameríska auðvaldið nái líka tökum hér á landi. Og við vitum, að það er byrjað að seilast hér til á slíkan hátt. Hæstv. ráðh. vildi líta svo á, að ekki gæti verið öðru til að dreifa en að mótspyrna okkar sósíalista gegn Marshalláætluninni gengi í þá átt að reyna að eyðileggja uppbyggingu atvinnulífsins hjá þjóðunum. Ég vil spyrja þennan hæstv. ráðh., af því að hann ætti að vera málinu kunnugur, hvort það hafi e.t.v. nokkur annar flokkur verið öllu ákveðnari í því að berjast fyrir uppbyggingu atvinnulífsins heldur en Sósíalistaflokkurinn hér á landi. Ég held þess vegna, að það sé nokkuð langsótt röksemd til þess að skýra okkar afstöðu til Marshalláætlunarinnar, að við hljótum að vera „prinsipielt“ með því að torvelda nýsköpun atvinnulífsins.

Þá minntist hæstv. ráðh. á það, að ekki þyrfti hátt kaup alltaf að þýða bætt kjör. Þetta er rétt, t.d. ef svo ómöguleg ríkisstj. starfar, sem sér um að hækka álögurnar, svo að það eyðileggst, sem tekizt hefur að ávinna. Lengst af hefur þetta þó orðið að vera eitt aðalatriði verkalýðshreyfingarinnar til að bæta sfn kjör innan ríkjandi skipulags. En það eru ómakleg orð á Sósfl. að segja, að hann hafi bundið sig við þessa aðferð einvörðungu. Hann hefur einmitt mjög eindregið barizt fyrir aukinni atvinnu almennings í landinu og átt þátt í að gera stórfelldar ráðstafanir í þá átt og jafnan barizt fyrir bættri tækni í okkar þjóðfélagi, svo að afköst verkamannsins eru nú miklu meiri en áður, til þess að mjög eðlilegur grundvöllur skapist fyrir bætt kjör hans.

Þá minntist hæstv. ráðh. á Landsbankann og sagði, að engin tilmæli hefðu komið frá honum. Ég er ekki í þeirri aðstöðu að geta hrakið það. Hins vegar kom skýrsla frá Landsbankanum til ríkisstj. og var útbýtt til þm. Hef ég skrifað undir skjal ásamt fleiri þm. um það, að sú skýrsla mætti verða birt. En hæstv. ráðh. virðist nú fyllilega vilja gefa í skyn, að að sínu áliti sé alls ekki óhugsandi, að einhverju af því, sem lagt yrði á þennan sérstaka reikning í Landsbankanum, yrði varið til að greiða skuldir. Og vissulega er það tekið sem fyrsta atriðið af því, sem talið er upp í samningnum hjá Bandaríkjastjórn, þegar talað er um að athuga þörfina á því, sem efla megi öryggi í fjármálum Íslands. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort þetta geti komið til mála, að viðurkenndar verði þannig kröfur Landsbankans. Er það með öllu leyfilegt eftir 2. gr., eða er það meiningin að nota upphæðina til þess að greiða skuldir við Landsbankann? 2. gr. hljóðar svo: „Að svo miklu leyti sem framlög þessi eru ekki notuð til kaupa á efnavörum, vélum og tækjum til framkvæmda, sem taldar eru í áætlun þeirri til langs tíma, sem lögð hefur verið til grundvallar efnahagssamvinnunni at Íslands hálfu, skal leggja til hliðar jafnvirði þeirra í erlendum gjaldeyri til kaupa á þessum vörum.“ Verður að fyrirbyggja, að það standi opið fyrir Landsbankanum að taka þetta fé upp í skuldir ríkisins. Út af þessum ráðstöfunum frekar um íslenzka gjaldeyrinn, þá held ég, að það sé nauðsyn að tryggja yfirráð hins íslenzka gjaldeyris engu síður, en hins erlenda, því að oft þegar leggja hefur átt í framkvæmdir hér, þá hefur strandað á því, að ekki hefur verið hægt að fá framlög í íslenzkum gjaldeyri. Ég held því, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda fast við áætlun sína, þá þurfi að gera hér í Alþingi þær ráðstafanir, sem tryggi framgang hennar.

Ég hef nú rætt þetta mál eins mikið og ég hef leyfi til við þessa umr, og mun ekki að svo stöddu leggja fram brtt., en geri það ef til vill við 3. umr. Mér þykir sýnt, að afgreiðsla málsins ætlar að verða með endemum, þar sem engar umr. fást, þannig að hv. þm. fylgist með, og geri ég ráð fyrir, að málið verði afgreitt án þess að menn geri sér ljóst, hvaða skuldbindingar Íslendingar takast þar með á hendur, og án þess að gera sér ljósar afleiðingar þeirra skuldbindinga. Þetta hefur alltaf verið svona, þegar ræddir hafa verið samningar við Bandaríkin, og eftir eitt til tvö ár kemur svo í ljós, að framkvæmd samningsins er alveg öfug við það, sem formælendur hans hafa látið í veðri vaka. Mig skyldi ekki undra, þótt fjárhagslegar afleiðingar af því að gefa Bandaríkjunum þessi áhrif á okkar atvinnulíf yrðu þær, að hættulegar tilraunir yrðu á næstunni gerðar til þess að ná mestu auðlindum okkar, öðrum en fiskimiðunum, undir erlend áhrif, og á ég þar við, að reynt verði að ná eignarréttinum á Þjórsá og þeirri stóriðju, sem byggist á orku þaðan. Meðferð hæstv, ríkisstj. á þessum málum hefur verið svo undarleg og svo óljós svör hennar, að ekki er undarlegt, þótt slíkan kvíða setji að manni, ekki sízt eftir það, sem maður hefur orðið var við í sambandi við Keflavíkursamninginn, þar sem svo lítur út sem framkvæmt sé eftir einhverjum allt öðrum samningi en gerður var. Annars mun ég ekki orðlengja þetta frekar við þessa umr.