13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

195. mál, Marshallaðstoðin

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hefja hér langar umr. við hv. 2. þm. Reykv. um þessa kenningu hans, en hér er fram komin brtt. frá honum á þskj. 710 í samræmi við þessa kenningu. Ég vil aðeins segja honum það, að bæði þessi ríkisstj., sem nú situr, og ég hygg flestar aðrar ríkisstjórnir hafa tekið þau lán, sem þau hafa tekið hjá bönkunum, með það fyrir augum að greiða þau aftur, en ekki með það fyrir augum að svíkjast um að borga þau. Svo getur það verið mál, sem þarf að athuga, hvort eigi að endurgreiða þessi lán á þennan hátt, með því að nota eitthvað af jafnvirðissjóðnum til þess eða taka það í fjárlög. Það er atriði, sem þarf að ræða og verður að ræða, þegar þar að kemur, og 3. gr. er sett til þess, að Alþingi ráði því, hvernig þessu fé er ráðstafað. Ef brtt. hv. þm. yrði samþ., þá þýðir það það, að ríkisstj. væri bannað að nota nokkuð af þessum sjóði til að grynna á skuldunum við bankann. Vissulega getur það komið til mála, að þetta fé verði ekki notað þannig, en það getur líka komið til mála, að það verði notað til þess, allt eftir því, sem hagkvæmast þykir, þegar ákvörðun er tekin um það, en ekkert af þessu fer fram hjá þinginu. Til þess er 3. gr., að engar ráðstafanir verði gerðar, nema það hafi áður verið borið undir Alþingi. Ef þessi brtt., sem hv. þm. ber fram, yrði samþ., þá væri búið að taka ákvörðun um, að sjóðurinn yrði aðeins notaður eins og hann leggur til, en útilokað, að hann yrði notaður til annars, og þá þyrfti ekki að bera málið undir þingið, því að þá hefur ákvörðunin verið tekin. Þegar af þeirri ástæðu finnst mér, að brtt. ætti að orðast öðruvísi. Ef hún er samþ., þá er búið að ráðstafa sjóðnum, ákveðið, að hann yrði notaður til að greiða innlendan kostnað, sem af stofnun þessara fyrirtækja leiðir, sem í 2. gr. segir, og þá virðist mér, að ekki þyrfti að bera málið undir samþykki Alþingis á ný. Þetta liggur ekki svo ljóst fyrir í augnablikinu. Ég, og ég ætla stj. öll, vil hafa opið, til hvers jafnvirðissjóðnum er varið, hvort hann verður að einhverju leyti notaður til að greiða skuldir og að einhverju leyti til þess, sem hv. 2. þm. Reykv. vill verja honum öllum til, eða jafnvel á annan hátt. Um þetta verður að hafa samkomulag, og það verður á sínum tíma borið undir Alþingi og þess vegna engin ástæða til að taka fyrir fram ákvörðun um það, eins og hv. þm. vill vera láta samkvæmt sinni till.

Hvað viðvíkur hjátrú á bókhaldsútkomu Landsbankans og að það sé hrein vitleysa að kúska fólkið til að greiða skuldir við bankann, þá mætti ræða um það langt mál. Ég skal ekki gera það að þessu sinni, mér finnst það ekki eiga heima hér. Hingað til hefur þeirri reglu verið fylgt að reyna að borga fé, sem fengið er að láni. Ef ríkið á að byrja á að breyta þar til og borga ekki og aðrir þá væntanlega koma þar á eftir, þá þýðir það algera stefnubreytingu í þessum málum, sem yrði þá að gera alveg sérstakar ráðstafanir í sambandi við. Það er ekki rétt, að bankinn tregðist við að lána fé, sem hann hefur til umráða. Hann hefur þegar í útlánum miklu meira en nemur sparifé og hefur orðið að taka stór lán hjá seðlabankanum til þess. Það er því ekki rétt, að bankinn hafi dregið að sér höndina um lánveitingar. Spurningin er fremur, hvort ekki hafi frekar verið farið of langt, en of stutt.

Að öðru leyti þykist ég ekki þurfa að ræða þetta frekar. Ég þykist líka hafa gert grein fyrir málinu í heild. Ég vil aðeins undirstrika það, að ég tel ekki æskilegt, að við þessar umr. sé slegið fastri einhliða notkun jafnvirðissjóðsins, og sé þá ekki, hvað málið ætti að gera inn í þingið aftur. Þá er búið að ráðstafa sjóðnum, og þyrfti ekki um það að tala meir. Þetta vil ég, að sé athugað, en engu slegið föstu fyrr en sú athugun hefur farið fram.