13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

195. mál, Marshallaðstoðin

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að segja nokkur orð um þetta mál, áður en það hlýtur afgreiðslu þessarar d.

Þegar Marshalláætlunin var til umr. hér á þingi á síðasta hausti, gerði ég allýtarlega grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég lýsti því þá yfir, að ég væri algerlega fylgjandi Marshalláætluninni og framkvæmd hennar og einnið aðild Íslands að þessari áætlun. Ég taldi, að rökin fyrir því, að Ísland ætti að gerast aðili að þessari alþjóðasamvinnu, væru þau, að Ísland gæti með því móti, eins og reynslan hefur síðan sýnt, fengið aðstöðu til að selja afurðir sínar fyrir dollara og einnig til að fá ýmsar innflutningsvörur, sem annars væri erfitt að fá, og enn fremur ef til vill hagkvæm lán til nauðsynlegra og arðbærra framkvæmda innanlands. Hefur þegar komið í ljós, að öll þessi rök hafa staðizt. Ég lýsti því einnig, að ég teldi, að aðild Íslands að Marshallsamvinnunni ætti ekki að verða til þess, að flutt yrði hingað til lands meira af neyzluvörum eða hráefnum í neyzluvörur en ella mundi verða, m.ö.o., að aðild okkar mætti ekki verða til þess að halda uppi í landinu neyzlu, sem að öðrum kosti hefði ekki átt sér stað. Enn fremur lét ég þess getið, og sama gerðu margir aðrir hv. þm., — að það væri óæskilegt, að til þess kæmi, að Ísland tæki við fjárframlagi án endurgjalds, sökum þess að hagur okkar í stríðinu hefði að mörgu leyti verið öðruvísi en flestra annarra þátttökuþjóða, Íslendingar hefðu hagnazt á stríðsárunum, andstætt því sem var um flestar aðrar þjóðir, þar sem þær hefðu orðið fyrir geysilegu tjóni sökum beinnar og óbeinnar þátttöku í stríðinu. Það var því skoðun mín og margra annarra, að Marshalláætlunin ætti ekki að verða til aukinnar neyzlu innanlands, heldur ætti eingöngu að nota þetta fé til uppbyggingar atvinnulífs landsmanna og meira að segja til uppbyggingar, sem ekki hefði verið ráðizt í að öðrum kosti. Nú hefur hins vegar komið í ljós, sem raunar mátti vita fyrir, að ýmsar neyzluvörur, sem óhjákvæmilegt var að flytja til landsins, hafa ekki verið fáanlegar annars staðar, en í Vesturheimi og ekki hægt að afla þeirra á annan hátt ,en sem lið í Marshallkerfinu. Ef þessar neyzluvörur hefðu verið fluttar inn sem liður í Marshalláætluninni, án þess að nokkrar aðrar ráðstafanir hefðu verið gerðar, hefði það verið brot gegn því grundvallaratriði, sem ég taldi skipta miklu máli, að aðild að Marshalláætluninni yrði ekki til að auka neyzlu innanlands. En eins og þetta frv. ber með sér, er einmitt tilætlunin, að tillit verði tekið til þess á þann hátt, að ef veitt er viðtaka framlagi án endurgjalds og það fé notað til þess að flytja inn neyzluvörur, þá sé skylt að leggja til hliðar í öðrum gjaldeyri samsvarandi upphæð, og nota hana til kaupa á vélum, tækjum og efnivörum til framkvæmda. Auðvitað gildir einu máli, hvaða gjaldeyrir er notaður til að kaupa þessi framleiðslutæki og efnivörur. Það brýtur ekki þessa meginreglu, sem ég gat um, ef jafnvirði þessara dollara er notað eingöngu til að afla framleiðslutækja. Ég geri einnig ráð fyrir, að lán verði ekki tekið til að kaupa neyzluvörur, enda hefur þingið það í hendi sér að láta ekki til þess koma, því að lán er ekki hægt að taka án samþykkis Alþingis.

Mig langar og til að vekja sérstaka athygli á einu atriði, Í gildandi l. um fjárhagsráð er það ákvæði, að leggja skuli árlega til hliðar af útflutningstekjum landsmanna 15% og að af því fé skuli verja til kaupa á framleiðslutækjum og annarrar nýbyggingar atvinnulífsins. Þrátt fyrir samþykkt þessa frv. verða ákvæði fjárhagsráðslaganna auðvitað í gildi áfram. Ég vil í þessu sambandi leggja sérstaka áherzlu á, að þetta fé, sem lagt verður til hliðar í öðrum gjaldeyri en dollurum, vegna þess að Íslendingar fá dollara sem líð í Marshalláætluninni, verði ekki notað til að kaupa framleiðslutæki, sem hefði verið hægt að afla með þeim 15% af útflutningstekjum, sem á að leggja til hliðar í erlendum gjaldeyri til slíkra nota samkvæmt fjárhagsráðslögunum. Ég geng m.ö.o. út frá því sem sjálfsögðu, að þessi framlög, sem fást til að kaupa atvinnutæki í sambandi við Marshalláætlunina, verði ekki til þess, að dregið verði úr kaupum á framleiðslutækjum af venjulegu útflutningsandvirði, enda væri það ekki hægt, meðan l. um fjárhagsráð eru enn í fullu gildi. Ég legg sérstaka áherzlu á, að það verði haldið áfram að verja 15% a.m.k. af útflutningsverðmæti landsmanna til að kaupa nýbyggingartæki og efnivörur, en það, er fæst sem óafturkræft framlag í sambandi við Marshalláætlunina til að kaupa framleiðslutæki, verði til viðbótar þessum 15%, sem verja á í slíku skyni samkvæmt fjárhagsráðslögunum, og það er í trausti þess, að framkvæmdin verði þannig, að ég fylgi þessu frv. Ég geri mér auðvitað ljóst, að sé efnt til fjárfestingar innanlands fyrir framlög erlendis frá, þá veldur það aukinni neyzluþörf í landinu og kallar á nýjan innflutning neyzluvöru. Ég hef ekki á móti slíkum neyzluvöruinnflutningi. Hann er eðlileg afleiðing af þeirri tekjumyndun, sem hlýzt af fjárfestingunni. Það, sem ég er andvígur, er, að hin erlendu framlög verði að einhverju leyti beint og þegar í stað notuð til neyzluaukningar.

Það kann að mega segja, að ýmsar aðrar þjóðir ættu meiri siðferðilegan rétt til slíkra framlaga með tilliti til ástæðna okkar og þeirra á stríðsárunum, en því er þó ekki að leyna, að efnahagsástæður okkar eru mjög erfiðar nú, og þegar það er haft í huga, að tilætlunin er að verja aðstoðinni í fyrirtæki, sem eru mjög nauðsynleg fyrir efnahagslíf Íslendinga í nútíð og framtíð og raunar einnig fyrir efnahagssamvinnu Norðvestur-Evrópu, þá væri það mjög mikill ábyrgðarhluti að neita að veita þessu fé viðtöku. Vissulega hefði verið æskilegast, að þróun efnahagsmála þjóðarinnar hefði verið þannig, að við hefðum átt hægt með að komast af án slíkra framlaga. Ástandið er hins vegar þannig, að svo er ekki. Það er þó bót í máli, að þessu fé verður einungis varið í fyrirtæki, sem miða að því að efla atvinnulífið, fyrirtæki, sem engar líkur eru til, að kæmust upp að öðrum kosti. Þess vegna mun ég greiða atkv. með þessu frv. Ég legg þó enn á það höfuðáherzlu, að aðild okkar að þessari efnahagssamvinnu verði ekki til þess, að hér verði haldið uppi neyzlu, sem ekki hefði átt sér stað að öðrum kosti, en ég tel það tryggt með þessu frv., að svo verði ekki. Meðan svo er, að aðstoðinni er einvörðungu varið til fyrirtækja, sem nauðsynleg eru atvinnulífi okkar og efnahagssamvinnu Norðvestur-Evrópu, þá er það skoðun mín, að rétt sé og skynsamlegt að halda áfram þátttöku í þessari samvinnu. Ég tel það alrangt að telja okkur Íslendinga styrkþega, þótt við tökum þátt í þessari samvinnu. Slíkt mætti segja, ef við notuðum það framlag, sem við fáum, til neyzlu, en meðan því er einungis varið til nauðsynlegra fyrirtækja, sem næstum óhjákvæmilegt væri að koma upp að öðrum kosti, þá tel ég slík ummæli óviðeigandi og óverjandi að hverfa frá aðild í þessu þjóðasamstarfi.