13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

195. mál, Marshallaðstoðin

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt, að hv. þm. V-Húnv. skuli ekki hafa lesið brtt. mína, sem hann talar um. Um hvað hljóðar hún? Ríkissjóður fengi með því móti 16 millj. kr. til atvinnuframkvæmda, sem hv. þm. veit vel, að ríkið er í vandræðum með. En ef þær væru settar í Landsbankann, er engin trygging fyrir því, að þær kæmust út í atvinnulífið. Ríkið er stærsti atvinnuveitandi á Íslandi. Það vantar fé. Ef ríkissjóður fengi þessar 16 milljónir, gæti ríkið sett þær beint í framkvæmdir hvar sem er, t.d. í stórvirkjanir fallvatna, sem brýnust þörf er á. Hefur hv. þm. V-Húnv. trú á, að betra væri að borga þær fyrst inn í Landsbankann? Ég held, að hv. þm. ætti að lesa till. mína betur. Hún er um það, að þessum 16 millj. verði veitt beint út í atvinnulífið, svo að ekki þurfi að sækja þær til þess í greipar Landsbankavaldsins og tryggt sé, að þeim yrði varið t.d. til stórvirkjana, sem eru skilyrði fyrir því, að fjölmargir einstaklingar geti lagt út í sinn atvinnurekstur, sem bíður eftir því, að rafmagnsþörfinni sé fullnægt.