22.10.1948
Neðri deild: 6. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

1. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hinn 16. júní s.l. voru gefin út bráðabirgðal., sem lagt er til, að hér verði samþ. á Alþ., en það er viðauki við l. nr. 109 1945, um togarakaup ríkisins.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir upphaflegu bráðabirgðal., er það í samræmi við yfirlýsta stefnu ríkisstj. að láta fara fram athugun á því, á hvern hátt væri hægt að auka og fullkomna íslenzka togaraflotann. Ríkisstj. hafði rætt það nokkuð sín á milli og komst að þeirri niðurstöðu, að sjálfsagt væri að gera tilraun til þess að fá svo fljótt sem kostur væri á 10 nýja togara til landsins. Það var þess vegna eftir samráði innan ríkisstj., að hæstv. samgmrh; lýsti því yfir á sjómannadaginn 6. júní, að ríkisstj. hefði ákveðið að auka togaraflotann a.m.k. um 10 skip til viðbótar þeim, er áður hafði verið samið um smíði á.

Áður en bráðabirgðal. þessi voru gefin út, gerði ríkisstj. sinn fyrsta undirbúning í því að athuga, á hvern hátt væri tiltækilegt að láta smíða a.m.k. 10 nýja togara. Gísli Jónsson hv. þm. Barð., sem hefur haft eftirlit með smíði hinna 32 nýju togara, sem flestir eru komnir til landsins, dvaldi þá erlendis, og ríkisstj. símaði honum og bað hann í ferð sinni að koma við í Bretlandi og athuga hjá brezkum skipasmíðastöðvum og þá ekki sízt hjá þeim, sem samið hafði áður verið við, um möguleika á að fá smíðaða 10 nýja togara fyrir Ísland. En samtímis því sem Gísla Jónssyni var falið þetta, fól ríkisstj. sendiráðum sínum í Washington, Svíþjóð og Danmörku að athuga þar í löndum, hvort tiltækilegt væri og unnt að fá þar byggða 10 togara, sem hæfilegir þættu og væru í samræmi við óskir Íslendinga. Gísli Jónsson þm. skilaði svo áliti, þegar hann kom úr utanför sinni, um möguleika á því að fá byggða 10 togara í Bretlandi, og hafði hann í þessari utanför sinni sérstaklega rætt við þau firmu, sem tekið hafa að sér að smíða þá togara, sem flestir eru nú komnir til landsins. Þessar skipasmíðastöðvar skýrðu frá því, að þær væru reiðubúnar til þess að taka að sér að smíða nýja togara, en hins vegar væru þær, eins og allar skipasmíðastöðvar, sem starfa bæði í Bretlandi og annars staðar, mjög hlaðnar störfum, því að eftir stríðið og jafnvel áður en því var lokið, höfðu runnið inn beiðnir til skipasmiðastöðvanna í Bretlandi og annars staðar.

Eftir nokkurn tíma fengum við fyrir milligöngu sendiráðanna í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Washington upplýst, hvaða möguleikar væru þar í löndum fyrir smíði 10 togara. Í Svíþjóð og Danmörku báru skipasmíðastöðvarnar það fyrir sig, að það væru yfirleitt engin tök á því á næstu árum að fá slíka togara smíðaða, bæði vegna þess, að sumar skipasmiðastöðvarnar þar væru allsendis óvanar að byggja togara, og þá ekki siður hins, að þær væru mjög hlaðnar pöntunum á ýmsum skipum, sem þeim höfðu fyrir löngu borizt. Frá Bretlandi bárust hins vegar þær upplýsingar, að unnt væri að fá á ekki mjög löngu tímabili smíðaða þessa togara. En þær upplýsingar fylgdu með, að þessir togarar mundu nokkuð dýrir, og var miðað við vissa tegund togara, sem í Bretlandi eru mjög þekktir, en það var ekkert ákveðið með kaupin. Þá voru einnig athugaðir möguleikar um smíði þessara skipa í Bandaríkjunum fyrir Íslendinga, en það kom í ljós við athugun þar til fróðra manna, að þeir togarar, sem smíðaðir eru í Bandaríkjunum, mundu alls ekki henta íslenzkum staðháttum. Þótti því sýnt, að ekki væri til neins að hugsa sér að leita til Danmerkur, Svíþjóðar eða Bandaríkjanna um smíði á togurum, sem hentuðu Íslendingum.

15. júlí var skipuð n. til þess að gera till. um gerð, útbúnað og stærð þessara togara og hvort þeir skyldu vera knúðir eim- eða dieselvélum. í n. voru skipaðir Kjartan Thors, formaður Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, Gísli Jónsson þm., Ásgeir Þorsteinsson verkfræðingur, Ásgeir Stefánsson útgerðarmaður, Sigurjón Á. Ólafsson þm., og Hreinn Pálsson útgerðarmaður. Nefndinni var falið að hafa samstarf við útgerðarmenn og skipstjóra og þó sérstaklega Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, skipaverkfræðinga landsins og þá, er þegar hafa leitað eftir kaupum á togurum, en þeir voru þá þegar orðnir allmargir, án þess þó að ríkisstj. hefði opinberlega auglýst eftir óskum manna í þessu efni. Nefnd þessi skilaði svo áliti, dagsettu 10. ágúst, og tekur n. það fram í áliti sínu, að hún hafi leitað álits og samvinnu við væntanlega kaupendur, útgerðarmenn, stéttarfélög og aðra aðila, sem málið snertir á einn eða annan hátt, allt á sama hátt og gert var við undirbúning á smíði nýsköpunartogaranna árið 1945, en þó með viðeigandi breytingum:

1. að skipin verði lengd frá 175 fetum allt upp í 195 og að það rúm, sem fæst við lenginguna, verði notað til fiskimjölsiðnaðar og skipin því útbúin með fiskimjölsvélum;

2. að skipin verði útbúin með eimvélum á líkan hátt og nýsköpunartogararnir. Þó kom fram ósk um að, að minnsta kosti eitt af þessum skipum yrði útbúið sem dieselskip. Skipaverkfræðingar þeir, sem n. leitaði til, sendu frá sér ýtarlega grg., þar sem lagt var til eindregið, að skipin yrðu útbúin með dieselvélum og að ýmsar aðrar breytingar yrðu gerðar á skipunum, sem flestar fóru í þá átt að nálgast hugmyndina um tveggja þilfara togara;

3. að lestar skipanna verði útbúnar með kælitækjum til þess hvort tveggja í senn að spara ís og jafnframt að tryggja betri geymslu á fiskinum;

4. að einnig verði gerð nokkur breyting á fyrirkomulagi á geymslu fyrir veiðarfæri í samráði við kaupendur; að nokkrar breytingar verði gerðar á íbúðum og borðsal, er til bóta megi verða;

5. að lýsisgeymar verði stækkaðir og olíugeymum verði dreift meira um skipið til þess að geta haft meira vald yfir hleðslu þess á hverjum tíma;

6. að athuga möguleika fyrir því að hækka stjórnpall, svo að unnt sé að fá rúm fyrir lifrarbræðslu og fleira þar, sem nú er herbergi skipstjóra;

7. að skipið verði útbúið með bátaþilfari;

8. að kaupendum verði gefinn kostur á að ráða að einhverju leyti sjálfir, eftir því sem við verður komið, um val á togvindum og öðrum aukavélum í skipunum.

Í sambandi við þessar óskir, sem fram komu til þessarar n., bendir hún á í álitsgerð sinni, að engar líkur séu til þess, að unnt verði að lengja skipin upp í 195 fet nema jafnframt að breyta öðrum stærðum, svo sem dýpt og breidd. Nefndin tók einnig fram, hvað viðvíkur fiskimjölsvélum, þá væru þær eftir upplýsingum, sem hún hefur fengið, allt of rúmfrekar og að mörgu leyti óheppilegar til notkunar í togurum, en með því að óskir útgerðarmanna eru svo almennar að fá skipin útbúin með slíkum vélum og ljóst er jafnframt, að hér getur verið að ræða um töluverða tekjulind fyrir útgerðarmenn, ef hægt er að fá hentugar og öruggar vélar til þess að vinna úr úrganginum, sem tækju þó mun minna rúm en þær vélar, sem nú eru notaðar, er n. sammála um, að mál þetta þurfi skjótrar og raunverulegrar athugunar. Þá taldi n. nauðsynlegt að athuga, á hvern hátt kælingu skuli fyrir komið í lestum, og telur, að það sé mjög mikils virði, að slíkt sé ekki framkvæmt af handahófi, heldur eftir mjög nákvæma rannsókn af sérfræðingum.

Niðurstaða n. hefur því orðið sú, eftir að hafa leitað til þeirra, sem hér hefur nú verið greint frá að, að minnsta kosti 8 af hinum 10 væntanlegu togurum verði byggðir sem eimtogarar af líkri gerð og nýsköpunartogararnir. Í öðru lagi, að einn til tveir togarar verði byggðir með dieselvélum. Ég vil geta þess, að einn nm., Hreinn Pálsson útgerðarmaður, gerði ágreining sérstaklega um gerð togaranna, hvort þeir ættu að vera dieseltogarar eða eimknúðir togarar, og hann lagði til, að það yrðu fengnir fleiri togarar með dieselvélum.

Að fenginni þessari álitsgerð frá þessum sérfróðu mönnum ákvað ríkisstj. að senda menn til Bretlands til þess að athuga um, hvort unnt væri að fá smíðaða 9–10 togara, og fékk þeim í veganesti þá álitsgerð, sem ég hef nú drepið á, og var það álit ríkisstj. og n., sem valin var til fararinnar, að rétt væri, að 8 af hinum væntanlegu 10 togurum yrðu eimknúðir, en 1–2 togarar dieselknúðir. Sömuleiðis var þessari n. falið að athuga, hvort ekki væri hægt að fá nokkrar breytingar gerðar á togurum þessum frá nýsköpunartogurunum, t.d. fá þá lengda allt að 185 fet, en eins og kunnugt er, hefur einn nýsköpunartogarinn, Neptúnus, þá stærð; hann er um 183 fet, ef ég man rétt. Nefnd þessi, er skipuð var Gísla Jónssyni, Jóni Axel Péturssyni hafnsögumanni og Valtý Blöndal bankastjóra, fór síðan til Bretlands og ræddi þá við ýmsar skipasmíðastöðvar. Þær skipasmíðastöðvar, sem n. ræddi sérstaklega við, höfðu sumar áður tekið að sér að byggja nýsköpunartogara, sem flestir eru nú komnir til landsins, og einnig nokkrar skipasmíðastöðvar, sem ekki höfðu smíðað fyrir okkur áður, en voru vel þekktar sem slíkar. Einnig var n. falið að fara til allra skipasmíðastöðva í Bretlandi, sem til greina gætu komið að geta tekið þessar byggingar að sér. Það kom í ljós, eins og vitað var áður, að þær höfuðstöðvar Bretlands, sem frekast var um að ræða, voru allar mjög hlaðnar pöntunum. Þær skipasmíðastöðvar, sem gerðu sameiginleg tilboð, hafa nú þegar í smíðum skip, sem hér segir:

1. Mr. Cochrane & Son, Ltd., Selby — 30 skip, flest togarar;

2. Gook, Welton & Gemmel, Beverley — 18 skip, togarar;

3. Goole Shipbuilding Co., Goole — 14 skip, af ýmsum gerðum;

4. Alexander Hall, Aberdeen — 10 skip, togarar;

5. John Lewis & Sons, Aberdeen — 14 skip, togarar og önnur skip.

6. Hall Russel, Aberdeen — 10 skip, af ýmsum gerðum.

Samningan. ræddi síðan við þær skipasmiðastöðvar, sem til greina gátu komið, og tóku þær strax fram, að togarar af sömu gerð og nýsköpunartogararnir, sem þegar eru smíðaðir, mundu verða talsvert dýrari nú í Bretlandi, vegna þess að ýmis kostnaður hefði hækkað síðan samið var 1945. Mr. Lewis Cochrane stýrði þessum fundi. Skýrði hann nefndinni frá því, að viðstaddir skipasmiðir hefðu nú athugað mjög gaumgæfilega möguleika á því að smíða 8–10 eimtogara og 1–2 dieseltogara af sömu gerð og áður og hefðu komið sér saman um að bjóðast til þess að smíða eimtogarana fyrir £ 126250:0:0 á hvert 175 feta skip samkvæmt verklýsingu þeirra skipa, eins og þær hefðu verið gerðar árið 1945, að viðbættum endurbótum, sem gerðar hefðu verið á þeim og numið hefðu tæpum 4.000 pundum. Væri tilboð þetta miðað við núverandi verðlag á vinnu og efni og háð sömu verðbreytingum og ákveðið hefði verið í því samningsuppkasti, sem n. hafði nú meðtekið. Lagði Mr. Cochrane þá fram eftirfarandi sundurliðun á verðhækkun frá 1945, er sýndi, að verðmismunurinn væri tæp 10.000 pund á skip til hækkunar frá því, sem samið var um árið 1945, sem stafaði af hækkun á ýmsum liðum, sem verðbreytingarákvæði þeirra samninga hefðu ekki náð yfir, og er sundurliðunin á þessa leið:

1. Grunnverð 1945 98.000

2. Hækkun á stáli 16/6 1.213

3. – – – 5/- 367 – 1580

4. – – – 23/6 1.727

5. – – – 3/6 325 – 3.632

6. – – – vinnu 5.880

7. Stytting vinnutíma 5.880 – 11.760

8. Aukagreiðslur á bol 2.068

9. – – vél 1.035 3103

Verðhækkanir, sem ekki er greitt fyrir:

10. Trjáviður 1.350

11. Rafmagnsvörur 250

— 1600

12. Aukavélar 5.650

13. Smíðastál 1.300

14. Eimvatnshitari 400

15. Olíukælari 200 7.550 9150

& 12.5645

Verðtilboðið miðast við, að tekin verði minnst 2 skip frá hverri smiðju og afhendingartími á fyrsta skipi væri í nóv. 1950, en síðasta í marzlok 1952, ef tekin yrðu skip frá öllum viðkomandi skipasmiðjum, sem þó væri ekki gerð krafa um af þeirra hálfu, enda hefðu kaupendur frjálst val, hverja af þessum aðilum þeir vildu láta byggja fyrir síg. Væru því möguleikar fyrir því að færa afhendingu á 10. skipi fram í sept. í stað marz 1952, en þá kæmi hvorki til greina að taka skip frá Beverley né Selby Aðilar höfðu orðið sammála um að fallast á eftirfarandi greiðsluskilmála samkvæmt ósk samninganefndar:

1. 2% við undirskrift samninga.

2. 7% sex mánuðum síðar, og eftirstöðvarnar samkvæmt fyrirmælum samningsuppkastsins. Skipasmiðir rökstuddu lokatilboð sín með því, að verðhækkun á vélum væri nú 10% frá grunnverði 1945, verð á rafmagnsvörum og timbri hefði síðan hækkað stórkostlega og nú yrðu þeir að greiða tryggingagjöld starfsmanna sinna, sem ekki hefði verið skylda að greiða áður, og auk þess yrðu þeir að yfirkaupa starfsfólk og greiða því allt að 25% í viðbót við hin opinberlega skráðu launakjör, sem allar verðbreytingar væru miðaðar við í samningnum.

Eftir að ríkisstj. hafði athugað málið um stund, tilkynnti hún n. á fundi 24. sept., að hún óskaði eftir því, að hin sameiginlegu tilboð hinna 6 skipasmíðastöðva yrðu samþykkt og að n. tæki sér far til Bretlands svo fljótt sem verða mætti til þess að ganga endanlega frá verklýsingum og teikningum við þá aðila, sem boðizt hefðu til þess að smíða skipin, á grundvelli þeirra óska, sem fram hefðu komið hjá undirbúningsn., og í samræmi við þau tilboð; sem fyrir lágu. Tók ríkisstj. það fram, að hún óskaði eftir því, að af þeim 10 togurum, sem um ræðir, yrðu 8 útbúnir með eimvélum, en 2 með dieselvélum, en með því að nokkur ágreiningur væri í n. um tegund og gerð dieselvélanna, væri rétt að ráðgast um það atriði á ný við þá verkfræðinga, sem látið hefðu í ljós álit sitt um skipabyggingarnar við n.

Þann 27. sept. s.l. fóru þeir Gísli Jónsson og Jón Axel Pétursson ásamt Erlingi Þorkelssyni til Bretlands á ný til þess að ganga frá verklýsingum og samningum um togarakaupin við þá skipasmiði, sem tilboðin höfðu verið samþykkt frá. Nefndin hélt fyrst til Aberdeen til þess að ræða þar við skipasmíðastöðina, ganga frá öllum verklýsingum og teikningum og semja að nýju um þær endurbætur, sem gera þurfti á skipunum. Kom þá fyrst til greina stærð skipanna og vildu skipasmiðirnir ekki, eftir að hafa athugað málið mjög gaumgæfilega, lengja skipin um meira en 8'6“, eða upp í 183'6“, nema því aðeins að bæta við breidd þeirra.

Þann 9. þ. m. voru endanlegir samningar undirritaðir við þá aðila, sem hér segir:

1. Við Hall Russel & Co., Ltd., Aberdeen, um smíði á 3 eimtogurum til afhendingar á tímabilinu í nóv. 1950 til marz 1951. Er þessi skipasmíðastöð mjög vel þekkt fyrir smíði á togurum, en hefur ekki áður smíðað togara fyrir Íslendinga.

2. Við Alexander Hall & Co., Ltd., Aberdeen, um smíði á 3 togurum til afhendingar á tímabilinu í des. 1950 til marz 1951, en þessi skipasmiðastöð hefur þegar smíðað og afhent 5 togara fyrir ríkisstj. og hefur auk þess í smíðum 2 togara fyrir ríkisstj., sem eiga að afhendast á þessu ári.

w 3. Við John Lewis & Co., Ltd., Aberdeen, um smíði á 2 togurum til afhendingar í janúar og maí 1951. Hefur þessi skipasmíðastöð smíðað 5 af nýsköpunartogurunum, sem allir eru komnir til landsins.

Höfðu þessir aðilar boðizt til þess, eins og fyrr greinir, að smíða 175 feta skip fyrir 125.750 pund með þeim endurbótum, sem rætt hafði verið um á fundinum 9. sept. Nú voru það sameiginlegar óskir undirbúningsn. og nefndarmanna almennt, að eftirfarandi breytingar yrðu gerðar á skipunum, er n. þótti rétt að taka til greina:

1. að lengja skipin úr 175 fetum upp í 183'6“, en halda sömu dýpt og breidd og á hinum fyrri skipum ;

2. að koma fyrir 40 smálesta olíugeymi í framenda skipsins;

3. að lengja yfirbyggingu skipsins og útbúa fyrir aftan skipstjóraherbergi geymslu fyrir veiðarfæri, áhöld o.fl.

Ég skal geta þess, að nefndin athugaði sérstaklega möguleikana á því að setja beinavinnsluvélar í togarana, en þær eru svo fyrirferðarmiklar og taka svo mikið lestarrúm, að það vár ekki talið fært.

Þetta er það, sem gert hefur verið til bóta, frá því sem áður var. Við þetta hækkaði verðið um 7250 pund, en endanlegt verð er 133.000 pund. En þetta verð er háð þeim breytingum, sem verða kunna á verði efnis og vinnu samkvæmt hinum svokallaða „glíðandi skala“, sem skip eru nú alls staðar byggð eftir, nema þau verði mun dýrari, svo að skipasmiðirnir tryggi sig fyrir þessari áhættu. Venjulega er það verð óhagstæðara, nema alveg sérstaklega standi á.

Goole Shipbuilding Company, sem er nú að smíða fyrir okkur tvo dieseltogara, er koma eiga til landsins annar í árslok, en hinn síðar, tekur að sér smíði hinna tveggja nýju dieseltogara, og eiga þeir að afhendast á tímabilinu febrúar–september 1951. Stærð þeirra er: lengdin 175 fet, breiddin 30 fet og dýptin 16 fet. Grunnverðið er 129.500 pund.

Það er þannig búið að ganga frá samningum um kaup á 10 togurum og samningarnir undirskrifaðir.

Ég kem þá að greiðsluskilmálunum. Það er yfirleitt regla um nýbyggða togara, að greidd eru 21/2% af samningskostnaðarverði, þegar samningar eru undirskrifaðir, og 71/2 % sex mánuðum síðar. Síðan eru greidd 20% þegar kjölur hefur verið lagður, 20% þegar byrðingurinn er kominn upp, 10% þegar plötunum hefur verið komið fyrir, 20% þegar skipinu er hleypt af stokkunum og loks 20% við afhendingu.

Samkvæmt samningunum á að greiða í yfirstandandi mánuði 33.075 pund. Búið er að greiða áðurnefnd 21/2% af samningskostnaðarverði átta eimtogara, en fyrir dieseltogarana hafa þau ekki enn verið greidd. Greiðslunum heldur svo áfram samkvæmt samningunum. Í apríl 1949 á að greiða 99.225 pund, í október 1949 26.600 pund, í desember 1949 53.200 pund. Árið 1950 á að greiða: í janúar 26.600 pund, í febrúar 132.300 pund, í marz 66.500 pund, í apríl 79.100 pund, í maí 26.600 pund, í júní 119.000 pund, í júlí 79.451 pund, í ágúst 65.800 pund, í september 66.500 pund, í október 79.100 pund, í nóvember 52.850 pund og í desember 53.200 pund. Greiðslurnar 1951, á tímabilinu janúar –september, eru svipaðar eða frá 25.000 upp í 53.000 pund. Samtals þarf að greiða 33.075 pund á árinu 1948, 179.025 pund á árinu 1949, 847.000 pund á árinu 1950 og rúm 300.000 pund á árinu 1951. Alls verður þetta fyrir alla togarana 1.323.000 pund.

Það má kannske segja, að það gæti mikillar bjartsýni hjá stj. að gera slíka samninga, án þess að gjaldeyrir sé tryggður og fjármagn innanlands. En stj. telur, að árferðið verði verra en ástæða er til að reikna með, ef Íslendingar geta ekki á tímabilinu 1949–1951 innt þessar greiðslur af hendi. Ég skal geta þess, að stj. hafði samráð við fjárhagsráð um þetta mál, sem samþykkti fyrir sitt leyti að greiða fyrir leyfum til kaupa á þessum skipum.

Ég gat um það áður, að Valtýr Blöndal bankastjóri fór utan í sambandi við þetta mál, og síðar fór Jón Maríasson bankastjóri einnig utan að beiðni ríkisstj. Áður hafði verið um það rætt við banka erlendis, sérstaklega Barclay's Bank, hvaða möguleikar væru á því, að þeir hjálpuðu til um útvegun lánsfjár, fyrst og fremst svokallaða „exportkredit“. Málið var nú rætt ýtarlega við Barclay's Bank, og eru möguleikar á því, að brezka ríkið vilji veita „exportkredit“, sem nemi 40% af andvirði togaranna, og ekki þarf að greiða fyrr en tveimur árum eftir að skipin eru afhent. Það hefur þó ekki verið gengið frá samningum um þetta, því að ríkisstj. vill athuga, hvort möguleikar eru á því að koma þessum skipakaupum undir Marshall-aðstoðina. Þannig hefur ekki enn þá verið gengið endanlega frá útvegun gjaldeyris, en möguleikarnir munu verða athugaðir til þrautar, bæði hvað snertir exportkredit og Marshallaðstoð.

Ríkisstj. hefur ekki tekið ákvörðun um það, hvað þeir aðilar, sem kaupa togarana, þurfa að leggja fram. Stofnlánasjóðurinn við Landsbankann getur ekki einu sinni sinnt öllum togurunum, sem samið var um 1945, það vantaði lánsfé fyrir að minnsta kosti sex togara, auk þess er óafgreitt æði mikið af lánsbeiðnum frá verksmiðjum og frystihúsum. Það er því til athugunar, hvað gera þarf til þess að útvega kaupendum togaranna einhver lán og hvað strangt á að fara í sakirnar varðandi eigin framlög. Ég tel sjálfsagt, að kaupendur verði sjálfir að útvega þó nokkurn hluta af andvirðinu, en ekkert hefur enn verið ákveðið af hálfu ríkisstj. um þetta. Ég geri ráð fyrir því, að áður en langt um líður verði auglýst eftir því, hverjir vilja kaupa togarana, og að stjórnin geti þá um leið þeirra skilyrða, er hún setur fyrir kaupunum.

Ég held, að ég hafi svo ekki fleira að segja á þessu stigi málsins. Að mínu viti er þetta merkilegt spor í þá átt að bæta íslenzka togaraflotann, þótt ekki sé það neitt lokaspor. Það er bezt að reikna með því, að þannig verði áfram fetað, ekki sízt þar sem margir eldri togararnir eru mjög úreltir og dýrir í rekstri, og hafa því miður verið reknir með tapi undanfarin ár, sem numið hefur 200–300 þús. kr. á ári. Ef aðgerð færi fram, mundi hún kosta um 1 millj. kr. á skip, og geri ég ráð fyrir, að fáir vilji leggja út í það. Við verðum því að reikna með því, að þeir heltist úr lestinni og að fylla verði upp í skörðin og bæta við. Ættum við þannig á tiltölulega stuttu árabili að eignast mjög fullkominn togaraflota.

Ég tel, að ríkisstj. hafi með þessu stigið merkilegt spor, og veit, að landsmenn fagna því að fá nú 10 nýja togara til viðbótar, enn þá fullkomnari en þá, sem komið hafa á síðustu árum.

Ég hef talið rétt að gefa þessar upplýsingar og vil að lokum óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og fjhn.