13.05.1949
Neðri deild: 108. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

1. mál, togarakaup ríkisins

Skúli Guðmundsson:

Ég á hér brtt. á þskj. 691 um það, að nýrri gr. verði bætt í frv. Efni þeirrar gr. er það, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán eða lána bæjar- og sveitarfélögum, sem kaupa togara, allt að 10% af kostnaðarverði skipanna, ef ríkisstj. telur, að viðkomandi bæjar- eða hreppsfélag þurfi á þessari aðstoð að halda. Síðan eru þarna sett skilyrði fyrir þeirri aðstoð, sem eru þau, að viðkomandi skip verði rekin af bæjar- eða hreppsfélögum eða félögum, sem njóta bakábyrgðar bæjar- eða hreppsfélaga. Samkvæmt þessu er ætlazt til, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs allt að 1,5 millj. kr. lán. Það, sem fyrir mér vakir með þessu, er að greiða fyrir því, að eitthvað af þessum 10 togurum geti farið til annarra staða en þeirra stærstu, þar sem togaraútgerð er mest, ef óskir koma frá þeim stöðum um að fá eitthvað af skipunum. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að 27. apríl 1947 var samþ. hér í Sþ. ályktun um ríkisaðstoð til bæjar- og hreppsfélaga til togarakaupa, og var sú ályktun efnislega að mestu leyti samhljóða þessari till., sem ég ber hér fram, og samkv. þeirri heimild mun ríkisstj. hafa veitt nokkrum bæjar- eða hreppsfélögum aðstöðu til þess að kaupa nokkra af þeim 30 togurum, sem fyrrv. ríkisstj. festi kaup á. Ég tel, að á sama hátt sé ástæða til að greiða fyrir því með heimild ríkisstj. til handa, að eitthvað af þessum nýju skipum geti farið til annarra staða en stærstu verstöðvanna, þar sem fjármagnið er mest. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa brtt. mína.

Þetta frv. er fyrsta mál þingsins og hefur legið óafgreitt frá því í þingbyrjun. Er það eftir ósk ríkisstj., að fjhn. hefur frestað afgreiðslu þess, þar sem hæstv. ríkisstj. mun hafa þurft tíma til þess að leita fyrir sér um lánsmöguleika í Bretlandi. Það mun hafa verið gerð grein fyrir málinu við 1. umr. af hæstv. forsrh. En ég hefði talið fara miklu betur á því, að í grg. frv. hefði verið skýrt frá samningum um þessi skip í höfuðatriðum. Ég hef núna nýlega lesið það í blaði, að einn útgerðarmaður á Akureyri sé að kaupa nýjan togara erlendis frá, sem eftir þeim fregnum að dæma virðist vera töluvert fullkomnari en þessi skip, sem ríkisstj. hefur samið um smíði á. M.a. stendur í frásögninni af þessu skipi, að þar verði lifrin unnin með einhverri nýrri aðferð, sem geri það að verkum, að hún nýtist miklu betur. Er jafnvel talið, að verðhækkun á lifrinni vegna þessarar nýju aðferðar geti numið um 3 þús. sterlingspundum yfir árið, eða 80 þús. íslenzkum krónum. Er hér um mikinn mun að ræða, ef þetta hefur við rök að styðjast. Enn fremur hefur verið skýrt frá því í blöðunum, að þessi nýi togari útgerðarmannsins á Akureyri muni hafa fiskimjölsvélar, þannig að allur afli, sem á skipið kemur, verði hagnýttur. Þessu mun ekki vera til að dreifa um togara ríkisstj. Munu togarar þessir vera stærri en þeir 30 togarar, sem fyrrv. ríkisstj. samdi um kaup á, en annars ekki ólíkir þeim að öðru leyti. Þegar þetta er athugað, dreg ég í efa, að þarna hafi verið unnið að á þann heppilegasta hátt fyrir ríkisstj., við samninga um þessi nýju skip. Það er sem sagt þannig með þessa 30 togara, sem fyrrv. ríkisstj. samdi um kaup á, og eins með þessa 10, að þeir verða reknir með því gamla ólagi, að verulegum hluta þeirra verðmæta, sem aflast á skipin, er fleygt jafnóðum fyrir borð. Þetta finnst mér langt frá því að vera menningarlegur atvinnurekstur, og þess vegna sérstaklega athyglisverð þessi nýung, sem blaðafregnir herma, að sé á ferðinni hjá útgerðarmanninum á Akureyri. Það, sem þarf að stefna að í þessum efnum, er vitanlega það að hagnýta allt það, sem aflast, á sem beztan hátt. Á það tel ég, að skorti mjög mikið meðan haldið er áfram að varpa fyrir borð verulegum hluta af þeim fiski, sem á skipin kemur. Um þetta þýðir sjálfsagt héðan af ekki að sakast, en ég vildi þó um leið og ég talaði fyrir brtt. láta í ljós efasemdir um það, að þarna hefði verið svo vel að unnið fyrir hönd ríkisstj. sem átt hefði að vera og æskilegt hefði verið.